« Frásagnir af alvarlegu kynferðisofbeldi - nauðsynlegt að kirkjan bregðist viðKaþólskan í fjölmiðlum fyrr og nú »

05.06.11

  10:48:21, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 308 orð  
Flokkur: Pílagrimsferðir, Helgir staðir á Íslandi

Sumarið er tími pílagrímsferða

Ein er tegund ferðamennsku sem lítið hefur borið á hérlendis, en það er trúarleg ferðamennska. Þetta er samt ein elsta tegund ferðamennsku. Íslendingar og aðrir Vestur-Evrópubúar fóru í trúarlegar ferðir, svokallaðar pílagrímsferðir, bæði hérlendis og erlendis um aldir löngu áður en nútíma ferðamennska varð að sjálfsagðri neysluvöru. Í dag er ekki síður mikilvægt að gera ráð fyrir að til sé fólk sem vilji ferðast um landið og líta á það sem vettvang pílagrímsferðar og í kynningarstarfi þyrfti því að gera sögu staðanna skil á erlendum málum með tilliti til þessa mögulega áhugasviðs.

Einhver kann að ætla að Ísland hefði ekki upp á mikið að bjóða sem áfangastaður fyrir pílagríma en það er ekki svo. Fyrst má nefna Skálholt sem um aldir geymdi Þorláksskrínið fræga. Fólk streymdi þangað á hverju sumri allt frá upphafi 13. aldar og þangað til um siðaskipti. Í öðru lagi er Hólastaður sem geymir ekki síðri sögu merkra Hólabiskupa. Á Hólum er enn að finna stórmerkileg menningarverðmæti, svo sem Altarisbrík Jóns Arasonar auk fleiri hluta. Á Hólum væri hægt að skipuleggja pílagrímsgöngu t.d. yfir Heljardalsheiði til Hólastaðar.

Í þriðja lagi mætti nefna Kaldaðarnes í Flóa en þangað streymdu pílagrímar hvaðanæva að af landinu. Í fjórða lagi má nefna helga staði og laugar sem Guðmundur góði vígði, svo sem Vígðulaug á Laugarvatni. Í fimmta lagi aðra staði og krossa sem voru sérstaklega helgaðir. Svo sem krossinn frægi í Njarðvíkurskriðum á Austurlandi, krossinn á Úlfljótsvatni sem hinn blessaði Jóhannes Páll II. páfi blessaði þegar hann kom hingað til lands 1989 eða krossinn í biskupsbrekku á Uxahryggjarleið þar sem Jón Vídalín biskup andaðist. Einnig Krosshólaborg í Dalasýslu þar sem Auður djúpúðga baðst fyrir.

Hér hef ég í stuttum pistli nefnt nokkra áfangastaði sem fólk gæti heimsótt á trúarlegri pílagrímsferð sinni í kringum landið. Kannski detta lesendum í hug fleiri staðir og gaman væri að fá ábendingar um þá í athugasemdum.

7 athugasemdir

Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Góður pistill um óvenjulegt efni, Ragnar! Þetta er sannarlega verðugt verkefni, umfram allt sem þjónusta við trúsystkini okkar, erlend jafnt sem þau sem búsett eru hér á landi. Við þekkjum raunar í kaþólsku söfnuðunum ferðir á slíka staði, t.d. á vettvang í Skálholti við steininn þar sem Jón Arason leið sinn píslarvættisdauða og synir hans Björn og Ari með (minnisvarði þess er á sama stað), auk þess sem hópar hafa farið héðan í pílagrímsferðir til meginlandsins.

En eins og hér var óbeint vikið að, þarf að vinna að því verkefni að hafa upplýsingar tiltækar um íslenzka helgistaði og helgigönguslóðir, já, að gefa út bæklinga og leiðarvísa um slíkt á íslenzku, frönsku, þýzku, spænsku og ensku.

Heilar þakkir fyrir að hafa með vönduðum hætti vakið máls á þessu; ennfremur mun það sem “aukageta” (by-product) einnig efla okkar ferðaþjónustu-atvinnugrein beint og óbeint, og það er af hinu góða fyrir alla. En tilgangur okkar á þó fyrst og fremst að vera í þágu trúarinnar.

09.06.11 @ 00:14
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Og við að skrifa þetta dettur mér allt í einu í hug: Hefur það aldrei verið hugleitt að taka Jón Sveinsson (Nonna) í tölu blessaðra? Hreinni hug get ég varla sagt ég hafi kynnzt um ævina en höfundi Nonnabókanna.

