« Via Dolorosa - leið hins kristna manns„Í kjarnorkustríði eru engir sigurvegarar, aðeins fórnarlömb“ »

13.04.06

  15:13:24, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 746 orð  
Flokkur: Þjóðfélagsrýni

Þegar komið er af fjöllum - hugleiðing um RÚV - Sjónvarp

Steingrímur J. Sigfússon formaður Vinstri-grænna skrifaði grein í Morgunblaðið þriðjudaginn 11. apríl 2006 undir heitinu „Ríkisstjórn spillir friði í eigin landi.“ og vék hann í greininni að Ríkisútvarpinu og sagði m.a.:

Tilgangur með rekstri Ríkisútvarpsins er ekki að græða peninga heldur að sinna almannaþjónustuhlutverki. Að vera kjölfesta í vandaðri og hlutlægri fjölmiðlun, tryggja fjölbreytni, viðhalda öflugri innlendri dagskrárgerð, halda utan um og miðla menningararfi þjóðarinnar, rækta tunguna, sinna öryggis- og almannavarnarskyldum, tengja þjóðina saman, sem sagt sinna verkefnum sem fjölmiðlum í einkaeigu er hvorki skylt né endilega hagstætt að sinna með sama hætti, það er hlutverk almannaútvarps. Til þess er Ríkisútvarpið í samtímanum og gildi þess hefur síst minnkað...
...[Sjálfstæðis]flokkurinn [hefur] hvorki siðferðilegt né pólitískt leyfi til þess að rjúfa grið um Ríkisútvarpið. Þaðan af síður Framsóknarflokkurinn, sem þóttist ætla að standa um það vörð sem slíkt eða sem sjálfseignarstofnun.[1]

Við þau atriði sem Steingrímur nefnir hér má gera ýmsar athugasemdir. Varðandi miðlun menningararfsins, og Steingrímur lítur vonandi á kristnina sem hluta af þeim arfi þá verður að segja að metnaðarleysi Sjónvarpsins til miðlunar hins kristna menningararfs er átakanlegt. Í dagskrá yfirstandandi páska sést ekkert - ekkert í allri dagskrá skírdags, föstudagsins langa, pákskadags eða annars í páskum sem gefur til kynna að í þessu landi búi kristin þjóð. Ef mér hefur yfirsést eitthvað hér þá bið ég um leiðréttingu. Þetta sem hér er sagt gildir þó ekki um RÚV Rás 1, hljóðvarpið. Þar er enn bæði metnaður og menning í fyrirrúmi og er Rás 1 því sá hluti sem eigulegastur er fyrir þjóðina. Bæði er dagskráin vönduð og fréttamennskan fagmannleg.

Fleiri dæmi mætti nefna. Framtak spaugstofunnar á árum áður hefur líklega verið upphafið að því að rjúfa þá veikburða sátt sem með þjóðinni var um Ríkisútvarpið. Það hafa staðið deilur um stofnunina alla tíð. Ef Útvarpstíðindum er flett sést þetta. Þó hefur framlag Ríkisútvarpsins á stríðsárunum líklega verið það sem sætti þjóðina nokkurn veginn við það, a.m.k. þangað til á ofanverðum 10. áratugnum en þá hefur líklega mörgum orðið ljóst að tilkall sjónvarpshluta hennar til þess að eiga tilveru í sátt með þjóðinni og að vera talinn útvörður hámenningarinnar var úr sögunni. Hvaða önnur ríkissjónvarpsstöð ætli hafi t.d. birt kómísk slapstick atriði úr guðspjöllunum á helgustu hátíðum kristinna? Núna sést að þetta hefði alveg eins geta verið bein útsending frá árshátíð Vantrúarfélagsins! Allar götur síðan þetta gerðist hafa líkast til margir greitt afnotagjaldið af einni ástæðu aðeins: Þeir eru þvingaðir til þess. Látum vera þó skopast sé að því sem fólk trúir á, það er kannski tilætlunarsemi að telja að vinnubrögð ríkisstofnunar sem kennir sig við menningu eigi að stuðla að umburðarlyndi og skilningi verra er þó að vera svo gott sem þvingaður til að horfa á „spaugið“ með skylduáskriftinni. Í fréttamennskunni hafa líka verið gerð mistök eins og sjá dæmi um í greininni „Undarlegur fréttaflutningur RÚV - Sjónvarps“ á þessu vefsetri.[Tengill 2] Miðað við núverandi stöðu mála þá er aðeins eitt raunhæft að gera. Almannaútvarp ríkisins og skylduáskrift landsmanna á að takmarkast við Rás 1 á meðan hún stendur undir nafni. Sjónvarpshlutann og Rás 2 á að selja einkaaðilum. Hlutverki hins opinbera í sjónvarpsfjölmiðlun er lokið að mestu. Þeir sem ekki eru sannfærðir um það ættu að lesa dagskrá Ríkissjónvarpsins um þessa páska eða bara einhverja aðra viku valda af handahófi í framtíðinni. Það nægir að kanna hlutfall efnis sem flutt er á íslensku til að sannfæra flesta.

[1] „Ríkisstjórn spillir friði í eigin landi“. Morgunblaðið, þriðjudaginn 11. apríl, 2006. www.mbl.is
[2] Undarlegur fréttaflutningur fréttastofu Sjónvarps (RÚV). Ragnar Geir Brynjólfsson. www.kirkju.net

1 athugasemd

Athugasemd from: Ragnar Geir Brynjólfsson

Af hverju hefði t.d. ekki verið hægt að taka upp Brynjólfsmessu Gunnars Þórðarsonar eða Passíusálmaflutning Megasar og sjónvarpa um páskana? Nú - eða kannski taka viðtal við Voces Thules vegna nýútkomins geisladisks þeirra með Þorlákstíðum og flytja ásamt tóndæmum? Nei, textaðar erlendar bíómyndir er það sem boðið er upp á í þessu „höfuðvígi menningarinnar.“ Að vísu er vegleg tónlist í boði en hún er öll veraldleg.

14.04.06 @ 14:51