« Kristin þjóðmálahreyfingSiðferði og samfélag – nauðsyn kristins varnarstarfs »

16.07.06

  15:15:46, Skrásetjari: Jon Valur Jensson   , 625 orð  
Flokkur: Fósturvernd

Sinnaskipti fósturdeyðingarmanna, eftir Frank Pavone

Frank Pavone, kaþólskur prestur, er leiðandi maður samtakanna Priests for Life um öll Bandaríkin. Jón Rafn hefur áður kynnt hér ýmis skrif hans, svo að lesendum á hann að vera að góðu kunnur. Þessi grein var send út 3. júlí.

"Hundraðshöfðinginn, sem stóð við kross Krists, varð skyndilega altekinn hryllingi vegna krossfestingarinnar, sem honum hafði verið fyrirskipað að framkvæma. Þegar Kristur gaf upp andann, lét hundraðshöfðinginn sverð sitt falla, kraup á kné og hrópaði: "Sannarlega var þetta réttlátur maður!"

Þau okkar, sem tekið hafa þátt í því að drepa ófædd börn, mætti kalla hundraðshöfðingja nútímans. Við höfum látið sverð okkar gegn hinu ófædda barni niður falla. Nú játum við sekt okkar í allri hennar dýpt og glímum við afleiðingar verknaðar okkar....

Til þess að endurlífga mennsku okkar þurfum við að fyrirgefa og hlotnast fyrirgefning, að láta sættast og hljóta lækningu."

Þessi orð er að finna í bæklingi frá 'Samtökum hundraðshöfðingja', sem eru félagsskapur fyrrverandi starfsmanna fósturdeyðingastöðva. Orð þeirra bera með sér á fallegan hátt og vekjandi það sem er að gerast víða á meðal bandarísku þjóðarinnar, þar sem hundruð fóstureyðingamanna og aðrir, sem hjá þeim starfa, eru að upplifa iðrun, afturhvarf og lækningu.

Í síðustu sjö vikulegu pistlum mínum hef ég verið að íhuga ævi og sálarlíf fóstureyðingarmanna. Ég hef vitnað til þeirra eigin orða, svo að þið megið fá innsýn í sársauka þeirra. Í þessum pistli get ég sagt ykkur það fagnandi, að þeir fyrrverandi fóstureyðingamenn, sem þið kunnið að þekkja til, svo sem Bernard Nathanson, Carol Everett og Tony Levatino, eru einungis "toppurinn á ísjakanum." Það er fjöldinn allur af öðrum í þessum hópi. Fleiri til viðbótar halda áfram að koma inn í ljós Krists nánast daglega.

Þjónustusamtök okkar, Prestar með lífinu, starfrækja heimsins stærsta hjálparprógramm sem vinnur að endurhæfingu fólks eftir fóstureyðingar, en það kallast Víngarður Rakelar (Rachel´s Vineyard). Samtök okkar veita líka fyrrverandi fóstureyðingarmönnum aðstoð á leið þeirra til iðrunar. Ég mun aldrei gleyma því, er ég sat á tali við hóp þessara karla og kvenna um nokkurra daga skeið í dymbilviku og hlustaði á þau strengja þess heit, að heim komin myndu þau reyna að ná sambandi við hverja einustu konu, sem þau hefðu framkvæmt fóstureyðingu hjá, til að biðja hana fyrirgefningar. Ég heyrði þau einnig segja frá því, hvernig þau, eftir afturhvarfið, hygðust helga sérhvern dag einhverju barni sem þau hefðu drepið. Þau ætluðu að gefa þessum börnum nöfn, skrifa þeim bréf og biðjast fyrir í innilegri iðrunarbæn.

Hver eru upptök þessa afturhvarfs? Reynsla mín staðfestir það, sem dr. Philip Ney komst að raun um. Hann skrifar: "Þau atriði, sem breyttu skoðun þeirra á því að framkvæma fóstureyðingu, voru eftirfarandi (talin upp í röð eftir því hvað algengast var): sannanir fyrir mennsku hins ófædda ungviðis, andleg reynsla, sálræn streita, sönnun fyrir sálrænni streitu móðurinnar, greinar um vísindaleg efni, það að vera meðtekinn sem persóna, persónuleg tengsl við einhvern lífsverndarsinna, mótmælastöður og hindrunartilraunir lífsverndarsinna fyrir utan fóstureyðingarstöðvar. Hjá flestum var um meira en einn áhrifaþátt að ræða. (The Centurion's Pathway, s. 77).

Þessi leið er ekki auðveld. Hér er við svo mikinn sársauka og sektarkennd að glíma og svo margar afsakanir í röksemda-formi, sem komast þarf yfir, að hundraðshöfðinginn mun freistast til að segja: "Nú er allt í lagi – Jesús hefur læknað mig, og ég mun gleyma fortíðinni." En sá Jesús, sem læknar okkur, kallar okkur til þess að horfast í augu við sannleikann um það, sem við höfum gert, bæta fyrir þær gerðir okkar, þar sem það er mögulegt, og að gefa okkur í það erfiða verkefni að reyna að ráða bót á lemstruðum samböndum milli fólks. Prestar með lífinu eru reiðubúnir til aðstoðar.

Biðjum fyrir 'Hundraðshöfðingjunum'. Megi þeir verða sem flestir!

–––––––––––––––––––––––––––––––––––––
Hægt er að fá senda vikulega fréttapistla frá vefsetrinu www.priestsforlife.org eða skoða vefsetrið sjálft. Netfangið þar er mail@priestsforlife.org

32 athugasemdir

Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Um fyrri skrif Franks Pavone, sjá m.a. þýðingu Jóns Rafns á einni grein hans: Tíu svör til stjórnmálamanna sem styðja fóstureyðingar.

21.07.06 @ 13:38
Athugasemd from: Aðalbjörn Leifsson
Aðalbjörn Leifsson

Hallelúja Kristur Jesús, fóstureyðingarmenn farnir að iðrast.
Það er frábært, Guð er góður Guð
Mætti bara vera svo að læknar
hér á Íslandi hættu að myrða
börnin í kviði mæðranna. Ég trúi að svo verði. Guð blessi ykkur bræður í Jesú nafni Amen.

