« Um samkynhneigð í Biblíunni – viðtal við föður Jean-Baptiste EdartMadonna hinna blóðugu tára »

17.03.07

  15:55:15, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 1530 orð  
Flokkur: Fólksfækkunarvandamálið

Sjálfsmorð Vesturlanda? – eftir Joseph D'Agostino

Svo er sagt að menningarheildir deyi oftar út með sjálfsmorði fremur en að þeim sé tortímt. Fyrir tveimur áratugum skrifaði James Burnham bókina Sjálfsmorð Vesturlanda, um eðli fríhyggjunnar sem með afneitun sinni á einu frekar en öðru væri hugmyndafræði sjálfsmorðsins. Hann samdi bókina með hliðsjón af baráttunni við kommúnismann, baráttu sem er fjarri því að vera afstaðin, þrátt fyrir að margir standi í þeirri trú. Í dag horfir sá heimur sem á rætur að rekja til kristindómsins í augu við mikla baráttu við enn fornari fjandmann: Íslam. Með yfirburðum sínum á sviði hernaðartækni, efnahagsgetu og menntunar ættu Vesturlönd auðveldlega að vinna sigur, eða er það ekki? En sjálfsmorðshugmyndafræði fríhyggjunnar er dragbíturinn í þessu sambandi. Múslimar eru ekki mesta ógnin sem steðjar að Vesturlöndum.

Setjum ógnina vegna Íslam til hliðar og strikum yfir vá marxismans og jafnvel þá ógn sem felst í menningarhruni per se, og þrátt fyrir það eru Vesturlönd á hraðferð til sjálfsmorðs. Þetta er einfaldlega líffræðileg staðreynd: Sannleikurinn er sá að Vesturlandabúar eignast ekki nægilega mörg börn. Allar Vestrænar þjóðir stefna nú sem stendur að sjálfsútrýmingu. Samfélagslegt sjálfsmorð getur ekki verið einfaldara en þetta: Þjóðir sem einfaldlega skera á lífsþráð sinn.

Fyrr á þessu ári tókst ég ferð á hendur til andlegs hjarta Vesturlanda – Rómar – þar sem ég hitti tvo af valdamönnum Vatíkansins. Alfonso Lopez Trujillo kardínáli er forseti Stjórnardeildar fjölskyldumála Páfagarðs og Elio Sgreccia er forseti Akademíu lífsins. Þeir viku að því vandamáli sem blasir nú við vestrænum þjóðfélögum sem í sífellt ríkari mæli þverskallast við því að tímgast, einkum í Evrópu, þeirri heimsálfu sem um aldir og allt fram á síðustu ár var áhrifaríkasta uppspretta andlegra og efnislegra framfara og hvatning fyrir alla heimsbyggðina.

„Í vestrænni menningu höfum við orðið vitni að samfélagsgerð sem grundvallast á öfgafullri fríhyggju sem á sér rætur í siðrænni afstæðishyggju,“ sagði Lopez Trujillo kardínáli, „sem hafnar hefðbundnu fjölskyldumunstri sem grundvallast á hjónabandi karls og konu. Þannig hafa annars konar sambýlisform skotið upp kollinum eins og borgaraleg sambönd, de facto sambönd og jafnvel sambönd fólks af sama kyni. Afleiðingin hefur orðið einstaklingsbundin sambúðarform sem grundvallast á réttindum en hafna jafnhliða allri ábyrgð. Að sjálfsögðu fól þessi ábyrgð meðal annars í sér uppeldi barna, en nú á dögum er þetta einungis hreint aukaatriði.“

Afleiðingin? „Fæðingartíðnin sem er 1, 47 börn á konu samkvæmt áætlun ESB fyrir árið 2005 er ekki há sem er alkunn staðreynd,“ sagði kardínálinn. Fæðingartíðni sem nemur 2, 1 börn í þjóðfélagi í jafnvægi er talin nauðsynleg til að tryggja stöðugan íbúafjölda með langtímamarkmið í huga.

Ekkert er eins skýr ummerki um hrörnun samfélags en vísvitandi höfnum fólks á því að tímgast, að vilja ekki ala af sér komandi kynslóðir Ítala, Frakka, Englendinga og svo framvegis. Sumir koma með þau mótrök að fæðingartíðnin muni aukast að nýju í Evrópu, en enn sem komið er sjást þess lítt merki. Aðrir segja að nýbúar muni blása nýju lífi í fólskfjölgunina í Evrópu, rétt eins og sá mikli fjöldi múslima og annarra sem Evrópa hefur flutt inn á s. l. 30 árum muni með einhverjum töfrum aðlagast ríkjandi menningu. Þvert á móti leiða kannanir sífellt í ljós að börn og barnabörn innflytjenda hata gestalönd sín jafnvel í enn ríkara mæli en upphaflegu innflytjendurnir. 

Eins og hans æruverðugheit lagði áherslu á, þá hefur fólk á Vesturlöndum sífellt krafist fleiri „réttinda“ að eigin mati án þess að vega og meta skyldurnar. Þessi réttindi eru ávallt fjandsamleg nýju lífi. „Meðal þeirra ‚réttinda’ sem áunnist hafa eru fósturdeyðingar og getnaðarvarnir sem hafa breitt hugarfarinu. Tilkoma velferðarríkisins hefur aukið enn frekar á vandamálið með því að auka skattbyrðina og koma í veg fyrir allt frumkvæði. Ungt fólk verður að horfast í augu við skattbyrðina og háa tíðni atvinnuleysis sem leiðir einnig til þess að hjónabandinu er slegið á frest og fjölskyldumeðlimunum fækkar enn frekar.

