« Vísað á vefskrif um samkynhneigð, vandamál tengd hómósexúalisma [1], um s.k. enduráttun o.fl.Konur vélaðar af kaupahéðnum til að óvirða mannlegt líf »

06.08.06

  14:11:19, Skrásetjari: Jon Valur Jensson   , 390 orð  
Flokkur: Friðarmál og stríðsátök

Enskur biskup ritar um stríðsástand í Líbanon og Ísrael

Á vefsíðu Independent Catholic News, sem er kaþólsk fréttaþjónusta sem hér hefur áður verið vísað til, er stutt, en einkar skýr yfirlýsing biskupsins í Lancaster í Englandi um núverandi kreppu í Miðausturlöndum. Bréf hans er skrifað 21. júlí, en heldur samt enn gildi sínu.

Patrick O'Donoghue biskup gaf í dag út eftirfarandi yfirlýsingu:
Með mikilli hryggð og skelfingu las ég um hin sívaxandi vopnaátök milli Ísraels og Hizbollah í Líbanon. Það er ekki hægt að leyfa það að fjöldi særðra og látinna saklausra borgara haldi áfram að aukast. Þar á ofan er þjáning manna ærin í Gaza, og Palestínuvandamálið bíður enn úrlausnar.

Sameinuðu þjóðirnar hafa staðfest, að um 400.000 borgarar hafi nú þegar hrakizt frá heimilum sínum, sem veldur því, að ríkisstjórn Líbanons berst við að sjá harmislegnum fjölskyldum, sem streyma inn í Beirút, fyrir nauðsynlegri aðstoð. Hryðjuverkaárásir annars vegar og endurgjald í formi árása [ísraelska] hersins hins vegar munu einungis verða til að auka sogið niður á við, þar sem fleiri munu falla og særast og innviðir samfélagsins eyðileggjast.

Það er ennfremur mikið áhyggjuefni, að þessi vopnaátök geti stigmagnazt og orðið að útbreiddu ófriðarbáli í Miðausturlöndum. Ég hef skilning á rétti ríkis til sjálfsvarnar, en hann afsakar það ekki frá því að virða viðmið alþjóða-mannúðarlaga, sem setja vopnuðum átökum reglur, einkum þar sem um verndun saklausra borgara er að ræða.

Ég bið fyrir öllum fórnarlömbum þessara átaka og fjölskyldum þeirra. Ég bið þess, að báðir deiluaðilar auðsýni ýtrustu hófsemi (restraint) og gefi diplómatískri viðleitni tækifæri til að vinna sitt verk, sér í lagi af hálfu þeirrar friðarsendinefndar Sameinuðu þjóðanna sem nú er að störfum. Ég minnist orða hins heilaga föður [Benedikts páfa]: "eina leiðin, sem er verðug fyrir siðmenningu okkar, er einlæg samræða milli deiluaðila." Þetta er það, sem sagan hefur kennt okkur.

+Patrick O'Donoghue,
biskup í Lancaster.

––––––––
Hér er vefslóð á heimasíðu Lancaster-biskupsdæmis (með mynd af biskupinum).

11 athugasemdir

Athugasemd from: Ragnar Geir Brynjólfsson

Á Euronews kom fram við upphaf átakanna að flaugarnar sem Hizbollah skutu fyrst á Ísrael hafi verið af Katyusha gerð, þ.e. hér hefur þá líklega verið um þau tæki að ræða sem kölluð voru Stalínorgel, sem hafa þá væntanlega verið gamlar birgðir úr síðari heimsstyrjöld. Gígarnir voru á að giska 1-2 metrar að sjá á myndunum. Ísraelsmenn svara fyrir sig í hlutfallinu 1:10, þ.e. einni Katyusha eldflaug var svarað með 10 nýjum eldflaugum sem skildu eftir sig mun stærri gíga ef marka má Euronews. Hér hefði þó verið illskárra ef „auga fyrir auga og tönn fyrir tönn“ lögmálið hefði verið haft í heiðri. Þó má gera ráð fyrir að nákvæmni hinna nýju flauga hafi verið mun meiri en hinna gömlu.

