« John Byrom (1692–1763): Þrá (Desiderium)Erkibiskupinn í Kantarabyrgi segir, að samkynhneigðir verði eins og aðrir að breyta venjum, hegðun, hugmyndum og tilfinningum sínum, þegar þeir vilja taka þátt í hinu kristna, kirkjulega lífi »

09.09.06

  19:12:56, Skrásetjari: Jon Valur Jensson   , 544 orð  
Flokkur: Trúarljóðaþýðingar JVJ

Sir Philip Sidney: Splendidis longum valedico Nugis

Ó, hverf mér, ást, sem verður mold, ei meir,
og megi önd mín leita að æðri sýn
og finna að lokum auð, sem aldrei deyr,
því allt, sem bliknar skjótt, þess gleði dvín.
Slökk ljóma þinn––í auðmýkt oki lút,
sem indælt bauð þér frelsi, er vara má,
sem brýzt í gegnum skýin, skín svo út
í skærri birtu, að megi öll augu sjá.
Tak við í trú! lát ljós það leiða þig
um lífs þíns örskotsbraut frá vöggu að gröf,
og fall ei frá á vondan villustig …
þín von er Guð––þín sál hans Anda gjöf.
Ég kveð þig, veröld! allt sem átti í þér …
En, Eilíf Ást, græð lífs þíns blóm í mér !

Sir Philip Sidney (1554–1586) var samtíðarmaður Shakespeares, einum áratug eldri.

Hann var einn glæstasti hirðmaður Elísabetar drottningar, þingmaður og riddari Sokkabandsorðunnar, óumdeildur afburðamaður á mörgum sviðum, en lengst mun minning hans lifa í skáldverkunum. Verk hans Arcadia, sagnasafn í bundnu og óbundnu máli, hafði mikil áhrif á þróun skáldsöguformsins, en í ljóðlist er hann umfram allt þekktur og dáður sem sonnettusmiður. Astrophel og Stella (sem merkir hér stjörnudýrkandann og stjörnuna hans), verk sem kom ekki út fyrr en 1591 (en 18 árum áður en sonnettur Shakespeares birtust), náði miklum vinsældum og markaði upphaf þeirrar ljóðatízku í lok 16. aldar að yrkja langa sonnettubálka, gjarnan með kvæðum undir öðrum bragarháttum inn á milli (eins og var reyndar líka einkennið á ljóðasafni Petrarca, aðalfrumkvöðuls sonnettunnar á 14. öld). Ein hirðmey drottningar, Penelope Devereux, systir jarlsins af Essex, sem Sidney þekkti frá bernskuárum, var efni flestra sonnettna hans, þótt hún endurgyldi ekki ást hans og gengi í hjónaband um það leyti sem hann hóf að rita sonnettubálkinn. Sidney féll í orrustu aðeins 32ja ára að aldri. Ljóðið hér á undan ber þess merki að vera ort eftir vonbrigði í ástum. Þrátt fyrir latneskan titil er það ort á ensku, en inntak fyrirsagnarinnar má kalla kveðju til þeirra fánýtu fyrirbæra sem of lengi hafa staðið ljómandi fyrir augum skáldsins.

Að sönnu verður ljóðið í þessari gerð að kallast nokkuð endursögð þýðing, en þá koma mér líka í hug orð míns ágæta kennara, dr. Þóris Kr. Þórðarsonar, sem ræddi eitt sinn sem oftar um vandkvæði þýðinga og sagði þá s.k. “dýnamískan equivalenz” (eitthvað sem jafngildir frumtextanum að krafti til, þótt umorðað sé) oft vera bezta úrræðið og meira í samræmi við upphaflega merkingu en sumar beinar þýðingar. Skal þó ekki undan því vikizt, að í þessari ljóðaþýðingu hefur eitthvað af frumleik Sidneys að ósekju farið forgörðum og ekki fyllilega bjargazt með umorðun minni. Hin trúarlega meginhugsun um fallvaltleik jarðneskra gæða og hina einu háleitu köllun, sem manninum er fyrirheitin, á þó að vera fullljós af þessum fjórtánlínungi. (Aths. þýðanda, JVJ.)

Áður birt í Kirkjuritinu fyrir fáeinum árum, en þýðingin er frá jan. 2000.

4 athugasemdir

Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Góð er hún þýðing þin, bróðir, á þessari jarðarminningu. Gott er einnig til þess að hugsa að heimkynni Eílfrar Ástar er „föðurland vort á himnum“ (Fl 3. 20) sem í skuggsjá örskotsstundar, „að megi öll augu sjá.“

09.09.06 @ 20:23
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Ég hygg að í 7.–8. línu sé skáldið kannski óbeint að líkja þessu við komu Mannssonarins (Krists) í mætti “á skýjum himins” við endi tímanna (Mt. 24.30, 26.64), en þó er Sidney að tala um birtu trúarskilnings hér og nú í næstu línum, þannig að í raun er hann ekki að fjalla um endi tímanna.

09.09.06 @ 20:38
Athugasemd from: Ragnar Geir Brynjólfsson

Þetta er vel gert. Auk þess að íslenska ljóðið er með endarími eins og fyrirmyndin eru komnir stuðlar sem tæplega mega vanta í íslenskar sonnettur á hefðbundnu formi. Myndmálið er fjölbreyttara í þýðingunni, sérstaklega þegar horft er á hvað stuðlarnir hljóta að hafa bundið orðavalið - en á gott skáld hljóta þeir að virka örvandi í þá veru að finna myndlíkingar sem innihalda orð sem bæði falla að stuðlum og rími.

09.09.06 @ 21:09
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Ég man ekki eftir neinum ísl. sonnettuþýðanda sem notar ekki stuðlasetningu. – Þakka ykkur athugasemdirnar, en hælið mér ekki um of.

09.09.06 @ 21:58
Ábyrgðarmaður: Jón Valur Jensson guðfræðingur.

Önnur blogg sama höfundar: [jonvalurjensson.blog.is]
[jvj.blog.is]
[krist.blog.is] (þátttaka)
[lifsrettur.blog.is]

Leit

  XML Feeds

powered by b2evolution free blog software