« Hin ótrúlega auðlegð greinarskrifa Jóns RafnsGagnleg yfirlit vefsíðna á Kirkju.net »

01.05.06

  14:33:34, Skrásetjari: Jon Valur Jensson   , 1846 orð  
Flokkur: Samfélagsréttindi, kjaramál, Nýbúar og innflytjendur

Til hamingju með daginn, 1. maí – Verkalýðsbarátta og frjálst flæði vinnuafls

Öllu launafólki á Íslandi eru hér með sendar heilla- og hamingjuóskir í tilefni dagsins, 1. maí. Sá dagur hefur lengi verið hátíðisdagur verkalýðsins, sem fylkir þá liði til samstöðu, til eflingar bræðralags vinnandi stétta og til að bera fram baráttukröfur sínar fyrir mannsæmandi kjörum og betra þjóðfélagi. Hyggjum nú að ýmsu sem um er rætt og deilt í þessu sambandi, en víkjum fyrst nokkrum orðum að afstöðu kaþólsku kirkjunnar til verkalýðsbaráttunnar.

Sem kaþólskur áhugamaður um þessi mál minni ég á, að hjá móðurkirkjunni er messudagur 1. maí helgaður heilögum Jósef, heitmanni mærinnar Maríu og fósturföður Jesú. Hann er einnig verndardýrlingur verkamanna.

Kaþólsk verkalýðsstefna

Á stundum hefur kaþólska kirkjan verið sökuð um andstöðu við sósíalisma og jafnvel hagsmuni verkafólks, en það síðarnefnda er alrangt. Kirkjan hefur af gildum ástæðum varað við alhliða þjóðnýtingarstefnu sósíalismans, sem og öllum alræðisstefnum, bæði til hægri og vinstri. Er hefðin er orðin löng fyrir umburðarbréfum páfanna um þjóðfélagsmál og vandamál fátæktar og stéttabaráttu, réttindi verkafólks og réttlátt samfélag. Mun enginn verkalýðssinni, sem þau bréf les, allt frá riti Leós páfa, Rerum Novarum (1891), til bréfs Jóhannesar Páls II páfa, Laborem exercens (1981), fá efazt um einarðan málflutning páfanna í þágu réttlætis fyrir hina lakast settu í samfélaginu. Til þeirrar arfleifðar hafa aðrir páfar lagt sinn mikilvæga skerf, Benedikt XV, Píus XI (Quadragesimo Anno (1931), Mit brennender Sorge o.fl.), Píus XII, Jóhannes XXIII og Páll VI (Populorum Progressio, 1967). Verðug eru þessi rit þess að hljóta sérstaka umfjöllun hér á Kirkjunetinu, og verður það gert síðar.

Blikur á lofti varðandi kaupmátt vinnutekna

Eftir allmörg ár nær óslitinnar hagvaxtaraukningar, þar sem það óvenjulega gerðist um leið, að kaupmáttur ráðstöfunartekna fór stöðugt vaxandi árum saman (eins og hagfræðingur ASÍ upplýsti fyrir nokkrum misserum), þá hafa þau ótíðindi gerzt, að verðbólgan er hlaupin úr böndum á þessu vori, komin upp fyrir 5%, og kaupmáttaraukning verður því trúlega lítil sem engin í heild á yfirstandandi ári, á sama tíma og allar afborganir fólks vegna íbúða- og bankalána stóraukast í kjölfar vaxtahækkunar Seðlabankans. Auðfengin lán, sum jafnvel gengistryggð, koma þannig í hausinn á mörgum á næstu mánuðum, og önnur útgjöld vegna fasteigna hafa einnig farið úr böndum vegna tvöföldunar fasteignaverðs í sérbýli á sl. þremur árum.

Rekstur starfsmannaleiga, þar sem erlendir verkamenn virðast oft vera hlunnfarnir um eðlileg laun, og gróðastefna stórfyrirtækja á síðustu árum voru meðal umræðuefna í ræðuhöldum þessa 1. maí í Reykjavík. Á sama tíma og kjör hinna lægstlaunuðu eru við hungurmörk, eins og ljóst varð í kjaradeilu ófaglærðra á umönnunarheimilum, vísar hver á annan um ábyrgð á því arna; sumir gerast jafnvel svo djarfir að kenna þessu lægstlaunaða fólki fyrir fram um launaskrið og verðbólgu, ef það fær úrlausn sinna mála!

