« Gagnleg yfirlit vefsíðna á Kirkju.netSlæðubann í Frakklandi »

23.04.06

  07:48:39, Skrásetjari: Jon Valur Jensson   , 2199 orð  
Flokkur: Málefni samkynhneigðar á sviði þjóðfélags og kirkju, Apologetica – kristin trúvörn

Smáborgara svarað um kröfur samkynhneigðra

Eftirfarandi grein sendi ég Blaðinu þann 27. janúar sl., en af einhverjum ástæðum hefur ekki þótt henta að birta greinina né að svara bréfi mínu. Er þetta alls ekkert einsdæmi, þegar um er að ræða skrif eða yfirlýsingar þar sem gagnrýni er haldið uppi á stefnuna í málum homma og lesbía, sbr. grein mína Af óhlutdrægni fjölmiðla um málefni samkynhneigðra [1]. ––JVJ.

'Smáborgari' Blaðsins tekur oft hressilega á málum. 16/1 kýs hann að ræða réttindakröfur samkynhneigðra – skoðar fyrst, um hvað deilurnar standi, og fer í gegnum það lið fyrir lið. Í 1. lagi segir hann um aukin réttindi þeirra skv. frumvarpi ríkisstjórnarinnar: "Sjálfsagt" [2]. Þetta var karlmannlega mælt og sjaldan verið beitt jafn-snaggaralegri röksemd. En meðal þeirra réttinda-tillagna, sem hann renndi svo léttilega fram hjá, eru frumættleiðing og tæknifrjóvgun lesbía, ásamt því ákvæði að þær fái að leyna börn sín faðerninu, þrátt fyrir sjálfa grundvallargrein Barnalaganna 2003 sem kveður á um rétt allra barna til að þekkja báða foreldra sína. En í EB-löndunum telja einungis 40% manna, að samkynhneigðir eigi að fá að ættleiða börn, en 60% ekki. Í Noregi vilja 39% leyfa það, en 61% ekki, þannig að ekki er þetta "sjálfsagt mál" í þeim löndum. [3]

Nefndarálitið, sem stjórnarfrumvarpið á að heita byggt á, taldi þessi réttindi ekki sjálfsögð; nefndin klofnaði með og móti ættleiðingu og tæknifrjóvgun fyrir samkynhneigða. Sá nefndarhelmingur sem var á móti, leiddur af formanninum Björgu Thorarensen lagaprófessor, hafði mjög skýr rök fyrir sínu máli og benti á margvíslega annmarka [4] á því að veita samkyn-hneigðum þau réttindi. Hinn helmingurinn, sem óvart var skipaður lesbíu, homma og skrifstofustjóra, skilaði séráliti sem að mínu mati er eitt rauna-legasta dæmi síðari tíma um illa unna vinnu fyrir lagafrumvarp, byggða á hlutdrægum málsgögnum úr eigin ranni (umfram allt á einni bók, morandi af villum og rangtúlkun, undir ritstjórn tveggja stjórnarmanna í Samtökunum '78). Þessi forsenda lagafrumvarps ráðherranna er því ekki beinlínis "sjálfsögð".

Smáborgarinn bætir við: "Samkynhneigt par er eiginlega alveg eins og gagnkynhneigt, plús/mínus einhverjir Y-litningar." Þetta er rangt – það hefur engin genetísk ástæða fundizt fyrir samkynhneigð, og tvíburarannsóknir benda ekki til að hún sé meðfædd. En margt er ólíkt með sam- og gagn-kynhneigðum, m.a. þættir sem hafa mikil áhrif á hæfnina til barnauppeldis.

