« Og englar þjónuðu honum:Ef vondur maður snýst frá illsku »

04.03.06

  14:15:57, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 542 orð  
Flokkur: Bænalífið

„Sjá, sem örn stígur hann upp og flýgur“ (Jer 49. 22)

Örninn sem hl. Silúan, faðir Denis og hl. Jóhannes af Krossi víkja að hér að framan skírskotar til skírnarnáðarinnar. Í skírninni öðlast sálin náð Guðs og fyrirgefningu syndanna í gnægtum. Dýravinurinn er að sjáfsögðu Drottinn sem keypti okkur undan oki syndarinnar með píslum sínum og dauða á helgum krossi. Þetta er sá sannleikur sem hinir heilögu feður lögðu sífellt áherslu á í skrifum sínum:

„Þannig öðlast allir fyrirgefningu syndanna í skírninni, en náð Andans er í réttu hlutfalli við trúna og undangengna hreinsun. Sannarlega öðlumst við frumávexti Andans í skírninni, en hin önnur fæðing er okkur sem upphaf, innsigli og pantur uppljómunar annars lífs.“ [1]

Öll glötum við skírnarnáðinni aftur sökum vanrækslu okkar og gáleysis eins og hinir heilögu feður lögðu sífellt áherslu á:

Temjið hömlulausan hugann í einbeitingarskorti hans og rótleysi sökum áhrifa óvinarins sem hefur sökum vanrækslu okkar sest að nýju að í gálausri sál okkar eftir skírnina ásamt öðrum illum öndum og eins og Drottinn sagði: „Og verður svo hluti þessa manns sínu verri en áður“ (Mt 12. 45). [2]

Þetta eru höfuðlestirnir sjö: Stærilæti, öfund, reiði, leti, græðgi, ofát og losti. Þeir verða að víkja fyrir höfuðdyggðunum fjórum: Hyggindum, réttlæti, hugprýði og hófstillingu og guðdómlegu dyggðunum þremur: trú, von og kærleika. Slíkt leiðir til hreinleika hjartans og þannig hrópaði Davíð: „Skapa í mér hreint hjarta, ó Guð, og veit mér nýjan, stöðugan anda“ (Sl 51. 12).

„Sjá, sem örn stígur hann upp og flýgur“ (Jer 49. 22). Þetta á við þann mannsanda sem endurheimtir skírnarnáðina í óræðisdjúpi bænalífsins. Hinir heilögu feður töluðu þannig um hinn þríþætta veg bænalífsins: Veg hreinsunarinnar, veg uppljómunarinnar og veg sameiningarinnar (í hinu andlega brúðkaupi brúðarsálarinnar og Orðsins).

Hinir heilögu Karmels skiptu þessum vegi helgunar bænarinnar enn frekar niður í níu stig sem grundvallast á kenningum la Madre fundadora hl. Teresu frá Avíla: Þessi níu stig bænarinnar skiptast þannig niður:

1. Hin munnlega bæn.
2. Hin ytri safnbæn.
3. Hin innri safnbæn.
4. Hvíldarbænin (kyrrðarbænin).
5. Fyrsta stig sameiningarbænarinnar.
6. Sameiningarbæn í hrifum elskunnar.
7. Sameiningarbæn í brotthrifum andans.
8. Sameiningarbæn í flugi andans.
9. Hjartakyrrðin og hið andlega brúðkaup.

Við getum sagt að örninn í dæmisögu föður Denis vakni skyndilega til vitundar um hið tigna eðli sitt þegar Guð veitir sálinni náð á náð ofan (Jh 1. 16). Þegar vængir trúar hans og elsku hafa styrkst hefur hann sig til flugs til dýrðar þess óræðisdjúps sem Faðirinn bjó honum frá eilífð í Drottni Jesú Kristi (Ef 1. 4). Þetta er óaðskiljanlegur hluti hinnar heilögu arfleifðar kirkjunnar frá öndverðu.

[1]. Hl. Jóhannes frá Damaskus, kirkjufræðari: Um rétttrúnaðinn IV. IX.
[2]. Abba Jesaja einsetumaður, Philokalia, On the Prayer of the Heart, bls. 86.

Tengill

No feedback yet