« HABEMUS PAPAM!Fyrir Jóhannesi Páli »

14.04.05

  22:35:38, Skrásetjari: Sr. Denis O'Leary   , 1736 orð  
Flokkur: Bænir

Algengar bænir

SIGNINGIN
Í nafni Föðurins og Sonarins og hins Heilaga Anda. Amen.

FAÐIRVORIÐ
Faðir vor, þú sem ert á himnum. Helgist þitt nafn; komi þitt ríki; verði þinn vilji, svo á jörðu sem á himni. Gef oss í dag vort daglegt brauð; og fyrirgef oss vorar skuldir, svo sem vér og fyrirgefum vorum skuldunautum; og eigi leið þú oss í freistni, heldur frelsa oss frá illu. Amen.

MARÍUBÆN
Heil sért þú María, full náðar. Drottinn er með þér; blessuð ert þú meðal kvenna; og blessaður er ávöxtur lífs þíns, Jesús. Heilaga María, Guðsmóðir, bið þú fyrir oss syndugum mönnum, nú og á dauðastundu vorri. Amen.

LOFGERÐARBÆN
Dýrð sé Föðurnum og Syninum og hinum Heilaga Anda. Svo sem var í öndverðu, er enn og verður ávallt og um aldir alda. Amen.

IÐRUNARBÆN
Guð minn, ég iðrast af hjarta alls þess, sem ég hef gjört rangt og harma vanrækslu mína að láta svo mörg góðverk ógerð, því með syndinni hef ég sært þig og brotið gegn þér, sem ert hið æðsta hnoss, og verðugastur þess, að vér elskum þig öllu öðru fremur. Ég ákveð því fastlega, að með hjálp náðar þinnar, skuli ég gera yfirbót, syndga eigi framar og forðast öll færi til syndar í framtíðinni. Amen.

ANIMA CHRISTI
Sál Kristí, helga þú mig. Hold Kristí, frelsa þú mig. Blóð Kristí, örfa þú mig. Vatnið úr síðu Kristí, lauga þú mig. Písl Kristí, styrk þú mig. Góði Jesús, bænheyr þú mig. Fel þú mig í undum þínum. Lát þú ekki skilja með okkur. Vernda mig fyrir valdi óvinarins. Kalla þú mig á dauðastundinni, og lát mig koma heim til þín, svo að ég geti lofað þig og vegsamað að eilífu með öllum helgum mönnum þínum. Amen.

AÐ VEKJA VON
Guð minn, ég vonast eftir náðinni og dýrðinni af þér, sakir fyrirheita þinna, mildi þinnar og máttar. Amen.

AÐ VEKJA ÁST
Guð minn, ég elska þig af öllu hjarta, af því að þú ert fjarska góður, og fyrir sakir þín elska ég náunga minn eins og sjálfan mig. Amen.

AÐ VEKJA IÐRUN
Guð minn, það hryggir mig mjög, að ég skuli hafa brotið við þig, því að þú ert fjarska góður, og ég ætla ekki að syndga framar. Amen.

MARÍA, GETIN SYNDLAUS
María, getin syndlaus, bið þú fyrir oss, sem á náðir þínar leitum. Amen.

TIL HEILAGS ANDA
Kom þú, Heilagur Andi, og fyll hjörtu þinna trúuðu, og tendra í þeim eld kærleika þíns. Send þú Anda þinn, og allir verða endurskapaðir, og þú endurnýjar ásjónu jarðar. Vér skulum biðja. Guð, þú hefur uppfrætt hjörtu hinna trúuðu með ljósi Heilags Anda. Veit oss að njóta sannleikans í þeim sama Anda og gleðjast ávallt sakir huggunar hans. Fyrir Krist, drottin vorn. Amen.

FYRIR MÁLTÍÐ
Blessa þú oss, Drottinn, og þessar gjafir, sem vér þiggjum af mildri gæsku þinni. Fyrir Krist, drottin vorn. Amen.