Með því að skella spursmálinu um ættleiðingar og tæknifrjóvgun beint upp í sjálfsögðu hilluna átti Smáborgarinn í raun lítið verk eftir og löðurmannlegt: að sanna, að í nútímaþjóðfélagi eigi samkynhneigður karl rétt á að ganga í hjónaband með karli og þá auðvitað kona með konu. Það byggir hann ekki sízt á því, að löggjöf ríkisins eigi ekki að grundvallast á guðlegri forsjón og "því ættu lög okkar og siðareglur ekki að taka mið af kröfum einstakra trúfélaga". En nú eru þessi kristnu trúfélög ekki að gera þá kröfu, að afnumin verði ýmis borgaraleg réttindi, sem varða sameiginlegt búsforræði og gagnkvæman erfðarétt samkynhneigðra í staðfestri samvist, rétt þeirra í lífeyris- og tryggingakerfinu, lagavernd gegn áreiti o.fl. Trúfélögin krefjast þess hins vegar flest (Fríkirkjan eina undantekningin), að ekki verði þrýst á um hjónavígslu samkynhneigðra innan þeirra helgu vébanda; í nýlegri yfirlýsingu 20 trúfélaga er fullum fetum sagt, að slík 'heimild' til forstöðumanna trúfélaga gangi þvert gegn kristinni kenningu um hjónabandið; þau frábiðja sér 'heimildina' sem fráleita.

Smáborgarinn gagnrýnir að menn sæki sér siðareglur til kristinna trúarrita [5] og segir í því sambandi: "Um leið og við hættum að fara eftir einhverju því, sem boðað er í Biblíunni (t.d.), svo sem að grýta skækjur, borða ekki svínakjöt o.s.frv., þá erum við búin að skera úr um, að mannleg skynsemi sé æðri trúarritum í því að ákvarða siðareglur okkar og athæfi." En hér gleymir hann því, að Drottinn Jesús Kristur, boðberi sannleikans, fullkomnaði lögmálið og endurskoðaði ákvæði þess; kristin trú er einmitt bundin hans yfirlýsingum bæði um það að dæma ekki hórseku konuna (Jóh.8.11) og þegar hann "lýsti hreina sérhverja fæðu" (Mk.7.19); við kristnir trúum þessari Ritningu. Það er því vindmylluslagur að telja okkur bundin þeim ákvæðum Gamla testamentisins (GT) sem Kristur hefur úrelt; í staðinn getur Smáborgarinn slegizt við Gyðinga og múslimi sem halda á loft þeim ákvæðum. En tilgangur hans leynir sér ekki: hann vill gera það ótrúverðugt hjá kristnum að halda í strangt bann bæði GT og NT gegn samförum fólks af sama kyni, vegna þess að þeir kristnu séu þá komnir í sjálfsmótsögn ef þeir éti svínakjöt eða grýti ekki skækjur. Mótsögnin er engin, eins og ég hef sýnt fram á [6]. Kristnir menn hafa sem fyrr fulla ástæðu til að taka mark á Kristi og postulum hans, sem ljá ekki máls á neinu hjónabandi samkynhneigðra (Mt.19.4-5), heldur staðfesta bann GT yfir kynlífi af því taginu (bæði Jesús þar sem hann minnist sektar Sódómu og Páll postuli o.fl. í bréfum NT). Raunar staðfestir læknisfræðin sömuleiðis, að slíkt kynlíf er óheilnæmt og ófarsælt [7], jafnvel mök lesbía, sem verða í miklu meira mæli fórnarlömb kynsjúkdóma en gagnkynhneigðar konur [8]. En niðurstöður félags- og læknisfræðilegra rannsókna hljóta óhjákvæmilega að vera partur af því sem mannleg skynsemi skoðar í fullri alvöru við íhugun þessara mála.

Jón Valur Jensson, cand. theol.

Neðanmálsgreinar (bætt við hér í þessari netútgáfu):
[1]
Annað dæmi er grein mín Lúther gegn hjónabandi samkynhneigðra, sem ekki fekkst birt í DV þrátt fyrir ítrekuð tilmæli. Allmörg slík tilfelli gæti ég líka nefnt um að greinum um lífsrétt hinna ófæddu og um fósturdeyðingar hafi verið hafnað af ritstjórnum blaða.

[2] Ágætur umsjónarmaður heimspekiþáttarins í Blaðinu mundi hafa sitt að athuga um það, hvað teljist "sjálfsögð réttindi", áður en svo ábúðarmikilu ákvæði er skellt beint inn í minnisbanka okkar yfir löghelguð grundvallar-mannréttindi.

[3] Sjá ‘How to put equality into practice? Anti-discrimination and equal treatment policymaking and LGBT people’, Research paper. OSI – International Policy Fellowship 2004-2005, eftir Judit Takács, Ph.D., á http://www.ilga-europe.org/content/download/1690/10561/file/Takacs-rps.pdf (html: http://216.239.59.104/search?q=cache:E-qtYNt_BCoJ:www.ilga-europe.org/content/download/1690/10561/file/Takacs-rps.pdf+55%25+citizens-of-the-European-Union+adoption-by-homosexual-couples&hl=en&ie=UTF-8 ).

