« Konur vélaðar af kaupahéðnum til að óvirða mannlegt líf | Maurice De Wulf um athyglisverð riteinkenni skólaspekinga » |
STRANDARKIRKJA
Ferðamenn á stjákli í kringum kirkjuna
sem lyftir sér björt yfir eyðilegt svæði
eins og minnisvarði um liðna trú
sem þó lifir og sannar sig í reynd
í þessari algeru auðn
– rödd hrópandans í eyðimörkinni.
Í SELVOGI
Ligg í grasinu
heyri hafið gnauða við ströndina
og himinninn bjartur og fagur
eins og á sjöunda degi sköpunar Guðs
Gargandi krían yfir höfði mér
heldur áfram iðju sinni
en ég hef samið frið við náttúruna og sjálfan mig
kippi mér ekki upp við smámuni
Geng upp á gamlan hól
sem hylur tóttir höfuðbólsins forna
ættfeðra okkar Erlendunganna
stórveldismanna á Strönd
Hér stendur melgresið í fullum blóma
og býður örlögunum birginn
þess albúið að dreifa úr öxum sínum
þykkum og vörpulegum
Og svo þetta kynduga blóm:
kisuklær gular og loðnar
krafsandi í sólbakaðan sand
Framan við nýjan bústað
blasir við björt fíflabreiða
sem lýsir upp augu þín
Og puntstrá sem vagga sér í hægum vindi
En handan sjávarkambs
gnæfir Krýsuvíkurbjarg
og horfir djörfum brúnum mót drynjandi hafi
Nær fellur löðrandi brim á lúðum klettum
– – – – –
– – – – –
AÐ STRÖND
Hér á fornu höfuðbóli
himins undir björtum skýjum
ligg ég einn í leyndu skjóli.
Ljúfur blær á degi nýjum
vefur mig með höndum hlýjum.
–––––––––––––––––––––––––
Ofangreind ljóð eru úr Sumarljóðum 1991, sem út komu hjá Goðorði s.á.
© Jón Valur Jensson.
Síðustu athugasemdir