« Í skugga Hitlers og Himmlers: Um útrýmingu „undirmenna“ og ræktun „ofurmenna“Yður ber að fæðast að nýju. »

24.04.06

  14:17:02, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 680 orð  
Flokkur: Ritningarlestur dagsins

Þeir fóru og prédikuðu hvarvetna

Guðspjall Jesú Krists þann 25. apríl er úr Markúsarguðspjalli 16. 14-20

14 Seinna birtist hann þeim ellefu, þegar þeir sátu til borðs, og ávítaði þá fyrir vantrú þeirra og harðúð hjartans, að þeir hefðu ekki trúað þeim, er sáu hann upp risinn. 15 Hann sagði við þá: „Farið út um allan heim, og prédikið fagnaðarerindið öllu mannkyni. 16 Sá sem trúir og skírist, mun hólpinn verða, en sá sem trúir ekki, mun fyrirdæmdur verða. 17 En þessi tákn munu fylgja þeim, er trúa: Í mínu nafni munu þeir reka út illa anda, tala nýjum tungum, 18 taka upp höggorma, og þó að þeir drekki eitthvað banvænt, mun þeim ekki verða meint af. Yfir sjúka munu þeir leggja hendur, og þeir verða heilir.“ 19 Þegar nú Drottinn Jesús hafði talað við þá, var hann upp numinn til himins og settist til hægri handar Guði. 20 Þeir fóru og prédikuðu hvarvetna, en Drottinn var í verki með þeim og staðfesti boðun þeirra með táknum, sem henni fylgdu.]

Hugleiðing
Í mörgum kirkjum Vesturkirkjunnar og Austurkirkjunnar er 25. apríl valinn til að heiðra minningu Markúsar guðspjallamanns. Guðspjall hans er styst þeirra allra og að mörgu leyti sérstakt og virðist vera þeirra elst. Það er ritað á grísku og líklega í Rómaborg þar sem Markús var samstarfsmaður Péturs. Það er þannig bæði skrifað fyrir frumkirkjuna í Róm og heiðna menn. Sumir hafa velt því fyrir sér hvers vegna guðspjallamennirnir voru fjórir, en ekki sex eða átta, eða þá bara tveir. Þegar á tímum hins Gamla sáttmála opinberaði Guð guðspjallamennina fjóra með hinum fjórum stólpum í innganginum að tjaldbúð Móse. Þetta hlið var að mörgu leyti einstakt í sinni röð:

Fyrir hliði forgarðsins skal vera tuttugu álna dúkbreiða af bláum purpura, rauðum purpura, skarlati og tvinnaðri baðmull, glitofin, með fjórum stólpum og fjórum undirstöðum (2 M 27. 16).

Breidd inngangsins gefur til kynna að enginn muni fara villu vegar sem gengur hingað inn ef hann fylgir boðorðum Guðs, hinn helga veg Guðs: „Þar skal vera braut og vegur. Sú braut skal kallast brautin helga. Enginn sem óhreinn er skal hana ganga. Enginn sem hana fer, mun villast, jafnvel ekki FÁRÁÐLINGUR“ (Jes 35. 8). Prestar Arons urðu að skríða á fjórum fótum undir dúkbreiðuna: Þetta er áminnin um auðmýktina frammi fyrir hinum Lifandi Guði.

Þessi helgi vegur er ekki fyrirhugaður hinum holdlega manni og vekur bæði meðaumkun og fyrirlitningu hins synduga eðlis sem er fjötrað í viðjar fáviskunnar, áhugaleysisins og gleymskunnar. Slíkar sálir hafa verið leiddar afvega í skóglendi skynrænna tálsýna og mennskra hugsmíða: Þær eru fórnardýr þessara þriggja miklu risa hjartans, eins og eyðimerkurfeðurnir nefndu þessa lesti sálarinnar: Fáviskuna, áhugaleysið og gleymskuna. Það er náðarkraftur guðspjallanna sem leggur þessa risa hjartans að velli og þá komum við auga á safírblámann, eins og Dante lýsti honum í hinum Guðdómlega gleðileik (Divina commedia):

Nú sá ég hvar úr sorta hátt sig teygði
hinn safírblái ljómi á himins enni
og dýrðarsviðið fyrsta augum eygði. [1]

Sú sál sem hefur verið leyst úr viðjum fáviskunnar, gleymskunnar og áhugaleysisins sér hinn helga veg þegar hún mænir til Síonar, borgar gleðinnar. Hún gerir sér ljóst að hún hefur þegar orðið aðnjótandi náðar og að það sé hér sem „hinn halti mun létta sér sem hjörtur og tunga hins mállausa fagna lofsyngjandi, því að vatnslindir spretta upp í eyðimörkinni og lækir á öræfunum“ (Jes 35. 6).

[1]. „Hreinsunareldurinn,“ I. 13-16. Í þýð. Guðmundar Böðvarssonar.

No feedback yet