[4] Bæði óvissuþætti og ýmsar staðreyndir og eðlisrök máls. Sjá ‘Skýrslu forsætisráðherra [með nefndarálitinu] um réttarstöðu samkynhneigðra’(lögð fyrir Alþingi á 131. löggjafarþingi 2004–2005), á http://www.althingi.is/altext/131/s/0381.html – einkum ……………

[5] Þetta birtir í raun herskáa andstöðu veraldarhyggju (sæcularismus) og vantrúar gegn ekki einungis kristinni siðfræði, heldur kristinni trú. Undir yfirskini jákvæðni gagnvart trúararfinum tala jafnvel sumir á þennan veg, en skera samt burt allan siðaboðskap Biblíunnar – telja, að ekki beri að taka neitt mark á honum vegna trúar, heldur einungis 'af siðferðisástæðum', og þá er átt við það siðferði, sem mannleg skynsemi geti náð utan um eða fundið út og sannað fyrir sjálfri sér, ekki það, sem meðtekið kunni að vera vegna kennivalds (auctoritas) af guðlegum, biblíulegum eða kirkjulegum toga. – En hvers vegna ætti það ekki að vera eðlilegt og heimilt að hlíta guðlegu kennivaldi? Ef til er sá Guð sem ber umhyggju fyrir mönnunum, hvers vegna ætti honum þá ekki að vera umhugað um að veita okkur leiðsögn? Hvers vegna ætti hann frekar að skilja okkur eftir án leiðsagnar, takmörkuð og bjargarlítil eins og við þó erum, og láta þá menn eina um að finna hinn gullna veg réttrar, siðferðislegrar breytni, sem tíma og aðstöðu hafa til að brjóta erfiðustu úrlausnarefni til mergjar? Ég á þar við heimspekingana og siðfræðingana. En jafnvel þeir finna ekki alltaf sannleikann eða tekst einungis á löngum tíma og með mikilli þrautseigju að leiða í ljós hin ýmsu sannindi, og þeim ber einatt ekki saman um hina réttu afstöðu – lýsa jafnvel ýmsar forsendur eða ályktanir hvers annars rangar. Þess vegna væri þessi guðvana, hrein-hemspekilega leið til góðrar, fullnægjandi siðfræði ekki einungis e.k. forréttindaleið fyrir tiltölulega afar fáa, sem nytu þeirra forréttinda að geta gefið sig að þessu af alvöru, heldur er hún jafnvel ekki einu sinni nógu fullnægjandi leið fyrir þann litla hóp sérfræðinga. En nú hefur Guð sjálfur opinberað vilja sinn og skyldur okkar manna, og þess vegna er það hér eins og í öðrum lífssýnar- og 'heimsskoðunar'-efnum, að það reynist satt, sem Thómas Aquinas talaði um [9], að jafnvel öldruð, ómenntuð þvottakona veit meira um Guð – og rétt siðferði, megum við bæta við – heldur en hinir lærðustu heimspekingar (og þetta minnir t.d. á Sálm. 119.99–100). En þetta sagði Thómas ekki vegna neinnar lítilsvirðingar fyrir heimspekingum, því að hann byggði gríðarmikið á Platón, Aristotelesi o.fl. heimspekingum í flestum fræðum sínum. – Þeir, sem aðhyllast veraldlega, 'sjálfum sér næga' siðfræði, kunna að andmæla þessu, en á hvaða grunni? Ef til er slíkur umhyggjusamur Guð, sem ég lýsti hér áðan, sá sem vill veita okkur andlega og siðræna leiðsögn, hvers vegna ætti hann þá vera ófær um að koma sínum siðaboðskap til skila? Hvað tálmar því, að hann opinberi þann vilja sinn, já, í sögu okkar mannanna? Ef þessu er hafnað af áðurnefndum veraldarhyggju-siðfræðingum og áhangendum þeirra, birtir það í raun fordóm þeirra og lokun gagnvart almáttugum Guði, já, Guði okkar kristinna manna. – Ég get þó 'heyrt' fyrir fram andmæli þeirra: "Slíka opinberun er erfitt að þekkja; slík opinberun, eins og þið kristnir hafið talað um hana, er ekki sanngjörn og réttlát, af því að hún er aðeins veitt útvaldri þjóð (Gyðingum) og hinum kristnu, ekki milljörðum manna öðrum" o.s.frv. – Svarið er í örstuttu máli (um þetta væri hægt að skrifa heila bók raunar): Opinberunina er hægt að þekkja og meta með vissu (verð að sleppa rökum fyrir því hér, enda vil ég að sinni snúa mér mest að eftirfarandi), og hin sögulega opinberun í Gyðingdómi, í boðskap Jesú og kenningu postulanna er ekki hin eina opinberun Guðs í þessu efni, heldur veitir hann öllum sína 'náttúrlegu opinberun' í rödd samvizkunnar að auki, heiðnum sem trúuðum (sbr. Róm.2.14–15; sbr. Post.10.35). Þar til viðbótar er svo andlegur skilningur sem veitist m.a. í bænalífinu, þegar við leitum og hlustum eftir vilja Guðs (sbr. t.d. Sálm. 119.33–36). – Hér hefur afar langt mál verið gert stutt, en það stóð líka aldrei til, að greinin hér ofar fengi lærðar útleggingar um efni, sem í raun ber að fjalla um sérstaklega, því að svo sannarlega verðskuldar þetta efni það.

