« Enskur biskup ritar um stríðsástand í Líbanon og ÍsraelLjóð frá Strönd í Selvogi »

29.07.06

Konur vélaðar af kaupahéðnum til að óvirða mannlegt líf

Eftirfarandi stutt frétt í Mbl. setur að manni hroll, því að brezkt fyrirtæki er greinilega byrjað á því með all-lúalegum kaupahéðna-hætti að gera konur samsekar um að láta nota egg úr sér til að frjóvga þau og gjörnýta síðan fósturvísinn (frumfóstrið) til tilraunastarfsemi.

En fréttin er þannig:

Konur fá afslátt af tæknifrjóvgun með því að gefa egg til stofnfrumurannsókna
Tæknifrjóvgunarstöð í Bretlandi hefur fengið leyfi yfirvalda til þess að spyrja konur, skjólstæðinga sína, að því hvort þær vilji gefa egg úr eggjastokkum sínum til stofnfrumurannsókna í skiptum fyrir ódýra tæknifrjóvgun. Þetta hefur ekki verið áður leyft í Bretlandi, þ.e. að eiga slík viðskipti i þágu vísindanna.

Stofnunin heitir North East England Stem Cell Institute og hefur fengið þetta leyfi með þeim skilyrðum að konurnar hljóti nákvæmar upplýsingar um tilgang rannsóknanna og eggjagjafarinnar. Menn óttast að konum finnist þær tilneyddar að láta eggin af hendi. Eggin verða frjóvguð og þegar fósturvísar myndast verða stofnfrumulínur notaðar úr þeim til rannsókna. BBC segir frá þessu.

Reyndar heitir stofnunin fullu nafni The Institute of Stem Cell Biology and Regenerative Medicine (ISCBRM) og starfar í Newcastle, Norður-Englandi. Hér er ekki um einhvern máttlítinn andstæðing lífsverndarmanna að ræða, því að stofnunin samnýtir krafta háskólanna í Durham og Newcastle, the Newcastle Upon Tyne Hospitals Trust og South Tees NHS Trusts, the International Centre for Life og the Regional Development Agency (One NorthEast), eins og segir á heimasíðu hennar (NHS stendur fyrir National Health Service, sem er brezka ríkis-heilsugæzluþjónustan).[1] Stofnunin hyggst ennfremur sækja fram á alþjóðavettvangi.

Nú þegar hefur ISCBRM verið veitt leyfi til þessara aðferða, sem segir frá í fréttinni hér ofar (leyfisveitandinn er brezk stofnun, The Human Fertilisation and Embryology Authority).

Josephine Quintavalle, einn stofnenda félagsskaparins Hands Off Our Ovaries (Látið eggjastokkana okkar í friði), sagði um þessi áform: "Aðalumhugsunarefnið ætti að vera, hvað sé helzt í þágu kvenna. Það er að vera með sem minnst truflandi inngrip (the most minimally invasive treatment) með sem minnstri meðalagjöf og sem minnstri varðveizlu eggja." Hún kvað þarfir rannsóknarmanna, sem vilja eins mörg egg og mögulegt er, ganga gegn því sjónarmiði, segir í BBC-fréttinni. Það staðfestist í orðum sem þar eru höfð eftir rannsóknarhópnum sem að þessu vinnur. [2]

Ef farið er inn á gamla vefsíðu BBC kemur í ljós, að þarna er um auðuga stofnun að ræða, upp á 25 milljónir punda, og þessi nýju áform hennar um rannsóknarverkefni (skv. BBC) er vitaskuld reynt að réttlæta með ýmsum hætti, svo sem þeim, að það muni skapa fjölda nýrra starfa, einkum vísinda- og tæknimanna. Það hefur löngum verið skammt bilið frá buddunni til hjartans í siðlitlum kapítalisma (og er þó alls ekki verið að fordæma kapítalisma sem slíkan né markaðskerfið með því orðalagi). Þess vegna er mjög hætt við því, að jafngírugir peningamenn í okkar eigin landi og víðar sjái sér nýja gróðavon í viðlíka verkefni, einkum þar sem ráðandi menn virðast ekki þekkja nein siðferðismörk í þessum efnum. Að hlustað sé t.d. í alvöru á málsvara kristinnar arfleifðar um siðferðismál lífs og dauða varðandi fóstur og fósturvísa, er ekki lengur eitthvað, sem menn geta treyst á, jafnvel ekki hjá núverandi ríkisstjórnarflokkum hér á Íslandi, sem þó láta í orði kveðnu sem þeir vilji styðja og styrkja kristin siðferðisgildi og menningararfleifð. Og menn skulu ekki fyrir fram gera ráð fyrir því, að sá fulltrúi Þjóðkirkjunnar í þeim nefndastörfum, sem að þessum efnum lúta, muni reynast trúr hinni ævafornu kristnu kenningu, að lífið beri að virða allt frá upphafi þess (við frjóvgun).

