« Patríarki kaldea gagnrýnir stjórnarskrárdrög í ÍrakBreskir múslimar fordæma hryðjuverkaárásir »

11.08.05

  21:21:45, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 721 orð  
Flokkur: Önnur trúarbrögð

Staða fatwa - samþykktarinnar í islam

Í Wikipedia, alfræðibókinni á netinu má finna fróðleik um stöðu fatwa ályktunarinnar í Múhameðstrú sem og um leiðtoga hryðjuverkasamtakanna Al-Quaeda. Hér á eftir fer samantekt úr þessum greinum:
---
[1] Fatwa er lögformleg yfirlýsing eða úrskurður, gefin um tiltekið málefni af sérfræðingi í lögum islam. Venjulega er fatwa gefin út vegna óska um úrskurð. Lærðir menn sem gefa út fatwa eru þekktir sem „mufti“ Algengur misskilningur er að fatwa sé bindandi fyrir alla múslima en svo er ekki. Þeir sem eru bundnir af tiltekinni fatwa eru sá mufti sem gaf hana út og fylgjendur hans.

Vegna þess að islam hefur ekki miðstýrt prestaveldi eru engar allsherjarreglur um það hver geti gefið út gilda fatwa. Sumir fræðimenn múslima eru á þeirri skoðun að of margir telji sig þess umkomna að gefa út fatwa. Klerkar geta gefið út mótsagnarkenndar fatwa. Áhrif slíkra fatwa eru mismikil eftir því hvort islömsk lög (sharia) mynda grunn borgaralegra laga. Hjá þjóðum þar sem islömsk lög mynda slíkan grunn er efni tiltekinnar fatwa rætt af leiðtogum þjóðarinnar áður en hún er gefin út. Slíkar fatwa yfirlýsingar eru því sjaldnast í mótsögn við aðrar.
Hjá þjóðum þar sem islömsk lög eru ekki grunnur laganna er algengt að fatwa úrskurðir séu í mótsögn. Í slíkum tilfellum fylgja menn þeirri trúarlegu hefð sem þeir tilheyra, til dæmis myndu súnní múslimar fylgja fatwa súnnía frekar en fatwa gefinni út af shíta.

Mikill meirihluti fatwa fjallar um hversdagleg málefni. Þær fatwa sem kveða upp dauðadóm eða lýsa yfir stríði eru alls ekki dæmigerðar þrátt fyrir þá athygli sem þær hafa fengið í vestrænum fjölmiðlum og hafa orðið vatn á myllu gagnrýnenda islam. Einna best þekkta fatwa af þessum toga er fatwa Ayatollah Khomeini frá 1989 vegna skáldsögunnar „Söngvar Satans“ eftir Salman Rushdie. Bókstafstrúarmenn í Bangladesh lýstu yfir samskonar fatwa gegn Taslima Nasreen 1993 vegna blaðagreina hennar þar sem hún gagnrýndi stöðu islamskra kvenna. Árið 1998 gáfu svo Osama bin Laden og Ayman al-Zawahiri út fatwa í nafni „Alþjóðlegu islömsku fylkingarinnar fyrir heilögu stríði gegn gyðingum og krossförum“ þar sem alvarlegar hótanir voru hafðar uppi gagnvart Ameríkumönnum og „bandamönnum þeirra“, „í þeim tilgangi að frelsa al-Aqsa moskuna [í Jerúsalem] og hina heilögu mosku [í Mekka] úr greipum þeirra og til að herir þeirra héldu út úr löndum islam, sigraðir og ófærir um að ógna nokkrum múslima.“

Spænskir múslimar lýstu yfir fatwa gegn Osama bin Laden í mars árið 2005. Aðrir múslimar voru hvattir til að gefa út svipaðar fatwa. Þær komu fljótlega. Í júlí 2005 gaf ráð múslima „Fiqh Council of North America“ út fatwa gegn þeim sem styddu hryðjuverkahópa. Síðust í röð þessara fatwa er svo nýleg yfirlýsing tveggja hópa múslima í Bretlandi þar sem öll ofbeldisverk eru fordæmd.[2].
---
Ef nokkur múslimi skyldi vera í vafa um hverjum á að trúa þá ætti að nægja að benda á að engar heimildir finnast um að Bin Laden né al-Zawahiri hafi hlotið neina formlega menntun í islömskum fræðum. Bin Laden er byggingaverkfræðingur [3] að mennt en al-Zawahiri læknir [4]. Það er því ekkert sem bendir til að þeir hafi neinn trúarlegan myndugleika umfram hvern annan almennan múslima og engin ástæða fyrir trúaða múslima hvar í flokki sem þeir standa að taka mark á trúartengdum yfirlýsingum þeirra félaga. Miklu nær væri að hlusta á leiðtoga spænskra, breskra og amerískra múslima sem margir hverjir eru vafalítið skólagengnir í islömskum fræðum og án nokkurs vafa mun betur fallnir til ályktana um hin ýmsu boð trúarinnar.

[1] „Fatwa. From Wikipedia, the free encyclopedia.“ http://en.wikipedia.org/
[2] „Breskir múslimar fordæma hryðjuverkaárásir.“ 02.08.05, http://www.kirkju.net
[3] „Osama bin Laden. From Wikipedia, the free encyclopedia.“ http://en.wikipedia.org/
[4] „Ayman al-Zawahiri. From Wikipedia, the free encyclopedia“ http://en.wikipedia.org/

No feedback yet