« Börn eiga skilið foreldra sem eru hjón, segir Benedikt páfiÓtæk rök fyrir kirkjulegri vígslu samkynhneigðra »

29.12.05

  19:23:01, Skrásetjari: Jon Valur Jensson   , 1210 orð  
Flokkur: Málefni samkynhneigðar á sviði þjóðfélags og kirkju

Tekur Framsókn mið af kristnu siðferði eða ímynduðum fjölda samkynhneigðra?

Jón Valur Jensson fjallar um Framsóknarflokkinn og samkynhneigða. [1]

Mundi það skipta sköpum fyrir gengi Framsóknarflokksins að laða til sín hluta af atkvæðum samkynhneigðra, ef hommar og lesbíur eru í reynd einungis um 1% kjósenda? Það mætti Reynir Þór Eggertsson hugleiða, sá sem skrifaði í Mbl. 17. des. 2005 gegn tveimur samflokksmönnum sínum, en þeir hafa lýst sínum eðlilegu óskum að flokkurinn styðji við kristin gildi.

Æ meir hallast ég að því, að hlutfall samkynhneigðra á Íslandi nái naumast 2,2%, eins og meðaltalið bendir þó til úr ýmsum könnunum frá árunum 1994–2004 í Bandaríkjunum, Bretlandi og Hollandi (sjá grein mína í Fréttabl. 28. apríl 2005 og í lengri gerð á þessari vefslóð). Tel ég alls ekki ólíklegt að hlutfallið sé í raun um eitt prósent, eins og ýmsar aðrar erlendar kannanir benda til. [Frh. neðar.]

Þar má í 1. lagi nefna könnun kanadískra stjórnvalda 2003, þar sem 1,3% karla 18-59 ára og 0,7% kvenna töldu sig samkynhneigð. [2]

Í 2. lagi má benda á könnun, sem fjallað var um í The New York Times 15.4. 1993 í grein F. Barringer: 'Sex Survey of American Men Finds 1% Are Gay' (þar er þó aðeins verið að tala um karlmenn, en þeir eru jafnan með hærri tíðnitölur í þessu efni en konur).

Í 3. lagi bendi ég á rannsóknir í Bretlandi, Bandaríkjunum og Frakklandi (Stall, Gagnon o.fl. 1990, Sell, Wells og Wypij 1995), þar sem meðalhlutfall þeirra karlmanna, sem höfðu eingöngu mök við sama kyn næstu fimm árin á undan, var 0,87%; hjá konum var það 0,32% [3].

Í 4. lagi er vitað að samkynhneigð er algengust í "þróuðu" stórborgarlífi og miklu fágætari í dreifðari byggðum. Íslenzkt samfélag er trúlega enn sem komið er nær uppruna sínum en þéttbýlið í engilsaxneskum löndum. Ég geri mér þó grein fyrir því, að tíðni samkynhneigðar getur hækkað hér, ef menn leiðast inn í hana fyrir áhrifagirni sakir eða hún fer að þykja 'svöl' og komast í tízku, eins og dæmi og teikn eru um, enda er þessi kynlífsháttur ekki bundinn við arfgengi, heldur getur komið og farið; jafnvel Kinsey-stofnunin viðurkenndi með rannsókn birtri 1970 að 84% samkynhneigðra höfðu skipt um kynhneigð a.m.k. einu sinni, 32% tvisvar og 13% fimm sinnum! [4]

Í 5. lagi vekur athygli að í árslok 2004 eru í mesta lagi 96 pör í staðfestri samvist á Íslandi [5], þrátt fyrir að það lögverndaða sambýlisform hafi þá verið leyft undangengin átta og hálft ár.

Í 6. lagi má líta til þess hve sárafáir félagsmenn hafa verið í Samtökunum '78: 1999 var fjöldi þeirra svipaður og fyrri ár eða 185 (Samtakafréttir, marz 1999, s. 14). Væri það svo, sem málsvarar þessa hóps halda blákalt fram, að samkynhneigðir, fullorðnir Íslendingar séu 15–20.000 manns, jafnvel enn fleiri, þá hlyti félag þeirra að teljast með eindæmum fámennt, að hafa ekki nema um 1% allra homma og lesbía innan sinna vébanda! Þessi smæð samtakanna hefur þó ekki komið í veg fyrir að í þau hefur verið dælt háum fjárhæðum af almannafé (vel á þriðja tug milljóna); þar að auki eru alþingismenn á skipulögðu undanhaldi að gefast upp fyrir kröfuhörku þeirra, sem auðvitað óx ásmegin með styrkjaflóðinu.

