« Kanadískur sigur fyrir kristið skoðunarfrelsiHvers vegna hné Drottinn niður undir krossinum? »

14.04.06

  14:08:27, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 652 orð  
Flokkur: Ritningarlestur dagsins

Það var aðfangadagur og hvíldardagurinn fór í hönd

Guðspjall Jesú Krists þann 15. apríl er úr Lúkasarguðspjalli 23. 50-56

Maður er nefndur Jósef. Hann var ráðsherra, góður maður og réttvís og hafði ekki samþykkt ráð þeirra né athæfi. Hann var frá Arímaþeu, borg í Júdeu, og vænti Guðs ríkis. Hann gekk til Pílatusar og bað hann um líkama Jesú, tók hann síðan ofan, sveipaði línklæði og lagði í gröf, höggna í klett, og hafði þar enginn verið áður lagður. Það var aðfangadagur og hvíldardagurinn fór í hönd. Konur þær, er komið höfðu með Jesú frá Galíleu, fylgdu eftir og sáu gröfina og hvernig líkami hans var lagður. Þær sneru aftur og bjuggu ilmjurtir og smyrsl. Hvíldardaginn héldu þær kyrru fyrir samkvæmt boðorðinu.

Hugleiðing
Nú í kyrruvikunni sá ég mynd á National Geography Channel þar sem fjallað var um krossfestingar Rómverja út frá fræðilegu sjónarhorni. Þar kom meðal annars fram að þeim krossfesta var ætlað að lifa sem lengst. Venjulega stóð dauðastríðið yfir í 6 tíma að minnsta kosti. Ísraelskur fornleifafræðingur greindi frá því að fyrir nokkrum árum hefði fundist beinagrind af krossfestum manni, sú eina fram til þessa. Sjá mátti að naglar höfðu verið reknir í gegnum hendur mannsins, eins og greint er frá í guðspjöllunum. Fótstokkur var hafður á krossinum til að draga dauðastríðið á langinn. Vísindamaður einn í New York hefur gert margítrekaðar tilraunir (um 100 sinnum) á að krossfesta menn. Ekki í bókstaflegri merkingu, heldur klæðast þeir sérstökum leðurhönskum sem taka þátt í tilraununum fyrir „krossfestinguna.“ Rannsóknir hans hafa leitt í ljós að án fótastokksins örmagnast stæðilegustu menn á 5 mínútum, álagið verður svo mikið af að hanga einungis á höndunum. Yfirleitt voru hinir krossfestu látnir hanga á krossinum þar til hræfuglar höfðu hreinsað holdið að mestu af beinagrindunum, eða þá að líkunum var einfaldlega hent á sorphauga borgarinnar. Fjallað var um gerð grafhýsa á tímum Jesú og vikið að upprisu hans. Eftir margvíslegar bollaleggingar var niðurstaðan sú, að allt grundvallaðist þetta á trú þegar til alls kæmi.

Jesús var forðað frá þeim örlögum sem biðu flestra eftir krossfestinguna þegar Jósef frá Arímaþeu bað um að koma líkama hans fyrir í eigin grafhýsi. Hver var hann þessi Jósefus? Lúkas segir að hann hafi átt sæti í Sanhedrín og ekki verið sammála niðurstöðum þess þegar það kvað upp dauðadóminn yfir Jesú. Hvers konar maður var hann? Lúkas greinir okkur frá því að hann hafi verið „góður maður og réttvís“ og hann var auðugur. Hann uppfyllti þannig spádómsorðin: „Og menn bjuggu honum gröf meðal illræðismanna, legstað með ríkum“ (Jes 53. 9). Leyndardómur Krists þar sem hann liggur dáinn í grafhýsinu opinberar okkur hina miklu sabbatshvíld Guðs eftir að Drottinn ávann okkur frelsi með píslum sínum á krossinum þar sem hann „kom öllu í sátt við sig“ (Kól 1. 20). Lifir þú í þessum sáttmála lífsins, kæri lesandi eða ekki? Svarið við þessari spurningu er mikilvægt vegna þess að Kristur hét öllum þeim sem trúa á hann eilífu lífi. Kirkjufeðurnir líktu heimi fallvaltleikans hins vegar við eilíft grafhýsi heljar. Þeir sem kjósa sér það að íverustað munu liggja þar að eilífu líkt og velfaldir smyrlingar fornegypskra faraóa.

„Drottinn! Styrktu trú okkar svo að okkur auðnist að kynnast krafti upprisu þinnar og lifa í þeirri von að við munum sjá þig auglitis til auglitis.“

No feedback yet