24.07.06 @ 18:26
Athugasemd from: Magnús
Magnús

Orðið morð er notað yfir ólöglegt manndráp. Dráp á fóstrum er löglegt manndráp á Íslandi (en ætti að vera ólöglegt) og því er orðið morð ranglega notað í því samhengi.

25.07.06 @ 11:02
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

En ef lögin eru röng, Magnús? Ef lög í Þýzkalandi leyfðu SS-manni að drepa saklausan Gyðing, var það þá ekki lengur morð? En fóstrið er alltaf saklaust.

Sjálfur hef ég tekið afstöðu gegn því að nota orðið fósturmorð, en byggt það ekki á þessari mótbáru Magnúsar, heldur þeirri, að orðið morð í gömlu, íslenzku máli var notað um manndráp með leynd, þar sem drápsmaðurinn lýsti ekki vígi á hendur sér, heldur reyndi að komast upp með verknaðinn í skjóli þess, að enginn gæti vitað, hver hann var. Svo er ekki um fósturdráp, og því notað ég ekki orðið ‘morð’ um það. Hins vegar hef ég fullan skilning á því, hvernig Aðalbjörn talar um þetta, enda má segja, að það rekist ekkert á nútímalega notkun þessa orðs. Greint er jú milli morðs og manndráps, en þá oftast þegar talað er um manndráp af misgáningi eða slysni (t.a.m. í heiftarlegum slagsmálum), en morð er hins vegar eitthvað sem framið er að yfirlögðu ráði. Það á reyndar einmitt við um fósturdráp skv. lögunum frá 1975.

25.07.06 @ 15:31
Athugasemd from: Ragnar Geir Brynjólfsson

Ég tek undir með Magnúsi og sömuleiðis undir afstöðu Jóns gegn orðinu fósturmorð. Morðingi er sá einn sem hefur verið dæmdur fyrir morð samkvæmt lögum. Aðrir eru saklausir uns sekt er sönnuð. Þar sem lögin heimila fóstureyðingar (ranglega að margra mati) þá er í mótsögn við lögin að tala um að þeir sem framkvæma fóstureyðingar séu að ‘myrða’ eins og Aðalbjörn gerir. Ef einhverjum þykir lögin ranglát þá á hinn sami að beita sér fyrir því að þeim verði breytt á málefnalegan hátt. Þessi harða orðnotkun um lækna á Íslandi er líka án tilefnis þegar horft er á efni greinarinnar sem snýst um fyrirgefningu og afturhvarf. Enn fráleitara er að benda á lækna sérstaklega sem ábyrga fyrir þessum verknaði. Þeir sem ábyrgðina bera er fyrst og fremst fólk í áhrifastöðum, sérstaklega það sem situr löggjafasamkomu þjóðarinnar, og hefur greitt þessum afleitu lögum atkvæði annað hvort beint árið 1975 eða með þögninni síðan þá. Ennfremur þeir sem beita sér og styðja eða hafa stutt opinberlega málstað fóstureyðinga. Í innsláttarglugga vefsetursins eru þeir sem leggja orð í belg áminntir um háttvísi í málfari. Orðið ‘myrða’ verður því yfirstrikað í texta Aðalbjarnar. „Ekki benda, réttu frekar hjálparhönd“ sá ég nýlega á skilti baptistaprests í biblíubeltinu. Viltu kannski hafa þau orð baptistaprestsins í huga Aðalbjörn þegar þú skrifar inn á þetta vefsetur í framtíðinni?

25.07.06 @ 18:12
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Allt gott er að segja um þessa jákvæðni, en ég er hins vegar ekki sammála því, að hægt sé að lýsa því yfir, að læknar beri nákvæmlega enga siðferðislega ábyrgð á fósturdrápum. Það er í raun að segja, að þeir hafi siðferðislega séð leyfi til að gera þetta (og þar sem Guð er höfundur siðalögmálsins, myndi þetta þýða, að í raun væri verið að segja, að Guð leyfi fósturdráp í lögmáli sínu – sem er vitaskuld firra). Við vitum vissulega, að landslögin leyfa þeim þennan verknað. En við greinum á milli þess, sem er löglegt, og hins sem er siðlegt. “Löglegt, en siðlaust,” sagði Vilmundur heitinn Gylfason um eitthvað (sem ég man ekki lengur hvað var). Hvort sem hann beitti þeim frasa réttilega eður ei í því tilviki, þá er algerlega á hreinu, að einhver slík tilfelli eru til, t.d. í sumum pólitískum, löghelguðum manndrápum í alræðisríkjum 20. aldar.

Þar að auki má bæta því við, að læknaeiður Hippókratesar bannar fósturdráp, og eins eru mjög hörð ákvæði í þessa átt í læknaeiði alþjóðasamtaka lækna frá 1948. Læknar eiga því m.a. úr þeirri átt að hafa meðvitund um þessa siðferðisábyrgð sína. Reynum ekki að liðsinna þeim við að bæla með sér rödd samvizkunnar!

Ég er alveg sammála því, að löggjafarþingið ber ábyrgðina á því, að lögum þessum er viðhaldið – það er siðferðisskylda þingmanna, sem sífellt verður að minna þá á, að standa vörð um líf hinna saklausu. Er það ekki boðun okkar eigin kaþólsku kirkju? Ef ég þar að auki lít á texta þinn, Ragnar, þar sem þú rekur, hverjir beri ábyrgðina á þessum ranglátu lögum, þá talarðu um, að það séu m.a. “þeir sem beita sér og styðja eða hafa stutt opinberlega málstað fóstureyðinga.” Sammála þessu. En hverjir beita sér á virkari hátt fyrir fóstureyðingum en einmitt læknar? Við megum því ekki gera þá stikk frí, og sem kristnir menn eigum við, ef við hittum þá, að gefa þeim með kurteislegum hætti til kynna, að það, sem þeir séu að starfa við í þessa átt, sé ósiðlegt og að þeir hafi þá skyldu gagnvart Guði og mannslífinu að endurskoða hug sinn, iðrast og hætta þessu með öllu. Ertu sammála mér, Ragnar?

