« Ljóð frá Strönd í SelvogiÚr Sumarljóðum 1991 »

23.07.06

  12:16:21, Skrásetjari: Jon Valur Jensson   , 1374 orð  
Flokkur: Miðaldafræði íslenzk, Skólaspekin

Maurice De Wulf um athyglisverð riteinkenni skólaspekinga

Maurice De Wulf er einn þeirra fræðimanna um skólaspekina, sem höfundur þessara lína hefur leitað mikið til [1]. De Wulf skrifar jafnan ljósan stíl og læsilegan, svo að unun er að, og má telja hann með ritfærustu höfundum eins og Étienne Gilson, Jacques Maritain, Frederick Copleston, Christopher Dawson, M.C. D'Arcy, E.K. Rand, David Knowles og G.R. Evans, sem öll hafa með sínum hætti brugðið ljóma á viðfangsefni miðaldafræða í skýru yfirliti og meitluðum stíl. Eftirfarandi stuttan kafla er að finna í bók De Wulf um heimspeki og siðmenningu á miðöldum [2]. Hann verður nú fyrir valinu, sem fyrsti höfundur í röð greina og þýðinga um skólaspeki hámiðalda, með tilliti til þess, að hér segir hann frá sérstökum rithætti skólaspekinga, sem tengir þá óbeint við hinar merku bókmenntir okkar Íslendinga á miðöldum.

Í þessum 6. kafla bókarinnar, 'Optimism and impersonality', hefur De Wulf í fyrsta lagi fjallað um þá bjartsýni, sem einkenndi heimspeki, myndlist og trú kristinna manna á miðöldum, en í framhaldinu (hér neðar) fjallar hann um ópersónulega efnismeðferð og stíl skólaspekinganna. Við þekkjum sama einkenni á Íslendingasögum og flestum fornritum okkar, að í 1. lagi sýna höfundar þeirra það lítillæti, að þeir geta nánast aldrei nafns síns (svo að fræðimenn síðari tíma hafa fengið þar marga erfiða ráðgátu við að glíma) og eigna sjálfum sér ekki þekkingu sem þeir hafa nýtt sér frá eldri heimildum, og í 2. lagi er stíll þeirra ópersónulegur, ekki aðeins að því leyti, að afar sjaldan er þar talað í 1. persónu af höfundar hálfu (alkunn undantekning er Ari fróði í lok Íslendingabókar), heldur er allur stíllinn hlutrænn (objektífur) í eðli fremur en huglægur, og sízt af öllu er hann tilfinningasamur. Ef tilfinningum er lýst, er það jafnan með óbeinum hætti, einkum þeim sem birtist í athöfnum manna og jafnvel ummælum sem lögð eru þeim í munn, en eru þó gjarnan fáorð, kjarnyrt, hlaðin karlmennskulegu stolti og rósemi eða heiðríkju, án þess að menn virðist láta jafnvel feiknleg örlög buga sig. Í því verki, sem við ætlum að kynna okkur hér, er áherzlan þó mest á hina ópersónubundnu hlutlægni skólaspekinga í starfi þeirra að því sameignarverkefni, sem við getum kallað sannleiksleitina. Lesum nú þetta brot úr verki De Wulf, og skyggnumst eftir því, hvort við finnum ekki sameiginlegan svip með ritum skólaspekinnar og okkar eigin glæstu bókmenntum á miðöldum:

Hér hefst texti Maurice De Wulf:

Annað einkenni, sem er nátengt bjartsýni skólaspekinganna og leggja ber jafna áherzlu á, er hið ópersónulega eðli verka þeirra, viss andi sem fólginn er í því, að þeirra eigin persóna aftengir sig frá verkinu, og þetta mótar einnig þeirra fræðiástundun,––hvort sem það er í sundurgreiningu þeirra á mannlegri þekkingu eða í hinu mikla kerfi skólastískrar heimspeki. Í einföldu máli sagt eru bæði bjartsýnishyggja þeirra og ópersónubundin stefna (impersonalism) afrakstur meðvitaðs framfara- og samvinnu-átaks.

Þrettánda öldin bjó raunar yfir mjög þýðingarmikilli hugmynd um sannleikann: Sannleikurinn er mikil smíð, sem byggja verður upp í áföngum. Sú vinna verður að vera samstarf margra manna og eiga sér stað á mjög löngum tíma; og því verður hver, sem gefur sig að henni, að gera það með öðrum hætti en persónulegum. Sannleikurinn––og sú þekking, sem tjáir hann––er ekki skoðaður sem persónuleg eign þess, sem finnur hann. Þvert á móti, hann er sameiginleg föðurarfleifð, sem berst áfram frá kynslóð til kynslóðar, sífellt aukin og auðguð með nýju, áframhaldandi framlagi manna. "Þannig mun það verða allt til enda veraldar," segir Roger Bacon, "því að ekkert af mannlegum afrekum er fullkomið." Og hann heldur áfram með þessum orðum: "Án afláts hafa þeir, sem síðar koma, bætt við verk fyrirrennara sinna; og þeir hafa leiðrétt og breytt afar miklu, eins og við sjáum sérstaklega hjá Aristotelesi, sem tók upp og rökræddi allar hugmyndir fyrirrennara sinna. Þar á ofan voru margar staðhæfingar Aristotelesar leiðréttar síðar af Avicenna og Averroes." [3] – Ekki heldur talar Thómas Aquinas á aðra lund um um hina ópersónulegu uppbyggingu heimspekinnar og framþróun hennar. Með tilvísun til Frumspeki Aristotelesar segir hann: "Það, sem einn einstaklingur getur lagt fram með vinnu sinni og snilligáfu til að efla sannleikann, er lítið í samanburði við gervalla þekkingu manna. Samt sem áður verður til––úr öllum þessum einstöku þáttum, sem valdir eru, samhæfðir, dregnir saman í eina heild,––hið merkilegasta fyrirbæri, eins og sjá má af hinum margþættu lærdómssviðum, sem vegna eljusemi og skarpskyggni margra hafa náð undursamlegum vexti." [4]

