« Hverjir þarfnast jólagjafa þessi jól?Hverjir munu komast til stjarnanna? »

18.12.06

  22:59:24, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 95 orð  
Flokkur: Dulhyggja, Opinberanir, Meðugorje

Stytta sem svitnar og sólarundur í Meðugorje?

Enn vekur Meðugorje í Bosníu-Herzegovinu athygli. Á vefsetrinu Youtube eru stutt myndskeið frá fólki sem þangað hefur farið. Hér má t.d. sjá myndir af styttu sem virðist gefa frá sér vökva: [Tengill]. Sama styttan kemur fyrir í lok þessa myndskeiðs þar sem sólin virðist eitthvað einkennileg:[Tengill]

Kaþólska kirkjan hefur fylgst grannt með þróun mála í Meðjugorje frá upphafi en ýmis fyrirbæri hafa að sögn átt sér stað þar í meira en 25 ár. Sjá meira efni um Meðugorje hér: [Tengill].

16 athugasemdir

Lárus Viðar Lárusson

Ef grátandi styttur vekja athygli ykkar þá hafið þið eflaust gagn af þessari grein úr Scientific American eftir James Randi.

http://www.luigigarlaschelli.it/Press/sciam.htm

18.12.06 @ 23:46
Matthías Ásgeirsson

Hvað er einkennilegt við sólina í seinna myndbandinu? Þið vitið að myndavélaskynjarar eru ekki hannaðir til að taka myndir af sólinni og að yfirleitt er ekki mælt með því að maður taki myndir beint í sól, hvað þá á löngum tíma eins og þarna er gert.

19.12.06 @ 14:04
Athugasemd from: Ragnar Geir Brynjólfsson

Sælir félagar. Athyglisverð grein eftir Randi sem þú bentir á Lárus. Ég tók þó eftir að hún er um ýmsa meinta svikastarfsemi á Ítalíu og kemur Meðugorje ekkert við. Randi er duglegur í því að afhjúpa ýmsa vafasama starfsemi og hann á vissulega heiður skilinn fyrir það framlag sitt. En við megum heldur ekki gleyma að þó hann sýni fram á að eitt og annað sé bogið við sum fyrirbæri þá er hæpið að alhæfa út frá því um öll óútskýrð fyrirbæri og gera því skóna að skýringar þeirra séu hinar sömu í öllum tilfellum.

Án þess að ég vilji gagnrýna Randi neitt hvasst þá hjó ég eftir því að í þessu Ítalíubréfi sínu minntist hann ekki einu orði á evkaristíuundrið í Lanciano - og hefði það þó átt að vera nærtækt þar sem það er eitt hið best þekkta og líkast til mest rannsakaða í flokki evkaristíuundra og trúlega það mest þekkta ef bara er horft á Ítalíu.

Í snöggri google leit á vefsetri Randi tók ég eftir því að orðin lanciano medjugorje og fatima koma örsjaldan fyrir. Getur hugsast að Randi handvelji sér verkefni til að afhjúpa og láti hin afskiptalaus sem hann sér ekki skýringar á? Þetta segi ég ekki til að varpa rýrð á hann heldur til að benda á að ef svo er þá er það bæði snjallt og skiljanlegt hjá honum því þá stendur hann alltaf uppi með 100% árangur.

Matthías, já ég spyr þess hins sama með þetta myndband. Getur verið að hjónin hafi ekki náð að taka upp það sem þau töldu sig sjá? Við höfum ekki vitnisburð þeirra að styðjast við. Á tali þeirra virðist svo sem þau hafi talið sig sjá hostíu (vígt altarissakramenti) í sólinni. Ætli einhver lesanda geti ekki staðfest þetta, þ.e. að litlar tökuvélar setji svartan blett í staðinn fyrir sólina?

19.12.06 @ 14:30
Matthías Ásgeirsson

Af tali hjónanna virðist mér ljóst að þau sjá “þetta” ekki nema í gegnum upptökuvélina. Þú sért að ekkert fólk í kringum þau er að reyna að horfa á sólina, enda myndir þú fljótt skemma augun með því að stara lengi á hana.

Mér sýnist nokkuð ljóst að svarti bletturinn er tilkominn vegna þess að svæðið er yfirlýst - myndavélin höndlar einfaldlega ekki svona mikla birtu og brennir út sólina í upptökunni. Á einum stað sér maður einmitt “blooming” sem er tengt því.

Í snöggri google leit á vefsetri Randi tók ég eftir því að orðin lanciano medjugorje og fatima koma örsjaldan fyrir. Getur hugsast að Randi handvelji sér verkefni til að afhjúpa og láti hin afskiptalaus sem hann sér ekki skýringar á?

Ég held að Randi hafi ósköp einfaldlega nóg að gera!

