« Trú og vísindiSkilningur á Ritningunni »

26.04.06

  21:11:49, Skrásetjari: Sr. Denis O'Leary   , 510 orð  
Flokkur: Nokkrir gullmolar úr Tkk

LEIÐIR TIL AÐ KOMAST TIL ÞEKKINGAR Á GUÐI

31. Sköpuð í mynd Guðs og kölluð til að þekkja hann og elska uppgötvar sú persóna sem leitar Guðs vissar leiðir til að komast til þekkinga á honum. Þær eru einnig kallaðar sannanir fyrir tilveru Guðs, ekki að þær séu sannanir líkt og fást í náttúruvísindum, heldur í merkingu “samstæðra og sannfærandi röksemda” sem gera okkur kleift að öðlast vissu um sannleikann. Þessar “leiðir” til að nálgast Guð í sköpunarverkinu hafa tvo útgangspunkta: efnisheiminn og hina mannlegu persónu.

32. (54, 337) Heimurinn: út frá hreyfingu, tilurð, óvissu og skipulagi og fegurð heimsins getur maður komist til þekkingar á Guði sem upphaf og sem endir alheimsins. Eins og heilagur Páll segir um heiðingjanna: Það, er vitað verður um Guð, er augljóst á meðal þeirra. Guð hefur birt þeim það. Því að hið ósýnilega eðli hans, bæði hans eilífi kraftur og guðdómleiki, er sýnilegt frá sköpun heimsins, með því að það verður skilið af verkum hans. [7] Og heilagur Ágústínus varpar fram þessari áskorun: Spyrjið fegurð jarðarinnar, spyrjið fegurð hafsins, spyrjið fegurð loftsins sem þenst og blæs, spyrjið fegurð himinsins… spyrjið allt þetta. Öll svara þau: “Sjáið hve fögur við erum.” Fegurð þeirra er játning [confessio]. Þessar fegurðir eru háðar breytingum. Hver gerði þær ef ekki sá hinn Fagri [Pulcher] sem ekki er breytingum háður? [8]

33. (1730, 2500, 1776, 1703, 366) Hin mannlega persóna: Í einlægni gagnvart sannleika og fegurð, í skynjun sinni fyrir því sem er siðferðilega rétt, í frelsi sínu og fyrirrödd samvisku sinnar, í löngun sinni eftir hamingjunni og því óendanlega, spyr maðurinn sjálfan sig um tilveru Guðs. Í öllu þessu greinir hann merki um sína andlegu sál. Sálin, sem er “frjókorn eilífðarinnar er við berum í okkur og er óumbreytanleg gagnvart því sem er efnislegt,” [9] getur einungis átt uppruna sinn í Guði.

34. (199) Heimurinn og maðurinn bera vott um það að hvorugir geyma þeir í sér upphaf sitt eða endalok en að þeir eigi hlut í Verunni sjálfri sem ein á hvorki uppruna né endi. Á þennan hátt, eftir ólíkum leiðum, getur maðurinn komist til þekkingar á því að til er veruleiki sem er frumorsök og endimark allra hluta, veruleiki “sem allir kalla Guð”. [10]

35. (50, 159) Skilningarvit mannsins gerir honum kleift að komast til þekkingar á tilveru hins persónulega Guðs. En Guð vildi opinbera sig manninum til að hann gæti gengið til náins samneytis við sig og hann gaf honum náðina til að taka á móti þessari opinberun í trú. Sönnun fyrir tilveru Guðs getur eigi að síður vakið manninn til trúar og hjálpað honum að sjá að trúin stríðir ekki gegn skynseminni.
__

7 Rm 1:19-20; sbr. P 14:15, 17; 17:27-28; SS 13:1-9.
8 Hl. Ágústínus, Sermo 241, 2..PL 38, 1134.
9 GS 18 § 1; sbr. 14 §2.
10 Hl. Tómas frá Akvínó, STh 1, 2, 3.

__

Hérna er að finna Tkk.
http://mariu.kirkju.net/trufraedslurit/index.html

No feedback yet