« Nýjasta móðgun stjórnvalda við kristindóm og siðferði: gjörnýting fósturvísaVatíkanið opnar öll skjalasöfn sín frá árunum 1922–1939 »

03.07.06

  13:55:02, Skrásetjari: Jon Valur Jensson   , 1195 orð  
Flokkur: Fósturvernd

Sir William Liley – ævi hans og störf að rannsóknum og lækningum á ófæddum börnum

Erindi flutt á fundi Lífsvonar 12. des. 1992

Maður sá sem hér segir frá var einn af brautryðjendum fósturfræðinnar (á latínu: fœtologia), þeirrar greinar læknisfræðinnar, sem fjallar um hina ófæddu frá fyrstu stigum til fæðingarinnar. Með rannsóknum sínum lagði hann grunninn að lækningaaðferðum sem síðan hafa bjargað lífi þúsunda barna. Ævi hans var stutt, en þeim mun farsælli, og þó að það eigi ekki alltaf fyrir brautryðjendum að liggja að hljóta viðurkenningu í lifanda lífi, þá fór þessi maður ekki varhluta af því að falla í skaut allur hugsanlegur heiður, sem fremstu vísindamönnum í læknisfræði getur hlotnazt. Það er áhugavert að kynna sér starfsferil hans, en fyrir okkur lífsverndarsinna er jafnframt og ekki síður áhugavert að kynnast því, hvernig hann, eftir margra ára rannsóknir á hinum ófæddu, gerðist einn af stofnendum lífsverndarsamtaka í landi sínu. Þar gaf hann málstaðnum óskipta krafta sína, eins og honum var framast unnt, og sýndi með fordæmi sínu, m.a. í eigin fjölskyldulífi, hve heilsteyptur hann var í viðurkenningu sinni og baráttu fyrir helgi lífsins – jafnt hinna veikburða sem hinna heilbrigðu.

Undirbúningsár        Albert William Liley var Nýsjálendingur, fæddur í Auckland 1929, en faðir hans var kaupmaður. Á unga aldri sýndi Liley mikinn áhuga á náttúrufræði og kom sér upp eins konar dýra- og jurtagarði í bakgarði foreldra sinna. Hann var bráðger nemandi og tók hæsta inntökupróf í háskólann 1949 og hugðist í fyrstu verða skógfræðingur. En læknir fjölskyldunnar hvatti hann til að leggja stund á læknisfræði, og þá færði hann sig úr Auckland-háskólanum í læknisfræðiháskólann í Otago, þar sem hann skaraði fram úr öllum í líffærafræði.

Eftir útskrift sína 1954 var hann í tvö ár við rannsóknarnám í taugalífeðlisfræði við háskólann í Canberra í Ástralíu. Prófessorarnir þar urðu "skelkaðir," eins og hann sagði, þegar þeir heyrðu, að hann ætlaði að takast á hendur starf í fæðingarlækningum við sjúkrahús í Auckland. Hann, þessi ungi vísindamaður, væri að kasta frá sér tækifærinu til glæsilegs starfsframa til þess eins að hefja störf í einhverri "óvísindalegustu" grein læknisfræðinnar. En William Liley var það nauðsyn að vera í þjónustu fólksins. Og það var ekki í eðli hans að koma nálægt neinum fræðum án þess að leggja sitt af mörkum til að bæta þau. Það tók hann aðeins sjö ár að öðlast alþjóðlega viðurkenningu sem brautryðjandi í hinni nýju vísindagrein, fósturfræðinni. Og tíu árum síðar var hann sleginn til riddara af Elísabetu drottningu.

