« Te Deum – við þetta er gott að hvíla huga sinn og styrkjastKaþólsk kirkja í Árbæjarsafni? »

20.12.09

Séra Jón Habets – á 15. ártíð hans

Uppteknum hætti heldur undirritaður með því að vilja minnast hér genginna kaþólskra kennimanna. Hér er endurbirt nánast óbreytt 15 ára minningargrein um einn merkilegra manna í presta röð, erlendan mann, Jan Habets, sem varð þó svo inngróinn umhverfi sínu í Stykkishólmi og þátttakandi í andlegu lífi Íslendinga, að það var ekkert eðlilegra en að tala um hann sem séra Jón Habets, eins og hann kallaði sjálfan sig í greinarskrifum. En því er þessi grein birt nú, svo skömmu fyrir jól, að þessi fjórði sunnudagur í aðventu er ártíðardagur hans.

Það voru mér óvænt sorgartíðindi, þegar ég heyrði prest minn biðja fyrir sálu séra Jóns Habets á jóladag árið 1994 og tilkynna jarðarför hans fimm dögum síðar. Meðal náinna vina minna var hann líklega sá elzti, en þó var hann flestum fremur fullur af lífi og starfsgleði, uppörvun og gefandi kærleika. Hann var ekki maður, sem lét líkamann og þarfir hans ganga fyrir í lífi sínu – lifði í sjálfsafneitun og stundaði, að ég held, enga líkamsrækt. Andinn leiddi hann í einu og öllu: ósérplæginn og brennandi áhugi að þjóna ríki Guðs, allt eins í hinu smáa sem stóra. Andleg atorka þessa manns á níræðisaldri mátti virðast undarleg mótsögn við hans veikburða líkama. En segir ekki heilög ritning, að mátturinn fullkomnist í veikleika?

Séra Jón Habets hafði legið þrjár vikur á sjúkrahúsi, þegar andlát hans bar að, en ekki fyrr en á næstsíðasta degi var bert orðið, að líf hans væri í hættu.

Hafi ég þekkt yfirlætislausan mann, sem þó hafði ótrúlega mikið á bak við sig í andlegum menntum, þá var það hann.

Það var undarleg reynsla að koma til séra Jóns í klaustrið í Stykkishólmi, þar sem hann þjónaði sem prestur í hinni fallegu kapellu Franziskussystranna. Hann hafði þar svolitla íbúð fyrir sjálfan sig; þar ægði saman bókum og pappírum, ótal helgimyndum og ljósmyndum úr ferðum hans erlendis, einnig af vinum hans og ýmsu, sem tengdist íslenzku þjóðlífi og menningu. Innan um þetta allt voru svo merkin um litlu vinina hans, sem sóttu til hans nánast daglega, börnin sem gengu í leikskóla Franziskussystra og önnur úr plássinu, sem fundu hjá þessum gamla manni umhyggju, hlýju, skemmtun og uppörvun. Þar voru leikföng út um öll gólf og fjöldi mynda, sem þau höfðu teiknað eða málað og gefið honum. Þar var líka fullt af blómum og jurtum, en það, sem gaf stofunni einna mest líf fyrir börnin, voru páfagaukarnir hans, sífellt minnandi á sig með kurri sínu. Séra Jón sat langtímum saman við sitt stóra skrifborð og lét ekkert koma sér úr jafnvægi, þótt hann væri við rannsóknir eða skriftir, en sinnti börnunum eins og þau þurftu á að halda, las fyrir þau o.s.frv.

Sr. Jón var einn mesti fræðimaður, sem ég hef séð til hér á landi, stofa hans fóðruð með ógrynni bóka um guðfræði og önnur vísindi. Hann var hollenzkur að uppruna, prestur af reglu Montfortiana og átti að baki margháttuð störf í Evrópu og víðar, þegar hann kom hingað til lands; var m.a. lengi við kennslu í grísku og latínu í Portúgal. Það breytti ekki staðföstu eðli hans að taka við þjónustu í lítilli kapellu í kauptúni við Breiðafjörð. Hann stundaði rannsóknir af eðlislægri fróðleikshvöt, sjálfum sér til gleði í trúnni, en öðrum til nytsemdar. Predikanir hans voru trúverðug útlegging ritninganna, fyrst og fremst hugleiðing um sístæð sannindi trúarinnar og þýðingu hennar fyrir mannlegt líf, ekki fánýtt spjall um dægurmál (sem eru forgengilegust af öllu). Fáir, ef nokkrir, hygg ég, að hafi á starfstíma sr. Jóns hér á landi sent oftar frá sér skrif um guðfræðileg efni til kynningar almenningi en einmitt hann. Aldraður kemur hann til Íslands, leitast þá óðara við að læra málið, tekst það auðvitað aldrei nógu vel, en lætur þó engan bilbug á sér finna í viðleitninni að ná til þessarar þjóðar með erindið mikla, sem honum hafði verið trúað fyrir. Starfsskyldu sinni hefði hann getað sinnt án þess að birta nokkurn tímann orð á prenti á íslenzku, en hugur hans var meiri en svo. Vantrúaðir tala stundum af dómhörku um kristna trúboða, sem gangi fram í fullkominni sannfæringu og hugsjónaeldi ­ kalla það fanatík; en var ekki séra Friðrik Friðriksson einn þeirra og sr. Jón Habets annar, þótt með ólíkum hætti væri? Báðir voru þeir brennandi í hugsjón sinni, en skildu eftir ótal þakkláta vini og velunnara, sem voru eins og snortnir af fingri Guðs í nálægð þessara manna.