06.08.06 @ 17:57
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Þetta er vissulega ein leið til að hugleiða (en vart til að dæma) um þessi mál. Engin einkasamtök í einu landi hafa til þess heimild að alþjóðalögum að varpa flugskeyti á almenna borgara í öðru landi eða stofna til neins konar stríðsaðgerða. Slíkt er beinlínis með öllu ólöglegt (eða telur einhver, að harðskeytt þjóðernissamtök í Finnlandi hefðu leyfi til að varpa Katyusha-flugskeytum á rússneska borgara hinum megin landamæranna?). Það er óumdeilt, að Hizb. hefur miðað fjölda flugskeyta sinna á íbúabyggðir og borgir, eins og almennir borgarar séu skotmarkið, en það telst stríðglæpur til viðbótar við fyrrnefnt brot á alþjóðasáttmálum um stríð.

Svo er hægt að mæla niður Katyusha-áhrifin með því að skoða þá staðreynd, að sprengjugígurinn er lítill. En er ekki réttara að mæla þau eftir því, að eitt þessara skeyta drap fjóra í N-Ísrael? Eitt er víst, að enginn okkar myndi vilja vera þar í 5–10 m fjarlægð frá þeim stað, sem flugskeytið kemur niður. Þar að auki hafa Hizb.menn notað stærri og langdrægari flugskeyti. Ég á grein um þetta mál á bloggsíðu minni á Mbl.is, en vitaskuld er þetta, sem við erum að reyna að setja hér á netið, aðeins örlítið brotabrotabrotabrot af því sem hægt er að segja um þessi mál.

06.08.06 @ 19:56
Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Ég sá reyndar fróðlega þýska fréttamynd á ARD-stöðinni á miðvikudagskvöldið frá svo nefndu Katyusha-belti í Ísrael, það er að segja næst Líbanon. Hizbollar hafa haft það að skotspæni sínu á undanförnu ári fyrir sjálf átökin.

Hræddur er ég um að afstaða íslenskra fréttamanna væri önnur en hún er, ef öfgamenn skytu í sífellu eldfaugum á Reykjavík, segjum frá Selfossi. Sérhver þjóð hefur rétt á að verja hendur sínar. Þrátt fyrir þrábeiðni Ísraelsstjórnar sá Líbanonstjórn enga ástæðu til að stöðva árásir Hizbolla.

Hvað áttu Ísraelsmenn að gera? Ekkert? Í þýsku myndinni á ARD mátti glöggt sjá tjónið sem eldlaugar Hizbollah ollu innan ísraelsku landamæranna. Ég get fullvissað þig um það Ragnar, að hér var ekki einungis um sprengigíga að ræða upp á 1, 5 metra. Engin þjóð sættir sig við slíkt af hálfu nágrannaþjóðar.

06.08.06 @ 20:48
Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Séra Jakob Rolland hélt ágæta predikun um þetta efni í Karmelklaustrinu næstliðinn sunnudag. Hann áminnti fólk um beiðni Benediktusar páfa að biðja fyrir friði í Líbanon og velja sér einn dag til yfirbóta í þessu sambandi. Hann minnti jafnframt á orð Teresu frá Kalkútta:

„Sannur friður glæðist í hjartanu. Þaðan umvefur hann fjölskylduna og þá fyrst getur hann beinst að náungum okkar.“

Í áframhaldi af þessu vil ég minna á að öll Austurlönd nær voru fyrrum kristið landsvæði. Líbanon var það land sem stóð hvað lengt gegn ásókn Íslam. Ég minni jafnframt á að öll Norðurafríka var fyrrum kristið landsvæði sem féll í hendur spámannsins.

Ég minni jafnframt á að í Kosovohéraði töldust albanir (múslimar) vera um 7% íbúanna árið 1910. Núna eru þeir um 70% og krefjast héraðsins. Þetta er „módel“ Íslams.