EFTIR MÁLTÍÐ
Almáttugi Guð, vér þökkum þér allar velgerðir þínar. Þú sem lifir og ríkir um aldir alda. Amen.

SALVE REGINA
Heil Sért þú, drottning, móðir miskunnarinnar, lífs yndi og von vor, heil sért þú. Til þín hrópum vér, útlæg börn Evu. Til þín andvörpum vér, stynjandi og grátandi í þessum táradal. Talsmaður vor, lít þú miskunnarríkum augum þínum til vor og sýn þú oss, eftir þennan útlegðartíma, Jesú, hinn blessaða ávöxt lífs þíns, milda, ástríka og ljúfa María mey. Bið þú fyrir oss, heilaga Guðsmóðir. Svo að vér verðum makleg fyrirheita Krists. Amen.

Postulleg trúarjátning
Ég trúi á Guð Föður almáttugan, skapara himins og jarðar. Og á Jesúm Krist, hans einkason, Drottin vorn; sem getinn er af Heilögum Anda, fæddur af Maríu mey; leið undir valdi Pontíusar Pílatusar, var krossfestur, dáinn og grafinn, sté niður til heljar, reis á þriðja degi aftur upp frá dauðum, sté upp til himna, situr við hægri hönd Guðs Föður almáttugs og mun þaðan koma að dæma lifendur og dauða. Ég trúi á Heilagan Anda, heilaga kaþólska kirkju, samfélag heilagra, fyrirgefningu syndanna, upprisu holdsins og eilíft líf. Amen.

Friðarbæn
Drottinn, ger þú mig að farvegi friðar þíns, svo að ég færi kærleika þangað sem hatur er, fyrirgefningu þangað sem móðgun er, einingu þangað sem sundrung er, trú þangað sem efi er, sannleika þangað sem villa er, von þangað sem örvænting er, gleði þangað sem harmur er, ljós þangað sem skuggi er. Veit þú, Drottinn, að ég sækist fremur eftir að hugga en láta huggast, skilja en njóta skilnings, elska en vera elskaður, því að okkur gefst ef við gefum, við finnum sjálf okkur ef við gleymum okkur sjálfum, okkur fyrirgefst ef við fyrirgefum og fyrir dauðann fæðumst við til eilífs lífs. Amen.

Memorare
Mildiríka María mey, minnst þú þess, að aldrei hefur það komið fyrir, að nokkur maður hafi árangurslaust snúið sér til þín og ákallað hjálp þína og árnaðarbænir. Til þín sný ég mér því með fullu trúnaðartrausti, móðir mín og meyjan öllum meyjum æðri; til þín kem ég, frammi fyrir þér stend ég, aumur syndari. Móðir eilífa Orðsins, fyrirlít þú ekki bæn mína, heldur veit þú mér áheyrn og bænheyr mig. Amen. Bið þú fyrir oss, heilaga Guðsmóðir. Svo að vér verðum makleg fyrirheita Krists. Amen.

Engill Drottins
Engill Drottins flutti Maríu fagnaðarboðskapinn og hún fékk getnað af Heilögum Anda.

Heil sért þú María, full náðar. Drottinn er með þér; blessuð ert þú meðal kvenna; og blessaður er ávöxtur lífs þíns, Jesús. Heilaga María, Guðsmóðir, bið þú fyrir oss syndugum mönnum, nú og á dauðastundu vorri. Amen.

Sjá, ég er ambátt Drottins, verði mér eftir orði þínu.

Heil sért þú María, full náðar. Drottinn er með þér; blessuð ert þú meðal kvenna; og blessaður er ávöxtur lífs þíns, Jesús. Heilaga María, Guðsmóðir, bið þú fyrir oss syndugum mönnum, nú og á dauðastundu vorri. Amen.

Og Orðið varð hold og bjó meðal vor.

