« Samkynhneigð í leikskóla?Ignatíus Loyola og Jesúítareglan »

29.01.07

  20:43:04, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 1912 orð  
Flokkur: Ýmsir höfundar

Hinir heilögu – Fyrirmyndir á lífsleið okkar: Tómas frá Aquin

(Eftirfarandi grein sem Torfi Ólafsson þýddi úr þýsku birtist í Kaþólska kirkjublaðinu í janúar 2005 og er endurbirt hér með leyfi ritnefndarinnar og þýðandans. (Aths. RGB )

Hl. Tómas frá Aquin (28. janúar)

Hinn frægi lærdómsmaður og kirkjufræðari, Tómas frá Aquin, var kominn af aðalsætt von Aquino greifa í Langbarðalandi. Hann fæddist 1225 í Roccasecca og var sendur fimm ára gamall til náms í Benediktsklaustrið Montecassino. Árið 1236 hélt hann áfram námi við háskólann í Napólí og ákvað 1243 að ganga í reglu Dominikana.

Bræður hans, sem féllust ekki á þá ákvörðun hans að ganga í klaustur, námu hann á brott og héldu honum sem fanga í kastala föður þeirra. Með slægð og aðstoð nokkurra Dominikana tókst Tómasi þó að sleppa úr prísundinni. Reglan sendi hann svo á sama ári til náms við hinn fræga háskóla í París.

Þaðan fór hann svo 1248 með kennara sínum, Albertus Magnus, (Alberti mikla) í hinn nýstofnaða Kölnarháskóla. Þar lærði hann af kappi í fjögur ár en hóf síðan kennslustarf í París upp á eigin spýtur með fyrirlestrahaldi um heimspeki og guðfræði. Urban páfi IV kvaddi hann á sinn fund og síðan stjórnaði hann klausturskólum í Orvieto, Viterbo og Róm 1259-1269 en að þeim tíma loknum tók hann á ný upp kennslu í París. Þessi ár urðu mjög ávaxtarík hjá honum hvað vísindi snerti og þá samdi hann frægasta verk sitt “Summa theologiae” sem talið er að sé höfuðrit skólaspekinnar.

Árið 1272 hélt hann aftur til Napólí og fór svo tveim árum síðar á kirkjuþing í Lyon samkvæmt ósk Gregors X. En hann dó á leiðinni 7. mars 1274 í Sistersíensaklaustrinu Fossanova.

Tveir af bræðrum hans, Landulph og Raynald, sem voru hermenn í liði Friðriks II keisara, fréttu af þessari ferð hans. Þeir settu þess vegna svo strangan vörð við alla vegi að Tómas var tekinn höndum við Acqua-Pondente og fenginn þeim í hendur. Þeir reyndu að fá hann til að skipta um klæðnað en hinn ungi nýmunkur lýsti því staðfastlega yfir að ekkert gæti fengið hann til þess. Þeir fluttu hann því í reglubúningi sínum í Monte San Giovanni-höllina sem fjölskylda hans átti. Móðir hans gladdist mikið við að hann skyldi vera kominn aftur til hennar og gældi við þá hugmynd að smám saman yrði hægt að fá hann kosinn til einhverra fremdarstarfa. Hún hélt því fram að hann hefði tekið sér frelsi án samþykkis foreldra sinna og reyndi að telja honum hughvarf svo að hann hætti við að fara þá leið sem forsjónin hefði ætlað honum. Hún ályktaði því næst að það væri til einskis fyrir hann að reyna að styðjast við köllun frá himni af því að hann gæti ekki sett sig upp á móti þeim lögum sem skuldbyndu börnin til að taka sér ekki neitt fyrir hendur án þess að tryggja sér leyfi foreldranna. Móðirin tíndi líka til aðrar mótbárur og reyndi að gera þær virkari með bænum, tárum og atlotum. Menn vita hversu ráðagott eðli manna er við slíkar kringumstæður. Tómas var ekki ósnortinn af sársauka móður sinnar en gat þó haft hemil á tilfinningum sínum. Hann svaraði henni með auðmjúkri og lotningarfullri festu að hann hefði velt þessu öllu vel fyrir sér og þetta væri áreiðanlega köllun frá Guði og hann væri staðráðinn í að verða við henni, hverju sem hann þyrfti til að kosta. Þegar greifynjan skildi að öll von væri úti um að hún hefði sitt fram, reiddist hún ofsalega, bar hinar bitrustu ásakanir á son sinn, lét flytja hann í þröngan klefa og leyfði aðeins systrum hans tveimur að heimsækja hann og tala við hann.