Hér er reyndar ástæða til að minna á þá tillögu mína, sem ég hef nokkrum sinnum viðrað á Útvarpi Sögu, að Alþingi setji lög sem kveði svo á um, að laun fyrir fulla dagvinnu hér á landi skuli aldrei nema minna en sem svarar fjórðungi grunnlauna alþingismanna. Þetta myndi þýða, að laun þessa ófaglærða verkafólks stykkju úr 104–108.000 kr. á mánuði upp í 123.000 krónur! Slík hækkun væri í reynd nokkuð áþekk þeirri kjarabót sem vissir vinnustaðahópar í þessum geira hafa náð á síðustu 5–10 dögum. En þörfin fyrir lagaákvæði um lágmarkslaun hverfur ekki með því – til að mynda er augljóst, að margir ófaglærðir verkamenn frá útlöndum eru í brýnni þörf fyrir slíka kjaratryggingu.

Opnun landsins fyrir stórauknu vinnuaflsflæði

Á þessum degi, 1. maí, hefur það ennfremur gerzt, einmitt nú í dag, að verið er að opna landið fyrir frjálsu flæði vinnuafls frá fátækum löndum í stækkuðu Evrópubandalagi. Í dag fá borgarar átta EB-landa, Eistlands, Lettlands, Litháens, Póllands, Slóvakíu, Slóveníu, Tékklands og Ungverjalands, fullan aðgang að vinnumarkaði okkar, sem áður var þeim lokaður, en þeir njóta nú fulls jafnréttis á við íslenzkt launafólk.

Í beinu framhaldi af þessu heyrum við í fréttum dagsins, að Alþýðusamband Íslands leggur í boðskap sínum í dag áherzlu á hnattvæðingu og frjálsa för launafólks og setur fram kröfuorðin: “Ísland allra!”

Hvað segir Biblían um “útlendingana í landinu”?

Já, meðal hvatningarorða dagsins eru: “Ísland allra!” Þetta er gerólíkur tónn frá því gamalkunna: “Ísland fyrir Íslendinga!” Það baráttuhróp var reyndar aldrei stefna stjórnmálaflokka hér á landi né sjálfstæðishetjanna á 19. öld. Kristnir menn og Biblíutrúir hafna því að taka afstöðu gegn innflytjendum, sem hingað eru komnir, vegna þjóðernisuppruna þeirra.

Við minnumst þess, sem Gamla testamentið ítrekaði margsinnis í tengslum við útlendinga í Landinu helga: “Útlendum manni skalt þú eigi sýna ójöfnuð né veita honum ágang, því að þér voruð sjálfir útlendingar í Egyptalandi” (2. Mós. 22.21, sbr. 23.9). Ákvæði Móselaga þess efnis, að Ísraelsmenn skuli ekki gjörtína jarðargróður sinn né skera akrana út í hvert horn né tína upp niðurfallin ber í görðum sínum, eru einnig eftirtektarverð (3. Mós. 19.9–10, 23.22, sbr. 5. Mós. 24.19–22), en þar er þessi ástæða gefin: “Þú skalt skilja það eftir handa fátækum og útlendingum;” og þau orð eru hátíðlega staðfest og undirstrikuð með þessari áminningu: “Ég er Drottinn, Guð yðar.” Það er því við hann sjálfan að eiga, ef menn misvirða þessi boðorð hans.

Orð 5. Mósebókar eru ekki síður þungvæg, þar sem ræðir um Guð sjálfan og umvefjandi kærleika hans til fátækra og útlendinga: “Hann rekur réttar munaðarleysingjans og ekkjunnar og elskar útlendinginn, svo að hann gefur honum fæði og klæði. Elskið því útlendinginn, því að þér voruð sjálfir útlendingar í Egyptalandi” (10.18–19, leturbr. hér).

Hin hliðin á þessum sama peningi eru fyrirmæli Móselaga gegn þeim, sem brjóta þessi boðorð: “Bölvaður er sá, sem hallar rétti útlends manns, munaðarleysingja eða ekkju! Og allur lýðurinn skal segja: amen.” (5. Mós. 27.19). Sem sagt: Engin undanbrögð hér!

Önnur merkileg ákvæði 5. Mósebókar er að finna í 14.28–29, 24.14–15 og 31.12. Að endingu má svo minna á orð 5. Mós. 28.43–44, þar sem fram kemur, að það er jafnvel vilji Drottins Guðs, að útlendingarnir í landi Ísraelsmanna “stígi hærra og hærra upp yfir” þá, en þeir sjálfir skuli “færast lengra og lengra niður á við,” þ.e.a.s. ef Ísraelsmenn hlýði ekki raustu Drottins né haldi skipanir hans og lög (sjá 28.15 o.áfr.). M.a.s. muni útlendingunum vegna svo miklu betur en Ísraelsmönnum, verði um svik af hálfu þeirra síðarnefndu gagnvart skyldum sínum við Drottin að ræða, að það mun að endingu verða útlendingurinn, sem lánar þeim síðarnefndu – já, útlendingurinn “mun verða höfuðið, en þú munt verða halinn” er sagt við þann Ísraelsmann, sem fyrir var í landinu (28.44)! Öllu skilmerkilegar verður ekki að orði komizt um siðferðisskyldur Ísraelsmanna og umhyggju Guðs fyrir hinum útlendu í Landinu helga.

