« Smáborgara svarað um kröfur samkynhneigðraBarnaborg? – já, ef rétt er stjórnað! »

21.04.06

  18:34:56, Skrásetjari: Jon Valur Jensson   , 450 orð  
Flokkur: Trúarbrögð í innbyrðis samskiptum og við veröldina, Islam og múslimar

Slæðubann í Frakklandi

Eftirfarandi grein birtist í Morgunblaðinu á páskadag, 11. apríl 2004. Hún er að sjálfsögðu ekki ‘frétt’ tveimur árum seinna, og ekki greinir hún frá lyktum mála í þeim efnum sem hún fjallar um, né heldur núverandi ástandi. Engu að síður á þessi pistill, með fróðleiksmolum sínum, hér heima innan um greinar í möppunni 'Trúarbrögð í innbyrðis samskiptum og við veröldina'.

Viðhorfsgrein Kristjáns G. Arngrímssonar í Mbl. 31. marz 2004 um nýja löggjöf í Frakklandi var mjög upplýsandi. Því er ekki svo farið, sem margir hafa ímyndað sér, að verið sé að banna að bera islamskar slæður opinberlega, nei, ekki einu sinni í frönskum skólum almennt, heldur einungis í ríkisreknum barna- og unglingaskólum. Þar hafa múslimskar stúlkur flestar kosið að vera slæðulausar, en ofsatrúarmenn beitt þær móðgunum og líkamsmeiðingum til að þvinga þær til að bera slæðuna sem tákn trúar og undirgefni ....

Viðleitni franskra stjórnvalda miðar því ekki að því að banna múslimum tjáningarfrelsi, heldur eru lögin sett börnum til verndar gegn hópþrýstingi og áreitni. Að sumum þeirra verði ekki leyft að tjá trúarafstöðu sína með þessum ytra hætti – né heldur kristnum börnum að bera stóra krossa eða Gyðingum að bera þar kollhúfu sína – er þá skoðað sem eðlileg fórn miðað við þann ávinning, að meirihluti múslimastúlkna sleppur við þá nauðung að vera lokaðar inni í höfuðslæðu frá barnæsku. Annars staðar en í nefndum skólum er notkun slæðunnar og annarra trúartákna frjáls, t.d. í skólum á háskólastigi.

Þetta gerir bannið skiljanlegra, þó að kristnum mönnum kunni að þykja hart að mega ekki bera kross að eigin vali í þessu landi, Gallíu, sem kallaðist "elzta dóttir Rómarkirkjunnar", en sama bannið gildir víst um alla. En svo er annar hængur á, sem sé, að óvíst er hvort þessi takmörkun laganna við lægri skólastigin haldi nokkuð aftur af herskáum islamistum að brennimerkja frönsk stjórnvöld fyrir valdbeitingu gegn trúartjáningarfrelsi þeirra – ofsatrúar­mönn­unum lætur ekki vel að taka þátt í skynsamlegri umræðu lýðræðissamfélags og lúta sanngjarnri niðurstöðu meirihlutavalds. Það fer að verða spurning hvort hin góða viðleitni með slæðubanninu sé átaksins virði, ef róið verður svo undir hatur á stjórnvöldum, að heilaþvegnir harðlínumenn fari að beita hryðjuverkum á franskri grund, jafnvel gegn blásaklausum borgurum, til að þvinga stjórnvöld til undanhalds. Nú þegar hafa heyrzt hótanir sem auðveld­lega má skilja á þann veg. Öll hljótum við að vona að af því verði aldrei, en óneitanlega er þetta deilumál um slæðurnar afar eldfimt. Það verður því áfram áhyggjuefni í Frakklandi, þar sem búa 5-6 milljónir múslima [1], og í Þýzkalandi og fleiri löndum Evrópu, ekki sízt eftir að hryðjuverka­hættan varð svo nálægur veruleiki með fjöldamorðinu mikla 11. marz 2004 í Madrid.

JVJ, guðfræðingur og forstöðumaður Ættfræðiþjónustunnar.

Eftirá-neðanmálsgrein:
[1] Þeir voru komnir í 5,98 milljónir á liðnu hausti, 2005, þegar óeirðirnar miklu gusu þar upp meðal atvinnulausra ungmenna í hverfum múslima …

No feedback yet

Ábyrgðarmaður: Jón Valur Jensson guðfræðingur.

Önnur blogg sama höfundar: [jonvalurjensson.blog.is]
[jvj.blog.is]
[krist.blog.is] (þátttaka)
[lifsrettur.blog.is]

Leit

  XML Feeds

multi-blog engine