« Ritningarlesturinn 9. september 2006Ritningarlesturinn 8. september 2006 »

08.09.06

  07:55:46, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 749 orð  
Flokkur: Hugleiðingar

„Þið voruð foreldrar okkar allra, en jafnframt morðingjar.“ [1]

Hvaðan berst sá harmagrátur um upphimininn sem mælir þessi orð af vörum? Þetta er harmagrátur engla þess eins milljarðs barna sem myrt hafa verið á undanförnum tveimur áratugum: „Varist að forsmá nokkurn þessara smælingja. Ég segi yður, að englar þeirra á himnum sjá jafnan auglit míns himneska Föður“ (Mt 18. 10). Þegar Heilagur Andi blés hinum fornu Hebreum í brjóst að rita Sköpunarsöguna áminnti hann okkur um eilíf sannindi. Syndafallið er ekki einstæður sögulegur atburður sem gerðist í eitt skiptið fyrir öll, heldur sívarandi í lífi okkar hvers og eins sem endurtekur sig sífellt í mannshjörtunum.

Í hverju fólst synd þeirra Adams og Evu? Hún fólst í því að hafna sannleika Guðs, brauðinu af lífsins tré. Í andlegri speki sinni vék heil. Maxímos játarinn svo að þessum sannleika:

Næring þessa blessaða lífs er Brauðið sem kom af himni ofan og veitti heiminum líf, eins og Orðið sem fer ekki með ósannindi komst að orði um sjálfan sig í guðspjöllunum. Þar sem hinn fyrsti maður hafnaði því að nærast á þessu Orði, var hann með réttu útilokaður frá hinu guðdómlega lífi og öðlaðist þar með annars konar líf háð fallvaltleika dauðans. [2]

Eftir píslardauða sínar á Fórnarhæð krossins helgaði Drottinn allt líf með friðþægingu sinni. Þegar við snertum við einum smælingja hans – þeim varnarlausasta allra hinna varnarlausu – hinu ófædda barni í móðurskauti, snertum við Jesú. Í holdtekju Drottins varð þessi smælingi að honum sjálfum – litlum kristi – og þegar við snertum við honum snertum við Krist sjálfan: „,Sannlega segi ég yður, það allt, sem þér gjörðuð einum minna minnstu bræðra, það hafið þér gjört mér“ (Mt 25. 40). Þeir sem deyða einn þessara smælingja krossfesta því Krist að nýju.

Við skulum því taka undir hamagrát engla þessara smælingja á himnum og harmagrát Adams eftir ódæðisverk sitt:

Adam var sárþjakaður á jörðinni og grét beisklega.
Jörðin veitti honum enga huggun.
Hann þráði Guð sárlega og hrópaði:
„Sál mín þráir Drottin og ég leita hans társtokkinn.”
Hvernig get ég annað en leitað hans?
Þegar ég dvaldi hjá honum gladdist sál mín og naut hvíldar,
og óvinur minn gat ekki komið mér nærri.
En nú hefur andi illskunnar náð valdi yfir mér.
Sál mín er sármædd og þjökuð.
Af þessum sökum þráir sál mín að deyja í Drottni.
Anda minn þyrstir eftir Guði og ekkert á jörðinni veitir mér gleði. Sál mín öðlast hvergi huggun.
Hún þrái að sjá Drottin að nýju og seðjast í honum.
Mér auðnast ekki að gleyma honum eitt andartak vegna þess að sál mín þráir hann svo mjög.
Í angist minni hef ég upp raust mína og hrópa:
„Miskunna mér, ó Guð, miskunna þú fallinni sköpun þinni.“

Þannig harmaði Adam,
og tárin streymdu niður vangana niður í skeggið og vökvaði jörðina undir fótum hans.
Og öll dýr merkurinnar heyrðu kveinstafi hans.
Ferfætlingarnir og fuglarnir þögnuðu harmi lostin.
Og Adam grét vegna þess að sökum sektar hans höfðu allir menn glatað friði elskunnar.

Sorg Adams var mikil þegar hann var gerður brottrækur úr paradís.
Og þegar hann sá son sinn Abel deyða Kain bróðir sinn jókst harmur hans enn að mun.
Sál hans var sárþjáð og hrópaði társtokkin:
„Lýðir og ættkvíslir munu verða niðjar mínir.
Þjáningin mun verða hlutskipti þeirra og menn munu lifa í fjandskap og leitast við að tortíma hver öðrum.“
Og hryggð hans var takmarkalaus eins og úthafið.
Einungis sú sál sem lært hefur að bera skyn á Drottin og fyllingu elsku hans fær skilið slíkt. [3].

[1]. Heil. Bernhard, Hugvekja 2, 3: Fæðing hinnar nýju Evu.
[2]. Ambigua PG 91, 1157A, tilvitnun frá Panayitos Nellas, Deification in Christ: The Nature of the Human Person, bls. 47.
[3]. Heilagur Silúan frá Aþosfjalli, Úr harmagráti Adams.

2 athugasemdir

Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Þakka þér magniþrunginn texta þinn, bróðir Jón. Í fáum orðum talarðu þarna með sterkri tilköllun til samtímans um hina ófæddu sem fórnað er fyrir það sem fánýtt er, en eru þó bræður og systur Krists, já, með sjálfa Kristsmyndina í sér. Og þakka þér að halda áfram að kynna okkur heil. Silúan með því að þýða hér þennan innlifaða, ljóðræna, vitundaropnandi texta hans. (Það væri gaman að bera þetta saman við Alexander Pope, hvort hann fari líkar leiðir í því að lýsa upplifun Adams eftir syndafallið, í Paradísarmissi sínum.)

08.09.06 @ 08:40
Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Margt undursamlegt færði heil. Silúan á blað í næturvökum sínum í klefa sínum í áhaldageymslu Pantaleimonsklaustursins á hinu Heilaga fjalli, en þar kaus hann að dvelja öðru fremur þar til hann beið lægri hlut fyrir elli kerlingu og gigtinni.

Eitt sinn sagði einn úr öldungaráði klaustursins: „Ég skil ekki hvers vegna þeir sækja svona til hans [erlendir fræðimenn og gestir klaustursins], við hljótum að hafa upp á eitthvað betra að bjóða hérna“ [margir feðranna voru hámenntaðir].

Hann dró orð sín til baka eftir andlát Silúans þegar hann las skrif hans.

08.09.06 @ 09:00