« Um “neyðargetnaðarvörn” – rangfærslum og lögleysu mótmæltÓráðsstefna danskra 'tjáningarfrelsismanna' »

25.03.06

  02:17:20, Skrásetjari: Jon Valur Jensson   , 2424 orð  
Flokkur: Fósturvernd, Bænamál

Sigurviss bæn fyrir ófæddum

Í dag er dagur ófæddu barnanna. Við skulum hugsa til þeirra og til skyldu okkar að undirbúa þennan heim fyrir komu þeirra og móttöku meðal okkar. Við skulum beygja kné okkar í iðrun og örvæntingu yfir því, að við höfum brugðizt í því hlutverki okkar að standa vörð um líf hinna ófæddu – að flæma burt af landi þessu hinn illa anda fósturdeyðingarhyggjunnar og "auðveldra lausna" sem allar eru á kostnað ófædda barnsins og móður þess, sem oftast verður að bera afleiðingarnar. En örvæntum ekki um sjálf okkur nema til þess eins að festa hug okkar þá þegar á Drottni Guði Föður okkar, sem annast eitt og sérhvert okkar af óumræðilegri elsku sinni. Sigur trúarinnar er í raun þegar unninn: allt sem við getum gert er að samverka með Guði í verki hans, og kenning trúarinnar veitir okkur fullvissu um að við getum borgið lífi margra ófæddra barna, íklædd hertygjum Heilags Anda, hvers 'vopn' er bænin. "En trú vor, hún er siguraflið sem hefur sigrað heim-inn" (I.Jóh. 5.4) – það er hún sem gefur okkur þessa sigurvissu djörfung.

Gakktu nú til bæna þinna í því hugarfari og þeirri fullvissu, að með hverju einasta hrópi á hjálp fyrir líf og heill hinna ófæddu verði a.m.k. einu ófæddu barni borgið.

Gakktu nú til bæna þinna í því hugarfari og þeirri fullvissu, að með hverju einasta hrópi á hjálp fyrir líf og heill hinna ófæddu verði a.m.k. einu ófæddu barni borgið. "Biðjið, og yður mun gefast," sagði Kristur, "leitið, og þér munuð finna, knýið á, og fyrir yður mun upp lokið verða. Eða hver er sá maður meðal yðar, sem gefur syni sínum stein, er hann biður um brauð? Eða höggorm, þegar hann biður um fisk? Fyrst þér, sem eruð vondir, hafið vit á að gefa börnum yðar góðar gjafir, hve miklu fremur mun þá faðir yðar á himnum gefa þeim góðar gjafir, sem biðja hann?" (Mt.7.7–11).

Þetta er fullvissan: orð Jesú sjálfs gefa okkur djörfung eftirvæntingarinnar, það sigrandi hugarfar bænarinnar, sem sprottið er af rótfastri trúnni á hann, sem allt megnar gott að gera. Orð okkar, þegar við biðjum hinum saklausu griða, munu því ekki falla ávaxtarlaus. "Ef einhvern yðar brestur vizku, þá biðji hann Guð, sem gefur öllum örlátlega og átölulaust, og honum mun gefast. En hann biðji í trú, án þess að efast" (Jak.1.5–6). Þess vegna megum við treysta því, að Guð verði við bænum okkar, jafnvel þótt fósturdráp séu enn leyfð að landslögum. Við getum samt beðið þessum börnum griða, að þau verði ekki drápshnífunum, -sköfunum og sogsprautunum að bráð. Hvert einstakt líf, sem bjargað er með bæn, er þess svo sannarlega virði.

"En hvers vegna þurfum við að biðja?" geta menn sagt; "er þá Guð tregur til að hjálpa þessum ófæddu börnum, ef við biðjum ekki fyrir þeim? Hvar er þá hans óumræðilegi kærleikur og miskunnsemi, ef hann getur ekki sjálfur haft frumkvæðið? Þarf að ýta við honum, að hann fáist til miskunnarverka? Er það ekki óverðug Guðshugmynd, og megum við ekki búast við því, að hann frelsi þessi ófæddu börn upp á eigin spýtur? Látum hann um það!" geta menn sagt, "og hættum þessu væli sem gerir bara lítið úr Guði!"