25.07.06 @ 20:38
Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Við skulum minnast Dietrichs Boenhoffers, bræður. Hann rétti nasistum ekki út framrétta hönd málamiðlana. Gerandi og fórnardýr eru fyrir hendi í fósturmorðum rétt eins og hvað áhrærir stríðsglæpi (sjá skjöl stríðsréttardómstólsins í Nürnberg).
Þeir reyndu að grípa til röksemda Magnúsar og Ragnars í Nürnberg og velta ábyrgðinni yfir á foringjann (enda dauður). En að hafna samfélagsábyrgð í slíku máli er fásinna. Afstaða kaþólskra liggur ljóst fyrir eða ætti að gera það: Þar sem kirkjulög stangast á við landslög eru það kirkjulögin sem gilda.

Ég veit ekki til þess að nokkur læknir sé „neyddur“ til að myrða ófædd börn: Hann kýs sér þetta hlutskipti sjálfur sem hvert annað starf, rétt eins fjölmargir kvislingar nasismans gerðu á sínum tíma.
Ekki vildi ég þurfa að standa frammi fyrir dómstóli Guðs með slíkt á herðum. Ég minni jafnframt á frétt í Fréttasjánni frá 4 til 10. júní s. l. en þar má sjá eftirfarandi: „Stjórnardeild fjölskyldumála Vatíkansins hefur gefið út skýrslu sem grípur til einhverra sterkustu orðanna sem Vatíkanið hefur notað áratugum saman. Í innganginum að „Fjölskyldan og mannfjölgun“ má lesa: „Í dag er maðurinn orðinn sjálfum sér ráðgáta og lifir á tímum einhverrar mestu neyðar sem um getur í málefnum fjölskyldunnar. Fjölskyldan verður fyrir árásum sem aldrei fyrr. Hin nýju fjölskyldugildi eru að tortíma fjölskyldunni. Tæknigetnaður stefnir elskunni í voða og pólitísk stjórnun á fæðingartíðni leiðir til „íbúafækkunarvetrarins“ . . . Með þessum hætti stefnum við að síð-mennsku samfélagi. Það er aðkallandi að koma manninum til bjargar.“

Skýrslan skilgreinir fóstureyðingar sem glæp sem ber að refsa fyrir: „Í dag vill fólk réttlæti fóstureyðingar með því að yfirvöld eigi ekki að refsa fyrir fóstureyðingarglæpinn.“

Jafnframt vek ég athygli á afdráttarlausri yfirlýsingu hins heilaga Sætis frá því í júní þar sem ítrekað er að þeim kaþólsku vísindamönnum sem taka þátt í stofnfrumurannsóknum úr myrtum börnum skuli settir út af sakamentinu, rétt eins og þeir læknar sem framkvæmi fóstureyðingar!
„Hörð eru þessi orð“ sögðu Gyðingarnir (Jh 6. kafli) og frá og með þessari stundu snéru margir lærisveinanna við honum bakinu“

Hinir heilögu segja að vegur hlýðninnar sé það erfiðasta í ræktun dyggðanna. Lög heimsins eru „heimska“ (af heiminum).

Ég bæti svo að lokum við orðum Jóns Hreggviðssonar úr Íslandsklukkunni sem hann mælti við Jón úr Kjósinni:: „Annað hvort drepur maður mann eða ekki mann!“

26.07.06 @ 06:44
Athugasemd from: Magnús
Magnús

Bíddu nú við Jón, hvar reyndi ég að velta ábyrgð læknanna á æðri stjónvöld, eins og þeir gerðu í Nurnberg? Ég var að aðeins að benda á að fóstureyðingar eru löglegar, (en tók skírt fram að þær ættu ekki að vera það), og því er ekki hægt að tala um morð, skv málnotkun okkar. Læknar sem gera framkvæma fóstureyðingu eru að sjálfsögðu sekir um mikin glæp, sem og mæðurnar sem fengu þá til þess og allir sem aðstoðuðu þá við að fremja hann. Þau hafa að öllum líkindum fyrirgert sálu sinni.

26.07.06 @ 10:59
Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Á íslensku segjum við ekki að gera fóstureyðingar, heldur að „fremja.“ Þannig hefur þjóðin sjálf ómeðvitað tjáð huga sinn. Menn fremja ódæði, menn fremja eitthvað ótilhlýðilegt, menn fremja eða drýgja illvirki. Hins vegar „gerir“ fólk eitthvað gott. Fósturmorðinginn gerir ekki eitthvað gott, hann fremur glæp. Hann deyðir ekki einungis þennan eina einstakling heldur alla afkomendur hans lið fyrir lið. Því er hann dauðasekur mannníðingur. Orð Hómilíubókar standa óhögguð enn í dag:

EG BIÐ GUÐ, DROTTINN MINN, MISKUNNAR, EN MARÍU, MÓÐUR HANS, ÁRNAÐARORÐS OG ALLA GUÐS HELGU, AÐ FYR GETA BÆTT SYNDIR MÍNAR, EN EG FARI ÚR HEIMI ÞESSUM.

Það er rétt að mannníðingar nasismans lutu lögum sem voru ólög, rétt eins og gert er enn í dag. En kristinn einstaklingur á ekki að lúta ólögum. Hann á að gagnrýna þau samkvæmt SANNLEIKSORÐI Guðs.

„Að standa ekki gegn villu er að samþykkja hana – að verja ekki sannleikann er að brjóta hann á bak aftur.“ – Heil. Felix páfi þriðji

26.07.06 @ 11:49
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Góð frétt í N.Y. Times, bræður: Senate Restricts Abortion Option for Young Girls. Þótt óvíst sé, hvort þetta fækki nokkuð fósturdeyðingum nema mjög óverulega, er þetta samt til marks um, að stefnunni í Bandaríkjunum í þeim málum miðar í rétta átt, meðan hlutirnir fara sífellt versandi hér á landi. Svo er sama frétt komin í Ríkisútvarpið, en margfalt styttri.

26.07.06 @ 12:58
Athugasemd from: Magnús
Magnús

Jón Rafn,
Flestir tala um að einhver fari í fóstureyðingu, fari fram á fóstureyðingu eða að einhver framkvæmi fóstureyðingu. Ég hef engan hitt sem talar um að einhver fremji eða láti fremja fóstureyðingu nema sá sem vill leggja sérstaka áherslu á andstöðu sína við fóstureyðingar. Mín skoðun er að best sé að notast við málvenjur fjöldans þótt maður vildi gjarnan nota sterkari orð, því slíkt gerir ekki það gagn sem maður ætlast til. Það sem gerist er að viðkomandi er stimplaður æsingarmaður og ofstækismaður og erfiðara verður að koma skoðunum sínum áleiðis.

