« Kardináli fordæmir ákvörðun Obama forseta að afturkalla bann við stofnfrumurannsóknum á nýjum fósturvísum | Rætt um kristindóm og stjórnmál á Omega » |
Fagnaðarefni er, að Ólafur Haukur Árnason, sagnfræði- og latínunemi, hyggst deila með okkur þekkingu sinni og rannsóknum á útbreiðslu kristninnar í Asíu, allt til Kyrrahafs og Indlandshafs og lengst inn í Mið-Asíu, ekki nú á dögum, heldur strax í fornöld og á miðöldum. Þar kemur bæði kaþólska kirkjan, sú orþódoxa og ýmsar frávikskirkjur, einkum Nestoringa, við sögu.
Það er mörgum eins og óvænt opinberun að lesa um þróttmikið starf kirkjunnar í Asíu langt fram á miðaldir, en þarna var vagga kristindómsins, við Miðjarðarhafið. Þaðan breiddist hún ört út austur á bóginn, með ótrúlegum árangri, meðan okkar "gamla Evrópa" var lengi vel að miklu leyti heiðin nema í suðlægustu löndum, á Spáni, Suður-Gallíu, Ítalíu og Grikklandi eða réttara sagt austrómverska keisaradæminu.
Fyrirlesturinn hefst kl. 20, mánudaginn 9. marz, að Hávallagötu 16, í safnaðarheimili kaþólsku kirkjunnar. Kaffihlé verður og veitingar og öllum frjálst að bera fram fyrirspurnir og leggja þar sitt til málanna.
Ólafur Haukur Árnason á mjög góða grein um þetta efni: 'Róm og Bagdad: Kristin trú í Asíu á tímum mongólska heimsveldisins', í nýútkomnu hefti af Merki krossins, tímariti kaþólsku kirkjunnar, en þrátt fyrir nafn þeirrar greinar spannar hún í raun yfir miklu víðtækara svið í tíma og rúmi, frá fornöld og til trúboðsferða kaþólskra manna á miðöldum.
Ólafur hefur á ýmsum vettvangi sýnt sig að vera efnilegur ...
sem fræði- og fræðslumaður um ýmsa þætti í sögu kirkjunnar og fleira. Hann hefur þegar gert umtalsvert gagn til að upplýsa um raunverulega atburði og ástand í kirkju- og menningarmálum fyrri tíma, t.d. um heimsmynd kirkjunnar við lok miðalda og upphaf nýaldar, þ. á m. um Kopernikus og Galileo og eldri hugsuði, og svarað mótbárum og hreinum árásum á afstöðu kirkjunnar í tengdum málefnum, sem og útbreiddum misskilningi á ýmsu sem þetta snertir og fleira. Minnast menn t.d. fjörlegrar ritdeilu þessa unga manns við hinn ráðsetta, ofurlíberala klerk við Tjörnina, Hjört Magna Jóhannsson, í Fréttablaðinu, en um margt af þessu má fræðast á Moggavefsíðu Ólafs Hauks, oha.blog.is. Hann á ennfremur vefsíðu hér á Kirkjunetinu og fyrsta grein hans þar er um Kaldeakirkjuna í Írak, Íran, Sýrlandi og Líbanon. Væntanlega á meira eftir að bætast við skrif hans hér.
Þjóðkunnur er afi Ólafs og alnafni, fyrrverandi áfengisvarnaráðunautur.
Síðustu athugasemdir