Þannig talar ekki rödd trúarinnar – hún gerir aldrei lítið úr bæn af einlægum huga kristins manns né úr ábyrgðarhlutverki okkar manna – og hún horfist alveg raunsætt í augu við frelsið sem menn hafa til illvirkja. En það er ekki málflutningur minn, að Guð hafi ekki frumkvæðið. Þvert á móti er hver minnsta hugarhræring til góðs í sérhverjum trúmanni verkun af Anda Guðs, og sannur kristinn maður lítur ekki á "athöfn sína" (hvort sem hún er bæn eða verk) sem eitthvað sjálfstætt, óháð Guði, hvað þá heldur í samkeppni við Guðs verk. En samverkan okkar með Heilögum Anda er vilji Guðs sjálfs. Honum hefur þókknazt að hafa það skipulag á veröld sinni að taka tillit til bæna okkar fyrir meðbræðrunum; já, honum er það velþókknanlegt, að við verðum samstarfsmenn hans að verkum náðarinnar – ekki vegna þess að við séum neitt gagnvart honum af sjálfum okkur, heldur vegna þess að hann lætur sér vel líka að gera okkur að vinum sínum og kalla okkur til þjónustu. Þótt verkið allt sé Krists, Sonarins eilífa – mögulegt gert fyrir hans sáttargjörð og gefið líf með þeirri náðarveitingu hans, sem veitist fyrir meðalgöngu heilags Anda – þá verður það líka okkar þiggjendenna verk, og þetta er honum þókknanlegt; og þess vegna segir hann meira að segja, að við munum vinna "meiri verk en þau" sem hann sjálfur hefur unnið (Jóh. 14.12), "því að ég fer til Föðurins". Þau verða enn meiri, bæði af því, að kraftaverk, miskunnar- og góðverk unnin af trú og með tilstyrk Heilags Anda halda áfram að margfaldast hér á jörðu í kirkju hans og hinum trúuðu, og eins af því, að hann veitir nú kraftinn til þeirra af hástóli sínum á himnum.

Vinnum þetta Guði þæga verk, að biðja fyrir hinum ófæddu. Akurinn er vissulega mikill – tugir milljóna lítilla sem stórra fóstra sem á ári hverju væri unnt að bjarga frá hinni illu leið "fóstureyðingar". Við sjáum vart högg á vatni og myndum naumast gera það, þótt mikið væri skrifað til að fræða fólk um ófædda barnið og þó að nokkrir biðji – eins og ég tel mig til dæmis vita, að Karmelsystur í Hafnarfirði geri. En þetta er eins og fræið í dæmisögu Jesú: það ber ekkert á hægum vexti þess, en að endingu verður það að stóru tré. Verum líka þess minnug, að við erum bundin þeirri nauðsyn okkar að ganga fram í trú, ekki skoðun [1] – að við fáum sjaldnast fulla sönnun trúar okkar og ávaxta hennar, meðan við enn erum í þessu lífi.

En börn hafa bjargazt fyrir bænir og þrábeiðni annarra, þess eru dæmi, og ég veit það fyrir víst, að líf hvers einasta barns, sem bjargast, er ótrúlega mikils virði fyrir það sjálft og ættingja þess – og gefur líka þeim, sem hlut áttu að máli, friðsæla fullvissu um, að þar hafi þau þó einu sinni unnið gott verk og Guði þókknanlegt.

Við syndum móti straumnum, bræður og systur. Við eigum að vita, að það er ekki að ósekju, sem Satan er kallaður höfðingi þessa heims (Jóh.12.31, 14.30, 16.11). Og hann heldur áfram að vinna sitt illa verk, þótt ósigur hans sé innsiglaður í reynd með sigri Krists á krossi og þótt postulinn segi í bréfinu til Rómverja: "Guð friðarins mun bráðlega sundurmola Satan undir fótum yðar" (16.20). En þótt nú sé hjálpræðistíð í þeirri merkingu, að kirkjan og hinir trúuðu hafa sín ótvíræðu sóknarfæri til góðs í krafti Anda Guðs, má ekki gleyma því, að heimshyggjan heldur enn áfram að vaxa, ekki sízt meðal gamalkristinna þjóða. Hvað segir ekki Jesús sjálfur um hina síðari tíma: "Og vegna þess að lögleysi magnast, mun kærleikur alls þorra manna kólna" (Mt.24.12).