Hvað er gert hvað áhrærir þessi vandamál? Hefur fólk orðið þess áskynja í raun og veru? Enn sem komið er er fátt sem bendir til lausnar þeirra,“ sagði hann. „Svo að eitt dæmi sé tekið, þá er Frakkland eitt fárra ríkja í Evrópu þar sem tilhneigingar hefur gætt í óverulegum mæli til að fjölga fjölskyldumeðlimunum meira en í öðrum ríkjum á meginlandinu.“ Að sjálfsögðu er fæðingartíðnin í Frakklandi en fyrir neðan endurnýjunarmörk, þrátt fyrir hátt hlutfall múslima.

Kaþólsk lönd hafa nú einnig gengið inn í fár fólksfækkunarvetrarins með einhverri lægstu fæðingartíðni í heiminum. „Ítalía, Spánn og Grikkland urðu sein til að feta veg fjölskyldu- og kynlífsbyltingarinnar sem hófst löngu áður í löndum Norðurevrópu og í Frakklandi,“ sagði Sgreccia byskup. „Þar til nýlega voru þetta lönd sem bjuggu við stórar fjölskyldur og háa fæðingartíðni, lönd útflutnings á fólki. En þessar aðstæður hafa breyst á örskömmum tíma í tveimur þessara ríkja [Ítalíu og Spáni], einkum á Spáni sem leitt hefur til eins konar neikvæðra viðbragða hjá unga fólkinu gagnvart því fjölskyldumunstri sem ríkjandi var á tímum foreldra þeirra, afa og amma. Ungar konur sérstaklega vilja sækja háskólana og ná árangri á sviði fjármála, lögfræði og læknisfræði. Af þessum ástæðum vilja þær eignast færri börn og síðar. Á Spáni og Ítalíu virðist efnahagsleg afkoma einstaklingana standa í vegi fyrir lönguninni til að eignast börn.“

Lopes Trujillo kardínáli vitnaði í orð Benedikts páfa XVI sem komst þannig að orði í maí [2006]: „Stórir hlutar heimsins eru að ganga inn í svonefnda „fólksfækkunarvetur“ sem verður þess valdandi að íbúarnir eldast. Þannig virðast fjölskyldur óttast lífið og foreldrahlutverkið. Blása verður þeim hugrekki í brjóst svo að þær haldi áfram að leggja rækt við það göfuga hlutverk að skapa af elsku.“

Með geigvænlegri skilnaðartíðni, vaxandi útgjöldum og múgmenningu sem miðast við að spilla æskunni er það ekki undrunarefni að ungt fólk í dag óttist hjónaband og barneignir, einkum þegar því er innrætt sú trú að peningar og afþreyingariðnaður muni veita því mesta fyllingu. Og fjölmiðlar sem lúta stjórn ríkisvalds og alþjóðlegra samsteypa útbreiðir boðskap gegn lífinu daglega.

„Áhrifamiklir fjölþjóðlegir þrýstihópar og alþjóðastofnanir líkt og „the International Planned Parenthood Federation" eru að hluti til ábyrg fyrir því að „umsnúa öllum fjölskyldugildum og ábyrgðarkennd,“ segir Lopes Trujillo kardínáli. “Þessir aðila hafa innleitt í sumum löndum „kynfræðslu“ í barnaskólum og gagnfræðaskólum, iðulega án þess að foreldrarnir hafi gefið til þess samþykki sitt þar sem sjálfsfróun, getnaðarvarnir, ‚öruggt kynlíf’ og smokkar eru meginboðskapurinn . . .“

Þeir sem eru að gera sér rellu út af múslimum, marxistum eða of mörgum innflytjendum hafa fullan rétt til þess. En þetta sama fólk sem er yfirleitt íhaldssamt í stjórnmálum og siðgæði, horfur yfirleitt fram hjá þeirri líffræðilegu ógn sem steðjar að Vesturlöndum, einkum Evrópu (í reynd fer íbúafjöldi Evrópu sem gróflega má skilgreina ásamt Austurevrópu og Rússlandi fækkandi). Án þess að hverfa aftur til fjölskyldugildanna getum við fullyrt af fyllstu einlægni að sjálfsmorð Vesturlanda er handan við hornið.

Joseph A. D’Agostino er varaforseti „Population Research Institute,“ en Stephen Mosher veitir samtökunum forstöðu. Þau eru fræðslusamtök sem einbeita sér að því að vernda mannhelgina og binda enda á mannréttindabrot sem framin eru undir yfirskini fjölskylduáætlana og fletta ofan af goðsögninni um fólskfjölgunarvandamálið. Ég hvet alla lífsverndarsinna til að gerast áskrifendur að vikulegu fréttayfirliti samtakanna sem þau senda til áskrifenda í rafpósti að kostnaðarlausu. Heimasíða samtakanna er:

http://www.pop.org/

Ég vil sérstaklega vekja athygli lesenda á USAID map of shame:

http://www.pop.org/mos.cfm

No feedback yet