Þegar hér ofar var talað um það sem "lúalegt" að véla konur inn í þetta rannsóknarverkefni, þá er átt við að fyrrnefnd stofnun ætlar að höfða til þess, að þær geti sparað sér allmikið af þeim kostnaði, sem ella myndi lenda á þeim vegna tæknifrjóvgunar, með því að gera fyrstu meðferð þeirra mjög ódýra. "Það verður í 1. sinn sem borgað verður fyrir egg við tæknifrjóvgun til nota við rannsóknir", segir í sömu BBC-fréttinni. Þannig fær þessi "lífefnarannsóknariðnaður" augljóst tækifæri til að flækja almenning og sér í lagi kvenfólk inn í hina þungu siðferðisábyrgð á því, að fósturvísar séu gjörnýttir til að taka úr þeim stofnfrumur, án virðingar fyrir lífi þeirra, sem "fórnað" er. Þess vegna er hér um kænlegt og nýtt skref að ræða í sókn "dauðamenningarinnar". – Já, svo sannarlega erum við vitni að því, nú á öndverðri 21. öld, að öfl vantrúar og siðleysis eru í fullum uppgangi og njóta til þess gífurlegs tilstyrks bæði auðmagnsins, fjölmiðla og stjórnmálaafla, svo að menn geta jafnvel spurt sig: Ætlar þetta engan endi að taka – verður valtað yfir allt, sem efnishyggjan kærir sig um að eyðileggja?

Þessu til viðbótar má nefna, að fr. Quintavalle kvaðst áhyggjufull vegna þess hvernig valkosturinn að gefa egg í kaupum fyrir ódýrari meðferð yrði fram settur fyrir konurnar. "Það er þvingun undir nýju nafni," sagði hún í viðtali við BBC. – Ennfremur gagnrýndi hún The Human Fertilisation and Embryology Authority (HFEA) fyrir meðferð þeirrar stofnunar á málinu og kvað hana "versta dæmið um hroka HFEA," sem hún hefði orðið vitni að.

Andspyrna Bush Bandaríkjaforseta gegn stofnfrumurannsóknum á fósturvísum er enn í fullu gildi: Hann byggir afstöðu sína til þeirra mála á þeirri grundvallarreglu, að það að eyða lífi í þeim tilgangi að bjarga lífi sé siðferðislega séð óréttlætanlegt (sjá erlenda fréttasíðu). Undir það skal tekið hér.

Viðauki

Í frétt Rúv í dag kemur fram, sem áður var vitað, að "stofnfrumurannsóknir eru stundaðar hér á landi, þótt enn hafi ekki verið samþykkt frumvarp sem heimilar þær. Notazt er við innfluttar stofnfrumur." (Í hvaða mæli, er ritara þessarar greinar þó ekki fullljóst.) Þar er ennfremur haft eftir Þórarni Guðjónsyni, doktor í frumulíffræði: "Það er bjart framundan í stofnfrumurannsóknum hér á landi" (sic). Hann vonast til þess að frumvarpið um stofnfrumurannsóknir verði lagt fyrir Alþingi í haust og samþykkt. – Þarna sjáum við enn og aftur þá glaðbeittu, ógagnrýnu stefnu sem hér á landi virðist í fullu gengi, þótt aðrar þjóðir, þ.m.t. í Evrópu, hiki mjög við hvert skref, sem tekið er í þessum málum. Svo sannarlega hefur kristin trú – eða vöntun hennar – áhrif á siðferði þjóða.

–––––––––––––––––
[1] Svo frakkir eru þessir aðilar í lýsingu á starfsvettvangi sínum, að ein þeirra stofnana, sem að ISCBRM standa, hefur gert að einkennismerki (lógó) sínu stílfæringu orðsins Life. En Life heita einmitt önnur aðalsamtök brezkra lífsverndarmanna, sem beita sér gegn öllum drápum á hinum ófæddu og fósturvísum og tilraunum með þá.