19.12.06 @ 14:47
Birgir Baldursson

Merkileg afstaða sem kemur fram hjá greinarhöfundi hér í athugasemdum. Þegar honum er bent á afsannanir svipaðra fullyrðingar og hann heldur hér á lofti neitar hann að taka til greina að þau fyrirbæri sem hann fjallar um geti með nokkru móti verið af sama meiði, heldur kýs að líta svo á að fyrirbærin hljóti að vera sönn þar til annað kemur í ljós.

Hvernig væri að snúa sönnunarbyrðinni við og ganga út frá að þetta eigi sér náttúrlegar skýringar þar til annað sannast? Þannig ber okkur að umgangast svona fyrirbæri svo ranghugmyndir okkar um veröldina lágmarkist.

19.12.06 @ 20:54
Birgir Baldursson

Það er gráthlægilegt að hlýða á þessi trúgjörnu grey hrópa upp yfir sig um kraftaverk þegar ljósflagan í myndbandsupptökuvélinni ræður ekki við hlutverk sitt. Hvað veldur þessari takmarkalausu trúgirni ef ekki skaðsemi þeirrar innrætingar sem þetta fólk hefur orðið fyrir að hálfu hindurvitnaboðenda?

19.12.06 @ 21:11
Athugasemd from: Ragnar Geir Brynjólfsson

..heldur kýs að líta svo á að fyrirbærin hljóti að vera sönn þar til annað kemur í ljós.

Hvar held ég því fram að þessi fyrirbæri séu ’sönn’?

Það eina sem ég gerði var að benda á að þó að í ljós komi að brögð séu í tafli í einhverjum tilfellum á einum stað þá segi það ekkert um atvik sem gerist á öðrum stað. Ég held einmitt að flestir gangi út frá því að allt sem gerist eigi sér náttúrulegar skýringar, en óvenjuleg frávik frá náttúrlegum ferlum hljóta alltaf að vekja furðu manna og vera talin þess verðug að þau séu skoðuð, jafnvel rannsökuð með opnum huga. Þannig hefur þekking okkar byggst upp með gagnrýnni skoðun, en einmitt ekki með því að notast við fyrirfram gefnar skýringar.

19.12.06 @ 21:14
Athugasemd from: Ragnar Geir Brynjólfsson

Og hér er enn eitt myndbrotið frá Meðugorje sem sýnir kross í sérkennilegum ljóma: [Tengill]

19.12.06 @ 21:31
Athugasemd from: Ragnar Geir Brynjólfsson

Hvað veldur þessari takmarkalausu trúgirni ef ekki skaðsemi þeirrar innrætingar sem þetta fólk hefur orðið fyrir að hálfu hindurvitnaboðenda?

Góð spurning. Er hægt að fá betra svar við henni en að fara og líta á staðinn? Hann hefur upp á margt að bjóða. Prófið t.d. að halla ykkur aftur og njóta tónlistarinnar í þessu frábæra gospellagi ‘You reign in me’: [Tengill]

19.12.06 @ 21:43
Lárus Viðar Lárusson

Varðandi evkaristíuundrið í Lanciano þá getum við spurt okkur hvort sé líklegra: (a) að kraftaverkið hafi gerst og að sýnið hafi verið varðveitt í upprunalegri mynd í meira en tólf aldir eða (b) að menn hafi hagrætt umbreytta messuvíninu, bætt í það blóði og hjartavef eftir þörfum til að villa um fyrir þeim sem skoðuðu sýnin.

Hægt væri að skera úr um þetta með t.d. C-14 greiningu, sem gæfi aldur sýnisins.

Annars skil ég ekki hvað er merkilegt við þetta kraftaverk, ég hélt að umbreytingin væri daglegt brauð í kaþólskum messum.

19.12.06 @ 23:15
Birgir Baldursson

Ragnar segir:

“Það eina sem ég gerði var að benda á að þó að í ljós komi að brögð séu í tafli í einhverjum tilfellum á einum stað þá segi það ekkert um atvik sem gerist á öðrum stað.”

Jú, þetta segir okkur einmitt heilmikið um það. Fjöldinn allur af kraftaverkum hefur sýnt sig að eiga náttúrulegar skýringar þegar að er gáð. Geturðu bent á eitthvert kraftaverk sem sannað hefur verið að sé slíkt?

Þetta er allt saman bull og þvæla trúgjarns fólks, Ragnar. Sættu þig við það.

20.12.06 @ 02:04
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Hér (í lokaklausunni) er alhæft og af nokkrum þjósti talað. Var þó umræðan að mestu skikkanleg fram undir þetta og svör Ragnars yfirveguð og ágæt. Er ekki í lagi að halda þessu á þeim góðu nótum?