Neyðarlausn á banvænum sjúkdómi

Snemma á ferli sínum hóf hann að glíma við Rhesus-blóðsjúkdóminn, sem þá var algengasta dánarorsökin hjá ófæddum og nýfæddum börnum, en orsökin er sú (eins og læknisfræðin lýsir því), að blóð barnsins er Rh-pósitíft, en blóð móðurinnar Rh-negatíft. Líkami móðurinnar veitir þá andsvar gegn "annarlegum" blóðkornum með því að mynda mótefni, sem ráðast á þau og brjóta þau niður. Það hafði lengi verið eina vonin í slíku tilfelli að framkalla fæðingu fyrir tímann og gefa barninu þá þegar blóð. Eins og Vísindaakademían í New York sagði nokkrum árum síðar, þá var álitið "óhugsandi", að mannlegar verur gætu notið góðs af rannsóknum og læknismeðferð fyrir fæðingu. Hin hefðbundnu læknavísindi litu á móðurlíf þungaðrar konu sem ósnertanlegt. En Liley hélt því fram, að neyðarástæður kölluðu á neyðarúrræði. Þrátt fyrir að kollegar hans hristu hausinn, byrjaði hann fyrst á því að stinga mjórri nál, holri að innan, gegnum móðurkviðinn og inn í legið til að rannsaka fósturvökvann eða legvatnið, sem umlykur barnið. Rannsókn á fósturvökvanum leiddi svo í ljós, hvaða börn væru í hættu stödd og þyrftu á framkallaðri fæðingu að halda. (Rannsókn þessi er venjulega kölluð "legvatnspróf", sem margir kannast við.) En í 10% tilfella voru börnin of blóðlítil eða of ung til að hægt væri að framkalla fæðingu.

Þá varð ný neyðarlausn til í huga Lileys. Eins rökrétt og hún gat kallazt, stríddi hún gegn öllum hefðbundum venjum, því að hún fólst í blóðgjöf fyrir fæðingu. Hann lét það ekki halda sér í skefjum, hversu erfitt það var að finna þennan örsmáa stað, sem lækning hans varð að beinast að, þ.e.a.s. djúpt í kvið hins ófædda barns, sem var um 32ja vikna og á hreyfingu. Liley hófst ótrauður handa. Fyrstu tvær blóðgjafirnar mistókust, vegna þess að börnin voru þá þegar of veikburða. Sú þriðja mistókst líka, en barnið lifði þó mun lengur en búast mátti við. Liley var nú sannfærður um að hann og aðstoðarmenn hans væru á réttri leið. Í fjórða tilfellinu var flogið 200 mílna vegalengd með móðurina til Auckland, með því að barn hennar var lífshættu. Barnið fékk tvær blóðgjafir, og þann 20. september 1963 fæddist Grant Liley McLeod – fyrsta barnið í sögu læknisfræðinnar, sem gefið var líf með læknisaðgerð fyrir fæðingu.

Í kjölfarið fylgdi alþjóðleg viðurkenning fyrir þennan 34ra ára frumherja í fósturlækningum. Hann var yngstur manna gerður að heiðursfélaga bæði í félagi brezkra fæðingar- og kvensjúkdómalækna (Royal College of Obstetricians and Gynecologists) og eins hinu bandaríska, auk annarra viðurkenninga. Hann var skipaður prófessor í nýrri stöðu í lífeðlisfræði ófæddra og nýfæddra barna við háskólann í Auckland, og árið 1973, á sama degi og 100. barninu var bjargað með blóðgjöf í móðurkviði á sjúkrahúsi Lileys (National Women´s Hospital), var hann sleginn til riddara af Elíabetu drottningu og kallast því Sir William Liley.

Misbeiting læknavísinda gegn lífinu

Sir William þótti það öfugsnúið og villimannlegt, að á sama tíma og hið ófædda barn var viðurkennt sem læknisfræðilegt rannsóknarefni og meðferðaraðili, skyldi koma upp stöðugur pólitískur þrýstingur á að hafna því félagslega séð. Það urðu honum enn frekari vonbrigði, eftir að hafa fundið upp legvatnsprófið til að nota sem læknisgreiningu til að bjarga lífi, að hann skyldi þurfa að upplifa, að því væri misbeitt til þess að greina fötluð börn fyrir fæðingu, svo að eyða mætti þeim með fóstureyðingu. Jafnvel á sínum eigin spítala sá hann nálarnar, sem hann hafði þróað til blóðgjafar fyrir ófædd börn, notaðar til að sprauta banvænni saltupplausn í móðurkviðinn til að framkalla fóstureyðingu.

Liley hlífði sér aldrei við því, sem hann áleit skyldu sína, og árið 1970 tók hann hikstalaust við embætti forseta Félagsins fyrir vernd hins ófædda barns í Nýja-Sjálandi. Hann var enginn skrautfígúra í því embætti, heldur fór um allt landið og miklu víðar í baráttu fyrir viðurkenningu á hinu ófædda barni sem mannlegri veru með óskerðanleg mannréttindi. Allt til æviloka var hann við vísindarannsóknir á þungunarskeiðinu og hinum ófæddu. Honum tókst þá m.a. að leiða í ljós þá mikilvægu staðreynd, að tilhneigingin til áðurnefnds blóðsjúkdóms var arfgeng.

