« Hin holdlegu augu og það andlega (sjá Jb 42. 5 og Lk 24. 45)„Sonur þinn lifir.“ »

27.03.06

  13:44:24, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 594 orð  
Flokkur: Ritningarlestur dagsins

Tak rekkju þína og gakk!

Guðspjall Jesú Krists þann 28. mars er úr Jóhannesarguðspjalli 5. 1-16

Þessu næst var hátíð Gyðinga. Þá fór Jesús upp til Jerúsalem. Við Sauðahliðið í Jerúsalem er laug, sem kallast á hebresku Betesda. Þar eru fimm súlnagöng. Í þeim lá fjöldi sjúkra manna, blindra, haltra og lamaðra [sem biðu hræringar vatnsins. En engill Drottins fór öðru hverju niður í laugina og hrærði vatnið. Sá sem fyrstur fór ofan í eftir hræring vatnsins, varð heill, hvaða sjúkdómur sem þjáði hann.] Þarna var maður nokkur, sem hafði verið sjúkur í þrjátíu og átta ár. Jesús sá hann, þar sem hann lá, og vissi, að hann hafði lengi verið sjúkur. Hann segir við manninn: „Viltu verða heill?“ Hinn sjúki svaraði honum: „Herra, ég hef engan til að láta mig í laugina, þegar vatnið hrærist, og meðan ég er að komast, fer annar ofan í á undan mér.“ Jesús segir við hann: „Statt upp, tak rekkju þína og gakk!“ Jafnskjótt varð maðurinn heill, tók rekkju sína og gekk. En þessi dagur var hvíldardagur, og Gyðingarnir sögðu við hinn læknaða: „Í dag er hvíldardagur. Þú mátt ekki bera rekkjuna.“ Hann svaraði þeim: „Sá sem læknaði mig, sagði við mig: ,Tak rekkju þína og gakk!'“ Þeir spurðu hann: „Hver er sá maður, sem sagði þér: ,Tak hana og gakk'?“ En læknaði maðurinn vissi ekki, hver hann var, því að Jesús hafði leynst brott, enda var þröng á staðnum. Nokkru síðar hitti Jesús hann í helgidóminum og sagði við hann: „Nú ert þú orðinn heill. Syndga ekki framar, svo að eigi hendi þig annað verra.“ Maðurinn fór og sagði Gyðingum, að Jesús væri sá sem læknaði hann. Nú tóku Gyðingar að ofsækja Jesú fyrir það, að hann gjörði þetta á hvíldardegi.

Hugleiðing
Sú saga er sögð að eitt sinn hafi einn hinna heilögu komið í Páfagarð og sagt: „Hér skortur hvorki silfur né gull.“ Páfi leit á hann og sagði: „Rétt er það, en við segjum heldur ekki lengur eins og forðum: TAK REKKJU ÞÍNA OG GAKK!“ Vatnið gegnir mikilvægu hlutverki í þessari frásögn. Það skírskotar til móðu lifsvatnsins sem streymir frá hásæti Guðs og Lambsins (sjá Opb 22. 1-2). Þetta vatn ummyndar allt sem það kemst í snertingu við, lífgar og græðir. Jesús býður okkur sjálfan sig sem uppsprettu þessa lifandi vatns sem hann úthellti yfir lærisveina sína með náðargjöfum Heilags Anda. Við laugina í Betesda lá hjálparvana maður ofurseldur miskunn og mætti Guðs á vald. Og Jesús spyr hann: „Viltu verða heill?“ Dæmisagan víkur að aðstæðum okkar sjálfra. Hl. Teresa sagði að afar lærður maður hafi eitt sinn sagt við sig, að þeir sem legðu ekki rækt við bænina væru farlama eða bæklaðir.“ Viltu í raun og veru verða heill, lesandi góður? Drottinn alls lífs mun alls ekki bregðast þér, fremur en manninum við laugina: „Tak rekkju þína og gakk! . . . „Nú ert þú orðinn heill. Syndga ekki framar, svo að eigi hendi þig annað verra.“

No feedback yet