Sr. Jón skrifaði fjölda fræðandi greina og pistla til skýringar kristinni og kaþólskri trú. Væri vert, að hluta þeirra væri safnað saman til útgáfu til minningar um hann og til stuðnings þeirri trúfræðslu, sem kirkjan þarf að inna af höndum. Einkum mun hann hafa skrifað í Morgunblaðið og Lesbókina og í Safnaðarblað Kristskirkju (síðar Kaþólska kirkjublaðið). Sem einn ritnefndarmanna þess síðastnefnda get ég borið því vitni, að við fengum alltaf meira efni frá honum en okkur tókst að birta, bæði frumsamið og þýtt. Hann tók aldrei eyri fyrir alla sína fyrirhöfn.

Greinarnar samdi sr. Jón oftast á sinni ófullkomnu íslenzku, en fékk góða menn til að yfirfara þær, t.d. Ragnar Brynjólfsson ritstjóra okkar. En það er til marks um, hve ljúflega sr. Jón kom sér við alla sem honum kynntust, að hann fekk lútherska kollega til að þýða sumar greinarnar, t.d. sr. Valdimar Hreiðarsson, en einkum séra Gísla Kolbeins í Stykkishólmi. Sá landskunni maður, Árni Helgason, vinur sr. Jóns og kirkjugestur, yfirfór málfarið á mörgum greina hans. Sjálfur þýddi ég tvær erfiðar greinar hans, en ánægjulegt var það verk.

Heimsóknir mínar og fjölskyldu minnar í Stykkishólm skilja eftir fallega minningu um sanna vináttu og andlega strauma. Systurnar eru einhverjir beztu gestgjafar, sem við höfum kynnzt, en lengst dvaldi ég jafnan með séra Jóni og kom ríkari af þeim fundum, ekki aðeins vegna umræðu um guðfræði og skylda hluti, heldur vegna nálægðarinnar við þennan elskulega mann sjálfan. Sr. Jón var greindarlegur, skarpleitur, með bjartan ennissvip, vingjarnlegur svo að af bar, rödd hans hlý og alltaf stutt í einlægan, heillandi hlátur, en klæðaburður hans fábrotinn og líkamleg umhirða ekki efst á blaði. Að eiga með honum stund var eins og komast inn á aðdráttarsvið þess guðlega, því að hann laðaði alla menn til góðs með sjálfri persónu sinni, í barnslega einlægu trausti á Guði. Það var því sannkölluð gleði að fá hann í heimsókn á suðurferðum hans.

Börn mín og fyrrverandi eiginkona sakna hér vinar í stað. Sr. Jón talaði til barna með virðingu, sem maður við mann, og örvaði þau til dáða. Það sýndi sig í kapellunni, þar sem fjöldi barna og unglinga hefur fengið að þjóna að altarinu. Má gjarnan koma fram, að hann var brautryðjandi í því að leyfa stúlkum ekki síður en piltum að aðstoða sem messuþjónar. Hjá honum hafði það tíðkazt í fjölda ára, þegar það nýlega var leyft í öðrum kaþólskum kirkjum hérlendis.

Kapellan er fyrst og fremst sótt af St. Franziskussystrum, einnig af fáeinum kaþólskum leikmönnum, aðallega ferðamönnum og fólki af Snæfellsnesi, auk nokkurra trúrækinna þjóðkirkjumanna í Stykkishólmi, sem hafa uppgötvað, hve andlega gefandi kaþólsk messa getur verið. Allt andrúmsloft í kringum söng og bænagjörð er hreint og tært. Þar þjónaði sr. Jón sínum fámenna söfnuði af stakri trúmennsku með daglegri messu, sem er eins og rammi utan um sitt höfuðinnihald: altarissakramentið.