[2] BBC-fréttin segir: "Since last year, the team has also been allowed to ask women having IVF to donate "spare" eggs, if they produced 12 or more eggs. – But the team said the number of eggs this produced was too small."

22 athugasemdir

Athugasemd from: Árni Gunnar Ásgeirsson
Árni Gunnar Ásgeirsson

Andspyrna Bush Bandaríkjaforseta gegn stofnfrumurannsóknum á fósturvísum er enn í fullu gildi: Hann byggir afstöðu sína til þeirra mála á þeirri grundvallarreglu, að það að eyða lífi í þeim tilgangi að bjarga lífi sé siðferðislega séð óréttlætanlegt (sjá erlenda fréttasíðu). Undir það skal tekið hér.

Það er staðfastri kristinni siðferðiskenndi þinni til sóma að þú skulir ekki vilja eyða lífi til að bjarga lífi.

Mér finnst fyndnara að sjá að þetta er frá Bush komið (án þess að það rýri þína skoðun) enda er hann frægastur fyrir einmitt það að eyða lífi fanga og múslima til að bjarga lífi Bandaríkjamanna.

29.07.06 @ 19:34
Athugasemd from: Aðalbjörn Leifsson
Aðalbjörn Leifsson

Þetta er ömurlegt og dapurlegt. Ég kalla þetta lögleysu og kukl. Þetta er einsog að færa Molok afkvæmið sitt svo ógeðslegt er þetta. Lögleysið magnast og kærleikurinn kólnar. Þetta verður að stoppa.

29.07.06 @ 19:55
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Takk fyrir innleggið, Árni. En hvernig rökstyður þú meinta frægð Bandaríkjaforseta fyrir það að eyða lífi fanga? Og hvaða múslimi nákvæmlega ertu að tala um?

29.07.06 @ 19:56
Athugasemd from: Árni Gunnar Ásgeirsson
Árni Gunnar Ásgeirsson

Bush hefur stutt aftökur á föngum svo að þeir skaði ekki aðra í framtíðinni.

Bush hefur háð stríð í Írak og Afganistan til að verja líf BNA borgara, þ.e. verjast hryðjuverkum.

Þetta hefur þýtt óteljandi morð á hryðjuverkamönnum, skæruliðum og borgurum. Það eru morð til verja líf, eða að eyða lífi til að bjarga lífum.

29.07.06 @ 20:46
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Ég sá þessi svör þín fyrir mér. En flest ríki hafa þar til mjög nýlega (sjá þessa grein eftir Hjört J. Guðmundsson) beitt dauðarefsingum í vissum tilvikum og ýmsir réttlætt þær; þú sérð þær jafnvel í Biblíunni, þótt kaþólska kirkjan vilji nú eindregið, að þeim sé hætt með öllu nema í þeim undantekningartilvikum, þar sem ekki er öðruvísi unnt að tryggja öryggi saklausra borgara (einkum þar sem fangelsi eru ótrygg eða naumast til vegna fátæktar landanna).

Ég svara síðari liðnum í máli þínu, Árni Gunnar, heldur síðar.

29.07.06 @ 21:26
Athugasemd from: Árni Gunnar Ásgeirsson
Árni Gunnar Ásgeirsson

Í þessum aðstæðum eru líf fórnarkostnaður verndunar annarra lífa. Það er ekki hægt að halda öðru fram, og það er nákvæmlega það sem Bush er andvígur í tilfelli stofnfrumurannsóknanna. Það er á engan hátt hægt að segja að þessi viðhorf stangist ekki á. Það eina sem Bush getur gert er að breyta málflutningi sínum. Hann er á móti því að deyða fóstur til að bjarga lífum. Hann er ekki á móti því að drepa fæddar manneskjur í sama tilgangi.

