« Og englar þjónuðu honum: | Ef vondur maður snýst frá illsku » |
Örninn sem hl. Silúan, faðir Denis og hl. Jóhannes af Krossi víkja að hér að framan skírskotar til skírnarnáðarinnar. Í skírninni öðlast sálin náð Guðs og fyrirgefningu syndanna í gnægtum. Dýravinurinn er að sjáfsögðu Drottinn sem keypti okkur undan oki syndarinnar með píslum sínum og dauða á helgum krossi. Þetta er sá sannleikur sem hinir heilögu feður lögðu sífellt áherslu á í skrifum sínum:
„Þannig öðlast allir fyrirgefningu syndanna í skírninni, en náð Andans er í réttu hlutfalli við trúna og undangengna hreinsun. Sannarlega öðlumst við frumávexti Andans í skírninni, en hin önnur fæðing er okkur sem upphaf, innsigli og pantur uppljómunar annars lífs.“ [1]
Öll glötum við skírnarnáðinni aftur sökum vanrækslu okkar og gáleysis eins og hinir heilögu feður lögðu sífellt áherslu á:
Temjið hömlulausan hugann í einbeitingarskorti hans og rótleysi sökum áhrifa óvinarins sem hefur sökum vanrækslu okkar sest að nýju að í gálausri sál okkar eftir skírnina ásamt öðrum illum öndum og eins og Drottinn sagði: „Og verður svo hluti þessa manns sínu verri en áður“ (Mt 12. 45). [2]
Þetta eru höfuðlestirnir sjö: Stærilæti, öfund, reiði, leti, græðgi, ofát og losti. Þeir verða að víkja fyrir höfuðdyggðunum fjórum: Hyggindum, réttlæti, hugprýði og hófstillingu og guðdómlegu dyggðunum þremur: trú, von og kærleika. Slíkt leiðir til hreinleika hjartans og þannig hrópaði Davíð: „Skapa í mér hreint hjarta, ó Guð, og veit mér nýjan, stöðugan anda“ (Sl 51. 12).
„Sjá, sem örn stígur hann upp og flýgur“ (Jer 49. 22). Þetta á við þann mannsanda sem endurheimtir skírnarnáðina í óræðisdjúpi bænalífsins. Hinir heilögu feður töluðu þannig um hinn þríþætta veg bænalífsins: Veg hreinsunarinnar, veg uppljómunarinnar og veg sameiningarinnar (í hinu andlega brúðkaupi brúðarsálarinnar og Orðsins).
Hinir heilögu Karmels skiptu þessum vegi helgunar bænarinnar enn frekar niður í níu stig sem grundvallast á kenningum la Madre fundadora hl. Teresu frá Avíla: Þessi níu stig bænarinnar skiptast þannig niður:
1. Hin munnlega bæn.
2. Hin ytri safnbæn.
3. Hin innri safnbæn.
4. Hvíldarbænin (kyrrðarbænin).
5. Fyrsta stig sameiningarbænarinnar.
6. Sameiningarbæn í hrifum elskunnar.
7. Sameiningarbæn í brotthrifum andans.
8. Sameiningarbæn í flugi andans.
9. Hjartakyrrðin og hið andlega brúðkaup.
Við getum sagt að örninn í dæmisögu föður Denis vakni skyndilega til vitundar um hið tigna eðli sitt þegar Guð veitir sálinni náð á náð ofan (Jh 1. 16). Þegar vængir trúar hans og elsku hafa styrkst hefur hann sig til flugs til dýrðar þess óræðisdjúps sem Faðirinn bjó honum frá eilífð í Drottni Jesú Kristi (Ef 1. 4). Þetta er óaðskiljanlegur hluti hinnar heilögu arfleifðar kirkjunnar frá öndverðu.
[1]. Hl. Jóhannes frá Damaskus, kirkjufræðari: Um rétttrúnaðinn IV. IX.
[2]. Abba Jesaja einsetumaður, Philokalia, On the Prayer of the Heart, bls. 86.