26.07.06 @ 14:05
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Málfarsdæmin þarna á Orðabók Háskólans, sem Magnús vísar í, m.a. um orðalagið “að framkvæma fóstureyðingu” (6 dæmi), fela ekki í sér upplýsingar um það, sem “flestir” segja í daglegu tali, heldur eru þetta allt vísanir í lagatextann frá 1975. Auðvitað var ekki við því að búast, að þingmenn, sem vildu leyfa fósturdeyðingar og réttlættu þær fyrir sér, færu að nota orðalagið “að fremja fóstureyðingu". En það segir hins vegar ekkert til um það, hvernig almenningur hafi frá fornu fari talað um þann verknað og geri jafnvel enn.

26.07.06 @ 15:03
Athugasemd from: Magnús
Magnús

Fremja fremji framdi framið (0 dæmi) - gera (1 dæmi) - framkvæma (150 dæmi) - fara í (765 dæmi) - fóstureyðngu.
Auðvitað sannar þetta ekkert en gefur þó góða vísbendingu. Þessi leit úr orðabók háskólans var gerð úr öllum gögnum þeirra, en ekki aðeins lagatextum.
Hvaða rök hafið þið fyrir því að fleiri noti orðasambandið “að fremja fóstureyðingu"?

26.07.06 @ 15:15
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Þetta sýnir þá aðeins, hve takmarkaðir þeir hjá Orðabók HÍ eru í yfirferð sinni yfir íslenzkt mál, því að oftar en einu sinni og oftar en tvisvar hefur orðalagið “fremja fóstureyðingu” sézt á prenti, en margoft heyrzt í tali alþýðu. Vitaskuld er það rétt, að orðalagið “framkvæma fóstureyðingu” er algengt, t.d. er trúlegt að ég hafi sjálfur notað það oftar en einu sinni, en það mætti segja mér, að lögin frá 1975 hafi haft mikil áhrif í útbreiðslu þess orðalags, sbr. það sem séra Þorbergur Kristjánsson sagði í sínu snjalla erindi Helgi lífsins frá árinu 1992 um áhrif löggjafar á hugarfar fólks (sjá þar, í 2. klausu eftir orðið Meira:).

26.07.06 @ 15:56
Athugasemd from: Magnús
Magnús

Mér sýnist þú nú snúast hugur og það sé nú “vitaskuld rétt” sem rétt áður virtist dregið mjög í efa. En þá er spurningin, er ástæða til að nota orð sem fólk notar almennt ekki, eins og “morð” og “fremja” í sambandi við fóstureyðingu?

26.07.06 @ 16:12
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Ég hef gefið hér ástæðuna fyrir því, að ég vil ekki nota orðið ‘morð’ um þetta, og sú ástæða er byggð á gamalli málkennd. Sjálfur nota ég sjaldnast orðalagið “að fremja fóstureyðingu,” en sé enga ástæðu til að banna mönnum að nota það, enda er það 100% rétt hugsað.

26.07.06 @ 16:17
Athugasemd from: Aðalbjörn Leifsson
Aðalbjörn Leifsson

Það sem ég átti við er þetta: Sá sem úthellir saklausu blóði er kallaður morðingi, og hefur fyrirgert rétti sínum til að lifa. Ef ég hef móðgað eða sært blygðunarkennd ykkar þá bið ég ykkur að fyrirgefa mér, en ég tala oftast nær tæpitungu laust. Ég veit að ég verð dæmdur fyrir hvert það orð sem ég læt út úr mér. En þeir sem drepa óviljandi eru ekki morðingjar, heldur þeir sem gera þetta að atvinnu sinni og kannske að hugsjón. En við erum sammála um það að líf er heilagt. Enn og aftur fyrirgefið mér, já ég mun skrifa hér af nærgætni við ykkur. Guð blessi ykkur fyrir upplýsingar og fróðleik.

26.07.06 @ 17:06
Athugasemd from: Ragnar Geir Brynjólfsson

Þó ég hafi lýst þeirri skoðun að rangt sé að benda sérstaklega á einhverja í þessu sambandi þá ber ekki að túlka það svo að viðkomandi aðilar ‘beri nákvæmlega enga siðferðislega ábyrgð’. Ég endurtek að ég tel að þeir séu ábyrgir sem ‘beita sér og styðja eða hafa stutt opinberlega málstað fóstureyðinga’ án þess að ég vilji horfa sérstaklega á starfsvettvang viðkomandi. En óneitanlega hafa orð lækna um málefnið aukið vægi vegna sérfræðiþekkingar þeirra. Ábyrgð þeirra vex þá í sama hlutfalli. Þarna er flötur sem snertir málið og varðar hlutverk lækna í samfélaginu. Hægt væri að skrifa nokkuð mál um það en ég sleppi því hér.

Magnús, Jón Valur og ég erum greinilega sammála um að orðið ‘morð’ er óviðeigandi í þessu tilfelli. Notkun þess í þessu sambandi hjálpar engum, sér í lagi ekki verknaðarfólkinu á leið þeirra til skilnings og afturhvarfs, þeim sem eru í afneitun eða þeim sem iðrast og syrgja. Notkun þess skaðar að öllum líkindum málstað lífsverndarsinna. Gleymum ekki að úti í heimi er barátta lífsverndarsinna einmitt stórskemmd vegna aðgerða öfgafólks sem beitir ýmis konar ofbeldi, líkamlegu eða andlegu.

Punktur Jóns Rafns um samfélagslega ábyrgð er athyglisverður. Ég hef einmitt velt samfélagslegri ábyrgð fyrir mér en þó í öðru samhengi. Ég á nefnilega mjög erfitt með að sjá að hægt sé að gera samfélagið í heild sinni ábyrgt fyrir glæpum sem drýgðir eru af meðlimum þess. En kannski er ég sleginn blindu þar. Þetta er flókið mál og um það mætti skrifa lengi.