Dæmi þessa sjáum við í Morgunblaðinu í gær, 24. marz, þar sem tveir bráðungir læknanemar í Háskóla Íslands leggjast á sveif með málstað dauðastefnunnar gagnvart ófæddum börnum. Þeir reyna að útvega sér ný vopn í baráttunni: tala ekki lengur um fóstureyðingu, heldur nota feluorðið 'meðgöngurof' sem "betra heiti"! Þeir mæla upp í fólki vesaldóm gagnvart þeirri ábyrgð okkar að viðurkenna gildi lífsins og meðtaka barnið (eins og Móðir Teresa hefur hvatt okkur til). Þeir hossa nautnahyggjunni á kostnað ábyrgðar gagnvart tilurð lífsins. Þeir segja opinskátt ósatt um það, hve stórt hlutfall fósturvísa verði aldrei að fullburða barni, án nokkurrar íhlutunar. [2] Þeir fara jafnvel undir lokin háðulegum orðum um það mikla og göfuga verk konunnar að ganga með barn og ala það.

Þetta er rödd veraldarhyggjunnar, sjálfsþægninnar og sérplægninnar. Það er sorglegt að sjá tvo unga menn gerast málpípur slíkrar efnishyggju og tala þeirri skræku rödd til alþjóðar. Hvað dregur þá til slíkra ónytjuverka gegn hagsmunum þjóðar sinnar og sínum eigin læknaeiði? Eru þeir að þókknast kennara sínum, yfirboðara fósturdeyðingarstöðvar ríkisins? Og hvernig skyldi þeim ganga að afla styrkja til þessarar lífsfjandsamlegu starfsemi, sem fram fer undir hópnefninu Ástráður? Eða er okkur ætlað að trúa því, að þeir séu að þessu af einberri hugsjón, að ástunda björgunarviðleitni af hreinni góðvild í garð ungra stúlkna?

Við skulum biðja fyrir þessum mönnum líka, fyrir öllum þeim sem vinna hinum ófæddu tjón, að þeir megi snúast frá illri hugsun sinni og verkum til þjónustu við Guðs vilja í sköunarverki hans. Biðjum fyrir þeim af einlægni, af þeim krafti og góðum hug, sem okkur er til þess gefinn í bæninni, því að "kröftug bæn réttláts manns megnar mikið,” segir í Jakobsbréfi (5.16).

“En ég er ekki réttlátur!" getur lesandinn sagt, "ég er mér allt of meðvitaður um syndir mínar." En hvert skipti sem þú biður ófæddum börnum griða, þá veiztu, að þú biður réttlátlega. Göngum því fram í djörfung, kristnu trúsystkin, að hásæti miskunnsemdanna. Biðjum sem oftast fyrir okkar minnstu bræðrum og systrum – minnug orða Drottins (Mt.25.40). Hér á þessari vefsíðu er að finna nokkrar bænir fyrir ófæddum börnum og foreldrum þeirra, einnig á vefsíðu Lífsverndar. Þar er líka gerð grein fyrir svokallaðri andlegri ættleiðingu, sem er ágæt leið til að gera bænir fyrir því, að lífi hinna ófæddu verði þyrmt, að reglubundnum þætti í bænalífi sínu. Þessi vettvangur er ennfremur opinn fyrir fleiri bænarhugmyndum ykkar [3].

Biðjum líka fyrir afturhvarfi þeirra manna og kvenna sem fást við fósturdeyðingar eða það sem leiða kann til þeirra óhæfuverka.

Biðjum fyrir því, að 25. marz megi verða dagur hjálpræðis fyrir hina ófæddu, eins og hann varð það fyrir allt mannkyn, þegar mærinnar Maríu var vitjað af Heilögum Anda. Guð hefur gerzt maður, og í einingu Guðs og manns frá fyrsta andartaki tilvistar hans í móðurlífi, sem fósturvísis af mannlegu eðli, hefur Hann helgað mennskuna allt frá sjálfu upphafi hennar, rétt eins og Hann heiðraði manninn og krýndi hann sæmd og tign umfram alla aðra skepnu með því að gerast sjálfur maður, okkur til blessunar.

Og minnumst í örvæntingu okkar yfir ástandi heimsins þessara orða Drottins: "Þetta hef ég talað við yður, svo að þér eigið frið í mér. Í heiminum hafið þér þrenging. En verið hughraustir. Ég hef sigrað heiminn." (Jóh.16.33).