Minna ekki allar þessar yfirlýsingar á hina fögru hugsun Pascals, sem einnig íhugaði á djúpan hátt og af hyggindum um hlutverk arfleifðarinnar (tradition) í sögulegu samhengi heimspekinnar. "Það er vegna arfleifðarinnar," segir hann, "sem gervöll framganga mannanna um svo margra alda skeið má skoðast eins og um einn mann væri að ræða, sem alltaf er til og lærir án afláts." [5] Það er því ekki um neitt rof að ræða í heimspekilegu samhengi, ekki frekar en í öðrum þáttum siðmenningarinnar; og gullin er keðjan, sem tengir Grikki við Sýrlendinga, Sýrlendinga við Araba og Araba við skólaspekingana.

Ópersónubundið eðli heimspeki skólaspekinganna kemur enn fremur fram í þeirri staðreynd, að þeir, sem skópu hana, birta ekkert af því, sem innra með þeim bærist, eða tilfinningum. Ritverk eins og sjálfsævisaga Abaelards [6] eru jafnmikil undantekning frá þeirri reglu og Játningar Ágústínusar. Einungis dulúðarmennirnir (mystics) tala um það, sem hrærist í innstu fylgsnum sálarinnar. Í hinum geysi-umfangsmiklu verkum Thómasar af Aquino [7] er t.d. einungis ein klausa þar sem heimspekingurinn tjáir nokkrar tilfinningar [8]; alls staðar annars staðar streymir hugsun hans fram án óðagots eða tilfinningar, rósöm og hátignarleg eins og mikið fljót.

––––––––––––––––––––––––
Neðanmálsgreinar:

[1] Ekki sízt í sérefnisritgerðinni í guðfræðinámi við Háskóla Íslands, 'Þáttum um þekkingarfræðilega raunhyggju og frumforsendur vísinda skv. fræðum heil. Thómasar af Aquino'. Rvík, des. 1978, 116 bls. (hdr.; eintak er til í Háskólabókasafni).

[2] Maurice De Wulf: Philosophy and Civilization in the Middle Ages, útgg.: Princeton University Press, Princeton, Humphrey Milford, London, og Oxford University Press, 1922 (313 bls.). Hinn þýddi þáttur er II. hluti 6. kaflans, á bls. 138–9.

[3] Nam semper posteriores addiderunt ad opera priorum, et multa correxerunt, et plura mutaverunt, sicut patet per Aristotelem, maxime, qui omnes sententias præcedentium discussit. Et etiam Avicenna et Averroes plura de dictis ejus correxerunt, Opus Majus, Pars I, c. 6 (ed. Bridges, Vol. III, p. 14). – Aths. þýð.: Roger Bacon (f. um 1214-20, d. um 1294) var einn skólaspekinganna, háskólakennari í Oxford og kallaður Doctor mirabilis (hinn undursamlegi kennimaður). Avicenna (talinn f. 980, persneskur læknir, heimspekingur og vísindamaður) og Averroes (einnig læknir m.m., uppi á 12. öld á Spáni og víðar) voru meðal fremstu afreksmanna múslima í heimspekiiðkun á miðöldum.

[4] In lib. Metaphys., Lectio 1.

[5] Pascal, Opuscules, édit. Brunschvigg, p. 80.

[6] Abaelard (um 1079–1142) var einn þekktustu frumherja skólaspekinnar. Heil. Ágústínus kirkjufaðir tilheyrir hins vegar lokaskeiði fornaldarinnar. Játningar hans hafa nýverið komið út í 2. útgáfu á íslenzku, að þessu sinni með öllum bókum þeirra inniföldum, ólíkt fyrri útgáfunni, þar sem vantaði á þrjár eða fjórar þær síðustu (þar sem hann fjallar m.a. um sakramentalærdóma kirkjunnar).

[7] Verk Thómasar, sem enn eru til, teljast rúm tíu milljón orð að umfangi.

[8] Thómas Aquinas: De unitate intellectus contra Averroistas, (undir lokin), þar sem djúp vanþókknun hans er vakin.

No feedback yet

Ábyrgðarmaður: Jón Valur Jensson guðfræðingur.

Önnur blogg sama höfundar: [jonvalurjensson.blog.is]
[jvj.blog.is]
[krist.blog.is] (þátttaka)
[lifsrettur.blog.is]

Leit

  XML Feeds

blog tool