Punktur Jóns Rafns um guðslögin og það hvað sagt verður á hinum efsta degi er þarfur í þessu sambandi. Mig langar einmitt ekki að hlusta á skammarræðu á þeim degi frá Drottni fyrir óhyggilegt orðaval sem hefði spillt fyrir málstað Hans. Skýrsla Vatíkansins talar um glæp í þessu sambandi en ég leyfi mér samt að draga stórlega í efa að þeir kalli verknaðarfólkið morðingja, það væri þá nýmæli og úr takt við þeirra málfarsnotkun. Þar sem ég hef séð þessa texta þá nota þeir sögnina ‘að drepa’ ‘to kill’ sem segir allan sannleikann. Ekki hef ég samt séð talað um ‘drápara’ ‘killers’ í þeim skjölum heldur er yfirleitt sagt: ‘killing of the unborn’ og talað um þá sem taki þátt í drápum á hinum ófæddu. Þið leiðréttið mig lesendur góðir ef ég hef reynst glámskyggn á skjöl Vatíkansins.

26.07.06 @ 19:20
Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

„Þú skalt ekki mann deyða,“ segir heilagt boðorð. Nær væri því að tala um fósturdeyðingar fremur en fóstureyðingar. Gerandinn er þá sá sem deyðir. Í heimi siðræns hruns hedonismans (nautnahyggjunnar) hafa orðin glatað merkingargildi sínu hjá kynslóð „rétthugsunarinnar.“ Dóninn er sá sem gefur orðunum merkingu. Enn er talað um „líknarmorð“ eða „líknardráp.“ Vafalaust mun verða fundið upp orð án inntaks til að gæða þennan verknað afstöðu hedonismans: Að hér sé um eitthvað jákvætt að ræða.

„Wieviele Jüden hat schon Herr Oberstormbannfhürer Berger heute getötet?“ Vafalaust hafa þessi orð heyrst iðulega í skrifstofukompunum í Ravenbrücke. Ofbeldismennirnir eru sjálfir tilneyddir til að víkja beinum orðum að „starfi“ sínu í dagsins önn. En á opinberu málfari grimmdarinnar er talað um framkvæmdaáætlanir á stofnunarmáli rétthugsunarinnar (Newspeak er nauðsynlegt til að friða þá samvisku sem Guð hefur áskapað manninum). En ég endurtek orð Jóns Hreggviðssonar: „Annað hvort drepur maður mann (myrðir, aflífar eða deyðir) eða maður drepur ekki mann.“ Á máli hedonismans er það bókstaflega „dónaskapur“ að kalla hlutina réttum nöfnum og meira en það þegar öllum siðrænum gildum hefur verið rutt úr vegi: DAUÐASÖK. Glæpurinn er og verður glæpur þrátt fyrir það!

Hvað áhrærir hina samfélagslegu ábyrgð, þá vík ég að henni í skilningi kirkjunnar sem samfélagssyndum. Iðulega hefur mér orðið hugsað til þess, hver þróunin hefði orðið í Þriðja ríkinu ef kaþólskir og lúterskir prestar hefðu talað af einurð og festu gegn ofbeldisöflunum, sem þeir gerðu því miður ekki í fjölmörgum tilvikum. Sama sagan endurtók sig í Búkarest árið 1945 þar sem aðeins einn, ég segi Einn prestur, reis upp og andmælti, þegar kommúnistastjórnin hóaði þeim saman til að lýsa því yfir, að kommúnisminn og kristindómurinn ættu samleið.

Horfum til Íslands dagsins i dag: Að þegja sannleikann í hel er að afneita honum! Þeir eru ekki margir prestarnir sem hreyfa andmælum. Líklega hæst ánægðir að fá launin sín greidd inn á reikninginn mánaðarlega.

27.07.06 @ 07:37
Athugasemd from: Magnús
Magnús

Ég skil þig vel að þú viljir frekar tala um að það sé verið að “fremja fósturmorð / dráp /deyðingu” en að það sé verið að “framkvæma fóstureyðingu". Svo er það að togast í hina áttina hjá fylgisfólki fóstureyðinga að vilja fara að kalla þær “þungunarrof” því þeim finnst “fóstureyðing” vera of neikvætt orð.
En mér finnst þú ekki svara mínum helstu rökum varðandi þetta, en það er að það hefur bara neikvæð áhrif að nota önnur orð en fólk er vant að nota. Það verður bara til þess að fólk lokar enn frekar eyrunum fyrir því sem við viljum koma fram. Það þarf ekki að þýða að við þegjum yfir sannleikanum um hvað fóstureyðing er, þótt við notum orðalag sem stuðar fólk ekki eins mikið.
Ég er sammála þér með að fleiri mættu láta í sér heyra með þetta og sérskaklega fleiri prestar bæði í þjóðkirkjunni og öðrum söfnuðum.

27.07.06 @ 10:32
Athugasemd from: Ragnar Geir Brynjólfsson

Já, þetta með samfélagslegu ábyrgðina hefur ýmsa fleti þegar betur er að gáð. Ef samfélagsleg sátt er um að skilgreina glæpinn eða syndina, svo sem í tilfelli þjófnaðar eða hraðaksturs svo tekin séu dæmi þá hlýtur ábyrgðin að lang mestu leyti að vera afbrotamannsins eða syndarans. Það er þó kannski hægt með nokkrum rökum að benda á andvaraleysi samfélagsins eða sofandahátt þess í þeim tilfellum. Það voru svona tilfelli sem ég átti við í innlegginu að framan.

Í þeim tilfellum aftur á móti þar sem ekki er sátt um að tiltekin athöfn sé glæpsamleg eða syndsamleg verður málið flóknara og því er eðlilegt að rök þeirra sem álíta verknaðinn glæpsamlegan snúist að talsverðu leyti um sofandahátt eða andvaraleysi samfélagsins alls. Ég sé því punkt þinn í því máli Jón Rafn og þau rök hljóta að hafa töluvert vægi. En ég held samt að það væri betra fyrir umræðuna að færa hana frá því að finna hliðstæður við Þýskaland nazismans. Það getur haft ófyrirséðar afleiðingar. Í Bandaríkjunum hafa Gyðingar t.d. tekið slíkan samanburð óstinnt upp.