Heil sért þú María, full náðar. Drottinn er með þér; blessuð ert þú meðal kvenna; og blessaður er ávöxtur lífs þíns, Jesús. Heilaga María, Guðsmóðir, bið þú fyrir oss syndugum mönnum, nú og á dauðastundu vorri. Amen.

Bið þú fyrir oss, heilaga guðsmóðir; til þess að vér getum orðið verðug fyrirheita Krists. Vér skulum biðja; Drottinn, vér höfum fyrir fagnaðarboðskap engilsins orðið þess vísari, að Sonur þinn er maður orðinn. Vér biðjum þig, úthell náð þinni í hjörtu vor, svo að sakir milligöngu hinnar heilögu meyjar og fyrir þjáningar Krists og kross verðum vér leiddir til upprisu dýrðarinnar. Fyrir Krist, drottin vorn. Amen.

Regina Caeli
Fagna þú, drottning heimsins, allelúja,
því að hann, sem þér veittist sú náð að ganga með, allelúja,
hann er upprisinn, svo sem hann sagði, allelúja.
Bið þú Guð fyrir oss, allelúja.
Fagna þú og gleðst, heilaga María mey, allelúja,
því að Drottinn er vissulega upprisinn, allelúja.
Vér skulum biðja: Guð, af miskunn þinni hefur þú látið upprisu Sonar þíns, Drottins vors Jesú Krists, verða heiminum til fagnaðar. Unn oss þeirrar náðar, að sakir milligöngu hinnar heilögu meyjar, móðir hans, fáum vér að njóta fagnaðar eilífa lífsins. Fyrir Krist Drottin vorn. Amen.

Bæn um fyrirgefningu
Góði Drottinn Guð, ég ætla að gera eins og þú vilt og fyrirgefa öllum eins og þú fyrirgefur mér. Góði Guð, fyrirgefðu líka öllum, hvar sem þeir eru og hvað, sem þeir hafa gert. Láttu alla elska þig. Amen.

Bæn um hina sönnu trú
Almáttugi Guð, ég bið þig auðmjúklega að upplýsa hugskot mitt og hræra hjarta mitt með gæsku þinni, svo að með sannri trú og kærleika megi ég lifa og deyja í hinni sönnu trú Jesú Krists. Það er þessi trú, Guð minn, sem ég þrái af heilum hug að fylgja, til þess að bjarga sálu minni. Þessvegna lýsi ég því yfir að ég skal lifa í þeirri trú, sem þú sýnir mér að sé rétt, hverju sem til þarf að kosta. Það, sem ég verðskulda ekki, vænti ég að öðlast fyrir óendanlega miskunn þína. Heilög María, öndvegi viskunnar, bið þú fyrir oss. Amen.

Kvöldbæn
Góði Guð, vak þú yfir mér á meðan ég sef. Vak yfir öllum, sem eru þreyttir, að hvíla sig. Gef öllum svöngum mönnum mat að borða. Hugga líka góði Guð, alla þá, sem eru sorgmæddir, einmana og sjúkir. Amen.

Forn bæn fyrir framliðnum
Ég bið fyrir öllum sálum, sem fram hafa farið af heiminum frá upphafi og minna bæna með þurfa. Ég bið allsvaldandi Guð, að hann veiti þeim fyrirgefningu allra synda og gefi þeim eilífa hvíld og óþrjótandi ljós til efsta dags. En á upprisudegi veiti hann allra vorra sálum óumræðilegan fögnuð með sjálfum sér og öllum himneskum hersveitum. Amen. Drottinn, veiti þeim hina eilífu hvíld, og hið eilífa ljós lýsi þeim. Allir sálir trúaðra framliðinna hvíli í friði sakir miskunnar Guðs. Amen.

FYRIR FRAMLIÐNUM
Drottinn, veiti þeim hina eilífu hvíld, og hið eilífa ljós lýsi þeim. Allir sálir trúaðra framliðinna hvíli í friði sakir miskunnar Guðs. Amen.

No feedback yet