« Dr. Hinrik H. Frehen biskup – MinningJón Arason í vitund Íslendinga »

06.12.06

  11:22:42, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 1386 orð  
Flokkur: Ýmsir höfundar

Hinir heilögu – Fyrirmyndir á lífsleið okkar: Nikulás frá Myra

(Eftirfarandi grein sem Torfi Ólafsson þýddi úr þýsku birtist í Kaþólska kirkjublaðinu í desember 2005 og er endurbirt hér með leyfi ritnefndarinnar og þýðandans. (Aths. RGB )

Nikulás frá Myra (6. desember)

Við getum ekki tilgreint nema sárafáar sögulegar staðreyndir úr ævi þessa vinsæla og víðkunna dýrlings. Hið eina sem sagan getur frætt okkur um er að hann hafi verið biskup í Myra, setið kirkjuþingið í Níkeu 325 og dáið árið 350.

Nikulás hefur verið heiðraður í Austurkirkjunni síðan á 6. öld. Hægt er að færa sönnur á að farið var að ákalla hann á Suður-Ítalíu og í Róm á 9. öld. Theophanu keisaradrottning var brautryðjandi þess að farið var að ákalla hann í Þýskalandi á 10. öld. Helgur dómur hans var fluttur árið 1087 til hafnarborgarinnar Bari (Bár) í Apúlíu, þar sem hann hvílir enn í dag og er dýrkaður af fjölmörgum. Í rás aldanna urðu til af honum margar sögur sem sýndu fram á ágæti hans.

Eitt sinn var honum sagt að í Patara hefði fátækt sorfið svo að aðalsmanni einum að hann hafi afráðið að selja dætur sínar þrjár, sem hlotið höfðu hið besta uppeldi, til syndugs lífernis heldur en forða sér frá hungurdauða með betli sem hann hefði blygðast sín fyrir. Næstu nótt hélt Nikulás til húss þessa ógæfusama manns og fleygði inn um opinn glugga hjá honum hárri fjárupphæð, sem hann notaði til framfærslu elstu dóttur sinnar. Þetta endurtók Nikulás ennþá tveim sinnum til þess að bjarga sakleysi allra systranna. En þriðju nóttina lá faðirinn í leyni til þess að komast á snoðir um, hver þessi ókunni velgerðamaður væri. Þegar hinn helgi maður fleygði þriðju gjöfinni inn um gluggann, tók faðirinn til fótanna á eftir honum og fleygði sér fullur þakklætis að fótum honum til þess að færa honum þakkir sínar. En Nikulás reisti hann á fætur og sagði honum að hann hefði aðeins gert skyldu sína sem kristinn maður og krafðist þess af honum að hann segði engum manni frá þessu.

Biskupsstóllinn í Myra stóð auður og þurfti að skipa nýjan mann í það embætti. Komu því biskupar og prestar biskupsdæmisins saman til fundar og meðan sú bæn var beðin sem var undanfari skipunar í slíka stöðu, skaut Guð þeirri hugmynd að elsta biskupinum að rétt væri að velja þann í embættið sem fyrstur kæmi í kirkjuna morguninn eftir. Fannst öllum þetta vera góð hugmynd. Nikulás vissi ekkert um þetta en morguninn eftir gekk hann snemma til kirkju til þess að sameina bænir sínar bænum hinna um að Guð sendi þeim guðrækinn og Guði þóknanlegan hirði til þessa embættis. Og þar sem Nikulás kom fyrstur í kirkjuna, var honum tekið með almennum fögnuði. Var hann settur á biskupsstólinn og skipaður biskup í Myra, enda þótt hann lýsti því yfir opinberlega að hann væri óverðugastur allra til að takast á hendur svo virðulegt embætti.

Enda þótt hann hefði lifað heilögu lífi sem prestur, tvöfaldaði hann nú þær yfirbætur sem hann lagði á sig og kappkostaði svo mjög að lifa samkvæmt kenningu og siðum kirkjunnar að hann hefði hvorki látið fangelsi né píslarvætti fæla sig frá því. Guð jók á vegsemd þjóns síns með mörgum kraftaverkum. Þegar það var komið á vitorð almennings að hann hefði verið skipaður biskup, flýtti sér kona ein út í kirkju til þess að leita sér staðfestingar á að þetta væri rétt hermt. Þegar hún kom heim til sín aftur, sá hún að barnið hennar hafði skriðið upp að arninum og brunnið þar til dauðs. Hún tók það tafarlaust í faðm sér og bar það út til biskupsins. Hann blessaði það og það lifnaði strax við og varð heilbrigt eins og það hafði verið áður.