27.07.06 @ 10:40
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

The Silent Holocaust heitir bók eftir bandarískan prest, Jesúíta. Hann færir mjög góð rök fyrir þeirri grunnstaðhæfingu, sem felst í titli bókarinnar: að fósturdráp nútímans séu fjöldadráp (’fjöldamorð’ er reyndar almenna orðið um það á íslenzku, samsvarar þá ‘massacre’ á ensku). Líkingin við helför eða brennifórn Gyðinga er ótvíræð.

Athyglisverð eru orð þín, Ragnar:

“Ef samfélagsleg sátt er um að skilgreina glæpinn eða syndina, svo sem í tilfelli þjófnaðar eða hraðaksturs svo tekin séu dæmi þá hlýtur ábyrgðin að langmestu leyti að vera afbrotamannsins eða syndarans.”

En ef við tökum þátt í því að nota linu orðin um athæfi fósturdeyðingarmanna og þeirra sem beita sér fyrir því sem “löglegri framkvæmd” og “félagslegum réttindum", erum við þá ekki einmitt að minnka ábyrgð syndarans – gera honum auðveldara að sjá þetta sem bara eitthvað sjálfsagt og eðlilegt? Erum við þá að standa okkur sem ráðsmenn Guðs og vitnisberar sanns siðferðis? Og ef t.d. orðið ‘meðgöngurof’ verður einhvern tímann almenningseign, eigum við þá að fylgja straumnum og fyrirverða okkur fyrir að tala skýrum orðum um hlutina?

27.07.06 @ 13:18
Athugasemd from: Ragnar Geir Brynjólfsson

Það er mikilvægt að geta kallað hlutina sínum réttu nöfnum, ekki gefa of mikið í og ekki draga of mikið úr. Hvorki of, né van er heppilegast ef menn ætla að halda sig við staðreyndir. Það er verið að mála hlutina í of dökku ljósi með sífelldu tali um morð, fjöldamorð eða með linnulitlum samlíkingum við helför Gyðinga. Það hjálpar engum að mála mynd í bjöguðum litum. Af sömu ástæðu á heldur ekki að reyna að fegra hlutina með því að tala um ‘meðgöngurof’ því það felur í sér hálfan sannleikann. Orðið ‘fóstureyðing’ er ekki gott orð því það felur í sér virðingarleysi gagnvart því lífi sem kviknað er. ‘Fósturdeyðing’ eða fósturdráp fæli líklega í sér raunsannasta lýsingu á verknaðinum, án þess þó að talað sé um verknaðarfólkið sem drápara/deyðara heldur sem ‘þá sem taki þátt í fósturdrápum/fósturdeyðingum’.

27.07.06 @ 15:18
Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

945 milljónir fósturdeyðinga á tveimur áratugum krefjast viðbragða. Er þetta ekki helför (holocaust)? Glæpir kommúnista í Sovétrússlandi og „die Jüdenausrettung“ eru smámál i samanburði við þetta.

Ég minni á orð Romanos Guardini: „Die sosaltische indikationen“ eru jafn áþreifanleg ummerki á þjóðarlíkamanum eins og sárasótt. Ef ríki setur lög um að ákveðnum hluta þegnanna sé deyddur eða alfífaður, þá krefst það þess að „löggiltir“ aðilar framkvæmi verknaðinn til samræmis við ákvæði laganna (læknar). Þetta er einkenni ógnarstjórnar.

Miðað við afstöðu ungra læknanema á Íslandi virðast þeir „meira“ en reiðubúnir til að þjóna ríkisvaldinu (vinstrivillunni). Þetta er brot á læknaeiðnum, brot á öllum mannréttindum í kristnum skilningi. Þetta er afturhvarf til tryllings heiðninnar.

Í þessu tilviki er ég „dóni“ vegna þess að ég er að tjá 2000 ára arfleifð kristinnar siðmenningar sem er ekki „rétthugsun í dag, andhverfa „newspeak.“

Á ég að þegja. Á ég að afneita hinni heilögu arfleifð? NEI – NEI og aftur NEI. ALDREI!

Sá sem séð hefur hörpokana með afrökuðu hári fórnardýra nasista til að gera hárkollur fyrir „aríafrúrnar“ í Auschwitz segir aldrei aftur. Hann gerir sér ljóst að sá sem gleynir sögunni er dæmdur til að lifa hana aftur. ÞEIR ERU BYRJAÐIR AÐ NÝJU! Nú framleiða þeir snyrtivörur og fegrunarlyf fyrir konur í stað sápu úr náum deyddra barna, bóluefni í stað húðmýkingarefna úr „feitinni“ úr ofnunum. HVERSU DJÚPT GETUR MANNLEG EYMD SOKKIÐ. Hversu langt geta „teinóttu jakkafötin“ – fulltrúar græðginnar – gengið, sem leyst hafa einkennisbúninga stormsveitarmannanna af hólmi? VAKNA ÞÚ OG ÞÁ MUN KRISTUR LÝSA ÞÉR.

27.07.06 @ 17:34
Athugasemd from: Ragnar Geir Brynjólfsson

Um félagslegar ástæður fósturdeyðinga má sjá í lögum númer 25 árið 1975:

Þegar ætla má, að þungun og tilkoma barns verði konunni og hennar nánustu of erfið vegna óviðráðanlegra félagslegra ástæðna. Við slíkar aðstæður skal tekið tillit til eftirfarandi:
a. Hafi konan alið mörg börn með stuttu millibili og skammt er liðið frá síðasta barnsburði.
b. Eigi konan við að búa bágar heimilisástæður vegna ómegðar eða alvarlegs heilsuleysis annarra á heimilinu.
c. Þegar konan getur ekki vegna æsku og þroskaleysis annast barnið á fullnægjandi hátt.
d. Annarra ástæðna, séu þær fyllilega sambærilegar við ofangreindar aðstæður.

Sjá: http://www.althingi.is/lagas/nuna/1975025.html

Við að lesa þetta þá vakna eftirfarandi spurningar:

1. Hvers vegna er reynt að ráða bót á félagslegum aðstæðum heilbrigðs fólks með læknisaðgerð?

2. Hvað getur skýrt það að á sama tíma og efnahagsástandið hefur í heildina batnað mjög síðan 1975 að fjöldi fósturdeyðinga hefur ekki minnkað í sama hlutfalli?