Til þessa munu þeir einnig grípa að einni öld liðinni í Evrópu þegar við erum búin að drekkja okkur í eigin blóði (með fósturdeyðingum og klámvæðingu). Þeir bjöllusauðir visntrimanna sem nú ríða húsum í Brüssel fljóta þannig sofandi að feigðarósi. Í reynd má í rauninni spyrja hvort Evrópubúum sé ekki hollt að lenda undir íslömskum fundamentalisma eftir dýrkun dauðamenningar sinnar.

Ég minni á ritningarlestur dagsins í dag: „Fyrir því segir Drottinn svo: Sjá, ég kippi þér burt af jörðinni.“ En líklega munu „vondu mennirnir“ vestan Atlantsála koma Evrópu til hjálpar sem endranær vegna þess að álfunni virðist vera gjörsamlega um megn að standa lengur á eigin fótum sökum skorts á veruleikapólitík.

Allt þessa óheillaþróun má rekja til þess að Evrópumenn hafa snúið baki við sögu sinni og arfleifð. Sá sem gleymir sögunni (eða víkur henni til hliðar sökum pólítískrar blindu) er dæmdur til að upplifa hana aftur. Þannig virðast ákveðin stjórnmálaaöfl á Íslandi beinlínis stefna að því að taka þátt í þessum hrunadansi evrópskrar siðmenningar.

Undirskriftasöfnun sem fer fram á netinu og veruður send Öryggisráði Sameinu þjóðanna í vikulok:

http://www.ceasefirecampaign.org/mo/en.html

LÁTIÐ ÞETTA BERAST Á MEÐAL VINA OG KUNNINGJA

07.08.06 @ 07:27
Athugasemd from: Ragnar Geir Brynjólfsson

Maður veltir því nú samt fyrir sér hver langt er hægt að teygja sjálfsvarnarréttinn. Upp á síðkastið hefur sjálfsvörn í reynd þýtt ‘fyrirbyggjandi innrás’ samanber Írak og meint kjarnorkuvopn. Getur sjálfsvarnarrétturinn þá réttlætt aðgerðir Ísraela í Líbanon þegar svarhlutfallið á skotunum er 10:1 og nálægð almennra borgara sem litla eða enga sök bera er svo mikil? Þetta flokkast kannski undir fyrirbyggjandi aðgerðir, en mér sýnist nauðsynlegt að siðfræðingar taki upp umræðu um það hvenær stríðsaðgerðir geti talist sjálfsvörn og hvenær ekki.

07.08.06 @ 09:03
Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Efnislega sammála þér Ragnar. En Hizbollah er starfandi stjórnmálaflokkur og situr á Líanska þinginu. Ég geri ráð fyrir því að Reykvíkingar ættu erfitt með að sætta sig við að látlausum árásum væri beint gegn þeim, segjum úr Öskjuhlíðinni, eins og Jórdanir gerðu forðum þegar þeir felldu fjölda ísrealískra bænda að störfum.

Þú telur það ef til vill vera „rétt“ líbanskra öfgamanna að ræna hermönnum Ísraels og skjóta eldflaugadrasli sínu á friðsama borgara handan ísraelsku landamæranna? Þar er ég þér ekki sammála. Ekkert ríki eða meðlimir þess hafa „rétt“ til þess að stunda hryðjuverkastarfssemi gegn öðru fullvalda ríki.

Það er rétt að Ísraelsmenn hafa brugðist rösklega við að vanda. Hvað geta þeir gert til að leggja áherslu á kröfu sína um að Arabaríkin virði friðarsáttmálana sem þeir hafa undirritað. Leitað á náðir hins alþjóðlega samfélags sem bregst aldrei við fyrr en allt er komið í óefni. Það væri alltént tilbreyting að sjá eina fréttamynd á RÚV sem upplýsir hvað Ísraelsmenn verða að horfast í augu við á hverjum degi. Það er hart aðgöngu að verða að koma upp sjúkrahúsum og hjálparstofnunum neðanjarðar til að hjálpa ísraelskum almenningi. Eða heldur þú að þessi flugskeyti Hizbollah valdi ekki tjóni. Talaða við ísraelska geðlækna og hjúkrunarfólk.

