« SekvensíaBlessunarorð hl. Frans frá Assisi »

28.05.10

  19:54:24, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 290 orð  
Flokkur: Bænir

Sólarsöngur hl. Frans frá Assisi

Sólarsöngurinn

Þú hinn æðsti, almáttugi, góði Drottinn,
þín er öll lofgerð, vegsemd, heiður og blessun öll,
allt ber þetta þér einum, þú hinn hæsti
og enginn maður er þess verður að nefna þig.

Lofaður sért þú, Drottinn, og allt sem þú hefur skapað,
einkum þó systir vor, sólin,
sem daginn gjörir, og hana lætur þú lýsa oss,
og fögur er hún og ljómandi í geislagliti,
og hún endurspeglar þig, hinn æðsti.

Lofaður sért þú, Drottinn, fyrir bróður vorn, mánann, og stjörnurnar
sem þú hefur himninum skapað,
með skærum ljóma, skínandi og fögur.

Lofaður sért þú, Drottinn, fyrir bróður vorn, vindinn,
fyrir loftið og skýin, veðurblíðu og veður af öllu tagi,
þú viðheldur með þeim öllu sem þú hefur skapað.

Lofaður sért þú, Drottinn, fyrir systur vora, vatnslindina,
sem er oss svo gagnleg, auðmjúk, ágæt og hrein.

Lofaður sért þú, Drottinn, fyrir bróður vorn, eldinn,
sem þú lætur lýsa um nætur,
fagur er hann og fjörlegur, voldugur og sterkur.

Lofaður sért þú, Drottinn, fyrir systur vora, móður jörð,
sem viðheldur oss og ber oss uppi
og framleiðir ýmiskonar ávexti, litfögur blóm og jurtir.

Lofaður sért þú, Drottinn, fyrir alla þá sem fyrirgefa óvinum sínum af kærleika til þín
og þola þjáningar og veika burði,
sælir eru þeir sem standa stöðugir í friði,
því að þú, hinn æðsti, munt krýna þá.

Lofaður sért þú, Drottinn, fyrir bróður vorn, líkamsdauðann,
sem enginn lifenda fær umflúið.
Vei þeim sem í dauðasynd deyja.

Sælir eru þeir sem óvæntur dauði finnur vinnandi að vilja þínum,
því að þeim getur hinn síðari dauði engan skaða unnið.
Lofið og vegsamið Drottin og þakkið honum
og þjónið honum í allri auðmýkt.

Þýðandi Torfi Ólafsson. Úr bókinni: „Heilagur Frans frá Assisi. Ævi hans og starf“. Útg. Kaþólska kirkjan á Íslandi 1979.

No feedback yet