3. Og í framhaldi af 2. Getur verið að ástæður fósturdeyðinga séu að einhverju leyti ekki félagslegar?

4. Ef aftur á móti félagslegar aðstæður kvenna eru það alvarlegar að ráðandi öfl telji þær réttlæta þennan mikla fjölda fósturdeyðinga, af hverju hafa þessi sömu öfl ekki skoðað það alvarlega að bæta stöðu þess fólks sem sækir helst um fósturdeyðingu?

5. Af hverju stafar þessi allsherjarþögn um þessi mál hér á landi? Af hverju taka jafnaðaröflin og kvenréttindaöflin ekki fyrir að skoða og lagfæra bágar félagslegar aðstæður sem hljóta að einkenna þann hóp sem fer í fósturdeyðingu, ef við gefum okkur að ástæður fósturdeyðinganna séu að öllu leyti félagslegar?

Læt þetta duga í bili.

27.07.06 @ 19:36
Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Eins og þið hafið orðið varir, bræður, hér á kirkju.net er heil. Síluan frá Aþosfjalli mér afar hugstæður. Heil. Silúan sagði:

„Þegar sálin er gagntekin af elsku á Guði og sökum takmarkalausrar sælu sinnar er hún harmþrungin og biður fyrir öllum heiminum svo að allir menn megi kynnast Ástmögur hennar og himneskum Föður. Hún öðlast enga hvíld og þráir heldur ekki hvíld fyrr en allt mannkynið verður elsku hans aðnjótandi.“

Með þessu er hvorki hann fremur en ég að boða apókatastasis (upprisu allra), jafn hörmulegt og það hljómar munu milljónir sálna glatast að eilífu í eldinum mikla sem brennur óaflátanlega og slokknar aldrei. En það er skylda okkar og meira en það, brennandi þrá, að vara andvaralausar sálir við, áður en það verður um seinan.

Það er dýpsta þrá Guðs að allar sálir öðlist hjálpræði og öðlist skyn á sannleikann sem er KRISTUR. Því verðum við – já meira – erum knúin til að biðja fyrir vegvilltum sálum. Orð eru léttvæg í þessu samhengi. Heil. Silúan sagði: „Sú sál sem lært hefur að bera skyn á Drottin dregst til hans í elskunni og funi þessarar elsku gerir henni ókleift að gleyma honum á degi sem nóttu, ekki eitt einasta andartak. Og ef þetta á við um okkur sem elskum Drottin svona lítið og að við drögumst með þessum hætti til hans, hvað má þá segja um þá takmarkalausa elsku sem Guðsmóðirin bar í brjósti til Sonar síns og Guðs?
„Mæl til okkar, ó þú hin Flekklausa, hvernig elskaðir þú Son þinn og Drottin? Og hverjar voru bænir þínar þegar Sonur þinn var upphafinn til himins?“
Þetta er eitthvað sem við fáum ekki skilið.“

Hörmulegt er til þess að hugsa að fósturdeyðendur muna aldrei sannreyna þessa sæluríku stund – aldrei verða upphafnir til dýrðar Guðs Föður – ef þeir iðrast ekki og játa syndir sinar.

Biðjum fyrir þeim því að það sem bíður þeirra er svo skelfilegt, að sá skammvinni tími sem þeir njóta huggunar á jörðinni er sem mustarðskorn með hliðsjón af hinum eilífu píslum sem þeir eiga í vændum samkvæmt Guðs Orði. Drottinn Jesús Kristur, Guðsonur, miskunna okkur syndugum mönnum. Alhelga Mey og Guðsmóðir, María, bjarga okkur! Megi logi elsku þíns flekklausa hjarta blinda Satan og svartengla hans með því að glæðast í sífellt ríkara mæli í hjörtum hinna trúuðu. Amen.

27.07.06 @ 19:43
Athugasemd from: Emil Örn Kristjánsson
Emil Örn Kristjánsson

Það á nú líklega enginn eftir að lesa þessa athugasemd mína en ég mátti til að henda henni inn.
Það er sérstakt að sjá hvernig svona umræða getur þrósst út í algeran orðhengilshátt eins og milli Magnúsar og Jóns. Manna sem í öllum grundvallaratriðum eru hjartanlega sammála um þessi mál.
Ég má til með að benda á að það er jafn ljót og léleg íslenzka að segja “framkvæma fóstureyðingu", “gera fóstureyðingu” eða “fremja fóstureyðingu". Rétt er að segja “eyða fóstri".

26.02.07 @ 10:53
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Þakka þér fyrir að vekja athygli á þessari ágætu grein Franks Pavone, Emil Örn. Þú kýst orðalagið “að eyða fóstri,” sem vissulega segir mikið og er sannarlega ekkert fagurmæli, felu- né skrautyrði. En mér hefur þótt það óviðkunnanlegt, vegna þess að það hefur á sér blæ niðrunar um það líf, sem “eytt” er. Við þekkjum nefnilega hugtök eins og “rottueyðing” og “meindýraeyðing,” en kunnum helzt ekki við að segja “kattaeyðing,” þegar villiköttum er lógað; ástæðan sennilega hlýhugur okkar gagnvart köttum. (Ég vona, að Emil líti ekki á þessa umræðu mína sem “orðhengilshátt", því að þá gæti hann eins verið vís með að nota sama óvirðingarorð um margt í ræðu og skrifum íslenzkufræðinga um orð og málnotkun. En það er ekkert fráleitt að ræða um tungtak okkar Íslendinga, jafnvel spá í eðlileika sumra þeirra hugtaka, sem við erum vön; þannig eru menn t.d. margir hættir að tala um “sýnishorn” og segja “sýni” í staðinn, og fleira hefur breytzt í máli okkar á síðustu áratugum.)