29.07.06 @ 21:37
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Princípið gengur í 1. lagi út á, að aldrei megi drepa saklausan mann viljandi. Fóstrið er alltaf saklaust, þannig að það er algerlega friðhelgt, en það sama á ekki við um raðmorðingja né heldur þann, sem gerir vopnaða árás á þig, Árni minn – þú hefur siðferðislega séð leyfi til að ganga jafnvel svo langt að vega hann, ef það er afdráttarlaust eina leiðin fyrir þig til að verja þig og hvað þá aðra þína, sem eru háðir þér um vernd. Eins hafa þjóðríki leyfi til að verjast vopnaðri árás annarra ríkja, jafnvel þótt það kosti manndráp (sem á þó ekki beinlínis að stefna að, en leyfist þó, að gerist í gagnáhlaupum eða vörn, sem miðast við að lama árásargetu andstæðingsins og gera hermenn hans óvíga í merkingunni: nógu sára til að verða að draga sig í hlé). Við köllum ekki slík manndráp “morð” – og það orðalag hefur heldur ekki tíðkazt um aftöku manns, sem hefur reynzt sannur að sök um fjöldamorð og hefur ekki þá afsökun að vera geðveikur. Jafnvel þrátt fyrir áskoranir Jóhannesar Páls II páfa, t.d. vegna dauðadóms fjöldamorðingjans Timothys McVeigh, um að taka hann ekki af lífi, þá kallaði páfi hvorki aftöku hans “morð” né dómarann eða forseta Bandaríkjanna “morðingja". Þér leyfist heldur ekki að kalla þann þjóðhöfðingja “morðingja” vegna þessa á vefsíðu minni.

29.07.06 @ 23:13
Athugasemd from: Árni Gunnar Ásgeirsson
Árni Gunnar Ásgeirsson

Hvorki talíbanar né Írakar hafa gert vopnaða árás á Bandaríkin. Þeir hafa styrkt vissa hópa með peningum og vopnum. Þannig má segja að Rússar séu alveg eins að gera árásir á Ísrael og að Palestínumenn og Líbanir hafi rétt á að drepa Bandaríkjamenn í varnarskyni.

Það er alveg rétt að það eru ekki morð sem þegar hermenn eða sekir menn eru drepnir, en það er morð þegar sprengd eru íbúðarhús og bílalestir saklausra borgara.

Bush hefur gefið leyfi til sprenginga á ýmsum byggingum vegna óstaðfests gruns um að þar séu hættulegir menn. Í þeim árásum hafa saklausir borgarar verið myrtir.

29.07.06 @ 23:19
Athugasemd from: Árni Gunnar Ásgeirsson
Árni Gunnar Ásgeirsson

En fyrirgefðu, þú rakst mig af leið með þessum tilsvörum.

Það sem ég hef verið að halda fram stendur ennþá, jafnvel þó að ég hafi farið óvarlega með orðið morð. Bæði tilvik snúast um að deyða líf til að bjarga lífi. Biblíulegar túlkanir eða siðferðisboðskapur breytir engu um það.
Bush gæti því verið hreinskilinn og sagt: Ég er ekki tilbúinn að fórna lífi til að bjarga lífi, nema við vissar aðstæður. Stofnfrumurannsóknir eru ekki innan þessara aðstæðna.

29.07.06 @ 23:27
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Þótt ég vilji ekki vera að fara út í mál, sem eiga nánast ekkert skylt við efni greinar minnar, þá spyr ég, einfaldlega af forvitni: Hvaða byggingar leyfði Bush að bombardera og hvenær? Með spurningunni er ég ekkert að verja einn né neinn gegn ásökunum um stríðsglæpi eða hvað það nú á að heita, enda ekki mitt hlutverk hér.

30.07.06 @ 00:18
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Kjarninn í þessum hugleiðingum okkar Árna Gunnars finnst mér ætti að snúast um það almenna grundvallaratriði, hvort deyða megi saklaust mannslíf, hvort heldur er í móðurkviði, í stríði eða með aftöku. Með saklausri persónu í stríðsaðstæðum á ég við almenna borgara sem eru ekki á virkan hátt beinir þátttakendur í stríðsrekstri eða árásum skæruliðahópa, til dæmis að taka. Þessi grunnatriði hafa forgang fram yfir íhugun (sem gjarnan verður mjög selektíf í pólitíceruðu andrúmlofti) um einstakar meintar (en stundum umdeilanlegar) vammir tiltekinna ráðamanna.[1]

Getur stríð verið réttlætanlegt? Kirkjan og flestir siðfræðingar hafa svarað því játandi, út frá vissum ströngum skilyrðum, jafnvel þótt meirihluti stríða kunni að skorta á þau skilyrði og teljist því ranglát. En abusus non tollit usum, segja siðfræðingar: misbeiting einhvers kemur ekki í veg fyrir, að til kunni að vera réttmæt notkun þess (alveg eins og aðgerðarhnífur er góður og réttmætur til að gera að fiski, en er misbeitt ranglega, ef hann er notaður til að stinga manneskju á hol).

