« Ritningarlesturinn 2. október 2006Ritningarlesturinn 1. október 2006 »

01.10.06

  13:30:47, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 1021 orð  
Flokkur: Hugleiðingar

Syndin

Í guðspjalli dagsins í dag – 1. október – er nauðsynlegt að gera smávægilega athugasemd við íslensku þýðinguna eða áherslumun á hinum helga texta, það er að segja á setningunum: „Hverjum þeim, sem tælir til falls einn af þessum smælingjum, sem trúa, væri betra að vera varpað í hafið með mylnustein um hálsinn. Ef hönd þín tælir þig til falls, þá sníð hana af.“ Koinatextinn grípur til sagnorðsins skandalizo: að hvetja til syndar (Mt 18. 6, 8, 9), að leiða til fráfalls frá trúnni (Jh 6. 61). Nafnorðið skandalon þýðir snara, að veiða í snöru, að leiða í synd (Mt 13. 41; Rm 14. 13). Nær væri að þýða þessar setningar svo: „Hverjum þeim, sem hvetur einn af þessum smælingjum, sem trúa, til syndar, væri betra að vera varpað í hafið með mylnustein um hálsinn. Ef hönd þín leiðir þig til fráfalls frá trúnni, þá sníð hana af.“ „Þung er þessi ræða. Hver getur hlustað á hana?“ (Jh 6. 60).

Hvers vegna mælir Kristur þessi hörðu orð? Til þess að sálin „fari ekki til helvítis, í hinn óslökkvanda eld.“ Þrátt fyrir hitann er hér ekki beinlínis um neina sólarlandaferð að ræða! Fjarri því, og þetta ferðalag stendur ekki yfir í þrjár vikur, heldur varir að eilífu. Svona skelfileg er syndin og maðurinn ánetjast syndinni þegar hann glatar náð Heilags Anda. Að þessu víkur heilagur Páll í Fyrsta Korintubréfinu, það er að segja „að yður bresti ekki neina náðargjöf meðan þér væntið opinberunar Drottins vors Jesú Krists“ (1Kor 1. 7). Það er þetta sem ég hef lagt svo þunga áherslu á að undanförnu í umfjöllun minni um syndina og náðina. Þegar sálin lifir í náð er allt fagurt, gott og elskuríkt og hún ber skyn á Drottinn sinn og Ástmögur vegna þess að hann stendur þeim afar nærri sem játa syndir sínar og gera bragarbót á lífi sínu sem er eitt og hið sama og að segja skilið við fyrra og syndsamlegt líf sitt og hlusta á það sem hann hefur fram að færa af fyllstu auðmýkt.

Í aldarspádómi sínum um endatímann talar heil. Nilos á Aþosfjalli [1] um „losta,“ þann „hórdóm, kynvillu,“ og „alls kyns hulin óhæfuverk og morð“ sem heltaka samfélag Antíkrists á endatímanum. „Á þessum tímum í framtíðinni [2] verður áhrifamáttur glæpa og siðleysis til þess að fólk verður svipt náð Heilags Anda sem það meðtók í skírninni.“ Þetta er meinið: Svipt náð Heilags Anda vegna þess að það iðrast ekki gjörða sinna, er svipt lifandi samfélagi við Lifandi Guð. Hann bætir síðan við að „kirkja Guðs verður án guðhræddra og guðrækinna þjóna,“ það er að segja sem leiða hina trúuðu til syndar vegna villukenninga sinna. Óaðskiljanlegur hluti þessa hryggðarerindis villunnar er að þeir boða að losti, hórdómur, kynvilla og alls kyns hulin óhæfuverk og morð séu ekki SYND! Mér til fróðleiks – og væntanlega ykkur líka – fletti ég í gærkveldi upp á ummælum feðra og mæðra kirkjunnar frá fyrstu tímum, samtals um 60 tilvitnanir, þar sem kynvilla, syndin „gegn náttúrunni“ er fordæmd. Ég lauk þessari uppflettivinnu á heil. Katrínu frá Síena (14. öld) sem fordæmdi suma presta sinna eigin samtíðar fyrir að drýgja þessa synd. En vafalaust dregur Kristur alvöru málsins best fram sjálfur í eftirfarandi ummælum sínum:

„En það sem út fer af munni, kemur frá hjartanu. Og slíkt saurgar manninn. Því að frá hjartanu koma illar hugsanir, manndráp, hórdómur, saurlifnaður, þjófnaður, ljúgvitni, lastmælgi“ (Mt 15. 18, 19).

Hvar lærum við best um raunverulegt inntak syndarinnar og hvernig? Auk þess sem við getum gert það í silfurtærri uppsprettu guðspjallanna, þá uppfræðir Jesús okkur um þetta allt sjálfur í lífi náðarinnar í Heilögum Anda. Aðrir vilja hafa sinn háttinn á og þá verður orðið synd að teygjubandi afstæðishyggju póstmódernisma ofurfrjálsyndisguðfræðinnar. Enginn – ég segi enginn – kaþólsku prestur myndi til að mynda segja við verkfræðing, tæknifræðing smið eða einhvern annan starfsmann við Kárahnjúkavirkjun að hann fái ekki aflát vegna þess að hann hefði drýgt synd með því að starfa að þessum framkvæmdum! Hins vegar eru fósturdeyðingar synd líkt og önnur manndráp. Losti, kynvilla og hórdómur er synd líkt og aðrar syndir af völdum girnda. Og Drottinn boðar okkur að slíkar syndir leiði til eilífs dauða ef maðurinn iðrast ekki verka sinna, játar syndir sínar og hverfur frá fyrri breytni sinni. En þetta vita nú reyndar allir sannkristnir menn.

Okkur er öllum hollt að sitja við fætur Jesú með Maríu og hlusta á það sem hann hefur að segja þegar hann uppfræðir okkur og upplýsir um leyndardóma ríkis himnesks Föður síns í hreinleika þess hjarta sem hafnað hefur syndinni.

[1]. http://www.kirkju.net/index.php/jonrafn/2006/08/18/p621
[2]. Allt má rekja þetta til þess að Antíkristur vill koma í stað Drottins og verða stjórnandi alheimsins og hann mun gera kraftaverk og undur. Hann mun einnig gefa vansælum manni öfugsnúna þekkingu þannig að hann mun uppgötva aðferð til þess að menn geti talað saman úr einu heimshorninu til annars. Á þessum tímum munu menn einnig fljúga um loftin eins og fuglarnir og kafa niður í hafdjúpin líkt og fiskar. Og þegar þeim hefur auðnast þetta allt, þá mun þetta ógæfusama fólk verja tíma sínum í munaði án þess að þessar vesælu sálir geri sér ljóst, að þetta eru blekkingar Antíkrists, lögleysingjans!

No feedback yet