07.08.06 @ 10:11
Athugasemd from: Ragnar Geir Brynjólfsson

„Þú telur það ef til vill vera „rétt“ líbanskra öfgamanna að ræna hermönnum Ísraels og skjóta eldflaugadrasli sínu á friðsama borgara handan ísraelsku landamæranna?

Nei það tel ég aldeilis ekki, ég veit ekki hvernig hægt er að lesa það út úr þessum stuttu innleggjum mínum þar sem ég viðra efasemdir um verulega útvíkkun á hugtakinu ’sjálfsvörn’.

07.08.06 @ 12:43
Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Í myndinni á þýsku stöðinni (ARD) var meðal annars tekið viðtal við þýskan lækni sem starfar á einu slíku neðanjarðarsjúkrahúsi við líbönsku landamærin. Hann hafði ljóta sögu að segja af þjáningum saklausra ísraelskra borgara af völdum Hizbollah.

Þýsku fréttamennirnir töluðu einnig við gamlan gyðing frá Masurien (flestum þeirra var útrýmt). Gamli maðurinn sagðist vera orðin vanur slíku hörmungarástandi frá blautu barnsbeini. Sagði meira að segja nokkra brandara frá æskuárunum í Masurien (Póllandi). Fyrir nokkrum árum var gefin út bók í Þyskalandi (Herder) þar sem sjá má ljósmyndir frá þessum byggðum gyðinga sem nú eru með öllu horfnar.

En eftir Yom Kibbur stríðið hafa bæði Ísraelar, Jórdanir og Egyptar staðið við friðarsamningana að fullu og öllu. Því er hörmulegt til þess að hugsa að öfgamönnum í Líbanon skuli vera gefið undir fótinn með að beita skefjalausu ofbeldi gegn ísraelskum almenningi án þess að líbönsk stjórnvöld skuli grípa til einhverra ráðstafana til að halda aftur af þessum öfgamönnum. Í reynd er Hizbollah starfandi stjórnmálaflokkur með 18 þingmenn!

07.08.06 @ 13:19
Athugasemd from: Ragnar Geir Brynjólfsson

Árásir Hizbollah eru forkastanlegar og Ísrael hefur sjálfsvarnarrétt, en spurningin er hversu langt þessi réttur nær? Ástandið á Gaza í kjölfar aðgerða Ísraelshers eins og því var lýst 9. júlí var líka hörmulegt. Sjá t.d. http://www.indcatholicnews.com/urgecarit118.html

07.08.06 @ 15:01
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Þótt Ragnar komist varfærnislega að orði í innleggjum sínum eins og hér, þá er ljóst, að við erum ekki sammála um allt hérna. Í innleggi sínu í fyrradag kl. 19.57 segir Ragnar:

“Ísraelsmenn svara fyrir sig í hlutfallinu 1:10, þ.e. einni Katyusha eldflaug var svarað með 10 nýjum eldflaugum sem skildu eftir sig mun stærri gíga ef marka má Euronews. Hér hefði þó verið illskárra ef „auga fyrir auga og tönn fyrir tönn“ lögmálið hefði verið haft í heiðri.”

[Feitletr. JVJ.] Og svo bætir hann við (svo að ég sé nú ekki ósanngjarn í því, hvernig ég vitna í orð Ragnars):

“Þó má gera ráð fyrir að nákvæmni hinna nýju flauga hafi verið mun meiri en hinna gömlu.”

En ég spyr: Hefði viðbragð Ísraelshers átt að vera fólgið í því að stefna einni Katyusha-eldflaug á staðinn þaðan sem skotið var? Það hefði verið “auga fyrir auga". En hér er um ósambærilega hluti að ræða. Ef árás er gerð á land, er eðlilegt, að reynt sé að lama getu árásaraðilans til að endurtaka slíka árás, jafnvel þótt sterkara og fljótvirkara vopn þurfi að nota við endurgjaldið. Þar að auki er ekki sambærilegt að miða á almenna borgara (eins og Hizb. gerir vísvitandi og viljandi) og hins vegar að miða á árásaraðilann eða víghreiður hans (eins og Ísraelsmenn gera vísvitandi og viljandi, en ekki á almenna borgara, því að ef þeir verða fyrir skoti, er það hvorki vísvitandi né viljandi). Auk þess hefur hvert land rétt til sjálfsvarnar, en einkasamtök ekki rétt til árásar á fullvalda ríki; þarna er því enginn sambærileiki (symmetry) að þessu leyti.

