« Landsfundur Sjálfstæðismanna leggur á ráðin um grófa ríkisíhlutun í innri málefni kirkjunnarKristin stjórnmálasamtök – kristinn flokkur? »

11.04.07

  07:23:57, Skrásetjari: Jon Valur Jensson   , 628 orð  
Flokkur: Tekinn púls á fjölmiðlum, Kristindómur og menning

Spaugstofumenn þurfa – og fá – gagnrýni

Það er engum blöðum um að fletta, að Spaugstofumenn hafa með þáttum sínum í Sjónvarpinu aflað sér ástsældar meðal þjóðar sinnar. Þeim mun óþægilegra er að verða vitni að því, þegar þeir ganga yfir mörk velsæmis. Það gerðu þeir nýlega í meðferð sinni á þjóðsöngnum, sem snúið var upp á Alcan í stað Guðs ! Ekki var það í fyrsta sinn sem þeir hafa umgengizt heilagleikann óvirðulega, eins og menn minnast vegna eins þáttar þeirra fyrir fáeinum árum um páska. Einnig nú tókst þeim að skopast að útdeilingu sakramentisins, og var lágt risið á því "gríni". Birgir G. Albertsson kennari gerði þetta að góðu umræðuefni í Velvakanda Mbl. í gær:

STUTT er síðan Svisslendingur fékk 10 ára fangelsisdóm fyrir að mála yfir myndir af Taílandskonungi. Verknaðinn framdi hann í ölæði. Honum var metið til "refsilækkunar", að hann reyndist samvinnuþýður og játaði fúslega brot sín. Í Jyllandsposten birtust á sínum tíma svipmyndir af Múhameð spámanni múslíma. Afleiðingar þess urðu uppþot og óeirðir sem kostuðu mörg mannslíf auk viðskiptabanns við Dani, svo að nokkuð sé nefnt.

Stutt er síðan Spaugstofumenn vanvirtu íslenska þjóðsönginn, þótt slíkt varði við lög. Lágkúra á hæsta stigi svo að ekki sé meira sagt. Kristin trú var lögtekin hér á landi fyrir rúmum 1.000 árum og hafa því kristin gildi mótað menningu þjóðarinnar á margvíslegan hátt.

Heilög kvöldmáltíð á sér djúpar rætur í huga kristinna manna sem minnast þá orða Jesú Krists: "Gjörið þetta í mína minningu". Þessum orðum virðast áðurnefndir aðilar hafa algjörlega gleymt eða aldrei vitað af. Þess í stað reyna þeir að niðurlægja og svívirða altarisgöngu fermingarbarna með háttalagi sínu.

Orðin sem Jesús sagði á krossinum eiga hér vel við: "Faðir fyrirgef þeim, því að þeir vita ekki hvað þeir gjöra." Ps.: Eigum við e.t.v. von á því, að næst traðki þeir á íslenska fánanum?

Birgir G. Albertsson.

Undir þessi vel hugsuðu orð skal tekið hér.

Birgir var kennari minn í unglingaskóla, vandaður maður, gefandi í störfum sínum og kunni margt til að miðla nemendum sínum uppbyggilegum áhrifum, virðingu fyrir landinu og andlegum gildum. Bæði hann og bróðir hans Reidar, sællar minningar, sem kenndi mér 9–12 ára gömlum, voru góðir KFUM-menn, ræktu vel trú sína og samfélagið í henni. Það gleður mig því að sjá þennan pistil frá mínum gamla, góða kennara, – en einnig má þetta heita nokkur mælikvarði á það, hve langt Spaugstofumenn hafa gengið, því að mig rámar ekki í, að Birgir hafi áður talið sér skylt að stinga niður penna til að kvarta opinberlega yfir óvirðingu við heilög verðmæti.