Ég bið þig þess, Guð Faðir minn á himnum, vertu mér syndugum líknsamur, og láttu bæði menn og konur þyrma lífi hinna ófæddu – okkar minnstu bræðra og systra. Blessa þú líf þeirra allra með miskunn þinni. Fyrir Jesúm Krist, Drottin okkar og frelsara. Amen.

Neðanmálsgreinar
[1]
Og skoðun merkir hér: að geta skoðað hlutina með berum augum, ekki (í þessu tilviki): það hald (lat. opinio) eða álit sem hallast að vissri afstöðu um veruleikann, en gerir það samt ekki með fullri vissu, heldur samfara ótta við að andstæða þess álits gæti mögulega reynzt rétt. En skoðun í fyrstnefndu merkingunni er náskyld hugtakinu visio (sýn, full sjón) hjá skólaspeking-unum: að sjá veruleikann til fulls, þ.e. fullkomin þekking, cognitio perfecta eða scientia (það að vita, scire, til fulls). En þannig fáum við að þekkja Guð eins og hann er, ef okkur verður inn boðið til eilífs fagnaðar hans, og það er því nefnt visio beatifica, hin sæluveitandi sýn.
[2] Þeir halda því fram, að þessi tala sé 60–70% allra fósturvísa! En eins og ég sagði í grein minni Um "neyðargetnaðarvörn" í Mbl. 20. des. 2000, "upplýsa heimildir (The Lancet 1983) að rannsóknir sýni, að af fósturvísum heilbrigðra kvenna farist nálægt 8% á fyrstu tveimur vikum eftir frjóvgun (ekki 29%, eins og talið hafði verið í eldri könnun frá 1942–59, hvað þá ‘meirihluti’ [eins og lærifaðir Ástráðspiltanna, Reynir Tómas Geirsson, hafði haldið fram á prenti])." Einnig benti ég á það í sömu grein, "að í mörgum löndum heims er barnadauði “af náttúrlegum ástæðum” mun skæðari en aðeins 8%, en það gefur engum rétt til að ráðast að lífi barna; og eins þótt “náttúran leyfi það”, að öll deyjum við, þá er það engin réttlæting fyrir menn að drepa náungann. Eins geta náttúrleg afföll af fósturvísum ekki gefið neina heimild til að veitast að lífi þeirra."
[3] Eina slíka fallega, innilega bæn fyrir hinum ófæddu heyrði ég á útvarpsstöðinni Lindinni í haust. Þeir, sem búa yfir slíkum bænum, eru beðnir að bæta þeim við hér á eftir, og við munum koma þeim enn betur á framfæri.

13 athugasemdir

Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Ég sagði þarna ofar: “Og hvernig skyldi þeim ganga að afla styrkja til þessarar lífsfjandsamlegu starfsemi, sem fram fer undir hópnefninu Ástráður? Eða er okkur ætlað að trúa því, að þeir séu að þessu af einberri hugsjón ….?”

Einhverjum kann að hafa þótt þetta heldur hvasst stungið, of mikill gagnrýnisbroddur gegn viðleitni ungra manna, jafnvel þótt á villugötum sé. En minn sterki grunur reyndist réttur – ég átti kollgátuna, að þessi háskalega hlutdræga disinformatio-starfsemi læknanemanna ungu er rekin í ágóðaskyni. Þeir hafa sitt vefsetur með mörgum deildum, virðast eiga fósturdeyðingar að sérlegu áhugamáli, og þegar smellt er á línuna SYRKTARAÐILAR vinstra megin á upphafssíðu þeirra, kemur maður inn á síðu þar sem þetta kemur fram:

Styrktaraðilar Forvarnastarfs læknanema gegnum árin:
Þrátt fyrir að stærstur hluti vinnunnar í forvarnastarfi læknanema sé unninn í sjálfboðavinnu áhugasamra læknanema, þá er óhjákvæmilegt fyrir svona starfsemi að hafa einhverjar tekjulindir. Við þökkum eftirtöldum styrktaraðilum kærlega fyrir stuðninginn: …”

Síðan kemur ótrúlega langur listi yfir styrktaraðila:
Félagsmálaráðuneytið.
Heilbrigðis- og tryggingaráðuneytið.
Menntamálaráðuneytið.
Shering – making medicine work.
Janssen-Cilag.
Organon.
Durex.
Actavis.
GlaxoSmithKline.
Austurbakki hf.
Urður Verðandi Skuld
[Táknmynd af ormi sem ég ræð ekki í.]
Thorarensen-lyf.
Félagsþjónustan í Reykjavík.
Soroptimist International.
[Táknmynd af húsi og konu sem ég ræð ekki í.]
Og svo skjaldarmerki fimm sveitarfélaga!
Þar ber ég kennsl á merki Kópavogs, Akureyrar, Ísafjarðar, Mosfellsbæjar (?), og þá er eitt enn.

