« Ritningarlesturinn 16. september 2006Ritningarlesturinn 15. september 2006 »

15.09.06

  08:44:16, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 717 orð  
Flokkur: Hugleiðingar

Táknið sem móti verður mælt (sjá Ritningarlestur dagsins 15. september)

Undursamlegt er það, blíða Móðir, að heimsækja þig í lágreistum og fátæklegum heimkynnum þínum í Nasaret. Þar skríður barnið þitt litla, hann Jesús, skríkjandi um á gólfinu og leikur sér að hjólahestinum sem Jósef pabbi hans smíðaði handa honum. Og allt einkennist andrúmsloftið af þeim ótta elskunnar sem Drottinn sagði að myndi fylla hann (Jes. 11. 3 – Septuagintan). Ekkert styggðaryrði var mælt á þessu fátæklega heimili vegna þess að öll glædduð þið elsku ykkar í hvers annars garð og óttuðust aðeins eitt: Það sem gæti kælt hana. Og jafnskjótt og Jósef kom af verkstæðinu og þið höfðuð matast hlýddi Jesús honum strax þegar Jósef bað hann að fara að sofa vegna þess að hann var hlýðinn Sonur, bæði gagnvart sínum himneska Föður og staðgengli hans á jörðu: Jósef. Það var af þessari ástæðu sem heil. Teresa frá Avíla sagði að árnaðarbænir til heil. Jósefs væru svo máttugar vegna þess að rétt eins og á jörðinni gæti Jesús aldrei neitað honum um neitt á himnum. Þetta markaði upphafið að hennar eigin heilagaleika.

Hversu ólíkt er ekki allur heimilsbragurinn í húsi trésmiðsins í Nasaret þeim sem tíðkast í alræðisríkjum! Hvar er móðir þín Olga litla sem þú elskaður svo heitt? Þú gerðir það sem þér var kennt að gera í skólanum: Þú framseldir hana í hendur öryggislögreglunnar. Ívan, hvar er hann pabbi þinn sem var þér alltaf svo góður og þú varst svo stoltur af? Hann bar beinin í útrýmingarbúðunum á Kolaskaganum vegna þess að þú gerðir það sem þér var kennt að gera í skólanum. Anna, hvar er hann Karl pabbi þinn? Hann snéri aldrei til baka frá Stalíngrad þrátt fyrir að útvarp „foringjans mikla“ segði þér og mömmu þinni að hinn ósigrandi her hans væri að vinna sigur um jólin árið 1943.

En að nýju rís alræðisvaldið upp, alræðisvald veraldarhyggjunnar. Lög eru sett og reglugerðir samþykktar sem miðast við að ryðja hinni heilögu fjölskyldu úr vegi: Tákninu sem móti verður mælt skal rutt úr vegi vegna þess að það ógnarvald „sem setur sig á móti Guði“ (2Þ 2. 4) ríkir nú þegar í hjörtum mannanna. Hvað dvelur, heilaga Móðir? Hversu langt nær lögleysið. Segðu mér, Móðir, hvað dvelur?

Í leyndardómi messunar hljómar svar þitt í þögn míns eigin hjarta. Þú beinir augum mínum til Íkonu Guðsmóðurinnar frá Jasna Gora (Ljósafelli). Hvað viltu segja mér, heilaga Móðir? Eins og á öllum öðrum íkonum af þér sem Vegvísan (Hodigitria) beinir þú hendi þinni til Sonar þíns og segir: Horfið til hans! Og ég horfi. Hvað sé ég? Litla Jesúbarnið beinir sinni eigin hendi að þínu Flekklausa Hjarta. Ég skil, það er þetta sem mun gerast í fyllingu þess tíma sem Faðirinn hefur fyrirhugað frá því „áður en heimurinn var grundvallaður“ (Ef 1. 4).

Logi elsku þíns Flekklausa Hjarta mun blinda Satan og svartengla hans!

Þú hefur gert þetta sama áður, heilaga Móðir á Tepeyachæðinni í Mexíkóborg árið 1531. Hvílíkt blóðbað hefði ekki orðið ef óvígur her Spánverjanna hefði hafið vopn sín gegn Astekunum. En þegar þú komst, heilaga Móðir, féllust vígreifum hermönnum hendur og Astekarnir streymdu til Sonar þíns milljónum saman! Og í gegnum angist mennskrar örvæntingar hljómar svar þitt til Astekans Juan Diego og endurómaði í milljónum mannshjartna:

Kæri litli sonur! Ég elska þig. Þú skalt vita með vissu að ég er hin fullkomna og ætíð mey María, móðir hins sanna Guðs . . . Hlustaðu á og láttu þetta gagntaka hjarta þitt . . . Vertu áhyggjulaus og ekki láta sorgina buga þig. Þú skalt hvorki óttast andstreymi, angist eða sársauka. Er ég ekki lífsuppspretta þín? Ert þú ekki í hjúpi kyrtils míns? Hvílir þú ekki í faðmi mínum? Þarfnast þú nokkurs meira?

Heilaga Mey og Guðsmóðir María, græð mein vor hin stóru.

No feedback yet