Allt er þetta íhugunarvert fyrir Íslendinga á þessari 21. öld, þegar við horfum fram á margvíslegar breytingar sem bíða Norðurálfunnar á meiri þjóðflutningatímum en áður hafa átt sér stað á jafnskömmum tíma.

Mjótt er mundangshófið

Mörgum mun annt um, að við getum farið hinn gullna meðalveg milli þeirra tveggja öfga, sem um ræðir í þessu máli, því að annars vegar er hér stefna þeirra, sem óska sér einhvers konar heimsríkis og kjósa sem leiðina til þess fullkomna hnattvæðingu sem keyrir yfir þjóðaeinkenni og þurrkar út þjóðtungur smáríkja eins og Íslands, enda boða sumir það fullum fetum, að bezt sé að taka upp ensku sem tungumál okkar! Hins vegar eru svo þeir, sem vilja lokast af í nýrri einangrunarhyggju, stöðva innflutning nýbúa og sýna þeim jafnvel andúð og mismunun. Eitt er víst, að hvoruga þessa leið ber kristnum mönnum að fara. Biblíulegt siðferði, eins og við sáum hér ofar – sem er áþreifanleg myndbirting kærleika Guðs og þjóðar hans – gerir þær kröfur til okkar að auðsýna útlendingum í landinu gestrisni og velvild og hjálpa þeim að aðlagast sínum nýju aðstæðum, ekki sízt með því að læra þjóðtungu okkar, sem opnar þeim dyrnar að góðri menntun og starfsþjálfun, betri atvinnutækifærum og að geta notið sín til fulls í þessu landi. Því ber okkur að slá á alla hræðslublandna andúð á útlendingum (xenophobiu) og á kynþáttafordóma, sem sums staðar verður vart, og standa gegn þeim öflum sem hugsanlega vilja veita nýbúum ágang vegna framandi trúar þeirra.

Hitt er ljóst, að þær aðstæður, sem nú blasa við, þ.e.a.s. að um stórfelldan innflutning fólks geti orðið að ræða frá austurhluta Evrópu, eru gerólíkar þeim aðstæðum, sem Gamla testamentið ræddi um. Boð þess tákna ekki, að okkur beri að opna hér allt upp á gátt fyrir öllum utanaðkomnum í tugþúsunda tali, jafnvel ekki fólki frá nýju EB-þjóðunum, sem við vorum þó reyndar að skylda okkur til að gefa hér full atvinnuréttindi með lítt framsýnni, hraðsoðinni löggjöf frá Alþingi í liðinni viku. Við verðum þrátt fyrir góðan vilja að kunna okkur hóf og gæta þess, að hér verði breytingarnar ekki svo örar og byltingarkenndar, að við missum öll tök á framvindu mála.

Hér verður senn látið staðar numið að sinni, enda má taka upp málefnið síðar. Að lokum skal þó á það minnt, sem verkalýðsfrömuðurinn Aðalsteinn Baldursson á Húsavík lét hafa eftir sér í hádegisfréttum, en þar sagðist hann vita um erlent verkafólk sem vilji komast inn í landið og undirbjóða íslenzka kjarasamninga. “Hann telur Vinnumálastofnun hvorki hafa þekkingu né fjármuni til að standa straum af því fólki sem væntanlegt er til landsins,” sagði þar ennfremur, og "Aðalsteinn er mjög ósáttur við að frumvarpið um frjálsa för verkafólks skyldi fara nánast óbreytt í gegnum íslenzka þingið." Eins höfðu verkalýðsfélög, m.a. á Akranesi, Vestfjörðum og Húsavík og Afl á Austurlandi, mælzt til þess, að ríkisstjórnin nýtti sér þau tækifæri sem hún hafði til að sækja um nokkurra ára frest til þess að við gætum betur aðlagazt því að fá þetta flæði vinnuafls frá löndum A-Evrópu. ASÍ hefur hins vegar samþykkt þá vanhugsuðu ráðstöfun, sem ofan á varð, sennilega eftir samráð við Samtök atvinnulífsins [1]. En það yrði öfugsnúið mjög, ef stórfelldur innflutningur frá hinum nýju EB-löndum yrði til þess að skerða kjör íslenzks og jafnvel erlends verkafólks á landinu og auka hér atvinnuleysi – eða öllu heldur: flytja það inn.