Við á Kirkju.net lítum á mannsfóstrið sem mennskt líf, manneskjulíf, mannlega veru, sem eigi sér lífshelgi rétt eins og þú og ég, lesandi góður. Ef einhver Reykvíkingur yrði drepinn, þá kynnu fæst okkar við að segja: “Honum Árna var eytt.” Slík málnotkun kæmi flatt upp á tilheyrendur okkar og vekti jafnvel hneykslun. Þó þekktist slíkt orðbragð um dráp fullorðinna og jafnvel barna – en hvar? Jú, í ríki nazismans, þar sem stefnt var að útrýmingu, upprætingu ("Ausrottierung") og “eyðingu” kynstofns Gyðinga, jafnvel “die Endlösung der Judenfrage", “lokalausn Gyðingavandamálsins". Í öllum þeim óvirðulegu og sterílu hugtökum sjáum við niðrun, lítllækkun og niðurlægingu Gyðinganna í sjúkri hugsun nazismans.

Á ég þá að láta bjóða mér að gera mér það að góðu að nota slík lítllækkandi hugtök um hina minnstu bræður okkar og systur – ómálga, varnarlaus börn í móðurkviði? Nei takk! – ekki hann ég, Emil minn Örn, með fullri virðingu fyrir þér.

“En þetta er nú einu sinni almenn málnotkun,” gætirðu sagt. Rétt er það, algeng er hún. En “hegðið yður ekki eftir öld þessari,” segir Páll í Rómverjabréfinu (12.2). Ef Emil Örn er sá hinn sami og ágætur trúbróðir minn, sem átti góða samstöðu við mig um siðferðismálin á síðasta landsfundi Sjálfstæðismanna, þá hefur hann eflaust fullan og jákvæðan skilning á þeirri hugsun postulans – og að ég skuli leyfa mér að tileinka mér þá hugsun á þann hátt, sem fram kemur í höfnun minni á því að nota sjálfur orðalagið “að eyða fóstri.” Virðing er það, sem ég vil, gagnvart öllu mennsku, sem lifir. Sýnum hana líka í tali okkar og vali á hugtökum.

Andstæðingar okkar og lífsréttar hinna ófæddu hika ekki við að hnika til hugtökum eða að freista þess að breyta almennri málnotkun: þeir hafa lagt það til, að talað verði um “þungunarrof” eða “meðgöngurof” í stað “fóstureyðingar” – og: “að rjúfa meðgöngu” um það að ráðast að lífi hins ófædda barns og fjarlægja það úr móðurlífinu. Eigum við þá bara að vera pen og þæg og reyna ekkert til að fá fólk til að íhuga um það, hvernig það orðar og hugsar þessi mál?

26.02.07 @ 17:37
Athugasemd from: Emil Örn Kristjánsson
Emil Örn Kristjánsson

Blessaður, Jón Valur.

Þakka þér fyrir skrifin og, já, ég er einmitt sá sami Emil Örn og þú nefnir.
Mér þykir nú ekki taka því að vera að deila um orðalag og mun ekki taka upp á því að leiðrétta þá sem tala um að fremja, framkvæma eða gera fóstureyðingar. Orðasambandið að “eyða fóstri” er jafn ljótt og niðrandi og orðið “fóstureyðing” og lýsir bezt hugarfari þeirra sem að þessum verknaði standa. Rétt eins og þú sjálfur sé ég enga ástæðu til þess að vera penn og þægur og reyna ekkert til þess að fá fólk til að íhuga hvernig það hugsar þessi mál. Þess vegna mun ég halda áfram að segja fólk “eyða fóstrum” og nota orið “fóstureyðing” yfir þann verknað. Ég mun einnig halda áfram að segja menn hafa reynt “útrýma” Armenum, Sígaunum, gyðingum og fleirum á síðustu öld. Orðið útrýming er ljótt orð en það lýsir líka bezt þeim ljóta verknaði og hugarfari þeirra sem að honum standa.
Ljót orð hæfa ljótum verknaði. Morð er ljótt orð en engan veginn ætlað að sýna fórnarlambinu lítilsvirðinu heldur lýsa því hversu viðbjóðslegt verkið er enda er sá sem það fremur kallaður morðingi.
Blóðsúthelling er líka ljótt en engin ástæða til að nota neitt annað þegar slíkt á sér stað.
Því miður, Jón Valur, þá er ófæddum börnum sýnd sú lítilsvirðing að þeim er “eytt” og við gerum engum greiða með því að fegra verknaðinn í einhverju orðskrúði, eins og þú reyndar bendir sjálfur á í niðurlagi þínu.
Ég veit að við munum báðir reyna að tileinka okkur orð Páls postula, sem þú vitnar í, og einmitt þess vegna skulum við kalla hlutina sínum réttu nöfnum.

Með beztu kveðju ósk um styrk til góðra verka.

27.02.07 @ 09:50
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Þakka þér kærlega fyrir þetta innlegg, Emil Örn, fyrir samstöðu þína og hvatningu til lesenda.

27.02.07 @ 19:41
Athugasemd from: Ragnar Geir Brynjólfsson

Ég get tekið undir með þér Emil. Best er að geta kallað hlutina sínum réttu nöfnum. En orðið ‘eyðing’ er varla við hæfi í þessu tilfelli. Fyrir utan hvað notkun þess er óvirðuleg þegar mannlegt líf eða líf yfirleitt á í hlut að þá er meira að segja hægt að nota það yfir dauða hluti. Hægt er t.d. að tala um gagnaeyðingu, eyðingu á dauðum pestarskrokkum búfjár eða eyðingu á rusli. Orðið eyðing felur ekki nauðsynlega í sér að um lifandi veru sé að ræða. Notkun þess í þessu sambandi er því villandi og til þess fallin að fegra verknað sem felur í sér deyðingu. (Sumir myndu segja dráp, aðrir jafnvel morð). Meðalhófið er því ‘deyðing’. Það er því hægt að halda því fram með nokkrum þunga að notkun orðsins ‘fóstureyðing’ sé lýsandi fyrir meðvirkt og áhugalaust samfélag sem og þögult samþykki þess að líta á fóstrið sem dautt efni.

02.03.07 @ 17:41
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Ég er sammála þessu frá Ragnari, vel hugsað og að orði komizt.

02.03.07 @ 21:59
Ábyrgðarmaður: Jón Valur Jensson guðfræðingur.

Önnur blogg sama höfundar: [jonvalurjensson.blog.is]
[jvj.blog.is]
[krist.blog.is] (þátttaka)
[lifsrettur.blog.is]

Leit

  XML Feeds

powered by b2evolution