Það er heldur ekki rétt að flokka þetta beinlínis undir það, sem kallað hefur verið fyrirbyggjandi stríð, því að hér er um eftiráaðgerðir að ræða af hálfu Ísraelsmanna (viðbragð við árás), en “fyrirbyggjandi stríð” er hugtak sem notað er um stríðsaðgerð gegn ríki, sem hefur ekki enn gert árás, en búast má við árás frá.

Hitt get ég tekið undir með Ragnari, að “mér sýnist nauðsynlegt að siðfræðingar taki upp umræðu um það hvenær stríðsaðgerðir geti talist sjálfsvörn og hvenær ekki.” Það er gott við getum rætt þessa hluti hér af yfirvegun og sanngirni, allir leitandi sannleikans, kristinna siðareglna og réttra lausna. Fyrir það er ég þakklátur ykkur, bræður. Og umræðunni er að sjálfsögðu ekki lokið með þessum orðum mínum.

08.08.06 @ 19:07
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Ég hlustaði í gær á góðan þátt í BBC, þar sem rætt var um alþjóðareglur um stríð og vopnuð átök. Tilefni þáttarins var ekki sízt greinin The Rules of War í Washington Post, 3. þ.m. eftir Moshe Yaalon, fyrrv. yfirmann ísraelska herráðsins, en hún hafði vakið allmikla athygli. Hægt er að nálgast upptöku af þættinum á þessari vefsíðu BBC. Athugið, að ég er ekki að vísa ykkur á netbréfin þar sem það merkilega, né á samþjappað yfirlitið um umræðurnar, sem birt er á þeirri vefsíðu, heldur á umræðurnar sjálfar, milli Yaalons, Richards Goldstone, aðalsaksóknara í stríðsglæparéttarhöldum Sameinuðu þjóðanna vegna stríðsins í Júgóslavíu, og gamla IRA-mannsins Antonys McIntyre, sem var 18 ár í Maze-fangelsi (einnig er skotið inn innleggjum hlustenda). Það er hægt að heyra þennan þátt spilaðan á ný með því að smella á “click here to listen”. Gagnlegust og málefnalegust fundust mér innlegg Goldstones dómara, en á texta-yfirlitinu á tilvísaðri BBC-síðu fá þau innlegg hans alls ekki að njóta sín sem skyldi. Hér er þó örlítið brot af málflutningi hans:

“Judge Goldstone said that there was a lot of emotion being created here, but whether Israel is guilty of war crimes depends on the facts. And he said that most of the callers didn’t know the facts. He said that there should be a truly international criminal court” [leturbr. JVJ],

þ.e.a.s. til að fá úr því skorið hvort og þá hvaða stríðsglæpir kynnu að hafa verið framdir í þessum átökum og af hvaða aðilum. Hann sagðist ekki hafa sjálfur þær nauðsynlegu upplýsingar, sem til þyrfti til að geta fullyrt um, hvort um stríðsglæpi hafi verið að ræða. Það færi eftir ýmsu, bæði á vettvangi skotmarkanna og hjá þeim, sem skjóta sprengjunum. En það heldur samt ekki (bæti ég við) aftur af ýmsum þeim, sem eru mjög svo fúsir til að tala (eða dæma) um ‘hryðjuverkaárásir’ Ísraelsmanna, fjöldamorð og jafnvel ‘þjóðarmorð’. Ég held við ættum að hlusta á lögfræðinginn, því að hann talar þarna út frá ákvæðum alþjóðasáttmála um stríðsátök.

08.08.06 @ 20:54
Ábyrgðarmaður: Jón Valur Jensson guðfræðingur.

Önnur blogg sama höfundar: [jonvalurjensson.blog.is]
[jvj.blog.is]
[krist.blog.is] (þátttaka)
[lifsrettur.blog.is]

Leit

  XML Feeds

blog engine