21 aðili í heild !!!

25.03.06 @ 10:49
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Ljóst er, að þessir menn hafa leitað til fjölmargra opinberra aðila (a.m.k. þriggja á vegum ríkisins og sex sveitarfélaga), gróðafyrirtækja í lyfjaiðnaði o.fl. Í hvert skipti, sem einhver kann að taka upp pennann til að andmæla áróðri þessara þokkapilta, sem á óskammfeilinn hátt réttlæta fóstureyðingar blygðunarlaust, þá eiga menn að mæta launuðum starfsmönnum þessa “Ástráðs"-verkefnis. Það er nú eitthvað annað en okkar fræðsluviðleitni hér á þessari Kirkjunets-vefsíðu, sem rekin er sem alger sjálfboðavinna á okkar eigin kostnað, gefin í frítíma okkar og jafnvel vinnutíma (eins og iðulega hjá mér, sem ber þá vinnutapið af því sjálfur). Aldrei höfum við leitað eftir einni krónu til styrktar þessari vefsíðu frá neinum aðilum. En málstaður efnishyggjunnar sópar til sín fjármunum til að halda úti blekkjandi “upplýsingum” eins og þeim, sem við okkur blöstu í Mbl. í gær. Sú debútering þessara pilta var eins ömurleg og hugsazt gat, en ekki vantaði þó sóknarviljann, enda sjaldan verið gengið fram í málflutningi af því tagi með jafn-frökkum hætti og framhleypnum.

Látum vera, að lyfjafyrirtæki eins og Shering, Janssen-Cilag og Organon, sem eiga hagsmuna að gæta í sambandi við hina rangnefndu “neyðargetnaðarvörn", styrki “sína menn", þá sem mæla þessari pillu bót, á kostnað lífsins, og auglýsi sig um leið með lógóum sínum. Við öðru er ekki að búast af þeim gróðaaðilum. En er það í alvöru hlutverk sveitarfélaga og ráðuneyta að styrkja verkefni sem miðast ekki sízt við að efla fósturdeyðingar-atvinnustarfsemina í landinu? Er það til góðs fyrir íslenzka þjóð, sem á síðar eftir að súpa seyðið af fósturdeyðingum eins og aðrar vestrænar þjóðir? Er það uppbyggingarstarf í þjóðarþágu, eða verða menn að stíga fram til varnar í þessu máli, una ekki uppgangi veraldar- og efnishyggjunnar sem vill æða yfir allt og jafna út hverja fyrirstöðu á sinni tortímingarbraut?

Ég bið menn að hugleiða þetta og koma hér með gagnlegar athugasemdir til varnar málstað lífsins.

25.03.06 @ 11:19
Athugasemd from: Ragnar Geir Brynjólfsson

Hér er athyglisverð grein úr Washington Post eftir bandaríska dálkahöfundinn Richard Cohen um það hvernig skoðanir hans á fóstureyðingum hafa þróast. Hann segir m.a.:

Abortion is no longer seen as central to sexual liberation but rather as much more troubling and problematic. Over the years, the so-called right-to-life movement has changed some minds. Mine among them

[Lausleg þýðing: “Fóstureyðingar eru ekki lengur taldar þungavigtarmál í kynjabaráttunni heldur er allt eins litið á þær sem orsök vandamála. Á liðnum árum hefur barátta lífsverndarsinna fengið ýmsa til að skipta um skoðun. Mig þar á meðal."]

