« Hrapað að vissu - endað í skyssuFjölkynngi ber að fordæma »

26.05.06

  07:41:19, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 228 orð  
Flokkur: Erlendar fréttir úr heimi kirkjunnar

Stjörnufræðingur Páfagarðs segir sköpunarhyggjuna vera hjátrú

GLASGOW - 24. maí 2006 Independent Catholic News
Sú trú að Guð hafi skapað alheiminn á sex dögum er hjátrú og eins konar heiðni sem varpar rýrð á trú og ógnar vísindum, segir bróðir Guy Consolmagno jesúíti. Hann sagði að „eyðandi goðsögn“ hefði náð að myndast í þjóðfélögum nútímans um að trú og vísindi væru andstæð hugmyndakerfi. Sköpunarhyggjan sem ýtti undir þetta væri að áliti fræðimanna útúrsnúningur á biblíulegum textum.

Bróðir Consolmagno starfar í stjörnuskoðunarstöð Páfagarðs í Arizona. Hann sér einnig um loftsteinasafn Páfagarðs. Auk starfa sinna við stjörnufræði hefur hann lagt stund á heimspeki og guðfræði við Loyola háskólann í Chicago, og eðlisfræði við háskólann í Chicago. Hann hefur einnig starfað við Goddard geimflugssetrið. Hann hélt nýlega ræðu þar sem hann sagði: „Trúin þarfnast vísindanna til að halda sér nálægt raunveruleikanum, til að vernda hana gegn sköpunarhyggjunni sem breytir Guði í náttúruguð. Vísindin þarfnast líka trúarinnar til þess að eiga samvisku, til að vita að jafnvel þó eitthvað sé hægt þá eigi ekki endilega að framkvæma það.“

RGB þýddi og endursagði. Birt með leyfi ICN.
Heimild: http://www.indcatholicnews.com

2 athugasemdir

Steindór J. Erlingsson

Ef rétt er að vísindin þarfnist “líka trúarinnar til þess að eiga samvisku, til að vita að jafnvel þó eitthvað sé hægt þá eigi ekki endilega að framkvæma það", þá hefur Þjóðkirkjan algjörlega brugðist hlutverki sínu, sbr. málefni deCODE og virkjunarmálin. Annars er ánægjulegt að sjá þessa frétt úr Páfagarði.

28.05.06 @ 14:30
Athugasemd from: Ragnar Geir Brynjólfsson

Í báðum þessum málum var um víðtæka pólitíska samstöðu að ræða. Valgerður Sverris var í sjónvarpinu áðan og mig minnir að hún segði að framkvæmdirnar eystra hefðu verið samþykktar með 44 atkvæðum gegn 7 á Alþingi. Undir þannig kringumstæðum er líklega hyggilegast fyrir trúfélög að segja ekki margt, sér í lagi trúfélög sem reiða sig að fullu og öllu á velvild ríkisvaldsins og ennþá fremur ef þau eru ekki innt álits af neinum.

Já, jesúítinn var ómyrkur í máli hvað varðaði sköpunarhyggjuna. Ég giska á að hann eigi ekki marga harða andmælendur innan kaþólsku kirkjunnar í þessu máli.

31.05.06 @ 18:46