Eitt grunnatriði í siðaboðum kirkjunnar um þessi mál er, að ekki megi viljandi gera árás á óbreytta borgara, þótt um leið sé verið að varpa sprengju á hernaðarskotmark. Verði um eitthvert fall óbreyttra borgara að ræða, mátti það aldrei vera ásetningurinn, heldur átti að reyna að koma í veg fyrir það með öllum færum leiðum. Um þetta gæti ég skrifað meira (m.a um ‘disproportionality’ o.fl.), en læt hér staðar numið í bili.

[1] Hafi menn hins vegar áhuga á bollaleggingum um það, hvort stríð geti verið réttlætanleg, er vissulega hægt að skoða einstök dæmi, ekki sízt þau stærstu í sögunni. Hér má því vísa til einnar slíkrar glænýrrar umræðu á Mbl.bloggi SÓ nokkurs, þar sem ég á við hann stutta rökræðu um slík mál.

30.07.06 @ 00:32
Athugasemd from: Árni Gunnar Ásgeirsson
Árni Gunnar Ásgeirsson

Ég virði það að þú viljir ekki draga umræðuna fjær efninu og læt því staðar numið.

30.07.06 @ 02:20
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Nú “finnst ekki lengur” vefsíðan hans SÓ, en ég á afrit af skrifum okkar þar.

30.07.06 @ 14:51
Athugasemd from: Árni Gunnar Ásgeirsson
Árni Gunnar Ásgeirsson

Jæja Jón, þá skal ég færa mig nær efninu.

Ég er að velta fyrir mér hvort trúarleg andstaða við, það sem þú kallar, fósturmorð sé viðeigandi þegar sáðfrum og egg sameinast í okfrumu utan líkama og fer aldrei í líkama. Nú þarf ég að mála ansi subbulega mynd og ég vara því viðkvæma við henni.

Ef egg skolast út með tíðablóði í ílát (t.d. frumstætt salerni í þriðjaheims ríki) og í þessu íláti er fyrir tilviljun næringarík áta fyrir frumu, eggið heldur lífi og skömmu seinna kemst það í kynni við sáðfrumu (ég ætla ekki að lýsa því hvernig það gæti komið til). Þau rekast á og sameinast. Erum við þá í prinsippinu ekki komin með heilagt líf á sama hátt og líf í glasi? Eða er það verknaðurinn að maðurinn búi VILJANDI til líf sem gerir lífið heilagt?

30.07.06 @ 18:09
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Nei, mannslífið er í innsta eðli sínu (óháð vilja okkar) heilagt frá frjóvgunarstundu, líka þegar hún á sér stað með t.d. glasafrjóvgun eða (hugsanlega) fyrir tilviljun utan líkamans, sem ég veit þó ekki hvort gerist nokkuð í raun. En vitaskuld getum við ekki verndað manneskjulíf, sem við vitum ekki að sé til, einhvers staðar utan líkama konunnar.

30.07.06 @ 23:48
Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Ég minnst dæmis um „óbeina“ frjóvgun úr fréttunum fyrir nokkrum árum (eftir minni). Sænsk lesbía frjóvgaðist af annarri lesbíu sem skömmu áður hafði átt kynmök við karlmann.

En kenning hins heilaga Sætis er ljós: „Þú skalt ekki mann deyða.“ Stofnfrumurannsóknir sem grundvallaðar eru á stofnfrumum úr frumfóstrum eru samkvæmt kenningum kirkjunnar „deyðing.“ Ég heyrði dr. Þórarinn Sveinsson útlista þá kenningu, að „vísindamenn“ litu svo á að þeir teldu mennskan einstakling ekki verða til fyrr en tíu dögum eftir samruna litninga konunnar og karlsins, það er að segja eftir að okfruman hefur myndast. Þannig gefa þessir aðilar sér „siðferðilegan rétt“ til að stunda stofnfrumurannsóknir á frumfóstrum.