[Tengill]

26.03.06 @ 07:02
Athugasemd from: Ragnar Geir Brynjólfsson

Svo er hér grein um John Kerry. Hann sjálfur er kaþólskur og hefur áður tekið persónulega afstöðu gegn fóstureyðingum þó svo hann styðji þær sem fulltrúi löggjafarvaldsins. Líklega hefur sú afstaða Kerry, þ.e. að lýsa sig sem fulltrúa löggjafans stuðningsmann fóstureyðinga, unnið gegn honum í síðustu kosningum, sjá t.d. hérna:

Kerry has become a central focus of this debate among Catholics. USA Today, for instance, published an opinion article yesterday by James P. Gannon, former editor of the Des Moines Register, in which he says he is “embarrassed” by Kerry’s willingness to toss “overboard those parts of Catholic doctrine that are politically inconvenient.”
[Lausl. þýðing: “Kerry er í brennidepli þessarar umræðu kaþólskra. Tímaritið USA Today birti til dæmis leiðara eftir James P. Gannon fyrrum ritstjóra Des Moines Register þar sem hann segist “fara hjá sér” vegna fúsleika Kerrys til að varpa fyrir róða þeim kaþólsku kenningum sem eru óþægilegar í ljósi stjórnmálanna”

[Tengill]
Sumir myndu jafnvel ganga svo langt að segja að þessi afstaða hafi vegið hvað þyngst í ósigri hans. Fólk hafi fengið þá mynd af Bush að hann hafi verið eindreginn stuðningsmaður kristinna gilda og það hafi ráðið úrslitum í kjöri hans. Þarna hafa Demókratar líklega ekki náð að virkja þann meginstraum bandarískrar menningar í átt til hefbundnari gilda sem birtist svo greinilega í ýmsum myndum.

26.03.06 @ 07:29
Athugasemd from: Ragnar Geir Brynjólfsson

Nú er líka komið í ljós að á Indlandi virðist svo sem stúlknafóstrum sé eytt frekar en drengjafóstrum. Sjá greinina: „Low male-to-female sex ratio of children born in India: national survey of 1·1 million households“ eftir
Jha P, Kumar R, Vasa P, Dhingra N, Thiruchelvam D, Moineddin R. Hún birtist í breska læknablaðinu “The Lancet - Vol. 367, Issue 9506, 21 jan. 2006, bls. 211-218. Þar segir m.a. í lokaniðurstöðum:

Interpretation
Prenatal sex determination followed by selective abortion of female fetuses is the most plausible explanation for the low sex ratio at birth in India. Women most clearly at risk are those who already have one or two female children. Based on conservative assumptions, the practice accounts for about 0·5 million missing female births yearly, translating over the past 2 decades into the abortion of some 10 million female fetuses.
[Lausl. þýðing: „Ákvörðun kynferðis og fóstureyðing stúlkufóstra í kjölfarið er líklegasta skýringin á hinu lága fæðingarhlufalli [stúlkna] á Indlandi. Þær konur sem eru í mestri hættu eru þær sem fyrir eiga tvær stúlkur. Byggt á varfærnum ályktunum má ætla að þetta skýri um það bil hálfa milljón færri stúlknafæðinga á ári. Ef horft er á síðustu tvo áratugi þýðir þetta eyðingu á um 10 milljón stúlknafóstrum.“]

[Tengill]
Það er sannarlega nöturlegt til þess að vita að fóstureyðingarnar, sem eitt sinn voru (og eru kannski enn hjá einhverjum) þungavigtarmál í kynjabaráttunni skuli nú vera notað sem tæki til að halda fjölda stúlkna í skefjum. Það sýnir sig að málflutningur lífsverndarsinna, sem kemur fram t.d. hér hefur ekki verið öfgar eins og stundum er haldið fram heldur orð í tíma töluð.

26.03.06 @ 08:05
Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Ég endurtek einn einu sinni orð Davíðs Oddssonar, fyrrverandi fórsætisráðherra: „Guðlaus kapitalismi er ekki hætis hót betri en guðlaus kommúnismi!“ Ég bæti við frá eigin hjarta: „Verðugur arftaki nasismans og kommúnismans!“ Eða eins og ungi og vígreifi framsóknarmaðurinn komst að orði á RUV um daginn: „Það er nú svo langt síðan Guð dó!“ Eymd þessa stjórnmálaflokks virðist því ætla að verða takmarkalaus í tortímingarhvöt hans.

26.03.06 @ 08:34
Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Það er einmitt einn styrktaraðila strákanna eða Schering sem framleiðir neyðargetnaðarvarnarlyfið Postinor sem nýtur svo mikilla vinsælda nú um stundir, að vanþroskuðum strákum hefur verið bannað að kaupa það í lyfjaverslunum.