Ýmsir hafa reynt að afsaka sproksetningu Spaugstofunnar á þjóðsöngnum, en hitt er ljóst, að með henni eru þeir að brjóta lög. Ekki mæli ég með því, að þeim verði hlíft við lögsókn vegna vinsælda sinna, því að það á að vera grundvallaratriði, að dómsvaldið meðhöndli menn án manngreinarálits. Þar að auki væri það einungis grænt ljós á áframhald slíkrar háðsádeilu á andleg verðmæti, ef Spaugstofumenn komast upp með þetta óáreittir. Þeir hafa gott af því aðhaldi að þurfa að lúta lögum þessa lands eins og hver annar.

10 athugasemdir

Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Fjölmiðlar á Íslandi fylgja sömu stefnu og erlendis, það er að segja að nota hvert tækifæri sem gefst til að hæðast að kristindóminum og gera sem minnst úr honum. Rúv 1 sem á að vera fjölmiðill allra landsmanna og rekinn er með skatttekjum almennings er þar engin undantekning.

Fámennum hópum manna líkt og Siðvernd !!! er gert hátt undir höfði í afskræmingu sinni á fermingunni líkt og tíðkaðist í Austurþýskalandi forðum með „Jugendweihe“ sem var skrumskæling fermingarinnar. Mér hefur skilist að þessi hópur sé afar fámennur: um 250 einstaklingar eða svo. Þeir hafa einnig haldið uppi harðri gagnrýni á Vinaleið Þjóðkirkjunnar og bægslagangurinn í fjölmiðlum verið svo mikill, að ætla mætti að hér væri um fjölmennan hóp að ræða.

Annar fámennur hópur – Vantrúarmenn – birta háðungarmynd af Kristi krossfestum á heimasíðu sinni sem er hreint brot á landslögum. Bægslagangur þeirra nýtur jafnframt mikillar hylli hjá Rúv 1 sem birti langa frétt af þeim þar sem þeir spiluðu bingó á Austurvelli á föstudaginn langa sem er enn annað brot á landslögum. (Í fyrra sýndu þeir klámmynd af Kristi á föstudaginn langa).

Nú hafa 8 Þjóðkirkjuprestar borið fram kæru á hendur Fríkirkjuprestinum málglaða á Tjarnarbakkanum fyrir Siðanefnd Prestafélags Íslands. Slíkt vekur ekki neina undrun meðal kristinna manna því að yfirlýsingar hans hafa svo sannarlega verið særandi á undanförnum árum, þó að síðustu ummæli hans um Þjóðkirkjuna hafi keyrt úr hófi fram.

Spurningin er einungis þessi: Er það ekki skylda kristinna trúarleiðtoga að ganga fram og halda uppi vörnum fyrir kristindóminn og krefjast þess að saksóknari framfylgi landslögum?

Þögn er sama og samþykki og þau einstöku mál sem hér hefur verið minnst á eru einungis dæmi um niðurrifsstarfsemi fámennra öfgahópa sem ruðst hafa fram í fjölmiðlum undir því yfirskini að vera talsmenn almennings. Hvað sem svo þessir einstaklingar og samtök segja, þá er það einu sinni staðreynd, að um 90% Íslendinga telja sig kristna. Ég slæ þessu svona fram til umþenkingar.

11.04.07 @ 15:32
Athugasemd from: Ragnar Geir Brynjólfsson

Spurning hversu vinsælir menn þurfi að vera til að vera hafnir yfir lögin? Fyrst vinsælir Íslendingar fá að nota íslenska þjóðsönginn í háðsádeilum sínum hví skyldu aðrir þá ekki gera það líka? ‘Hvað höfingjarnir hafast að - hinir ætla sér leyfist það’ kvað Hallgrímur Pétursson.

Það sem er þó sárast er að þjóðinni er sendur reikningurinn fyrir öllu þessu eðalgríni.

Það er reyndar svo að sjónvarpshlutinn virðist sjálfur vera sinn versti óvinur í þessu eins og öðru. Það er því miður svo þeir sem ekki geta höndlað sjálfstæðið missa það. Óskandi er að menningarlegt almannaútvarp fari ekki í súginn vegna galgopaháttar þessa ríkisstyrkta afþreyingarapparats heldur verði dreift á fleiri hendur heldur en verið hefur.