Veit ég vel, að "rannsóknir" skordýrafræðingsins dr. Alfreds Kinsey á kynlífsháttum fólks, sem fram fóru fyrir 55–65 árum, urðu baráttuliði samkynhneigðra átylla til þess síðar að halda 10%-tölunni sem heilögum sannleik að bandarísku þjóðinni. En sú rannsókn byggðist á sjálfboðaliðum og ódæmigerðum þjóðfélagshópum, m.a. leitað sérstaklega á samkomustaði samkynhneigðra; einnig var þar fjöldi kynferðisbrotamanna, og 26% þátttakenda voru refsifangar, en könnunin að auki framkvæmd á hlutdrægan, jafnvel óskammfeilinn hátt (einkum á ungbörnum). [6] Eins og þetta væri ekki nóg, voru niðurstöður Kinseys oftúlkaðar af síðari tíma baráttumönnum, m.a. með því að fullyrða að 10% fólks væri samkynhneigt. En 10%-talan í Kinsey-skýrslunni (byggð eins og hún var á öllum hans ranggefnu forsendum) var niðurstaða hans um karlmenn sem samkynhneigðir hefðu verið þrjú ár milli 16 og 55 ára aldurs; hins vegar taldi hann að 4% karla væru alfarið hommar allan sinn fullorðinsaldur. [7]

Rannsóknirnar sem ég gerði grein fyrir í Fréttablaðinu og hér ofar eru hins vegar nýlegar og ólíkt vandaðri en falsiblandin Kinseyskýrslan og mistúlkanir hennar. En fyrir þeim gervivísindum falla þó tvær íslenzkar félags- og kynjafræðakonur kylliflatar (RT og ÞÞ), sem sést í pistlum þeirra á Vísindavefnum. [8] Aðrir apa svo upp villuna! Alvöruþrungnar staðhæfingar þessa fólks með fræðaskikkjuna á herðunum, þess efnis að 10% Íslendinga séu hommar og lesbíur, eru grátbroslegar, enda ekki mark á þeim tekið í fræðaheiminum erlendis.

Ekki held ég því fram að samkynhneigðir Íslendingar séu svo fáir sem u.þ.b. 200 (sbr. 5.-6. lið hér ofar). Jafnvel einungis 1% fullorðinna eru 2.200 manns (að öldungum meðtöldum). En ljóst er að fullyrðingarnar djörfu um fjölda homma og lesbía eru nálægt fjórum eða jafnvel 5–10 sinnum hærri en nýlegar, erlendar kannanir gefa vísbendingar um.

Það hefði einhvern tímann þótt saga til næsta bæjar að Framsóknarflokkurinn ætti erfitt með að gera það upp við sig hvort hann vildi fylgja kristnu siðgæði eða elta uppi kröfur samkynhneigðra. Nú mega góðir þingmenn hugsa sinn gang og gæta þess að enda ekki í því öngstræti að verða viðskila við trúar- og siðferðisvitund þjóðarinnar eða leiðsögn sinnar eigin stjórnarskrár sem styður og verndar kristinn sið í landinu.

Höfundur er guðfræðingur.

HEIMILDIR sem til er vísað:

[1] Þessi grein birtist þann 23. des. 2005 í Morgunblaðinu. Hér er hún með svolítið ýtarlegra orðalagi og stundum auka-upplýsingum, og upphafleg yfirskrift hennar fær hér að halda sér (en var í Mbl. stytt niður í: Kristið siðferði eða ímyndaður fjöldi samkynhneigðra?). Auk þess er heimildaskránni bætt hér við.

[2] Til viðbótar kváðust 0,6% karlanna vera tvíkynhneigðir, en 0,9% kvennanna. – Sjá www.statcan.ca/Daily/English/040615/d040615b.htm

[3] Sbr. hið fróðlega rit eftir Stanton Jones, Ph.D., og Mark A. Yarhouse, Psy.D.: Homosexuality: The Use of Scientific Research in the Church´s Moral Debate, 2000, s. 42-43. [4] Sjá erindið 'Hvert er stefnt í málum samkynhneigðra? ...', í neðanmálsgrein [5] þar undir.

[5] Sjá http://hagstofa.is/?pageid=628&src=/temp/mannfjoldi/giftingar.asp – út frá þeirri vefsíðu er hægt að draga saman allar upplýsingar um staðfestingu samvistar og skilnaði á árunum 1996–2004. (Hér var sagt: “í mesta lagi 96 pör,” en 96 voru þau, nema einhver(jir) úr þessum hópi hafi dáið á árinu 2004, sem ekki er ólíklegt.)

[6] Sjá t.d. greinina 'Kinsey and the Homosexual Revolution' eftir Judith Reisman, Ph.D., á vefslóðinni http://www.leaderu.com/jhs/reisman.html – og 'Kinsey´s Fraud and its Consequences for Society' eftir Raquel M. Chanano, á vefslóðinni http://www.ewtn.com/library/ISSUES/KINSEY.TXT – sbr. einnig http://www.catholiccitizens.org/press/pressview.asp?c=3540

[7] Sbr. Jones & Yarhouse, áður tilvitnað rit, bls. 34–37.