Fólk getur rétt ímyndað sér hvílíkar árásir Tómas varð að þola af hálfu systra sinna. Þær réðust að staðfestu hans með öllum þeim ráðum sem tilfinningasemi þeirra gat fundið upp á. Þær lýstu framar öðru fyrir honum með sem sterkustum blæbrigðum þeim sársauka sem hann ylli móður þeirra sem nú væri óhuggandi. Ekkert gæti dregið úr sorg hennar nema hann breytti um fyrirætlun. En hinn heilagi maður lét ekki haggast heldur lýsti yfir með hrífandi orðfæri fyrirlitningunni á heiminum og kærleikanum til dyggðanna.

Meðan á þessu stóð komu Landulph og Raynald heim úr hernum og fundu móður sína niðurbeygða af harmi og Tómas jafn staðráðinn og hann hafði verið áður. Þetta ástand, sem þeir áttu ef til vill ekki von á, kom inn hjá þeim hugmyndum sem bæði menn og trú höfðu illan bifur á. Fyrsta ofbeldisverkið sem þeir reyndu við hann var að þeir læstu hann inni í hallarturninum. Þeir rifu reglubúning hans í tætlur, helltu yfir hann smánarorðum og misþyrmdu honum á þúsund vegu. Þegar þeir sáu að ekkert gat hnikað hinum helga manni, beittu þeir aðgerð sem andi myrkranna einn gat blásið þeim í brjóst. Þeir komu með eina fegurstu lauslætisdrós landsins inn í klefann til hans og hétu henni háum launum ef hún gæti tælt hann. Konuvesalingurinn bauð honum allt það sem slík kona gat boðið með slægð og óskammfeilni. En þótt Tómas væri agndofa gagnvart hættunni sem hann sá stefnt að sakleysi sínu missti hann ekki móðinn. Hann var gripinn auðmjúku vantrausti á sjálfum sér og hrópaði til Guðs að hjálpa sér að bjarga sakleysi sínu. Síðan tók hann logandi eldibrand úr arninum, réðist á hina svívirðilegu lauslætisdrós og rak hana með vopni þessu út úr klefanum.

Nú leið eitt, sumir höfundar segja tvö ár og Tómas sat ennþá innilokaður í höllinni. Þegar Innosentíus IV páfi og Friðrik II keisari fréttu af hinum grimmúðlegu ofsóknum sem hann hlaut að þola, sneru þeir sér til fjölskyldunnar með mikilli hluttekningu. Þeir sendu talsmenn á fund móður hans og bræðra svo að þau tóku að lokum upp mannlegra hugarfar. Greifynjan virtist jafnvel ekki frábitin því að leyfa syni sínum að flýja svo lítið bæri á. Dominikanarnir í Napólí, sem fréttu af hugsunarhætti hennar, sendu nokkra reglubræður dulbúna til hallarinnar Monte San Giovanni. Þeir komu að turninum á umsömdum tíma, tóku við dýrlingnum, sem systur hans létu síga niður í körfu, í faðm sér og fluttu hann fagnandi aftur í klaustur sitt. Tómas vann klausturheit sín árið eftir. Honum fannst dagurinn, sem hann fórnaði Guði frelsi sínu, fegursti dagur lífs síns og varði honum í andlegar æfingar af hinni mestu guðrækni. Samtímis lýstu móðir hans og bræður því yfir opinberlega að þau væru mótfallin því að hann skyldi hafa unnið heitin. Sökuðu þau hann um að hafa haft lítilmannlegar ástæður til þess og lögðu kæru sína fyrir páfann. Páfi kvaddi hinn unga mann tafarlaust að koma til Rómar, til þess að prófa köllun hans til klausturdvalar. Svör hans féllu páfa fullkomlega í geð og hann undraðist dyggð hans. Hann féllst á þann lifnaðarhátt sem ungi maðurinn hafði valið sér og leyfði honum að vera staðfastur í ætlun sinni. Frá þeim tíma hætti fjölskylda hins heilaga manns að gera honum lífið leitt.