Tökum undir bæði vígorðin í jákvæðri merkingu: "Ísland fyrir Íslendinga" (þ.e.: að halda fullveldi okkar óskertu – og íslenzkunni sem þjóðtungu okkar) og "Ísland allra" – þ.e.a.s.: eflum umburðarlyndi og bræðralag við allt það fólk sem setzt hefur hér að. En höfnum sömu vígorðum í neikvæðri merkingu þeirra (þ.e. einangrunarhyggju og útlendingahatri annars vegar og hins vegar óþjóðlegu afsali landsréttinda ásamt skeytingarleysi um menningu okkar, þjóðararf og tungu). Hin nýju einkunnarorð "Ísland allra" hafa jákvæðan hljóm, en við skulum þó varast þá bláeygu bjartsýnishyggju, að óhætt sé að slá þeim upp á alþjóðavettvangi til að auglýsa umburðarlyndi okkar og gestrisni. Hætt er þá við, að fleiri veiti því eftirtekt en að var stefnt, taki sig upp og flytjist hingað búferlum, unz svo kemur, að við ráðum ekki lengur við allt það innstreymi og neyðumst til að ganga á bak orða okkar varðandi yfirlýsta gestrisni og ótakmarkað umburðarlyndi.

Við höfum hingað til verið heppin með það fólk, sem við höfum fengið hingað, af mörgum ólíkum þjóðernum. En reisum okkur ekki hurðarás um öxl.

––––––––––––––––––––––––––––
[1] Þetta síðasta um verkalýðsfélögin og ASÍ var skv. Magnúsi Þór Hafsteinssyni alþm. í Útvarpi Sögu (í endurfluttum þætti 1. maí 2006).

Aðrar heimildir voru helztar Biblían 1981, Biblíulykill (orðalyklar að Biblíunni 1981, útg. Biblíulykilsnefnd og Hið ísl. Biblíufélag, Rv. 1994), The Social Teachings of the Church, ed. Anne Freemantle, N.Y. 1963, The Great Social Problem – Encyclical Letter of Pope Paul VI 'Populorum Progressio' (Catholic Truth Society, London, án árt.) og The Social Message of the Catholic Church, eftir Henry Owen Waterhouse SJ (Catholic Truth Society, London 1979 eða 1980), auk frétta á NFS–Talstöðinni og Rúv.

6 athugasemdir

Athugasemd from: Ragnar Geir Brynjólfsson

Takk fyrir þessa ágætu 1. maí grein Jón. Benedikt Groschel á að vera með þátt/þætti um hl. Jósef, verndardýrling verkamanna á EWTN núna í maí. „Maðurinn sem hlustaði á englana“ er þema þeirra.

Eflaust hefur eitthvað af þessum umburðarbréfum páfanna verið þýtt á íslensku. Það væri fengur ef einhver vissi um slíkt.

01.05.06 @ 17:09
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Þakka þér þetta, Ragnar. Ég hygg reyndar, að þessi þjóðfélagslegu umburðarbréf páfanna hafi nánast ekkert verið þýdd á íslenzku ennþá, nema ef vera skyldi nýleg bréf Jóhannesar Páls II, Sollicitudo Rei Socialis og Centesimus Annus.

Grein mín var unnin í íhlaupum í dag og galt þess þá. Hef ég bætt hana allmikið síðan og aukið við hana efni hér og þar, t.d. þættinum “Blikur á lofti varðandi kaupmátt vinnutekna,” auk heimildaskrár o.fl.

01.05.06 @ 23:15
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Varúðarorð mín um óhefta vinnuaflsflæðið, sem við opnuðum gáttirnar fyrir án þess að gefa okkur umþóttunartíma, fær frekari staðfestingu af efstu forsíðufréttinni í Mbl. í dag (’Ódýrt vinnuafl takmarkað’), sem og af viðtali við Magnús Norðdahl, lögfræðing ASÍ, í morgunútvarpi Rúv, en útdráttur úr því var fluttur í hádegisútvarpi í dag. Ýmis önnur lönd í Evrópu, jafnvel bein aðildarlönd að EB, Þýzkaland, Austurríki, Danmörk, Frakkland, Belgía, Holland og Lúxemborg, opnuðu ekki vinnumarkað sinn fyrir löndunum átta í gær, 1. maí. Þrjú þeirra, Frakkland, Belgía og Lúxemborg, munu gera það smám saman, atvinnugrein eftir atvinnugrein, segir í frétt Mbl., en hin, Þýzkaland, Austurríki og Danmörk, gera það ekki. Hollendingar hafa frestað ákvörðun sinni fram yfir næstu áramót, “en Ítalir ætla að auka kvótann, sem þeir setja á erlent vinnuafl í landi sínu.” En hér á Íslandi er enginn kvóti settur! Ráðamenn hafa ákveðið að taka áhættu eða látið undan þrýstingi atvinnurekenda – eða einfaldlega ekki unnið heimavinnuna sína, eins og stjórnvöld í þessum fyrrnefndu löndum gerðu.

