« Sá sem hatar umvöndun er heimskur (af þessum heimi)Um Lífsvernd »

19.03.06

  07:40:09, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 640 orð  
Flokkur: Hugleiðingar

Sporaleikur

Nú ekki alls fyrir löngu síðan var ég með engli í mikilli sandauðn. Þeir eru að ýmsu leyti eins og börnin og því sagði hann við mig:

„Eigum við ekki að koma í sporaleik?“

Ég átti síst von á þessu og hann veitti því strax athygli hversu hissa ég varð og sagði:

„Ég skal sýna þér hvernig við förum að! Þetta er enginn vandi!“

Skyndilega birtust spor í sandinum. Í upphafi voru þau örsmá, greinilega eftir léttstígt barn. Smám saman stækkuðu þau og mörkuðust betur í sandinn og bilið á milli þeirra varð lengra og greinilegt að sá sem hlut átti að máli hljóp hraðar og hraðar. En alltaf urðu þau beinni, uns þau hurfu alls óvænt. Engillinn sagði íbygginn á svip:

„Þetta eru sporin hans Palla.“

Þá minntist ég orða heilags Páls. „Þess vegna hleyp ég ekki stefnulaust“ (1 Kor 9. 24).

Því næst birtust önnur spor í sandinum. Í upphafi svipaði þeim til hinna, en síðan urðu þau skrikjóttari uns þau sveigðu af leið. Við fylgdum þeim eftir þar til við stóðum á barmi mikils hengiflugs.

„Kíktu niður,“ sagði engillinn.

Þegar ég kíkti niður sá ég ekki til botns, þvílíkt var hyldýpið. En niður úr myrku djúpinu heyrði ég grátstunur. Í huga mér komu orðin: „Þar verður grátur og gnístan tanna“ (Mt 8. 12).

Engillinn sagði nú: „Þannig getur farið fyrir sonum ríkisins og dætrum.“

Nú birtust þriðju fótsporin. Þau voru vart sjáanleg, svo örsmá voru þau. Auk þess voru þau einungis sex að tölu, þannig að ég varð að lúta niður til að sjá þau greinilega.

Engillinn horfði nú á mig hnugginn í bragði og sagði:

„Þetta eru spor hins óþekkta barns sem varð þekkt.“ [1]

Eins og ég sagði, þá eru englarnir að mörgu leyti eins og börn. Í þetta skipti var ég ekki í skapi til að endurtaka þennan leik. Rétt eins og börnin segja englarnir: „Aftur, aftur, meira, meira, einu sinni enn!“ Því sagði hann:

„Bara einu sinni enn, haa?“

Næst birtust spor ekki óáþekk þeim fyrstu. En við og við hurfu þau með öllu, en birtust síðan aftur þar til þau hurfu endanlega fyrir fullt og allt. Engillinn sagði:

„Þetta eru sporin hennar Siggu á Sextán sem dó í fyrra, hún var alltaf svo bænheit.“

Í huga mér komu orðin úr Davíðssálminum: „Þeir munu bera þig á höndum sér“ (Sl 91. 12). [2]

Áður en við kvöddumst sagði engillinn um leið og ásjóna hans ljómaði af barnslegri ákefð:

„Bráðum hlakka ég til að sýna þér þín eigin spor. Það er svo skemmtilegt að leika sér í sporaleik!“

[1). Dýrmætir Fætur

Um það bil 90% af fóstureyðingum eiga sér stað á fyrstu 12 vikum þungunar. Flest fólk hefur enn enga hugmynd um hversu vel þroskað ófædda barnið er á þeim tíma þegar fóstureyðing á sér stað. "Dýrmætir Fætur" barmmerkið sýnir nákvæma stærð og lögum fóta ófædds barns tíu vikum eftir getnað. Það er aðlaðandi og fræðandi barmmerki, sem sýnir fólki sem lítur á það, að fórnarlamb fóstureyðinga er eitt af okkur. Barmmerkið er upplagt til að hefja umræður. Börnum finnst einnig gaman að ganga með það, og á þennan hátt geta þau fært lífsverndar skilaboðin til foreldra sinna. (Af heimasíðu Lífsverndar).
[2] Þegar talað er við engil er ekki gripið til mennskra orða, heldur fer samtalið hljóðlega fram og spurningar og svör birtast í mannshuganum.

TENGILL

No feedback yet