« Vefrit KarmelsRitningarlesturinn 12. september 2006 »

12.09.06

  07:46:12, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 919 orð  
Flokkur: Hugleiðingar

Þegar dauðinn knýr dyra

Þegar einhver ástvina okkar kveður þetta líf beinir það hugsunum okkar ósjálfrátt að okkar eigin dauðastund. Og eitt er víst að öll munum við deyja, við getum sagt að þetta sé eitt af því fáa sem við getum gengið út frá sem vísu í jarðneskri tilveru okkar. Þetta er mér sjálfum ofarlega í huga í þessari viku vegna þess að einn bræðra minna andaðist í upphafi þessarar viku.

Þá er hollt að hafa hina silfurtæru uppsprettu guðspjallanna í huga og hlusta á uppfræðslu þá sem Drottinn veitir okkur um þessa óhjákvæmilegu stund, og þá uppfræðslu sem hin almenna (kaþólska) og postullega kirkja veitir okkur í þessum efnum. Ég hef áður vikið að þeim kirkjum hér á Íslandi sem tóku að boða andatrú (spíritisma) í upphafi tuttugustu aldarinnar. Jafnframt þessu breyttu þær sjálfum kristindóminum í hreinan afkáraskap: Þær svo að segja gerðu hann að eins konar konfektkassa sem fólk getur gengið í og þar sem það velur sér þá mola sem því eru geðfelldir. Því miður hafa fjölmargir Íslendingar gert þessa trú að sinni.

Þetta er alls ekki kenning Drottins fremur en hinnar almennu kirkju. Drottinn boðar okkur dóm sökum synda okkar: Hann boðar annars vegar himnavist og hins vegar dvöl í víti sem vara mun að eilífu. Okkur er hollt að hafa þetta sífellt í huga í okkar eigin breytni á jörðu. Við sem tilheyrum kaþólsku kirkjunni gerum okkur þetta ljóst sem má þakka prestunum okkar og biskupum sem standa stöðugt við hlið okkar frá upphafi lífs okkar á jörðu til dauðastundarinnar.

Þetta á sérstaklega við um banaleguna og dauðastundina. Kaþólskur prestur leggur á sig umtalsvert erfiði – iðulega erfið ferðalög um hávetur – til að standa við hlið hinna trúuðu þegar þessi stund rennur upp. Hann veitir hinum deyjandi syndaaflausn og hinstu smurningu áður en viðkomandi gengur á fund Drottins og dómara lifenda sem dauðra.

Þetta gera trúfastir prestar Þjóðkirkjunnar einnig. Vinur minn sem var í Þjóðkirkjunni og andaðist fyrir nokkrum árum átti erfiða banalegu. Hún stóð yfir í sex vikur og iðulega var hann meðvitundarlaus. Sóknarpresturinn hans kom reglulega til hans og bað fyrir honum og undirbjó fyrir dauðann. Allir prestar ættu að taka sér þennan blessaða guðsþjón til fyrirmyndar.

Í dag heiðrar kirkjan hið heilaga Nafn hinnar blessuðu Meyjar. Það hefur verið haft í hávegum í kirkjunni frá upphafi vega og þannig ákölluðu feðurnir í egypsku eyðimörkinni nafn hennar um hjálp þegar á fjórðu öld samkvæmt skrifuðum heimildum. Í hugleiðingu heil. Ágústínusar í dag sem hann ritaði til konu einnar, Proba að nafni, víkur hann að áköllum eyðimerkurfeðranna. Sjálf var Proba einhver menntaðasta konan í Rómaveldi á sínum dögum og ekkja Sextusar Petróníusar Probusar, konsúls og tilheyrði einni auðugustu og valdamestu ættinni í Róm. Hin stuttu áköll eyðimerkurfeðranna hlutu nafnið skotbænir með skírskotum til þessara skrifa heil. Ágústínusar: Við skjótum þeim líkt og örvum í Hjarta Guðs, og eins og heil. Teresa frá Avíla komst að orði: Að sjálfsögðu skýtur hann þeim til baka vættum í elsku sinni!

Ein slík skotbæn er ákall Vesturkirkjunnar: Heilaga María Guðsmóðir. Bið þú fyrir oss nú og á dauðastund vorri! Og bræður okkar og systur í Austurkirkjunni segja: Heilaga mey og Guðsmóðir, bjarga okkur! Hvers vegna? Það er til að hún hjúpi okkur undir móðurfaldi sínum og þetta var það sem hún sagði sjálf við astekann Juan Diego í Mexíkóborg árið 1531: „Þarft þú nokkuð að óttast, litli sonurinn minn, hjúpa ég þig ekki í vernd móðurfalds míns?“

Þessi orð eru huggunarrík á stund dauðans og að henni lokinni þegar við göngum í gegnum tollstöðvar freistinga djöflaherfylkjanna. Þá kemur okkar blessaða Móðir og hjúpar okkur í ljóshjúpi náðar sinnar vegna þess að hún er full náðar. Og þeir sem tömdu sér að ákalla hana um hjálp í þessu lífi bregðast ósjálfrátt við með sama hætti eftir líkamsdauðann. En hætt er við að þeir sem ánetjuðust tálsýnum Satans í þessu jarðneska lífi muni bregðast við með sama hætti eftir líkamsdauðann þegar hann leiðir sálinni fyrir sjónir lostafullar ímyndir gulls og kynlífsóra. [1]

„Því hvar sem fjársjóður þinn er, þar mun og hjarta þitt vera“ (Mt 6. 15).

Kristindómurinn er dauðans alvara: Spurning um eilíft líf eða eilífan dauða. Hlustið ekki á falsboðendur orðsins. Að öðrum kosti stefnið þið lífi ykkar í voða: HINU EILÍFA LÍFI:

EINA HRÆRING HINS ALHELGA HJARTA JESÚ ER AÐ UPPRÆTA SYNDINA OG LEIÐA SÁLIRNAR TIL SÍNS HIMNESKA FÖÐUR – HL. ELÍSABET AF ÞRENNINGUNNI.

[1]. Sicut þeim manni verður harla þungt að svimma, ef hann vill eigi kasta fötum sínum áður af sér, hvort sem hann svimmur í sjó eða vatni, þá er þó torveldlegri öndinni að komast með syndirnar í loftið upp – Hómilíubók, bls. 28.

No feedback yet