Fregnir af þessari ákvörðun Þjóðverja, Dana, Frakka o.fl. eru ekki aðeins ábending um, að íslenzk stjórnvöld hafi farið illa að ráði sínu, heldur gerir þetta okkar eigin ákvörðun ennþá áhættusamari, af því að nú beinist áhugi og straumur fólks frá A-Evrópulöndunum átta að mun færri löndum en ella, og Ísland getur þá orðið ofan á í valinu vegna góðra lífskjara hér og nánast einskis atvinnuleysis.

En hvað ákváðu Norðmenn í málinu – getur einhver upplýst um það? Í Mbl.fréttinni eru aðeins fimm lönd nefnd, sem opnuðu vinnumarkað sinn nú um mánaðamótin: Finnland, Spánn, Portúgal, Grikkland og Ísland. – Hafa menn hugsað þetta mál til enda?

02.05.06 @ 11:14
Athugasemd from: Ragnar Geir Brynjólfsson

Það þarf að kalla eftir því að stjórnvöld móti heildstæða stefnu í málefnum innflytjenda.

Hvað íslenskuna varðar þá þarf að gera átak í að uppfæra eða búa til nýtt námsefni sem er meira í takt við tímann og hentar t.d. fjar- eða sjálfsnámi betur en það efni sem til er í dag. Sjálfsnám sem byggir að miklu leyti á myndefni verður að vera inni í myndinni því margt af þessu fólki kann ekki á tölvu. Reyndar þyrftu líka auk íslenskunnar að koma til sérhönnuð tölvunámskeið.

Ólíklegt er að þetta geti orðið nema stjórnvöld finni námi af þessu tagi einhvern stað í skólakerfinu. Á meðan það er ekki gert er hætt við því að fáir skólar sjái sér sóknarfæri í því að bjóða upp á svona nám.

Kvöldskólar eru góðra gjalda verðir en þeir eru líklega ekki að ná til eins margra og þeir þyrftu að gera. Það þarf að hanna frá grunni nýtt íslenskunám sem miðast við það að nemendur geti stundað það á eigin hraða og á þeim tíma sem þeir hafa til þess, en jafnframt bjóða upp á ramma og aðstoð við að fylgja áætlunum eftir. Þetta nám þarf svo að meta með einhverjum hætti.

Þannig og með öllum færum leiðum verður að auðvelda þessu fólki sem vinnur myrkranna á milli þau störf sem enginn innfæddur fæst til að vinna, að geta gefið sér tíma til að læra íslenskuna og nái tölvufærni. Þannig aukast líka líkurnar á því að þau eflist efnahagslega og sem einstaklingar og geti því lagt mun meira til samfélagsins en ella.

02.05.06 @ 20:56
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Þetta er laukrétt áherzla hjá þér, Ragnar, þ.e.a.s. að íslenzkunámið er það sem mestu skiptir í þessum málum, bæði fyrir nýbúana og okkur hin sem hér sitjum á fleti fyrir.

02.05.06 @ 21:49
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Í þessari vefgrein: Íslenzkukennsla fyrir útlendinga og aðgangur þeirra að atvinnu á Íslandi (úr erindi í Útvarpi Sögu 10. 11. 2006), er fjallað allýtarlega um þau mál, og skal hér vísað til þess.

En í dag, 1. maí 2007, er ég með sérstaka Moggablogg-grein í tilefni dagsins – og vík þar sérstaklega að illum og óviðunandi vinnuaðstæðum verkafólks við Kárahnjúka.

01.05.07 @ 10:27
Ábyrgðarmaður: Jón Valur Jensson guðfræðingur.

Önnur blogg sama höfundar: [jonvalurjensson.blog.is]
[jvj.blog.is]
[krist.blog.is] (þátttaka)
[lifsrettur.blog.is]

Leit

  XML Feeds

blogging soft