« Úr Lilju Eysteins munksMikil stoð og stytta kirkjustarfs kaþólskra, Torfi Ólafsson, látinn, nær hálfníræður, og honum sungin sálumessa »

20.10.14

  03:40:00, Skrásetjari: Jon Valur Jensson   , 621 orð  
Flokkur: Fósturvernd, Siðferði og samfélag, Úr lífi og starfi kirkjunnar, Unborn children – abortion

Sinnaskipti fósturdeyðingarmanna, eftir Frank Pavone

Frank Pavone, kaþólskur prestur, er leiðandi maður samtakanna Priests for Life um öll Bandaríkin. Jón Rafn hefur áður kynnt hér skrif hans, lesendur eiga að vera honum að góðu kunnir. Þessi grein var send út 3. júlí 2006.

"Hundraðshöfðinginn, sem stóð við kross Krists, varð skyndilega altekinn hryllingi vegna krossfestingarinnar, sem honum hafði verið fyrirskipað að framkvæma. Þegar Kristur gaf upp andann, lét hundraðshöfðinginn sverð sitt falla, kraup á kné og hrópaði: "Sannarlega hefur þessi maður verið réttlátur!"

Þau okkar, sem tekið hafa þátt í því að drepa ófædd börn, mætti kalla hundraðshöfðingja nútímans. Við höfum látið sverð okkar gegn hinu ófædda barni niður falla. Nú játum við sekt okkar í allri hennar dýpt og glímum við afleiðingar verknaðar okkar....

Til þess að endurlífga mennsku okkar þurfum við að fyrirgefa og hlotnast fyrirgefning, að láta sættast og hljóta lækningu."

Þessi orð er að finna í bæklingi frá 'Samtökum hundraðshöfðingja', sem eru félagsskapur fyrrverandi starfsmanna fósturdeyðingastöðva. Orð þeirra bera með sér á fallegan hátt og vekjandi það sem er að gerast víða á meðal bandarísku þjóðarinnar, þar sem hundruð fóstureyðingamanna og aðrir, sem hjá þeim starfa, upplifa nú iðrun, afturhvarf og lækningu.

Í síðustu sjö vikulegu pistlum mínum hef ég verið að íhuga ævi og sálarlíf fóstureyðingarmanna. Ég hef vitnað til þeirra eigin orða, svo að þið megið fá innsýn í sársauka þeirra. Í þessum pistli get ég sagt ykkur það fagnandi, að þeir fyrrverandi fóstureyðingamenn, sem þið kunnið að þekkja til, svo sem Bernard Nathanson, Carol Everett og Tony Levatino, eru einungis "toppurinn á ísjakanum." Það er fjöldinn allur af öðrum í þessum hópi. Fleiri til viðbótar halda áfram að koma inn í ljós Krists nánast daglega.

Þjónustusamtök okkar, Prestar með lífinu, starfrækja heimsins stærsta prógramm sem vinnur að endurhæfingu fólks eftir fóstureyðingar, en það kallast Víngarður Rakelar (Rachel´s Vineyard). Samtök okkar veita líka fyrrverandi fóstureyðingarmönnum aðstoð á leið þeirra til iðrunar. Ég mun aldrei gleyma því, er ég sat á tali við hóp þessara karla og kvenna um nokkurra daga skeið í dymbilviku og hlustaði á þau strengja þess heit, að heim komin myndu þau reyna að ná sambandi við hverja einustu konu, sem þau hefðu framkvæmt fóstureyðingu hjá, til að biðja hana fyrirgefningar. Ég heyrði þau einnig segja frá því, hvernig þau, eftir afturhvarfið, hygðust helga sérhvern dag einhverju barni sem þau hefðu drepið. Þau ætluðu að gefa þessum börnum nöfn, skrifa þeim bréf og biðjast fyrir í innilegri iðrunarbæn.

Hver eru upptök þessa afturhvarfs? Reynsla mín staðfestir það, sem dr. Philip Ney komst að raun um. Hann skrifar: "Þau atriði, sem breyttu skoðun þeirra á því að framkvæma fóstureyðingu, voru eftirfarandi (talin upp í röð eftir því hvað algengast var): sannanir fyrir mennsku hins ófædda ungviðis, andleg reynsla, sálræn streita, sönnun fyrir sálrænni streitu móðurinnar, greinar um vísindaleg efni, það að vera meðtekinn sem persóna, persónuleg tengsl við einhvern lífsverndarsinna, mótmælastöður og hindrunartilraunir lífsverndarsinna fyrir utan fóstureyðingarstöðvar. Hjá flestum var um meira en einn áhrifaþátt að ræða. (The Centurion's Pathway, s. 77).

Þessi leið er ekki auðveld. Hér er við svo mikinn sárauka og sektarkennd að glíma og svo margar afsakanir í röksemda-formi, sem komast þarf yfir, að hundraðshöfðinginn mun freistast til að segja: "Nú er allt í lagi – Jesús hefur læknað mig, og ég mun gleyma fortíðinni." En sá Jesús, sem læknar okkur, kallar okkur til þess að horfast í augu við sannleikann um það, sem við höfum gert, bæta fyrir þær gerðir okkar, þar sem það er mögulegt, og að gefa okkur í það erfiða verkefni að reyna að ráða bót á lemstruðum samböndum milli manna. Prestar með lífinu eru reiðubúnir til aðstoðar.

Biðjum fyrir 'hundraðshöfðingjunum', og megi þeir verða sem flestir!

–––––––––––––––––––––––––––––––––––––

Hægt er að fá senda vikulega fréttapistla frá vefsetrinu www.priestsforlife.org eða skoða vefsetrið sjálft. Netfangið þar er mail@priestsforlife.org 

No feedback yet

Ábyrgðarmaður: Jón Valur Jensson guðfræðingur.

Önnur blogg sama höfundar: [jonvalurjensson.blog.is]
[jvj.blog.is]
[krist.blog.is] (þátttaka)
[lifsrettur.blog.is]

Leit

  XML Feeds

powered by b2evolution free blog software