26.03.06 @ 08:55
Athugasemd from: Ragnar Geir Brynjólfsson

Jón þú skrifar:

Það er sorglegt að sjá tvo unga menn gerast málpípur slíkrar efnishyggju og tala þeirri skræku rödd til alþjóðar. Hvað dregur þá til slíkra ónytjuverka gegn hagsmunum þjóðar sinnar og sínum eigin læknaeiði?

En nú er það svo að læknanemarnir hafa ekki enn unnið læknaeiðinn. Áður var hann undirritaður á Háskólahátíð við útskrift frá deildinni og er líklega enn. Sumar staðhæfingar á vefsíðunni eru þess eðlis að draga verður í efa að margir læknar treystu sér til að standa á bak við þær, sjáið t.d. þessa:

Hver eru algeng viðbrögð eftir fóstureyðingu?
Andleg: Flestum líður sæmilega enda sáttar við ákvörðunina. Sumar finna fyrir sorg, sektarkennd, kvíða og þunglyndi, sem líður yfirleitt hjá á stuttum tíma.


Ekki er vísað í heimildir né rannsóknarniðustöður til að styðja þessa fullyrðingu, en þessu er samt haldið að æsku þessa lands í krafti lyfjaauðvalds - sem og ríkisvaldsins og nokkurra öflugra bæjarfélaga.

Í yfirliti þeirra yfir getnaðarvarnir er t.d. sagt um náttúrulegar aðferðir sem þó eru kynntar á doktor.is. sem 98% öruggar:

Hversu örugg er þessi aðferð?
Rannsókn sem gerð var meðal para sem notuðu öruggu dagana sem getnaðarvörn sýndi að innan árs voru 90% paranna orðin barnshafandi [Svo!][…] Hverjir eru kostirnir?
Er eina getnaðarvörnin sem er viðurkennd innan kaþólsku kirkjunnar.[Er þetta í alvöru eini kosturinn sem þeir sjá við þessa getnaðarvörn? Aths. RGB]
En gallarnir?
Er mikið vesen og þarf daglegt eftirlit og skráningu. Er mjög óörugg getnaðarvörn. Ekki má stunda kynlíf á ákveðnum dögum.[Leturbr. RGB] Engin vörn gegn kynsjúkdómum!!!

Sjáið svo þetta:

Áskrifendur: 3161

Gleymirðu…?
Gleymirðu að taka pilluna? Lyfin? Að vökva blómin? Pilluáminningin er tilraun til að hagnýta Internetið og SMS sendingar til að minna á reglulega, hversdagslega hluti sem annars gætu gleymst.

Greinilegt er að læknanemarnir fljóta með þeim straumi nútímans að vandamál lífsins sé einfaldast að leysa með því að gleypa lyf - kemur kannski ekki á óvart þegar litið er á suma kostunaraðilana. Þannig séð er kynhvötin ekki tækifæri til persónulegs þroska. Hvergi sá ég á síðunni upplýsingar um gildar ástæður þess að taka ákvörðun um að fresta kynlífi sem lengst. Í Google leit á vefsetrinu hinn 26. mars 2006 fannst orðið “fresta” aðeins í tveim tilfellum þar sem verið var að kenna notkun getnaðarvarna. Þeir óttast líklega að verða stimplaðir kristnir öfgamenn ef þeir halda slíku á lofti eins og umræðan er í þjóðfélaginu í dag. Ástráðssíðan er góðra gjalda verð fyrir margra hluta sakir og hún er án efa þarft verkefni en það mætti vanda betur til hennar eins og þau dæmi sem ég hef tínt til sýna. Þið leiðréttið mig lesendur góðir ef ég hef ekki lesið síðuna nógu vel eða ef eitthvað er missagt hér.