Æðsti yfirmaður Dominikana, Jóhannes Teutoníus, fór um þessar mundir í för til Parísar og tók hinn heilaga mann með sér. Síðan sendi hann hann til Kölnar, þangað sem Albert mikli kenndi guðfræði. Tómas hlýddi á fyrirlestra þessa ágæta kennara og varði öllum þeim tíma sem trúarskyldur hans kröfðust ekki af honum í æðri vísindi. Námsþorsti hans byggðist þó alls ekki á frægðarlöngun og hinar frábæru framfarir sem hann tók fljótlega, tókst auðmýkt hans að dylja. Af sömu ástæðu iðkaði hann stranga þögn sem skólabræður hans litu þó á sem þverúð. Hann var því hæddur og kallaður þögli uxinn eða stóri uxinn frá Sikiley. Eitt sinn gerðist það jafnvel að einn skólabróðir hans bauðst til að útskýra fyrir honum fyrirlestur sem fluttur var í skólanum, til þess að auðvelda honum að skilja hann. Tómas þáði boðið með innilegri þakkarkennd, enda þótt hann hefði þá þegar getað verið kennari skólasveinsins. Slík auðmýkt var þeim mun lofsverðari frammi fyrir Guði að námssveinar hneigðust annars til að láta getu sína ljóma í augum annara og sýna hversu miklu framar þeir stæðu í náminu en aðrir. Guð einn, sem kann því betur að heiðra þjóna sína þegar þeir eru lausir við frægðarþrána, kom því til leiðar að menn sáu brátt að í hinum heilaga manni bjó mikill og skarpskyggn andi sem gæddur var mikilli þekkingu og hvassri dómgreind. Þegar Albert spurði hann um mjög flókna hluti, svaraði hann svo rétt og í svo stuttu máli að undrun greip alla sem á heyrðu og Albert hrópaði sjálfur gagntekinn af gleði: “Við köllum Tómas þögla uxann. Þekking hans á eitt sinn eftir að öskra svo að menn munu heyra það um gervalla jörðina.”

Þessum helga manni hafa verið eignaðar margar einkunnir. Hann er sýndur í hvítum dominikanakufli með skapúlar og hettu og heldur á opinni bók. Kaleikur og sýniker (monstrans) í höndum hans eiga að minna á innilega guðrækni hans, sálma hans og tíðabænir dýradags sem hann samdi. Dúfa við eyra hans táknar yfirnáttúrlega þekkingu hans og liljan í hönd hans táknar engilhreint líf hans. Mítur og bagall við fætur hans tákna að hann hafnaði öllum kirkjuembættum og virðingarmerkjum. Sérstakt einkenni hans er þó stjarna, gimsteinn eða geislandi sól sem hann ber á brjóstinu.

Tómas frá Aquin er verndardýrlingur allra kaþólskra háskóla, æskufólks við nám, bóksala og framleiðenda blýanta. Hann verndar hreinlífi og veitir hjálp í stormviðri og eldingum.

Þar sem oft var ekki hægt að halda fyrrverandi messudag hans, 7. mars, hátíðlegan vegna föstunnar, var minningardagur hans færður á 28. janúar.

Heimild: http://www.vortex.is/catholica/snts.html

No feedback yet