Nú er það svo að fjölmargir vísindamenn telja hins vegar að við samruna litninganna verði sjálfstætt líf einstaklingsins til. Ég endurtek að kirkjan er alls ekki andvíg stofnfrumurannsóknum þegar þær eru fengnar úr fullvaxta einstaklingum. Þvert á móti hafa slíkar rannsóknir mikilvægu hlutverki að gegna hvað áhrærir framfarir í læknisfræði.

Kjarni málsins snýst því um þetta: Er rétt að fórna lífi eins einstaklings til að bæta líf annars einstaklings? Kirkjan segir nei!
Við skulum taka dæmi úr sögunni. Nasistar gerðu tilraun á „kuldaþoli“ mannslíkamans í Noregi á stríðsárunum með því að varpa fórnardýrum sínum lifandi í ískaldan sjó og „mæla“ síðan hversu lengi viðkomandi einstaklingurinn lifði. Er slíkt réttlætanlegt? Nei. Sama gegnir um stofnfrumurannsóknirnar úr frumfóstrunum.

Fjárfestarnir í „teinóttu jakkafötunum“ sem fjárfesta í slíkum rannsóknum eru að fremja athæfi sem siðferðilega séð er óverjandi að mati kirkjunnar og fjölmargra siðfræðinga og vísindamanna.

Ef kaþólskir læknar taka þátt í slíkum tilraunum eru þeir „settir út af sakramentinu“ (excommunicatio) og allir kaþólikkar vita hvað slikt felur í sér.

31.07.06 @ 07:49
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Þakka þér, Jón. Það vita það allir læknar, að lífið verður til við getnað eða frjóvgun, frá fyrsta andartaki eftir samruna eggs og sæðis. Þórarinn þessi, sem er dósent uppi í Háskóla Íslands, er þó ekki fyrstur hér á landi til að búa sér til hjáfræði (eða með hinu harðara, enska hugtaki: pseudo-science) í þessu sérstaka tilfelli. Dr. Reynir Tómas Geirsson reyndi það á undan honum, en tókst síðan ekki að hrekja þær röksemdir sem ég setti á prent gegn þeim hjáfræðum hans í grein minni Um “neyðargetnaðarvörn” – rangfærslum og lögleysu mótmælt í Mbl. 20. des. 2000. Hann gat ekki einu sinni svarað mér! Ástæðuna sjá menn í grein minni: ég miðla þar þvílíkum upplýsingum færustu fræðimanna og röksemdum af vísindavettvanginum, að þær eru einfaldlega ósigrandi.

Hvað eru svo þessir menn að fást við? Jú, “lífvísindi". Þeir eru að fást við LÍF, ekki dauðan hlut. Og ekki aðeins lifandi frumur, heldur lífveru, sem hefur í sér allt sem hún þarf til að vaxa og verða ekki einungis manneskja í frummótun, heldur fullorðin manneskja – það eina sem til þarf, að þau síðari lífsstig náist, er næring og lífvænlegt umhverfi (sjá aftur grein mína). Þess vegna er hlálegt og aumkunnarvert að horfa upp á þessa menn reyna að halda fram þeirri firru, að manneskjulíf verði ekki til fyrr en 10 dögum eftir frjóvgun.

31.07.06 @ 14:55
Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Það var Heinrich Himmler sem fann upp orðið Lebensborn (Lífsbrunninn). Líklega telja þessir einstaklingar og samfylgdarmenn þeirra að þeir sitji við þennan „lífsbrunn“ og geti ausið upp úr honum að vild. Satt best að segja undrast ég ófyrirleitinn málflutning þeirra. En hedonísk kynslóð Íslendinga nútímans mun vafalaust sporðrenna þessari „hjáfræði“. Jú sjáðu til nafni: Það er unnt að græða mikla peninga á þessari HJÁFRÆÐI! Þetta eru pragmatistar þar sem tilgangurinn helgar meðalið: Meira gull í pyngjuna.

31.07.06 @ 15:12
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Nákvæmlega rétt hjá þér, nafni, það er tilgangurinn sem helgar meðalið í þessum málflutningi þeirra og sókn gegn lífshelginni.