09.06.11 @ 00:21
Athugasemd from: Sigurður Ragnarsson
Sigurður Ragnarsson

Nokkrir aðrir staðir með helgibrag: Forn klaustur voru á Þingeyrum í Húnaþingi (formlega stofnað árið 1133 en upphaf má rekja til 1112), á Munkaþverá í Eyjafirði (stofnað 1155), í Hítardal í Hnappadal (1166 en lagðist niður eftir 35 ár), á Þykkvabæjarklaustri í Álftaveri (1168), í Flatey á Breiðafirði (1172) en fluttist að Helgafelli í Helgafellssveit (1184), á Kirkjubæjarklaustri á Síðu (1186), í Viðey á Kollafirði (1226), á Reynistað í Skagafirði (1295), á Möðruvöllum í Hörgárdal (1296) og á Skriðuklaustri í Fljótsdal (1493). Auk þess er sagt, að munkar hafi um skeið dvalizt í Hraunþúfuklaustri á Hofsafrétti í Skagafirði, í Stafholti í Borgarfirði og á Keldum á Rangárvöllum (1197 – 1222). Í Fljótshlíð fæddist Þorlákur helgi á Hlíðarenda árið 1133 og Jón Ögmundarson Hólabiskup á Breiðabólstað árið 1052.

Í Kaþólska kirkjublaðinu (6.-8. tbl., 21. árg.) er auglýst pílagrímsför til Maríulindar á Snæfellsnesi 19. júlí næstkomandi. Sumir segja, að þar hafi María Guðsmóðir birzt Guðmundi góða árið 1230 eða ótilgreindu fólki á öðrum tímum. Því miður hefur takmarkaðan árangur borið að spyrjast fyrir um þetta á netinu (2010) eða í Morgunblaðinu (1998). Ragnar nefnir ekki staðinn í þessum ágæta pistli, en kannski getur einhver annar svarað, hverjar heimildirnar séu, ef einhverjar víðhlítandi er yfirleitt að finna. Sjá nánar http://helgisetur.wordpress.com/2010/08/06/hellnar-snfellsnesi/

Vingjarnleg kveðja.

09.06.11 @ 12:13
Athugasemd from: Hreggviður Jónsson
Hreggviður Jónsson

Ég minni á pílagrímsför til Maríulindar á Snæfellsnesi, sem er til undirbúnirgs Heimsæskulýðsdeginum 2011. Ferðin veður þriðjudaginn 19. júlí n.k.. Upplýsingar á www.catholica.is

09.06.11 @ 15:11
Athugasemd from: Ragnar Geir Brynjólfsson

Kærar þakkir fyrir fróðleg og góð innlegg.

Hugmyndin um að taka sr. Jón Sveinsson í tölu blessaðra er góð, líklegt er að fleiri hafi fengið hana en ég minnist þess ekki að hafa séð neitt skrifað eða heyrt rætt um hana.

10.06.11 @ 16:05
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Þessi Maríulind mun vera nálægt Hellnum undir Jökli. Við komum þangað allmörg í ferð Ættfræðifélagsins, sennilega um 1991, undir leiðsögn afar fróðs Snæfellings, Kristins Kristjánssonar, minnir mig. Um Maríulind hlýtur að vera skrifað í snæfellskum sagnabókum, t.d. eftir Ólaf Lárusson prófessor eða í yngri bókum.

Gaman að sjá þig hér aftur, Sigurður! Ertu fluttur heim?

11.06.11 @ 13:08
Athugasemd from: Sigurður Ragnarsson
Sigurður Ragnarsson

Já, Ólafur Lárusson nefndi Gvendarbrunn á Hellnum, án þess að segja neitt frá honum (Byggð og saga, bls. 255, Reykjavík 1944), og var hann þó ólatur að tilfæra heimildir fornar og nýjar, einnig jarteinir. Eini brunnur, sem Ólafur áleit Guðmund hafa vígt og vera kenndan við Maríu, var á Keldum á Rangárvöllum. Hann sagði vatn úr honum hafa reynzt gott við augnveiki og vísaði því til sanninda í ágæta grein eftir Helgu Skúladóttur (ibid. bls. 260, 264-265). Þetta er einmitt ein af ástæðunum fyrir því, að ég spyr að heimild um Hellnalindina. Ólafur ritaði um alla Gvendarbrunna á landinu og þótti einn fremsti vísindamaður þjóðarinnar.

Góð kveðja og gleðilega hátíð (já, Jón Valur, komdu blessaður, þessi misserin er ég á Íslandi)

11.06.11 @ 16:45