Birgi vantar sönnur á kraftaverkum. Ég bendi á kraftaverk upprisu Jesú Krists, margstaðfest af vitnum. Því til viðbótar eru kraftaverk hans, meðan hann gekk hér um jörð. Á samkomu þúsunda á hinum fyrsta hvítasunnudegi (Post. 2) talaði Pétur til Ísraelsmanna um Jesúm frá Nazaret sem “mann þann, er Guð sannaði yður með kraftaverkum, undrum og táknum, er Guð lét hann gera yðar á meðal, eins og þér sjálfir vitið” (2.22). Þarna ræðir vitaskuld ekki um sannanir sem unnt sé að endurtaka með tilraun í tilraunastofu eða í stærðfræðijöfnu, en öll fræði hafa sína sérstöku tegund sannana, sagnfræðin og sagnaritun eina (eða fleiri en eina), ýmis raunvísindi aðrar gerðir og hugvísindi (önnur en sagnfræðin) eitthvað til viðbótar. Sönnun kann að vera gild þar og þá sem hún kemur fram, þeim sem verða vitni að henni, þótt aðrir, sem fjarri eru í tíma og rúmi, viti ekki af því.

Hvað sem menn kunna að eiga af svörum við þessu, ber þeim að minnast þess, að hér leyfist ekki að fara svo yfir strikið, að guðlast geti heitið – slík innlegg eiga hér engan rétt. Þetta er meðfram sagt hér til þess að menn séu ekki að eyða orku sinni í eitthvað slíkt, sem ekki fengi að tolla hér inni, enda ætti að vera óþarft að grípa til slíkra stóryrða, vilji menn ræða þessi mál af skynsemi. Svo þakka ég umræðuna.

20.12.06 @ 09:46
Athugasemd from: Ragnar Geir Brynjólfsson

Birgir, ég vil benda á að hingað til hef ég ekki notað orðið ‘kraftaverk’ í þessu spjalli okkar og þessi stutti pistill innhélt það orð ekki heldur. Hugtakið kraftaverk er háð einstaklingsbundinni túlkun, ekki hlutlægri skoðun.

Þú talar um fjöldann allan af ‘kraftaverkum’. Hugsanlega er betra að nota orðið fyrirbæri í þessu samhengi. Ef einhver telur að óútskýrt fyrirbæri sé kraftaverk þá er það túlkun þess tiltekna einstaklings. Ef einhver segir að kraftaverk hafi orðið þá er sá hinn sami að miðla túlkun sinni á atvikum sem orðið hafa.

Svipað er uppi á teningnum ef einhver fullyrðir að engin kraftaverk hafi orðið, en það er þá væntanlega gert frekar í þeirri merkingu að hægt sé að útskýra fyrirbærið fullkomlega.

Af þessu leiðir að hæpið að tala um sannanir á kraftaverkum. Ef við gætum sannað kraftaverk þá værum við komnir hálfa leiðina að sanna að Guð væri til - en það er líklega jafn útilokað og að sanna að hann sé ekki til.

Í þeim tilfellum sem kaþólska kirkjan hefur skoðað af þessu tagi, t.d. rannsökuðum fyrirbærum í Lourdes er gefið út að ekki finnist nein náttúruleg skýring á atvikum og hinum trúuðu sé frjálst að líta svo á að um kraftaverk sé að ræða. Þar fylgir samt hver sinni sannfæringu og enginn er bundinn því að trúa að þar hafi hönd Guðs verið að verki.

Þetta er allt saman bull og þvæla trúgjarns fólks, Ragnar. Sættu þig við það.

Við getum í besta falli talað um að ákveðnar líkur séu á að einhver atburður verði. Þú átt þá væntanlega við að það séu 100% líkur á að hvert einasta fyrirbæri sé ‘bull og þvæla trúgjarns fólks’? Því ef ekki þá er erfitt annað en að álykta að þú sért að miðla þeirri túlkun þinni að kraftaverk geti ekki gerst, eða m.ö.o. nánast að segja að Guð sé ekki til.

20.12.06 @ 14:48
Athugasemd from: Haukur Viðar Alfreðsson
Haukur Viðar Alfreðsson

Athyglisvert…..

20.12.06 @ 15:01
Athugasemd from: Ragnar Geir Brynjólfsson

Lárus, já eflaust væri þetta kolefnispróf forvitnilegt. Ekki ætla ég að gera tilraun til að ritskýra þessa grein hjá Randi og enn síður koma með getgátur um af hverju hann nefnir ekki eitt og annað.

20.12.06 @ 18:13
Athugasemd from: Ragnar Geir Brynjólfsson

Viðhorf Alberts Einstein til hins dulúðuga er athyglisvert:

Hin fegursta og dýpsta tilfinning sem við getum upplifað er skynjun hins dulúðuga. Hún er rót allra sannra vísinda. Sá sem er ókunnugur þessari tilfinningu, sá sem getur ekki lengur undrast og staðið frá sér numinn í óttablandinni lotningu er svo gott sem dauður. Að vita að það sem er óskiljanlegt okkur sé til og það birtist í æðsta vísdómi og hinni æðstu útgeislandi fegurð sem okkar daufu gáfur geta aðeins skilið í sinni frumstæðustu mynd - þessi þekking, þessi tilfinning er miðlæg í sannri trúrækni.

[Tengill]

25.12.06 @ 19:28