« DROTTING FRIÐARINS: OPINBERANIR MARÍU GUÐSMÓÐUR Í MEDJUGORJEZEITOUN Í EGYPTALANDI 1968: HINN BLESSAÐA MEY Í HRINGIÐU BORGARLÍFSINS (13) »

14.01.07

  08:59:30, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 1607 orð  
Flokkur: Opinberanir Maríu Guðsmóður sem njóta kirkjulegrar viðurkenningar

SHOUBRAHVERFIÐ Í KAÍRÓ 1986: OPINBERANIRNAR Í KIRKJU HEIL. DEMÍÖNU (14)

shoubra_1

LJÓSBJARMAR FRÁ KIRKJUNNI UPPLÝSA
NÆRLIGGJAND HÚS

Þriðjudaginn 25. mars 1986 hóf hin heilaga Mey að opinberast í Kirkju heil. Demíönu [1] í Shoubrahverfinu í Kairó. Kirkjan er lítil og fátæk koptísk kirkja sem staðsett er í Papadouplo sem er eitt þéttbýlasta úthverfið í allri borginni og aðliggjandi götur eru afar þröngar, um 4 metra breiðar.

Guðsmóðirin birtist hjá turnum kirkjunnar sem eru tveir og íbúarnir sem bjuggu í húsunum andspænis kirkjunni voru þeir fyrstu sem urðu hennar varir. Ljósið sem streymdi frá henni lýsti upp híbýli þeirri og þeir sáu hana í fullri líkamsstærð umvafða ljósi þar sem hún var yfir vesturturninum. Opinberunin endurtók sig nokkrum sinnum og fréttirnar voru fljótar að breiðast út og fólk flykktist að úr öllum áttum og þröngar göturnar umhverfis kirkjuna fylltust af fólki. Fólkið vakti heilu næturnar og baðst fyrir og söng sálma.

Í grein sem birtist í sunnudagsútgáfu egypska blaðsins Watani þann 13. apríl mátti meðal annars lesa:

„Þúsundir manna sjá andleg fyrirbrigði í Shoubrahverfinu. Sumir sem búa í húsunum næst kirkjunni segjast sjá leiftrandi ljós sem skín yfir kirkjunni sem birtist fyrir nokkrum mánuðum síðan. Enginn veitti þessu sérstaka athygli fyrr en hin blessaða Mey birtist og þá gerðu menn sér fyrst ljóst, að um opinberanir væri að ræða.“

SÉRSTÆÐAR OPINBERANIR

Opinberanir þessar voru að mörgu leyti afar sérstæðar. Sunnudaginn 13. apríl 1986 opinberaðist hin blessaða Mey í fullri líkamsstærð og þrílitað ljós umvafði hana. Þetta mátti sjá til hliðar við kirkjukúpulinn sem snýr út að Abd El-Metaalstrætinu. Vitranirnar takmörkuðust ekki við ákveðinn tíma sólarhrings og sjá mátti þær á degi sem nóttu. Þær einskorðuðust ekki við kirkjuturnana að utan, heldur gerðust þær einnig inni í sjálfri kirkjunni við austurhlið altarisins og við íkonustatíon [2] eða þá uppi í sjálfri kirkjuhvelfingunni að innanverðu. Þær takmörkuðust ekki heldur við hina blessuðu Mey, heldur birtust margir hinna heilögu af og til, eins og til að mynda heil. Demíana sem hélt á grænni grein og virtist þannig undirbúa komu Guðsmóðurinnar.

shoubra_2

Íkona heil. Demíönu píslarvotts.

En þetta var ekki nóg. Föstudagsmorguninn 20. júní 1986 birtist Guðsmóðirin þar sem hún hélt á Jesúbarninu við messu í kirkjunni sem faðir Dawod Tadros söng sem rannsóknarnefnd sem þáverandi páfi koptísku kirkjunnar, Shenouda III, hafði skipað varð vitni að. Iðulega opinberaðist hin blessaða Mey við íkonostatíon snemma á morgnana til að mynda laugardaginn 12. júlí 1986 á Hátíð postulanna og píslarvættis heil. Péturs og heil. Páls. Þetta endurtók sig þann 28. júlí á minningardegi hinnar blessuðu Meyjar. Iðulega rétti hún hendurnar fram til mannfjöldans líkt og í opinberununum í Zeitoun.

