« „Og hann gjörði þar ekki mörg kraftaverk sökum vantrúar þeirra“ (Mt 13. 58)Svar til Grétars Einarssonar. »

01.08.07

  06:44:09, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 590 orð  
Flokkur: Bænalífið, Kristselskan

Það er í Kristselskunni sem Ritningarnar ljúkast upp fyrir okkur í Heilögum Anda

Nafni minn Jón Valur þótti ég taka of djúpt í árina þegar ég komst svo að orði: „Að öðrum kosti köfnum við í stækju Satans.“ Hér vék ég að mætti hinnar sönnu eða hreinu bænar. Kristselskan er forsenda hennar og þetta sjáum við opinberað okkur með áþreifanlegum hætti þegar lærisveinarnir voru á leiðinni til Emmaus, eins og greint er frá þessu atviki í Lúkasarguðspjallinu. Lærisveinarnir sögðu: „Brann ekki hjartað í okkur, meðan hann talaði við okkur á veginum og lauk upp fyrir okkur Ritningunum?“ (Lk 24. 32).

Það er Heilagur Andi sem opinberar okkur Kristselskuna og þá brennur mannshjartað í elsku til Drottins og allra manna, já, jafnvel skordýra! Við getum ekki borið kennsl á hann eða lært að þekkja hann nema í náð Heilags Anda. Og það er einungis með þessum hætti sem sannleikur Ritninganna lýkst upp fyrir okkur. Að öðrum kosti eru þær einungis lesnar með hyggjuviti mennskra hugsmíða og slík afstaða er röng. Í heilagri Ritningu er fjársjóðurinn fólginn í jörðu sem Jesú benti okkur á: Perlan dýrmæta sem er dýrmætari öllu öðru í alheiminum.

Í gríska frumtextanum er gripið til orðsins „nous,“ en það skírskotar til innsta og dýpsta eðliseiginleika hugsskots og hjarta mannsins, til Guðsímyndar hans (1M 1. 26). Hér er um innstu og andlegustu eigind mannssálarinnar að ræða og það er Heilagur Andi sem opinberar okkur þennan sannleika í krafti náðar sinnar í bæninni. Það er með þessum hætti sem við verðum að sönnum guðfræðingum. Menn geta verið með próf í guðfræði, en þetta er ekki það sama og að læra að þekkja Drottinn og elsku hans í Heilögum Anda.

Það er Guðsmóðirin í hlutverki sínu sem Vegvísan (Hoidegetria) sem leiðir okkur fyrir sjónir hvað býr þessum leyndardómi að baki, þessari guðsgjörningu. Það er auðmýktin þegar Heilagur Andi kennir okkur að lúta vilja Guðs. Þá á getnaðurinn sér stað í mannssálinni: Hinn eilífi getnaður Orðsins. Stærilát og hrokafull sál getur aldrei lært að þekkja Drottin fremur en Kristselskuna. Þetta er sökum þess að stærilætið og hrokinn eru uppspretta allra synda og brotthvarfs Guðs úr lífi mannsins. Þetta mun reynslan leiða í ljós.

Þegar mannshjartað tekur að brenna í Kristselskunni tekur maðurinn að úthella tárum vegna allra þeirra sem beittir eru misrétti á jörðinni. Hann grætur vegna þess milljarðs barna sem myrt hafa verið á síðustu tveimur áratugum. Hann grætur vegna alls þess fjölda sálna sem vísað er til hins ysta myrkurs vegna stærilætis síns í vantrú hroka mennskra hugsmíða. Hann tekur undir bæn Krists á krossinum: „„Faðir, fyrirgef þeim, því að þeir vita ekki, hvað þeir gjöra“ (Lk 23. 34). Þeir sem hafa ekki lokið upp hjörtum sínum fyrir Kristselskunni lifa í myrkri óvinarins eða „stækju“ hans vegna þess að þeir hafa ekki lært að þekkja Guð.

Engin náðargjöf er jafn dýrmæt kristinni sál eins og hin sanna bæn þegar hjartað brennur í Kristselskunni vegna þess að hún er ávallt tiltæk og við getum beðið alls staðar og ávallt. Þetta mun reynslan leiða í ljós, reynsla hinna heilögu frá örófi alda.

1 athugasemd

Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Mig langar að víkja örfáum orðum til viðbótar að þeirri bæn sem Heilagur Andi kennir okkur með innblæstri sínum.

Stólpar slíkrar bænar eru þrir:

ELSKA GUÐS

ELSKA OKKAR Á GUÐI

ELSKA GUÐS OG OKKAR Á MEÐBRÆÐRUM OKKAR

Heil. Silúan frá Aþosfjalli sagði: „Bróðir okkar (og systir) er líf okkar.“ Með þessu vildi hann segja að náungakærleikurinn væri gildisviðmiðun sannrar og hreinnar bænar. Ef við elskum meðbræður okkar og systur er bæninn sannarlega innblástur Heilags Anda, eða með orðum heil. Jóhannesar guðspjallamanns: „Ef einhver segir: „Ég elska Guð,” og hatar bróður sinn, sá er lygari. Því að sá sem elskar ekki bróður sinn, sem hann hefur séð, getur ekki elskað Guð, sem hann hefur ekki séð. Og þetta boðorð höfum vér frá honum, að sá sem elskar Guð á einnig að elska bróður sinn“ (1Jh 4. 20-21).

Óaðskiljanlegur hluti þessarar elsku er að boða sannleika Drottins og andmæla „sannleika“ óvinar alls lífs og föður lyginnar, en nafn hans er einnig: DAUÐINN.

02.08.07 @ 07:24