« Guðfræðiprófessor á hálum ísVefrit Karmels »

25.01.06

  22:02:06, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 452 orð  
Flokkur: Bænalífið

Bæn Leós páfa XIII.

Það var þann 13. október árið 1864 sem Leó páfa XIII. opinberaðist í sýn 100 ára tímaskeið þar sem vald Satans næði hámarki. Þetta tímaskeið var tuttugasta öldin. Páfinn hné skyndilega niður eftir að hafa sungið heilaga messu og missti meðvitund. Viðstaddir töldu hann hafa fengið hjartaáfall eða slag. Að dágóðri stund liðinni eftir að hann tók að jafna sig sagði hann nærstöddum, að sér hefði brugðið svo mjög þegar hann sá alla þá tortímingu siðrænna og trúarlegra gilda sem ríða myndi yfir heimsbyggðina: „Hversu skelfileg var ekki þessi sýn sem bar mér fyrir augu.“ Eftir þetta atvik samdi hann sérstaka bæn og ákall til erkiengilsins Mikjáls sem hann bauð öllum prestum að biðja í lok sérhverrar messu:

Heilagur Mikjáll erkiengill! Veittu okkur vernd í átökunum miklu. Veittu okkur vernd gegn slægð og snörum djöfulsins. Við biðjum þig auðmjúklegast að Guð megi ljósta hann. Ó, þú leiðtogi hinna himnesku hersveita, varpa þú Satan og öllum hinum illu öndum hans niður í víti í mætti valds þíns, honum sem æðir um heiminn til að tortíma sálunum.

Þessa bæn báðu prestar í hljóði við messulok allt til ársins 1964 eða til Annars Vatíkansþingsins. Jafnskjótt og því var hætt létu áhrifin ekki á sér standa. Á sjöunda áratugi tuttugustu aldarinnar jukust glæpir, fóstureyðingar, eiturlyfjaneysla, hómósexualismi og upplausn hjónabanda til mikilla muna og er orðið að holskeflu siðleysis og vantrúar á okkar tímum. Best lýsir þetta sér í afstæðishyggju póstmódernismans, guðsafneitun og boðskap falspostula nýs fagnaðarerindis.

Þann 24. apríl árið 1994 hvatti Jóhannes Páll II páfi hina trúuðu til að halda áfram að biðja Mikjálsbænina: „Megi bænin styrkja okkur því að sú andlega barátta sem við heyjum er sú sem vikið er að í Efesusbréfinu: Styrkist nú í Drottni og í krafti máttar hans (Ef 6. 10). Opinberunarbókin víkur einnig að þessari sömu styrjöld og dregur upp fyrir okkur mynd af hl. Mikjál erkiengli (Opb 12. 7). Leó páfi XIII sá þessa sýn með áþreifanlegum hætti í lok síðustu aldar þegar hann innleiddi sérstakt ákall til hl. Mikjáls í allri kirkjunni. Þrátt fyrir að þessi bæn er ekki lengur höfð um hönd í lok messunnar, bið ég alla að minnast hennar og styðjast við hana í baráttunni við myrkravaldið og anda þessa heims.“

No feedback yet