« AKITA Í JAPAN 1973-1981: SKELFILEG VARNAÐARORÐ (10)BANNEUX Í BELGÍU 1933: MÓÐIR HINNA ANDLEGU SNAUÐU (8) »

09.01.07

  08:39:43, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 1382 orð  
Flokkur: Opinberanir Maríu Guðsmóður sem njóta kirkjulegrar viðurkenningar

SÝRACUSA Á SIKILEY 1953: HIN GRÁTANDI GUÐSMÓÐIR Á HEIMILI JANNUSOHJÓNANNA (9)

syracuse_1

Þau Antonina Jannuso og eiginmaður hennar, Angelo Jannuso, voru nýlega kvænt og ekki vel stæð fjárhagslega og bjuggu því tímabundið hjá móðir hans og bróðir í Sýracusa. Í reynd voru þau dæmigert nútímafólk. Antonina var „pínulítið“ trúuð en Angelo átti sér aðra trú sem stangaðist á við nafn það sem hann bar og hann hafði hlotið í skírninni. Á áratugunum eftir síðari heimstyrjöldina átti kommúnistaflokkurinn sterk ítök í hugum fólks á Sikiley og Angelo Jannuso var ákafur stuðningsmaður Togliattis og satt best að segja ekki góður kaþólikki. Meðal brúðkaupsgjafanna var veggmynd úr gipsi af hinu Flekklausa hjarta Maríu sem fjöldaframleitt hafði verið í Toskana. Þegar Antonina varð þess áskynja að hún var vanfær tók að bera á blóðsýkingu (toxemia) sem lýsti sér í krampaköstum og tímabundinni blindu. Læknirinn ráðlagði henni að dvelja sem mest í rúminu meðan á meðgöngunni stæði. Antonina leitaði á náðir bænarinnar sem kom Angelo harla spánskt fyrir sjónir.

Að morgni laugardagsins 29. ágúst sem var laugardagur og áttadagurinn eftir Hátíð hins Flekklausa hjarta Maríu lág Antonina sárþjáð í rúminu þegar hún tók eftir því sér til mikillar furðu að gipsmyndin tók að úthella tárum. Eða með orðum Antoninu sjálfrar:

„Ég galopnaði augun og starði á mynd Madonnunnar yfir rúminu mínu. Mér til mikillar furðu sá ég að hún var að gráta. Ég kallaði þegar í stað á Grazie, mágkonu mína og á frænku mína Sgarlata sem komu þegar á vettvang. Í fyrstu héldu þær að hér væri um skynvillu að ræða af minni hálfu sökum veikinda minna. En þegar ég þráaðist við og bað þær að ganga að myndinni til að skoða hana nánar, þá sáu þær báðar í raun og veru að Madonnan var að gráta og að tárin streymdu niður vanga hennar niður í rúmið mitt. Þær urðu skelfingu lostnar og tóku myndina og fóru með hana út og báðu nágrannana að staðfesta þetta sem þeir og gerðu . . .“

Allir meðlimir fjölskyldunnar voru kallaðir til og sáu einnig kraftaverkið. Antonina dvaldi hjá hinni blessuðu Mey tímunum saman og horfði á kraftaverkið, jafnframt því sem hún þerraði tárin. Í fyrstu gerði hún þetta með vasaklút, en síðan bómullarklút. Madonnan grét þannig í fjóra daga samfleytt frá 29. ágúst til 1. september hvað eftir annað og þúsundir pílagríma streymdu til Sýracusa til að bera þetta undur augum þegar fréttirnar tóku að spyrjast út. Þrír prestar komu á heimili þeirra Antoninu og Angelo á þessu tímabili og einn þeirra tilkynnti erkibiskupnum um atvikið.

TÁRIN VORU MENNSK TÁR SEM FJÓRIR VÍSINDAMENN STAÐFESTU

Þriðjudaginn 1. september kom erkibyskupinn síðan á fót nefnd sem skipuð var fulltrúum kirkjunnar, fjórum vísindamönnum og þremur öðrum málsmetandi mönnum. Þeir sömdu skýrslu undir eiði eftir að hafa rannsakað gipsmyndina og útilokuðu með öllu, að hér gæti verið um pretti að ræða. Meðan nefndin dvaldi á heimili Jannusohjónanna tók gipsmyndin að gráta að nýju, þannig að þeir gátu safnað sýnum af tárunum til efnagreiningar. Myndin var lítil og létt og gipslagið einungis um hálfur þumlungur að þykkt. Eftir að nefndarmennirnir höfðu lokið verki sínu hætti myndin að gráta.