11.04.07 @ 18:16
Matthías Ásgeirsson

“…dæmi um niðurrifsstarfsemi fámennra öfgahópa”

Hmm. saklaus mynd af geimveru á krossi og bingó. Já, öfgarnar eru miklar :-)

12.04.07 @ 16:27
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Já, miklar eru þær, svo sannarlega, enda er tákn þeirra laust við allt sakleysi, skrif þeirra laus við alla jákvæða, uppbyggilega stefnu.

12.04.07 @ 16:43
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Guðjón, sem skrifaði hér, er minntur á, að við ætlumst til að fá full nöfn allra sem skrifa. Ég geymi athugasemdina stuttu, ef hún er annars týnd.

12.04.07 @ 18:27
Athugasemd from: Ragnar Geir Brynjólfsson

Ef nú einhver ákveður af samviskuástæðum, sem greinilega geta verið ærnar, að hætta að greiða afnotagjald ríkisútvarpsins og hætta að nota þjónustu þess þá á hann tvo kosti. Annað hvort verður hann að losa sig við öll útvarps- og sjónvarpstæki á heimilinu eða láta innsigla þau eða að öðrum kosti mega eiga von á innheimtuaðgerðum sem gætu líkast til endað með fjárnámi eða uppboði. Í síðara tilfellinu má þá þegar hér er komið sögu kannski vænta mildi framkvæmdavaldsins fyrst það sýnir slíka mildi gagnvart hinni nýstárlegu notkun þjóðsöngsins.

12.04.07 @ 19:36
Matthías Ásgeirsson

Já, miklar eru þær, svo sannarlega, enda er tákn þeirra laust við allt sakleysi

Það er þín túlkun. Tákn okkar er góðlátlegt grín að a) geimverutrú og b) kristni.

, skrif þeirra laus við alla jákvæða, uppbyggilega stefnu.

Það er þín fordómafulla túlkun. Á forsíðu Vantrúar eru nú nokkrar jákvæðar uppbyggilegar greinar að mínu mati. Þér er frjálst að hafa aðra skoðun, en það er ekkert annað en það, órökstudd og fordómafull skoðun þín.

12.04.07 @ 20:44
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Ragnar, gerðu ekki ráð fyrir þeirri mildi. Ríkisvald okkar er ekki “milt", þegar að tekjuöflun þess kemur, sektum vegna ólöglegrar veiði á 53 þorskum, dráttarvaxtakröfum eða (nýjasta dæmið) kaupum á smygluðum sígarettum úr Rússatogara.

Um innlegg Matthíasar hér á undan er þess að geta, að það er ekki annað en það sem við mátti búast frá einum herskáasta málsvara umrædds hóps hér á landi.

12.04.07 @ 21:11
Athugasemd from: Haukur Viðar Alfreðsson
Haukur Viðar Alfreðsson

Ætlist þið líka til að fá full nöfn þeirra sem styðja ykkar málstað?

Eða verður þeirra innleggjum eytt út?

12.04.07 @ 23:29
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Þessi regla um innlegg var sett hér sem almenn regla, ekki frá upphafi Kirkjunetsins, en gildir hér sem regla, já. Sér í lagi áskiljum við okkur rétt til að eyða órökstuddum, ruddalegum, ómálefnalegum innleggjum sem og ófrægingu nafngreindra persóna.

PS. Ein slík, raunar með argasta guðlasti, var sett hér, á eftir þessari athugasemd, frá manni sem kallaði sig Gunnar. Henni var því eytt hið snarasta, og hér læt ég þessari umræðu lokið; hún hefur staðið nógu lengi og er komin út á aðrar brautir en efni greinarinnar gaf tilefni til.

13.04.07 @ 07:33
Ábyrgðarmaður: Jón Valur Jensson guðfræðingur.

Önnur blogg sama höfundar: [jonvalurjensson.blog.is]
[jvj.blog.is]
[krist.blog.is] (þátttaka)
[lifsrettur.blog.is]

Leit

  XML Feeds

multiblog