Þessi heilagi maður varð nú svo víðfrægur fyrir embættisverk sín, guðrækilegt og strangt líferni, allskonar kærleiks- og kraftaverk að allir hinir trúuðu elskuðu hann eins og föður sinn og hinir illu nötruðu frammi fyrir honum. Eustachius dómari hafði látið blindast af fjárvon og kveðið upp rangan dauðadóm yfir þrem heiðarlegum mönnum. Hinir dæmdu, saklausu menn sem fórna átti, voru færðir á aftökustaðinn og átti nú að fullnægja hinum ranga dómi yfir þeim. Þá birtist Nikulás eins og engill Guðs, þreif sverðið úr hendi böðulsins, sneri sér með alvörusvip að dómaranum og krafðist þess að hann segði sér hversvegna hann hefði viljað láta taka þessa réttlátu menn af lífi. Dómarinn, sem vissi að hann var nú veginn og léttvægur fundinn, nötraði eins og glæpamaður, féll að fótum hins heilaga manns, játaði ranglæti sitt, lofaði að betrumbæta líf sitt og bað þess eins að mál sitt yrði ekki lagt fyrir keisarann. Nokkru síðar kom yfirmaður lífvarðar keisarans því til leiðar að yfirmennirnir Repozian, Úrsus og Herpilio, heiðarlegir og réttlátir menn, voru bornir fölskum sökum fyrir landráð og dæmdi keisarinn þá í flaustri til dauða. Þá minntust vesalings mennirnir í fangelsinu biskupsins guðhrædda og miskunnarverka hans og báðust þess að þeim yrði leyft að segja honum hversu grátt örlögin hefðu leikið þá. En þar sem það var ekki hægt báðu þeir til Guðs af miklum fjálgleik, gáfu sig örlögum sínum á vald og bjuggust við dauða sínum. Þá um nóttina lá keisarinn í rúmi sínu og sá sýn í draumi. Honum birtist virðulegur, gráhærður maður í biskupsskrúða sem ógnaði honum með bagli sínum. Þá minntist keisarinn þess samstundis í hversu miklum flýti dómur hafði verið kveðinn upp yfir yfirmönnum hans. Hann rannsakaði kæruna vandlega, komst að því að hinir dæmdu menn voru saklausir, lét leysa þá úr haldi og sagði þeim að þeir ættu líf sitt að þakka biskupinum í Myra.

Heilagur Nikulás er alltaf sýndur á myndum sem biskup. Einkunnir hans eiga rót sína að rekja til mismunandi helgisagna. Þannig er hann oft sýndur með bók og þrjár gullkúlur á henni (helgisögnin um björgun systranna þriggja). Á öðrum myndum er hann sýndur með riddurunum þrem sem voru dæmdir saklausir. Oftast er hinn heilagi biskup þó sýndur með tunnu og þrjá nakta pilta. (Sagan segir að illur gestgjafi hafi brytjað drengina niður og Nikulás hafi vakið þá til lífsins aftur).

Sé hann sýndur með skip og akkeri, byggist það á þeirri helgisögn að hann hafi bjargað þrem pílagrímum úr sjávarháska. Á 15. öld fara að birtast myndir af honum með þrjú brauð í hendinni og byggjast þær á sögnum af kornkaupmönnum.

Nikulás er verndardýrlingur margra landa, biskupsdæma og borga, en þó er hann fyrst og fremst verndardýrlingur barna. Einnig heiðra hann sem verndardýrling sinn lyfjafræðingar og ilmefnasalar, bakarar, kaupmenn, smásalar og kornkaupmenn, fræsalar, vefarar, knipplingasalar og dúkagerðarmenn. Ennfremur er hann talinn verndari skjalaritara, slátrara, sjómanna, bjórbruggara, fiskimanna, pílagríma og ferðamanna. Þá er hann ákallaður til frelsunar fanga, til varnar gegn þjófnuðum, röngum dómum og tjóni af vatni, svo og að hjón verði hamingjusöm og stolnir munir komist aftur í hendur eigenda.

Heimild: http://www.vortex.is/catholica/snts.html

No feedback yet