« Maximilian (Max) KolbeAðeins Guð getur fyrirgefið syndir »

15.04.08

  20:57:05, Skrásetjari: Sr. Denis O'Leary   , 656 orð  
Flokkur: Kraftaverk gerast

Skírn í Heilögum Anda

Úr bókinni "Kraftaverk gerast" eftir Systur Briege McKenna.

"Þrátt fyrir allt þetta var það ekki fyrr en eftir mína eigin líkamlegu lækningu, að ég fékk nýjan skilning á altarissakramentinu. Eftir að hafa hlotið "skírn í Andanum", upplifði ég andlega vakningu sem hjálpaði mér að sjá skírar hina miklu gjöf sem Drottinn hefur gefið okkur með altarissakramentinu og hinum sakramentunum.

Ef til vill er mörgu fólki ekki kunnugt um hugtakið "skírn í Andanum". Þetta hugtak er tekið úr ritningunum, sérstaklega öðrum og ellefta kafla Postulasögunnar.

Við tökum við gjöfum Andans í skírninni. Við tökum við Heilögum Anda allt okkar líf - þegar við göngum til altaris og þegar við meðtökum öll hin sakramentin.

Þetta er eins og að fá ………

……… afmælisgjöf. Ef ég yrði hugfangin af fallegum umbúðunum og opnaði aldrei gjöfina, gæti ég aldrei notað innihaldið. Innihaldið er verðmætt, ekki umbúðirnar.

Þannig er þessu varið með gjöf Heilags Anda. Jesús sjálfur gefur okkur Heilagan Anda. Jesús sagði, "Ég mun senda Anda minn og hann mun kenna ykkur alla hluti og hjálpa ykkur að skilja." Skírn í Andanum merkir að opna gjafirnar sem við fengum í skírninni og að standa opin fyrir krafti Heilags Anda til að skilja sakramentin og mátt þeirra. Skírn í Andanum gerir okkur mögulegt að skilja allar gjafirnar sem okkur voru gefnar, svo við getum vaxið í heilagleika. Sakramentin fá aukna merkingu vegna þessarar skírnar í Andanum.

Við höfum ekki fengið sakramentin að gjöf bara til þess við gætum talað um þau eða gortað af þeim. Sakramentin verða að vera virk í lífi okkar. Við verðum að upplifa mátt sakramentisins.

Ef ég til að mynda meðtek Jesú í altarissakramentinu verð ég að endurspegla þann Drottin sem ég hef meðtekið í daglegu lífi mínu.

Ef ég hitti Jesú í iðrunarsakramentinu, verð ég að endurspegla líf iðrunar og fyrirgefningar.

Ef ég meðtek Heilagan Anda í fermingarsakramentinu, sem gefur mér mátt til að verða sterk í Kristi, verð ég sannarlega að ákalla Heilagan Anda þegar ég á í andlegri baráttu.

Ef maður og kona meðtaka Heilagan Anda í sakramenti hjónavígslunnar, hafa þau meðtekið sakramenti sem rennur stöðugt áfram eins og lækur. Gift fólk getur dokað við, hvenær sem þörf krefur, og fengið sér styrk úr Andanum í sakramenti sínu, rétt eins og þyrstur maður dokar við læk til að svala þorsta sínum. Gift, kristið fólk verður að sjá sakramenti sitt sem stöðuga uppsprettu styrks, sem hjálpar því að vera ávallt trú eið sínum og köllun sinni í heiminum.

Sakramenti prestsvígslunnar gerir prestinum kleift að sýna nærveru Krists í starfi sínu og færa fólki Krist í hinum sakramentunum. Þetta sakramenti gerir prestinum líka mögulegt að lifa að fullu í prestlegri köllun sinni, alla daga líf síns, vegna máttar Heilags Anda. Prestsvígsla er sakramenti sem hjálpar prestinum eða djáknanum að endurnýja á hverjum degi vígsluskuldbindingu sína.

Sakramenti sjúkra er miklu meira en helgisiður þar sem farið er til prestsins til að hljóta smurningu með olíu. Vegna Heilags Anda eiga menn fund með læknaranum Jesú. Máttur þessa sakramentis læknar bæði andlega og líkamlega. Í því fyrirgefur Jesús einnig allar syndir.

Skírn í Andanum - sem er ekki sakramenti heldur frekar náðargjöf - gerir okkur mögulegt að skilja og upplifa allar gjafir Andans. Allar þessar gjafir eru til taks í lífi okkar þegar þeirra er þörf, að meðtalinni þeirri sem heilagur Páll talar um í tólfta kafla fyrra Korintubréfs."

http://www.sisterbriege.com/

1 athugasemd

Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Veri Jesús í sálum okkar í Heilögum Anda. Amen.

16.04.08 @ 00:33