« Skapaði Guð ekki heiminn? Stjarneðlisfræðingur ratar út á svið sem er handan eðlisfræðinnarHörmulegt þingmál orðið að veruleika: gifting samkynhneigðra »

23.07.10

Tveir merkisdagar í sögu kaþólsku kirkjunnar á Íslandi – og um starf St. Jósefssystra

24. júlí 1896: "Nunnur komu til landsins, í fyrsta skipti síðan fyrir siðaskipti. Þær voru fjórar og settust hér að til að annast hjúkrun og vitja sjúkra. Þetta var upphaf starfs St. Jósefssystra í Reykjavík og Hafnarfirði."

Þetta gerðist 22. júlí 1929: "Landakotskirkja í Reykjavík var vígð með mikilli viðhöfn, en það gerði Vilhjálmur van Rossum kardínáli og sérlegur sendimaður Píusar páfa.

Kardínálinn og fylgdarlið hans gekk tvívegis kringum kirkjuna rangsælis og einu sinni sólarsinnis. Þá voru 55 manns í söfnuðinum, nú eru þeir á tíunda þúsund."

(Tekið beint úr Morgunblaðinu, fimmtudaginn 22. júlí 2010 og í dag, laugardag 24. júlí - í daglegum þætti þar: Þetta gerðist, en hann er byggður á verki Jónasar Ragnarssonar: Dagar Íslands.)

Því má bæta við, að eins og söfnuður kaþólskra árið 1929 átti eftir að margfaldast gríðarlega, þannig var mjór mikils vísir árið 1896, þegar nunnurnar fjórar settust hér að, því að St. Jósefssystur urðu fjölmennar hér á spítölum þeirra í Reykjavík og Hafnarfirði, voru t.d. flestar nær 50 starfandi í einu á St. Jósefsspítala í Reykjavík um árabil, "en alls komu hingað til lands um 140 konur úr reglunni, af ellefu þjóðernum, langflestar frá Þýskalandi, en voru nær allar menntaðar og þjálfaðar í Danmörku." [1]

Saga þess spítala (sem gjarnan hefur gengið undir nafninu Landakotsspítali í munni margra) er ýtarlega og glæsilega skráð í mikilli bók Ólafs H. Torfasonar: St. Jósefsystur á Íslandi 1896-1996.

Prýðilega og afar upplýsandi grein er að finna á vef Morgunblaðsins um St. Jósefsreglu, sögu hennar erlendis (hún var stofnuð í Frakklandi 15. október 1650) og starf hennar hér á landi, grein sem birt var 14. janúar 2001 undir fyrirsögninni: Jósefssystur kveðja Ísland.** Þar er margt fróðlegt, sem minna ber á, t.d. undir millifyrirsögninni: Um 2.300 mannár í sjálfboðavinnu fyrir íslenska þjóð.

Það var mikil hátíð, þegar haldið var upp á aldarafmæli starfs St. Jósefssystra á Íslandi, í Súlnasal Hótels Sögu. Þar bárust þeim ómældar þakkir frá fjölmörgum, úr ræðustóli og með öðrum hætti.

Hjartans þakkir og kveðju fá þær enn héðan frá Íslandi. Minning þeirra sjálfra, trúar þeirra, starfsgleði og fórnarlundar, sem bjargaði heilsu og lífi svo ótal margra, mun áfram geymast með íslenzkri þjóð.

[1] Úr nefndri grein í Morgunblaðinu 2001.
[2] Ef þessi tengill virkar ekki fyrir alla, skal ég leita eftir því að fá að endurbirta þessa grein hér á Kirkjunetinu. –JVJ.

No feedback yet

Ábyrgðarmaður: Jón Valur Jensson guðfræðingur.

Önnur blogg sama höfundar: [jonvalurjensson.blog.is]
[jvj.blog.is]
[krist.blog.is] (þátttaka)
[lifsrettur.blog.is]

Leit

  XML Feeds

b2