Hvað eftir annað kom fyrir að afar sterkt ljós streymdi út frá kirkjunni sem lýsti allt umhverfið upp með leiftrum sem upplýsti húsin umhverfis kirkjuna og sjá mátti það úr mikilli fjarlægð. Þann 10. apríl 1986 klukkan 4 um nóttina mátti sjá sterkt ljós leiftra frá vesturturni kirkjunnar sem upplýsti aðliggjandi götur. Hvað eftir annað skein ljós frá vesturturninum og hin blessaða Mey birtist með greinilegum hætti.

FJÖLMÖRG KRAFTAVERK VORU SAMFARA OPINBERUNUNUM

Tímaritið Watani greindi frá einu slíku kraftaverki sunnudaginn 1. júní 1986. Það var móðir sex ára barns, Theresu Soilman, sem greindi frá kraftaverki sem hin heilaga Móðir gerði á dóttir hennar. Barnið hafði glatað sjón á hægra auga eftir að nál hafði stungist í auga þess og skaðað bæði augnhimnuna og steininn. Stúlkan var því blind á auganu. Atvik þetta gerðist þann 17. nóvember 1984. Þann 5. desember 1984 var gerð aðgerð á barninu til að koma fyrir gerviaugasteini, en sýking komst í augað svo að aðgerðin bar engan árangur. Móðir Therseu litlu greinir svo frá:

Sunnudaginn 18. maí 1986 fór ég ásamt dóttir minni í kirkju heil. Demíönu í El-Teraa El-Boolakia í Shoubra. Eftir að hafa meðtekið Evkaristíuna fórum við upp á svalirnar í kirkjunni og stóðum þar ásamt mannfjöldanum. Skyndilega skein sterkt ljós frá íkonustatíon. Dóttir mín hóf hönd sína á loft til móts við ljósið og þurrkaði sér síðan um hið sjúka auga með lófanum og hrópaði upp yfir sig:

„Mamma, ég get séð . . . ég get séð mamma!“

Hún gat lagt lófann yfir vinstra augað (það heilbrigða) og gat séð greinilega með hægra auganum sem hafði verið blint. Egypskur læknir, dr. Fayez Akhnouk, rannsakaði síðar barnið og staðfesti að telpan hefði fulla sjón á báðum augunum. Einn af prestunum sem þjóna við kirkjuna, faðir Abdel Messih El-Sherbeeni, gat þannig skráð þetta sem eitt fjölmargra kraftaverki sem áttu höfðu sér stað í opinberununum.

PÁFI KOPTÍSKU KIRKJUNNAR
SKIPAR RANNSÓKNARNEFND

Þann 9. apríl skipaði páfi koptísku rétttrúnaðarkirkjunnar sérstaka rannsóknarnefnd skipaða byskupum og öðrum sérfróðum mönnum. Að kveldi þessa sama dags fóru nefndarmennirnir í kirkjuna og dvöldust þar alla nóttina. Þeir sáu hina blessuðu Mey birtast auk annarra yfirskilvitlegra fyrirbrigða. Þetta endurtók nefndin nokkru sinnum og varð vitni að hinu sama. Samfara þessum opinberunum gerðust kraftaverk þegar fólk læknaðist af nýrnasjúkdómi, hjartakvillum og ýmsum öðrum sjúkdómum. Margt af þessu fólki hafði farið í skurðaðgerðir án árangurs, en öðlist nú fullan bata.

