« Maurice De Wulf um athyglisverð riteinkenni skólaspekingaKristin þjóðmálahreyfing »

22.07.06

  15:09:46, Skrásetjari: Jon Valur Jensson   , 264 orð  
Flokkur: Ljóð og kvæði / Poetry

Úr Sumarljóðum 1991

Í tilefni af fegurð daganna og ferðum Íslendinga um landið er ekki úr vegi að birta eftirfarandi 4 ljóð úr fyrri ljóðabók minni sem út kom hjá Goðorði 1991.

––––––

FÍFILL

Fífill
með mildri óljósri angan
og gulri krónu
iðandi í sól og sumri
á skammvinnri ævi
eitt lítið blóm
í beði Drottins.

SÓLARLAG UM MIÐNÆTTI

Ég kveð þig, sól! Þú sekkur djúpt í kaf
og síðsta blik þitt deyr, en himinn rauður
og ofar gulur, grænn og fagurblár.
Nú faðmast aftur himinn, haf og hauður.
Ó, sumarnótt! þér hreifst ég ungur af,
í örmum þínum ligg ég sæll og teitur.
Þú læknar alla kvöl og kvíðasár.
Þig kyssi´ eg, nótt! í faðmi þínum heitur.

– – – – –

– – – – –

MÁLVERK

Í heitu skjóli mínu í móanum
læt ég milda sólina baða enni mitt geislum af heiðum himni
og fjöllin fagurblá allt um kring yfir grænum skóginum
geislar kvöldsólar marka þau rúnum
eins og máluð af meistarans höndum
– svolítil fannbreiða þar
nokkrir skýhnoðrar yfir
og allt er fullkomnað.

– – – – –

– – – – –

EFTIRMÁLI VIÐ YNDISLEGT SUMAR

Ljómi þinn, sól, er mér lífið sjálft!
Æ, logaðu björt í hjarta mínu
og stráðu glitrandi gulli þínu
í geislaskúrum á brjóstið kalt.
Ó, dýrðarsumar og dagar heitir,
er draup þín glóð yfir fjöll og sveitir!
Ég þakka þér, sól, fyrir allt og allt.

––––––––––––––––––
© Jón Valur Jensson.

No feedback yet

Ábyrgðarmaður: Jón Valur Jensson guðfræðingur.

Önnur blogg sama höfundar: [jonvalurjensson.blog.is]
[jvj.blog.is]
[krist.blog.is] (þátttaka)
[lifsrettur.blog.is]

Leit

  XML Feeds

blogtool