[8] Sjá http://www.visindavefur.is/ – tvær greinar þar:

1) 'Hvers vegna er fólk samkynhneigt? Er það aðferð náttúrunnar til að halda fólksfjölda í skefjum?' eftir Þorgerði Þorvaldsdóttur, sagn- og kynjafræðing. Þar segir orðrétt: "... Út frá þessari könnun Kinseys er síðan komin sú viðmiðunartala að samkynhneigðir séu um það bil 10% af heildar fólksfjölda (í vestrænum samfélögum)." – Með þessari klausu er höfundur pistilsins að koma upp um algera vanþekkingu sína á því, að þessi rannsókn Kinseys var að engu hafandi sem alhæfingargrunnur yfirlýsinga um almenna kynhneigð manna, vegna þess að rannsóknin var framkvæmd á gersamlega vitlausum forsendum, úrtakið óhæft og rannsóknarmennirnir sjálfir margir hverjir stórvafasamir, eins og menn geta kynnt sér með lestri heimildanna í neðanmálsgrein [6].

2) 'Mynda hommar og lesbíur alltaf kjarna á milli sín því þau eru minnihlutahópar?' eftir Rannveigu Traustadóttur, dósent í uppeldis- og menntunarfræði við HÍ. Þar segir orðrétt: "Þótt afar erfitt sé að segja nákvæmlega til um fjölda samkynhneigðra, meðal annars vegna þess að samkynhneigð er skilgreind á mismunandi vegu í ólíkum rannsóknum, þá er yfirleitt miðað við að um 10% fólks sé samkynhneigt" (sic!). Þarna er þetta sett fram algerlega gagnrýnislaust og ekki orð um það meir! Sami höfundur hefur víðar haldið þessu fram og treyst á Kinsey og rangtúlkanir hans, jafnvel með afdrifaríkum afleiðingum fyrir umfjöllun um þessi mál í stjórnkerfinu. Verður það efni í frekari afhjúpunarskrif á næstunni.

3 athugasemdir

Athugasemd from: John Carsten
John Carsten

En hvar eru rokin fyrir tvi ad rannsoknir Kinsey´s séu vitleysa? Er tad af tvi ad Kinsey var tvikynhneigdur? Jon Valur getur ekki sakad adra um roksemdaleysu tegar hann heldur henni vid sjalfur!!

21.01.06 @ 23:06
Athugasemd from: John Carsten
John Carsten

Tad sem eg meinti var ad vid getum alveg eins vefengt rannsoknir hinna. Tad gaeti verid folk eins og Jon Valur sem er ad reyna ad syna fram a og vefengja 10% toluna!

21.01.06 @ 23:09
Jón Valur Jensson

Æ, æ, æ, Carsten minn, ertu svona illa lesinn?

Ég nenni nú varla að elta ólar við þetta innskot þitt á þessari stundu, léttvægi þess blasir við augum manna, sem lásu þessa grein mína og hina (’Hversu algeng …‘). Þ.e.a.s.: það blasir við, að sú staðreynd að Kinsey var tvíkynhneigður myndar ekki uppistöðuna í þeirri afgerandi og ‘devastating’ gagnrýni, sem ‘rannsóknir’ hans fengu, né í mínum eigin gagnrýnis-athugasemdum.

Viljir þú standa á yfirlýstan hátt með siðferði þessa manns og ‘rannsóknar’aðferðum hans, þ.m.t. hneykslanlegri meðferð á smábörnum, segðu mér þá: Geta vinir þínir í hópi samkynhneigðra virkilega fellt sig við það smekkleysi þitt?

En fjöldi nýlegra rannsókna og manntalsniðurstaðna afsanna 10%-goðsögnina um samkynhneigða gersamlega (sjá tilvísanir í þessum nefndu tveimur greinum mínum). Kinsey sjálfur hélt þessu ekki einu sinni fram! heldur sporgöngumenn hans. 10 prócentin hans náðu aðeins til homma, ekki lesbía (sem skv. rannsóknum almennt eru miklu færri en hommar). Og þetta var 10% hjá hommunum einungis í því formi, að af úrtaki hans reyndust 10% einhvern tímann um a.m.k. 3ja ára skeið hafa haft samkynhneigð. En þar fyrir utan var úrtakið sjálft sviksamlega selektíft og gersamlega ómarktækt (fjórðungurinn fangelsislimir og annað eftir því). Ef þú lýsir yfir trú þinni á þessa Kinsey-goðsögn, þá segi ég og rita: Mikil er trú þín, maður!

22.01.06 @ 01:12
Ábyrgðarmaður: Jón Valur Jensson guðfræðingur.

Önnur blogg sama höfundar: [jonvalurjensson.blog.is]
[jvj.blog.is]
[krist.blog.is] (þátttaka)
[lifsrettur.blog.is]

Leit

  XML Feeds

multiblog platform