31.07.06 @ 16:11
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Mér finnst ástæða til að taka það fram, að þótt ég hafi ekki gert athugasemdir við ýmislegt í máli ÁGÁ í fyrrinótt kl. 01.19, geri ég ekki skoðanir hans að mínum. Þegar hann segir, að talíbanar hafi ekki “gert vopnaða árás á Bandaríkin,” þá er það að vísu rétt, en mestallt alþjóðasamfélagið var þó fylgjandi innrásinni í Afganistan 2001 eða setti sig ekki upp á móti henni. Talíbanastjórnin var í hópi þeirra óhuggulegustu sem við höfum séð á síðari árum, og hún gerði þar að auki málstað Al-Qaída að sínum með því að skjóta skjólshúsi yfir þá kumpána og harðneita að afhenda þá eða reka þá úr landi, jafnvel til að dæma þá fyrir alþjóðadómstóli. Ég get ekki ímyndað mér, að ÁGÁ hafi verið hrifinn af þeirri stjórn eða telji hana hafa verið lögmætan málsvara Afgana (á þeim tíma var aðeins eitt land í heiminum, sem viðurkenndi Talíbanastjórnina, þ.e. Pakistan). Stríðið vannst þar að auki með tiltölulega litlu mannfalli, þótt landið sé bæði stórt (meira en sexfalt stærra en Ísland og 60-falt á við Líbanon) og erfitt yfirferðar. Að öðru leyti vil ég ekki ræða stríðsmál hér á þessari vefsíðu minni, en geri það annars staðar seinna.

31.07.06 @ 19:28
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Það er leitt til þess að sjá, að frétt um það efni, sem grein mín hér efst fjallar um, birtist í hinu ágæta Fréttablaði í dag, 9. ágúst, með þeim hætti í framsetningu og útliti, að engu er líkara en verið sé að upplýsa um einkar jákvæð tíðindi. Þetta er í Allt-kálfi blaðsins, bls. 5, undir fyrirsögninni ‘Afsláttur á tæknifrjóvgun’, en undirfyrirsögnin er svona: “Brezkar konur sem gefa egg til stofnfrumurannsókna fá góð kjör á tæknifrjóvgun”. Hljómar jákvætt, en er það svo? – Með fréttinni birtist hlýleg mynd af hýrlegri konu með þessum undirtexta: “Í fyrsta sinn er nú heimilt í Bretlandi að bjóða afsláttarkjör í þágu vísindanna”. Já, “í þágu vísindanna” á það að heita, en er eitthvað reynt að minna á, að “fórnarkostnaðurinn” er mannlegt líf ? Ekki vitund! – En fréttin í heild er svona:

Tæknifrjóvgunarstöð í Bretlandi hefur fengið leyfi yfirvalda til þess að spyrja kvenskjólstæðinga sína hvort þær vilji gefa egg úr eggjastokkum sínum til stofnfrumu-rannsókna í skiptum fyrir ódýra tæknifrjóvgun. Ekki hefur áður verið leyft í Bretlandi að eiga slík viðskipti i þágu vísindanna. – Stofnunin heitir North East England Stem Cell Institute og hefur fengið þetta leyfi með því skilyrði að konurnar hljóti nákvæmar upplýsingar um tilgang rannsóknanna og eggjagjafarinnar. Menn óttast að konum finnist þær tilneyddar að láta eggin af hendi. Eggin verða frjóvguð og þegar fósturvísar myndast verða stofnfrumulínur notaðar úr þeim til rannsókna.

Heimild er gefin: doktor.is, og þar er þetta á http://www.doktor.is/frettir/Skodafrett.asp?fid=5431 með öðrum fréttasíðum.

En þetta sýnist mér dæmigert um gagnrýnislausa miðlun og viðtöku íslenzkra fjölmiðla á fjármagnstengdri framsókn lyfja-, læknis- og lífefnafræðigeirans á allra síðustu árum. “Jákvætt”? Því miður er það alls ekki alfarið svo, eins og menn geta séð af upplýsingum okkar Kirkjunetsmanna.

09.08.06 @ 10:14
Werdy Kleon

[6 orða innlegg á ensku með innihaldi sem kom þessari síðu ekkert við, var þannig ómálefnalegt, þótt ekki væri það dónalegt. Allt slíkt er samt þurrkað út skv. auðlæsilegum innleggskilmálum okkar. – Aths. JVJ.]

10.12.06 @ 00:07
Ábyrgðarmaður: Jón Valur Jensson guðfræðingur.

Önnur blogg sama höfundar: [jonvalurjensson.blog.is]
[jvj.blog.is]
[krist.blog.is] (þátttaka)
[lifsrettur.blog.is]

Leit

  XML Feeds

multiple blogs