« Guð mun vel fyrir sjáLjóð andans (Cantico espiritual) eftir Jóhannes af Krossi á íslensku »

24.03.06

  14:33:25, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 702 orð  
Flokkur: Ritningarlestur dagsins

Sjá, yngismær verður þunguð og fæðir son

Guðspjall Jesú Krists þann 25. mars (Boðunardags Maríu og Dags hinna óbornu barna) er úr Lúkasarguðspjalli 1. 26-38

En á sjötta mánuði var Gabríel engill sendur frá Guði til borgar í Galíleu, sem heitir Nasaret, til meyjar, er var föstnuð manni, sem Jósef hét, af ætt Davíðs, en mærin hét María. Og engillinn kom inn til hennar og sagði: „Heil vert þú, sem nýtur náðar Guðs! Drottinn er með þér.“ En hún varð hrædd við þessi orð og hugleiddi, hvílík þessi kveðja væri. Og engillinn sagði við hana: „Óttast þú eigi, María, því að þú hefur fundið náð hjá Guði. Þú munt þunguð verða og son ala, og þú skalt láta hann heita JESÚ. Hann mun verða mikill og kallaður Sonur hins Hæsta. Drottinn Guð mun gefa honum hásæti Davíðs föður hans, og hann mun ríkja yfir ætt Jakobs að eilífu, og á ríki hans mun enginn endir verða.“ Þá sagði María við engilinn: „Hvernig má þetta verða, þar eð ég hef ekki karlmanns kennt?“ Og engillinn sagði við hana: „Heilagur Andi mun koma yfir þig og kraftur hins Hæsta mun yfirskyggja þig. Fyrir því mun og barnið verða kallað heilagt, sonur Guðs. Elísabet, frændkona þín, er einnig orðin þunguð að syni í elli sinni, og þetta er sjötti mánuður hennar, sem kölluð var óbyrja, en Guði er enginn hlutur um megn.“ Þá sagði María: „Sjá, ég er ambátt Drottins. Verði mér eftir orðum þínum.“ Og engillinn fór burt frá henni.

Hugleiðing
Í þessum pistlum mínum á Kirkjunetinu hef ég nokkru sinnum minnst á kraftaverk. Ég hef minnst á kraftaverkið í Hiroshima þegar jesúítarnir lifðu af kjarnorkusprenginguna án þess að veikjast nokkru sinnum af hvítblæði eins og svo fjölmargir aðrir (100.000 manns). Ég hef minnst á þær hl. Margréti og hl. Bernadettu frá Lourdes, en jarðneskir líkamar þeirra hafa verið upphafnir yfir lögmál líffræðilegrar hrörnunar. Ég vék einnig að efkarístíuundrinu í Lancíano og ofurmættinum sem vísindamennirnir mældu í opinberunarkapellunni í Medjugorje. EN ÖLL ÞESSI KRAFTAVERK FÖLNA Í SAMANBURÐI VIÐ ÞAÐ KRAFTAVERK ÞEGAR NÝTT BARN ER GETIÐ!

Guð hefur fyrirbúið okkur öllum ráðsályktun „áður en heimurinn var grundvallaður“ (Ef 1. 4). María var óaðskiljanlegur hluti þessa draums Guðs, draumi sem hann opinberaði spámönnum hins Gamla sáttmála:

„Sjá, yngismær verður þunguð og fæðir son og lætur hann heita Immanúel (Guð með oss)“ (Jes 7. 14).

Hin nýja öld hjálpræðisins hefst með getnaði Jesú í lífi Maríu. Sérhvert barn sem getið er á þessari öld hjálpræðisins er heilagt eins og ávöxtur Maríu: Barn Guðs. María var ung að árum og átti engan eiginmann, einungis fjórtán ára gömul, en hún veit að Guð mun vel fyrir sjá. Svar Maríu skírskotar því til allra ungra mæðra:

„Sjá, ég er ambátt Drottins. Verði mér eftir orðum þínum“ (Lk 1. 38).

Guð gefur sérhverri móður mikla náð þegar barn er getið og væntir þess að hún svari af sama fúsleika og trúnaðartrausti og María. Þegar við uppfyllum óskir Guðs veitir hann okkur hjálp og styrk og opnar áður ókunnar leiðir og möguleika. Við getum annað hvort brugðist við náð hans eða hafnað henni. Trúið þið á fyrirheit Guðs, ungu mæður og feður, og bregðist þið rétt við náð hans?

Látum þetta vera bæn okkar á Degi hinna ófæddu barna: „Hjálpa þú okkur til að lifa lífi fullu náðar eins og María með því að trúa á fyrirheit þín og ráðsályktun. Kenndu okkur að svara ávallt með „jái,“ þegar þú knýrð dyra í lífi okkar. Miskunna þú öllum mæðrum í takmarkalausri gæsku þinni!“

No feedback yet