« Tak rekkju þína og gakk!Lífsvernd og skuggi nasismans »

26.03.06

  14:59:24, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 522 orð  
Flokkur: Ritningarlestur dagsins

„Sonur þinn lifir.“

Guðspjall Jesú Krists þann 27. mars er úr Jóhannesarguðspjalli 4. 43-54

Eftir þessa tvo daga fór hann þaðan til Galíleu. En sjálfur hafði Jesús sagt, að spámaður væri ekki metinn í föðurlandi sínu. Þegar hann kom nú til Galíleu, tóku Galíleumenn honum vel, þar eð þeir höfðu séð allt sem hann gjörði á hátíðinni í Jerúsalem, enda höfðu þeir sjálfir sótt hátíðina. Nú kom hann aftur til Kana í Galíleu, þar sem hann hafði gjört vatn að víni. Í Kapernaum var konungsmaður nokkur, sem átti sjúkan son. Þegar hann frétti, að Jesús væri kominn frá Júdeu til Galíleu, fór hann til hans og bað hann að koma niður eftir og lækna son sinn. En hann var dauðvona. Þá sagði Jesús við hann: „Þér trúið ekki, nema þér sjáið tákn og stórmerki.“ Konungsmaður bað hann: „Herra, kom þú áður en barnið mitt andast.“ Jesús svaraði: „Far þú, sonur þinn lifir.“ Maðurinn trúði því orði, sem Jesús mælti til hans, og fór af stað. En meðan hann var á leiðinni ofan eftir, mættu honum þjónar hans og sögðu, að sonur hans væri á lífi. Hann spurði þá, hvenær honum hefði farið að létta, og þeir svöruðu: „Í gær upp úr hádegi fór hitinn úr honum.“ Þá sá faðirinn, að það var á þeirri stundu, þegar Jesús hafði sagt við hann: „Sonur þinn lifir.“ Og hann tók trú og allt hans heimafólk. Þetta var annað táknið, sem Jesús gjörði, þegar hann kom frá Júdeu til Galíleu.

Hugleiðing
Setjum okkur fyrir sjónir að þetta atvik sem greint er frá í ritningarlestri dagsins hefði átt sér stað á Íslandi í dag. Konungsmaðurinn lagði á sig 35 kílómetra ferðalag til að koma á fund Jesú. Hvernig myndi þetta hljóma á forsíðu DV í dag (bætum við 100 km á bílaöld): Bæjarstjórinn ók 135 km til að biðja trésmið um að lækna son sinn! Líklega ætti þessi sami bæjarstjóri sér ekki viðreisnar von í næstu sveitastjórnarkosningum, hann væri álitinn vera sem hvert annað fífl.

En þessi konungsmaður hafði þetta hugrekki til að bera og braut odd af oflæti sínu og hirti ekkert um háð samborgara sinna. Þrátt fyrir þetta lét Jesú reyna á trú mannsins og gekk úr skugga um einlægni hans. Konungsmaðurinn trúði og stóðst prófið og var reiðubúinn að hverfa heim í trú og sá að sonur hans var á lífi. Iðulega reynir Jesú okkur með þessum hætti enn í dag, yfirleitt til að reyna á trú okkar. Ert þú reiðubúin[n] að trúa orðum Jesú og gera það sem hann býður þér að gera?

No feedback yet