« Föstusöfnun 2011 til styrktar kristnum mönnum í MiðausturlöndumBenedikt páfi hvetur kirkjuna til að kynna sér á ný orð Guðs »

13.02.11

  11:52:58, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 413 orð  
Flokkur: Þjóðfélagsrýni

Svarið við ágengri veraldarhyggju má ekki vera ágeng kristni

Í nýlegum (*) fyrirlestri sínum um framtíð Evrópu fjallaði Cormac Murphy-O'Connor kardínáli og erkibiskup af Westminster um það sem hann nefndi „ágenga veraldarhyggju“ og sagði meðal annars:

„En hvernig á kirkjan að gera fögnuð og sorgir heimsins að sínum í hinni veraldlegu Evrópu? Veraldarhyggjan (secularism) er í sjálfri sér ekki andsnúin kirkjunni. Til er bæði hlutlaus veraldarhyggja og ágeng veraldarhyggja (agressive secularism). Hin síðari viðurkennir ekki sjálfsagðan aðskilnað hins tímanlega og hins andlega, kirkjunnar og ríkisins heldur er fjandsamleg gagnvart lögmætri nærveru kirkjunnar og reynir að koma í veg fyrir að Guð og kirkja hans fái að sinna sínu hlutverki í mótun þjóðfélagsins. Það er þessi ágenga veraldarhyggja sem hvetur marga - meðal þeirra Benedikt páfa - til árvekni.

En svarið við ágengri veraldarhyggju má ekki vera ágeng kristni. Minnist andstæðnanna sem koma fram í Babel og hvítasunnunni. Babelsturninn var byggður af guðhræddu fólki sem vildi byggja sér minnisvarða, innblásnu af löngun í völd og þörf fyrir að staðfesta sig. Það vildi reisa Guði hof, í nafni Guðs, en ekki fyrir Guð. Hvítasunnan snýr við mistökum Babels. Lærisveinarnir gerðu ekki sjálfa sig kunna heldur Guð. 'Vér heyrum þá tala á vorum tungum um stórmerki Guðs' segir í Postulasögunni. Þessir fyrstu lærisveinar höfnuðu eigin dýrð en voru gagnteknir af dýrð Guðs. Vegna þess að Guð var viðurkenndur í almætti sínu gátu tjáskiptin milli mannanna loks orðið að veruleika.

Dýrð Guðs sést að sjálfsögðu í ýmsum veraldlegum framförum sem verða í Evrópu. Mörg merki um framfarir í vísindum og menntum hafa orðið síðan á timum upplýsingastefnunnar, framfarir í tækni og þróun hugsunarinnar. En ef Evrópa gleymir Guði og erfir og lifir ekki með hinum miklu gildum hinnar gyðinglegu-kristnu arfleifðar þá verður angistin hlutskipti hennar því hún mun ekki horfa út fyrir eigið sjálf. Eitt af meginverkefnum kirkjunnar verður því að vera það að varðveita arfleifð álfunnar, ekki með því að hrapa að einfeldnislegum svörum eða taka stöðu mótmælandans og þess sem hafnar, heldur með því að kalla Evrópu á nýjan leik að uppruna sínum í Guði, þess Guðs sem með því að deyja og rísa upp okkar vegna sýndi okkur virðingu hinnar mannlegu persónu og hinn æðri tilgang mannlegra samskipta. Það er þetta sem hefur varðað leið Evrópu til íhugunar hinna miklu leyndardóma lífs og dauða. Það er þetta sem hefur gefið Evrópu hin miklu verkefni, sál hennar, hjarta og sanna köllun.“[1]


(*) Endurbirtur pistill sem birtist fyrst hér á vefsetrinu 6.3.2005.

[1] Europe and the Shape of the Church. Cormac Murphy-O'Connor kardínáli. 25 maí 2005. Úr fyrirlestraröðinni „The Church in Europe“. http://www.rcdow.org.uk/

No feedback yet