Þótt hann hefði sótt kirkju hjá meþódistum og presbyteríönum á yngri árum, var Liley ekki trúarlega hneigður, þegar á leið. Andstaða hans við fóstureyðingar var byggð á læknisfræðilegum og mannúðarsjónarmiðum, ekki trúarlegum. Hann og kona hans Margaret, sem sjálf var barnalæknir og lífsverndarsinni, áttu fimm börn, en árið 1976 ættleiddu þau 2ja ára dóttur með Down´s Syndrome (mongólíta).

Prófessor Liley lézt árið 1983, langt fyrir aldur fram, aðeins 56 ára, og var sárt saknað meðal samstarfsmanna og lífsverndarsinna víða um heim.

JVJ þýddi og tók saman og byggði að mestu á grein eftir Pat McCarthy, ritstjóra nýsjálenzka lífsverndarblaðsins Humanity, en greinin birtist í brezka blaðinu Human Concern, málgagni Society for the Protection of Unborn Children, hausthefti 1983. Til viðbótar við þetta er rétt að vísa á annað æviágrip Lileys, eftir Sir John Scott, en því fylgir ýtarleg skrá um rit hans.

Hér á Kirkjunetinu er birt ein grein dr. Lileys: Minnsta mannsbarnið, sem er mjög áhugaverð lesning og lærdómsrík fyrir marga.

5 athugasemdir

Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Vel skrifuð og afar fróðleg grein, nafni. Hafðu hugheilar þakkir fyrir. Meira af slíku í gagnabanka Kirkjunetsins.

03.07.06 @ 15:16
Athugasemd from: Aðalbjörn Leifsson
Aðalbjörn Leifsson

Hugsið ykkur bræður hvað Satan er óhugnalegur að hann notar þekkingu þessa manns til að lækna til að eyða ófæddum börnum. Satan er það sem Ritningin segir hann vera en hann kemur aðeins til að slátra, stela og eyða. Getið þið bræður sagt mér hvernig þessir menn sem framkvæma fóstureyðingu, eða á ég ekki að kalla þetta morð, geta sagt: við erum ekki að gera neitt rangt.

12.07.06 @ 19:30
Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Aðalbjörn. Þú getur lesið ágæta umfjöllun um illvirki þeirra í bókinni:

Glæpurinn gegn mannkyninu – Kynþáttahyggjan og markviss fækkun jarðarbúa.

Þú finnur hana á:
VEFRIT KARMELS:

Þannig hafa þeir myrt milljarð ófæddra barna á síðustu tveimur áratugum. Allt verður að skilja þetta í ljósi orða Páls postula: „Því að ekki kemur dagurinn nema fráhvarfið komi fyrst og maðurinn syndarinnar birtist“ (2 Þ 2. 3).

Sjálf hefur Guðsmóðirin sagt að við lifum nú á endatímunum, en eftir það birtist Guðsríkið á jörðu. Þú sérð þannig hvernig Sovétríkjunum var svipt burt á einu andartaki þegar tími Guðs var fullnaður. Þetta hafði Guðsmóðirin sagt fyrir í Fatíma árið 1917. Sjálf hefur hún sagt: „Logi elsku míns flekklausa hjarta mun blinda Satan og svartengla hans.“ Væntanlega teljast samverkamenn hans á jörðinni til svartengla hans.

12.07.06 @ 20:58
Athugasemd from: Aðalbjörn Leifsson
Aðalbjörn Leifsson

Jón ég fór inn á þennann vef,
ég skoðaði myndir og þetta er
ógeðslegt. Ég trúi ekki að það
sé hægt að framkvæma þessi morð
óátalið, ég er að tala um barna
morðin í kviði móðurinnar. Sumir þessara lækna eru fjölda
morðingjar, það er morð að úthella saklausu blóði segir Ritningin. Guð blessi ykkur bræður í jesú nafni. Amen.

17.07.06 @ 19:00
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Þakka þér, Aðalbjörn. Guðs blessun sé með þér og öllum þínum.

17.07.06 @ 21:00
Ábyrgðarmaður: Jón Valur Jensson guðfræðingur.

Önnur blogg sama höfundar: [jonvalurjensson.blog.is]
[jvj.blog.is]
[krist.blog.is] (þátttaka)
[lifsrettur.blog.is]

Leit

  XML Feeds

powered by b2evolution CMS