[6] Sbr. einnig ýtarlegri innlegg mín á vefsíðu Brynjars Mars, ‘Pælingar, speguleranir [sic], vangaveltur og annað slíkt...’ (18.12.2005 kl. 16:13, 21.12. kl. 21:50 og 23.12. kl. 15:18).

[7] Sjá t.d. erindi mitt Hvert er stefnt ... og neðanmálsgreinar þar.

[8] Sjá t.d. George Rekers: Review Of Research On Homosexual Parenting, Adoption, and Foster Parenting, bls. 35–37 (= html), og greinina 'Sexual behaviour of lesbians and bisexual women' eftir Juliu Bailey, Farquhar, Owen og Whittaker, sem birt er í vísindatímaritinu Sexually Transmitted Infections árið 2003, og er hún í pdf-formi á http://sti.bmjjournals.com/cgi/reprint/79/2/147 – þannig er bezt að fá þessa grein, til að missa ekki af töflunum þar o.fl., en í snauðara html-formi er hún á http://sti.bmjjournals.com/cgi/content/full/79/2/147

[9] Sjá t.d. Summa contra Gentiles, I, ………; Summa Theologiæ, I, ………

3 athugasemdir

Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Ég tek skírt fram að ég hef einungis „heyrt“ að nokkur mál séu nú rekin fyrir evrópskum dómstólum þar sem börn krefjast þess, að þeim verði veittar upplýsingar um raunverulegt faðerni sitt eftir tæknifrjóvgun. Fróðlegt væri að fá áreiðanlegar upplýsingar um slíkan málarekstur.

23.04.06 @ 08:06
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Tek fram, að síðan í morgun hef ég bætt allnokkru við neðanmálsgreinarnar, fjölgað þeim (sjá einkum núverandi nmgr. [5]) og á enn eftir bæta nokkru við í tilvitnunum.

Hér er gild vefslóð fyrir hið allmikla rit dr. George Rekers (80 bls.) sem vísað er til í neðanmálsgrein [8]:
http://www.bioeticaweb.com/wp-content/uploads/2014/07/rekers_adoption_gay.pdf

23.04.06 @ 12:53
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Við höfum fengið á þessa vefslóð margar sendingar, að því er virðist frá útlöndum, með einkennilegum orðum (á ensku) og táknum, en engum eiginlegum orðsendingum, og því loka ég hér með fyrir fleiri athugasemdir á þessa slóð, enda hefur hún lengi staðið opin. Ef einhver vill koma raunverulegri athugasemd að, getur hann eða hún haft samband við mig.

27.10.06 @ 06:51
Ábyrgðarmaður: Jón Valur Jensson guðfræðingur.

Önnur blogg sama höfundar: [jonvalurjensson.blog.is]
[jvj.blog.is]
[krist.blog.is] (þátttaka)
[lifsrettur.blog.is]

Leit

  XML Feeds

blogging soft