« Líkami Padre Pio til sýnisKínverskir embættismenn staðfesta viðræður við Páfagarð »

14.04.08

  20:19:10, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 386 orð  
Flokkur: Lífsvernd, Erlendar fréttir úr heimi kirkjunnar

Skoskur kardínáli varar við stofnfrumufrumvarpi á YouTube

Keith O'Brien kardínáli í Skotlandi hefur nýtt YouTube til að vara við frumvarpi bresku stjórnarinnar um stofnfrumur "Human Fertilisation and Embryology Bill". Í 5 mínútna löngu myndskeiði sem hann sendi öllum þingmönnum Bretlands endurtekur hann andstöðu sína við það að búa til frumublendinga manna og dýra. Sjá má erindi kardínálans hér:

Í athugasemd hér á kirkju.net kom eftirfarandi fram nýlega:

LifeSiteNews.com greindi frá því 2. apríl að rannsóknarteymi við Háskólann í Newcastle hafi nú þegar auðnast að framleiða kynblendingsveru (hybrid) úr genum manna og nautgripa. Sú sem látin var lifa lengst myndaði 32 frumur á þremur dögum áður en hún var deydd. Samkvæmt nýjum breskum lögum er heimilt að láta slíkar kynblendingsverur lifa í 14 daga.

Prófessor John Burns sem er meðlimur í Newcastleteyminu hélt því fram að hér væri ekki um neitt ósiðlegt að ræða og komst svo að orði við BBC: „Hér er um rannsóknarstörf að ræða. Við erum að fást við frumuklasa sem ekki eru látnir þróast áfram.“

Sjá nánar um LifeSiteNews fréttina hér: http://www.lifesitenews.com/ldn/2008/apr/08040201.html.

Lesendum kirkju.net er einnig bent á nýlegan pistil Jóns Vals Jenssonar sem skrifaður er í tilefni af því að Alþingi samþykkti 31. mars síðastliðinn lög um stofnfrumurannsóknir.

Einnig virðist sem svo að íslensku lögin leyfi gerð slíkra blendingsfruma ef horft er á hvernig kjarnaflutningur er skilgreindur:

Kjarnaflutningur: Aðgerð þegar kjarni er fjarlægður úr eggfrumu konu og komið þar fyrir kjarna úr líkamsfrumu.

Sjá: http://www.althingi.is/altext/135/s/0196.html.

Ég bið lesendur að taka eftir að hér er ekki tekið fram að líkamsfruman skuli vera úr manni. Getur hugsast að hér sé verið að gefa heimild til að nota líkamsfrumur bæði manna og dýra? Fróðlegt væri að fá athugasemdir hér inn á síðuna frá fólki sem er vel að sér í þessum fræðum og getur bætt úr vanþekkingu pistlahöfundarins um þessi málefni.

Heimild: Independent Catholic News: http://www.indcatholicnews.com/sci534.html

1 athugasemd

Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Þakka þér fyrir þetta innlegg, Ragnar. Fróðlegt er að hlusta á þennan boðskap biskupsins sem stangast svo mjög á stefnu íslenskra stjórnvalda. Síðar mun ég fjalla um afstöðu Tony Blairs – nýkaþolikkans vífræga – til lífsverndarmála, fósturdeyðinga, stofnfrumurannsókna og samkynhneigðar.

Blair hefur valdið mikilli hneykslan og reiði meðal rómversk kaþólskra í Englandi og lísverndarsinna. Ekki skil ég fremur en aðrir hvers vegna manninum var hleypt inn í kirkjuna vegna þess að ekkert hefur breyst í afstöðu hans til þessara málaflokka.

Ósjálfrátt kemur enska máltækið „If you wish to beat them, then join them (Ef þú vilt sigra þá, sláðust þá í hóp með þeim) upp í hugann. Bandaríska biskuparáðið hefur markað ákveðna stefnu gagnvart slíkum aðilum innan kirkjunnar: Að setja þá út af sakramentinu. Ekki virðist vera vanþörf á því að evrópska biskuparáðið marki sömu stefnuna sem skjótast. Við þekkjum dæmi um þessa afstöðu kaþólskra hér heima sem hlýtur að valda hinum trúuðu hryggð og vera kirkjunni til óþurftar.

15.04.08 @ 07:32