26.03.06 @ 09:48
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Þakka ykkur umræðuna, bræður. – Jón, þú segir: “Það er einmitt einn styrktaraðila strákanna eða Schering sem framleiðir neyðargetnaðarvarnarlyfið Postinor sem nýtur svo mikilla vinsælda nú um stundir, að vanþroskuðum strákum hefur verið bannað að kaupa það í lyfjaverslunum.” – Ég held að það sé á misskilningi byggt, að strákum hafi verið bannað að kaupa þetta lyf í apótekum. Fréttin af því máli á Talstöðinni í liðinni viku gekk einmitt út á það, að strákar virtust geta gengið inn í lyfjaverzlun og keypt slíkt lyf (dæmi um það var nefnt); hins vegar var lyfjafræðingur að vara við þessum möguleika, en hafði ekki bein í nefinu til að krefjast þess, að strákunum yrðu bönnuð slík kaup, heldur hafði sent út tilmæli til lyfjaverzlana um að þær brygðust við slíkum tilfellum með því að láta piltinn hringja í viðkomandi stúlku, sem ætti að heita í þörf fyrir NGV-pilluna, og fá hana til að staðfesta, að svo væri – ella gæti pilturinn bara verið að kaupa þetta til að eiga það upp á vasann, næst þegar hann lenti í nánum tygjum við einhverja stúlku. Í viðtali Þorfinns Ómarssonar og hjálparkonu hans við lyfjafræðinginn var einmitt nefnt dæmi um, að stúlka hefði lent í þessum kringumstæðum, hún hafi sagzt ekki geta “gert það með honum,” af því að hún væri ekki á getnaðarvörn, en hann hafi þá svarað: Það er allt í lagi – þú tekur bara þessa! og dró upp “neyðargetnaðarvörnina".

Ég á eftir að fá sönnur fyrir því, áður en ég tek það trúanlegt, að okkar gróðagírugu lyfjafyrirtæki eyði dýrmætum tíma lyfjafræðinga sinna í það að yfirheyra pilta um tilganginn með kaupum þeirra á “NGV", að tefja sig á símtölum við meintar kærustur þeirra og vanda til verka í því sambandi. Samt getur heilsa viðkomandi stúlkna (einkum þeirra, sem hafa vissa sjúkdómasögu að baki) beðið mikinn hnekk af því að taka þessa pillu. Hver á þá að bera ábyrgðina á því?

26.03.06 @ 12:38
Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Í reynd skrúfaði ég fyrir Talstöðina þann 15. janúar s. l., en ef til vill hef ég látið glepjast af fagurgalanum í Fréttablaðinu þar sem lögð var áhersla á „ábyrgðarkennd“ lyfsalanna sem vildu ekki skaða einn eða neinn. Rétt segir þú nafni, við eigum ekki að glepjast af orðum formælenda fóstureyðingarstóriðjunnar. Þetta umgetna lyf getur haft afar skaðvænleg áhrif á ungar stúlkur.

26.03.06 @ 13:30
Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Ragnar! Blessaðir sveitastjórnarmennirnir geta styrkt strákana á þeirri forsendu, að þeir séu að spara útsvarsgreiðendum útgjöld. Í siðuðu samfélagi væri veitt miklu meira fé í aðhlynningu á ungum mæðrum og til mæðraverndar. Því eru pillurnar og öll þessi ólyfjan ágæt lausn. Þannig geta þeir vafalaust auk þess greitt sjálfum sér hærri laun. Eins og ég segi: guðlaus kapitalismi er skelfileg lífssýn sem getur ekki endað nema á einn veg: með siðferðilegu hruni alls samfélagsins. Mörg tákn eru þegar á lofti um slíkt, það sem Romano Guardini nefndi „Die soziale Indikation“ á sínum tíma.

Það er líka „þungur kross að bera“ að neyðast til að hafa stjórn á kynlöngun sinni 8 til 10 daga í mánuði fyrir unga og spræka læknanema. Ég hef tekið eftir því hjá kunningjakonu minni hvað hundinum hennar líður illa þegar honum er mál.

26.03.06 @ 15:14
Athugasemd from: Ragnar Geir Brynjólfsson

Ég öfunda ekki læknanemana sem þurfa að sjá um þetta. Þetta eru prýðispiltar. Hlutverk þeirra er eflaust ekki auðvelt eins og ég kom inn á áðan og við skulum ekki vera of harðorðir í þeirra garð. Það er tíðarandinn - þessi sjálfhverfa nautnahyggja sem hrífur svo marga með sínum straumi sem ber að andæfa.

26.03.06 @ 19:30
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Drottinn Jesús sagði: “Af ávöxtum þeirra skuluð þér þekkja þá” (Mt.7.16a).

26.03.06 @ 22:27
Ábyrgðarmaður: Jón Valur Jensson guðfræðingur.

Önnur blogg sama höfundar: [jonvalurjensson.blog.is]
[jvj.blog.is]
[krist.blog.is] (þátttaka)
[lifsrettur.blog.is]

Leit

  XML Feeds

open source blog software