Í þau þrjú ár sem opinberanirnar í kirkju heil. Demíönu stóðu yfir urðu milljónir manna vitni að þeim, þrátt fyrir að þær vektu enga athygli hjá fjölmiðlum á Vesturlöndum sem hafa mikilvægari hnöppum að hneppa í þjónustu sinni við veraldarhyggjuna. Guðsmóðirin bliknar í þeirra augum og þeir leitast ekki einu sinni við að kanna málið og eru þar með eftirbátar sendisveina Heródesar forðum daga í upplýsingaöflun eða þegja sannleikann í hel þegar hann stangast á við „fagnaðarerindi“ afstæðishyggju fríhyggjunnar.

[1]. Heil. Demíana var píslarvottur sem uppi var í lok þriðju aldar og upphafi þeirrar fjórðu. Hún stofnaði samfélag 40 meyja sem lögðu rækt við hreinlífi og höfðu „truflandi“ áhrif á háttsetta rómverska embættismenn sökum heilags lífernis síns. Heil. Demíana var hálshöggvin ásamt meyjum sínum að undirlagi Díocletíanusar keisara. Hún er einhver vinsælasti dýrlingurinn í koptísku kirkjunni og klaustur sem ber nafn hennar er í Belqas, Fjölmargar koptískar kirkjur í Egyptalandi og erlendis bera nafn hennar og nafn hennar er afar vinsælt sem fyrsta skírnarnafnið meðal koptískra kvenna.

[2]. Íkonostatíon er veggur í rétttrúnaðarkirkjum sem aðskilur sjálft kirkjuskipið frá hinu allra helgasta þar sem gjörbreyting hinna helgu efna Evkaristíunnar fer fram. Íkonum er komið fyrir á íkonostatíon.

http://www.zeitun-eg.org/demiana.htm

http://en.wikipedia.org/wiki/Demiana

LOKAORÐ.

Lesendur kirkju.nets hafa veitt því eftirtekt að ég hef tekið þennan greinaflokk úr umræðu. Fyrst og fremst hef ég gert það vegna þess að ég hef hvorki nennu eða vilja til að eltast við hártoganir ákveðins hóps manna sem kenna sig við vefsvæðið Vantrú.is. Ég þakka þeim sem hafa haft samband við mig eftir öðrum leiðum eftir að hafa lesið þennan greinaflokk.

Á heimasíðu sinni hafa vantrúarmennirnir þannig komið fyrir afskræmdri háðungarmynd af Drottni okkar á krossinum. Þeir hafa vikið að Passíusálmum Hallgríms Péturssonar sem „þjóðarskömm“, og nefnt móður Teresu frá Kalkútta „svikakvendi“, svo að aðeins fátt eitt sé nefnt. Lesendur verða að fyrirgefa þó ég hef ekki í huga að elta ólar við slíka aðila, enda líkt og að ætla að festa hendur á vindinum. Á þeim sannast orðin: „Hæst bylur í tómri tunnu!“ Allir kristnir menn eiga að virða tileinkunarorð minnar eigin reglu, Karmelítareglunnar: „Ég hef verið vandlætingasamur vegna Drottins, Guðs allsherjar“ (1 K 19. 10).

Ég vek athygli lesenda á afstöðu kirkjunnar til opinberana sem sjá má á: http://www.kirkju.net/index.php/jonrafn/2006/11/04/p859
Eins vil ég vekja athygli á þeim athyglisverðu rannsóknum sem franskir vísindamenn og fleiri gerðu undir stjórn dr. Henry Joyeux á sjáendunum í Medjugorje árið 1984: http://www.kirkju.net/index.php/jonrafn/2006/02/21/p207#more207

Ég lík þessari umfjöllun með því að vitna til orða Píusar páfa XII úr hirðisbréfinu Mystici Corporis (29. júní 1943):

„Elskuverðu bræður! Megi Meymóðir Guðs heyra bænir föðurhjarta vors – sem er jafnframt vorar eigin bænir – að allir megi öðlast elsku á kirkjunni sökum hennar sem var fyllt guðlegum anda Jesú Krists í syndlausri sál sinni umfram allar aðrar skapaðar verur, hennar, sem „í nafni alls mannkynsins“ gaf samþykki sitt svo að „Guðsonurinn gæti sameinast mennsku eðli í hinu andlega brúðkaupi.“

No feedback yet