Erkibyskupinn kom í eigin persónu daginn eftir til að afla sér upplýsinga og tala við vitni, eftir að fréttirnar fóru að berast út um lækningar. Baranzini erkibyskup kom aftur þann 8. september ásamt fylgdarliði presta til að biðja rósakransinn og til að útskýra fyrir fólki hvað tárin táknuðu. Hann komst svo að orði að hér væri um „tár hryggðar og örvæntingar að ræða, tákn til samfélags og menningar sem færi villu vegar.“

EFNAGREININGIN LEIDDI Í LJÓS AÐ
UM MANNSTÁR VAR AÐ RÆÐA

Þann 9. september lágu niðurstöður efnagreiningarinnar fyrir og staðfest var að vökvinn væri mannstár. Fréttirnar af atburðum þessar voru sendar Pizzardo kardínála og ritara Páfastóls í Róm þann 10. september.

Baranzini erkibyskup kom aftur þann 19. september til að ræða við mannfjöldann. Hann komst svo að orði að hér væri um móðurtár að ræða, móður sem gréti sökum ofsóknanna á hendur börnum sínum í Austurevrópu og fráfallsins frá trúnni á Vesturlöndum. Í september og október komu meira en milljón pílagrímar til Sýracusa að sjá gipsmynd hinnar blessuðu Meyjar sem komið hafði verið fyrir á viðeigandi stað.

Barzani erkibyskup fór síðan til Rómar þann 24. september og gekk á fund Píusar XII páfa þann 27. sama mánaðar. Í desembermánuði kom byskuparáð Sikileyjar síðan til fundar til að komast að opinberri niðurstöðu og formaður byskuparáðsins, Ruffini kardínáli, greindi frá hinni jákvæðu niðurstöðu byskuparáðsins með eftirfarandi yfirlýsingu:

„Byskupar Sikileyjar komu til reglulegs fundar í Palermó og hafa kynnt sér skýrslu hans ágæti, Ettore Baranzini erkibiskups í Sýracusa hvað áhrærir hina grátandi ímynd hins Flekklausa hjarta Maríu. Eftir að hafa vegið og metið af gaumgæfni þau gögn sem sjá má í upphaflegu greinargerðinni, hafa byskuparnir óhjákvæmilega komist að þeirri niðurstöðu, að ekki sé unnt að draga í efa að um grát hafi verið að ræða. Vér tjáum því þá ósk vora að slík vitrun hinnar himnesku Móður megi verða öllum innblástur til sáluhjálplegrar iðrunar og lífgefandi guðrækni hvað áhrærir hið Flekklausa Hjarta Maríu og að hafist verði handa um að reisa helgidóm til að varðveita minninguna um þetta kraftaverk.“

syrecuse_2

Eftir að Antonina Jannuso sá tárin hlaut hún fullkomna græðslu af hinni alvarlegu blóðsýkingu og ól heilbrigðan son þann 25. desember 1953. Það var Baranzini erkibyskup sem skírði barnið. Hvað áhrærir eiginmann hennar, Angelo, þá varð þessi „vitrun hinnar himnesku Móður honum til innblástur til sáluhjálplegrar iðrunar“ og trú hans glæddist að nýju. Þann 17. október 1954 samþykkti Píus páfi XII síðan helgi Vorrar Frúar í Sýracusa á Ítalíu.

Sambandið milli ímyndar hins Flekklausa Hjarta Maríu á gipsmynd Jannusohjónanna og hinna yfirskilvitlegu tára hennar og boðskaparins í Fatíma er augljós, eins og kirkjuleg yfirvöld vöktu athygli á. Píus páfi XII sá sig knúinn til að varpa þeirri spurningu fram, hvort fólk skyldi „hið yfirskilvitlega mál þessara tára“. Hin blessaða Mey lagði þannig áherslu á opinberun sína í La Salette og Fatíma, sem hún gerði síðan enn að nýju af sínu meiri alvöruþunga í Akita í Japan árið 1973, eins og vikið verður að síðar.

Eins og til að leggja enn frekari áherslu á lækningamátt hinna yfirskilvitlegu tára voru bútar úr baðmullarklútunum sem notaðir höfðu verið til að þurrka tár Madonunnar á heimil Jannusohjónanna sendir víða um heim og urðu fjölmörgum til líkamlegrar græðslu, einkum á Spáni. En það er þó einkum hin andlega græðsla sem vegur þyngst vegna þess að tár Vorrar Frúar af Sýracusa bræddu helköld hjörtu margra þeirra sem misst höfðu sjónar af Guði.

Byggt á:

http://www.theotokos.org.uk/pages/approved/appariti/syracuse.html
http://www.marypages.com/syracuseEng.htm

No feedback yet