Mér þótti gott að geta bent lútherskum kollegum mínum úr guðfræðideild á þá staðreynd, að í Stykkishólmi tíðkaðist útdeiling sakramentisins í báðum myndum (brauðs og víns), en allt frá tímum Hússíta hefur það verið umkvörtunarefni mótmælenda, að kaþólska kirkjan útdeili leikmönnum sakramentinu aðeins í annarri myndinni. Forsendan er reyndar sú staðreynd, að fjöldi dæma er um þetta í fornkirkjunni, og sú trú kirkjunnar, að Kristur sé nálægur, þótt aðeins önnur myndin sé notuð (oft af efnislegri nauðsyn); hins vegar er ekkert í trúarkenningu kirkjunnar, sem bannar leikmönnum meðtöku sakramentisins af bikarnum. Í þessu málefni hygg ég að sr. Jón Habets hafi sýnt samkirkjulega viðleitni sína, en samkirkjuhreyfingin var eitt af því, sem hann skrifaði um, bæði af raunsæi og velvilja.

Sr. Jón var mér sannur sálusorgari, ekki af því að ég hafi gengið svo oft til skrifta hjá honum, heldur sem sannur bróðir í því, sem snertir samband manns við guðdóminn, og lagði sig þar allan fram. Hann var einlægur og óhvikull í þeirri boðun sinni, að okkur beri að lúta vilja Guðs, sem birtist í boðorðum hans, en um leið fullur umhyggju og laðandi kærleika, sem fær okkur (þessa þverbrestamenn sem við erum) til að langa til að afneita vilja holdsins og fylgja Guðs vilja. Það er spurning, hvort lífsstefna manns væri ekki frábrugðin því, sem nú er, hefði hann verið manni nærtækari.

Ég hef rakið það, hvílíkur hugsjónamaður sr. Jón var um erindi trúarinnar, en eins var hann áhugasamur um velferðarmál, sem snerta virðinguna fyrir mannréttindum, fyrir manneskjunni sem slíkri. Hann var eindreginn baráttumaður fyrir rétti ófæddra barna til lífs og frá upphafi virkur stuðningsmaður Lífsvonar, samtaka til verndar ófæddum börnum. Hann sýndi það oft, að málefnið vék honum ekki úr sinni, s.s. með því að senda mér greinar um efnið eða með því að skrifa um það í Kaþólska kirkjublaðið.

Hann var einn þeirra presta, sem hafa sett bænir fyrir ófæddum börnum á sínar messuskrár. Þá má geta þess, að þegar ég með fimm öðrum kom á fót hjálparstofnuninni Móður og barni, studdi hann þá hugsjón af ráðum og dáð og færði stofnuninni allríflegar peningagjafir af sínum takmörkuðu efnum.

Það er hjartaskerandi að sjá á bak vinum sínum. Séra Jón var alltaf til staðar með sína framboðnu velvild, sinn virka kærleika. Það er eins og maður hafi ætlazt til þess, að hann yrði það alltaf. Fyrir níu mánuðum varð kaþólski söfnuðurinn að sjá á bak sínum hæfileikamikla, elskuríka biskupi, dr. Alfreð Jolson, og nú kveðjum við þennan sístarfandi bróður í garði Drottins, séra Jón Habets. Ég bið Guð að blessa minningu þeirra beggja og velfarnað allan. Hann blessi og næri ávöxtinn, sem þeir skildu eftir með lífi sínu.

Jón Valur Jensson.

Áður birt í Mbl. föstudaginn 30. desember 1994.

Eftirfarandi æviágrip séra Jóns (væntanlega tekið saman af prestunum) birtist í sama blaði með minningargreinum um hann:

Séra Jan Habets fæddist í Schaesberg í Hollandi 19. nóvember 1913. Hann andaðist í Borgarspítalanum 20. desember [1994]. Foreldrar hans ráku kornmyllu í Schaesberg og hann mun hafa átt tvær systur. Önnur þeirra er látin en hin verður viðstödd útför hans. Hann stundaði nám við menntaskólann í Schimmert 1926 til 1932 og lagði að því loknu stund á undirbúningsnám til prestþjónustu til 1933. Í reglu hl. Montforts gekk hann 8. september 1933 og nam síðan heimspeki í Oirschot til 1935. Eftir það kenndi hann eitt ár við menntaskólann í Schimmert. Þá hóf hann guðfræðinám sem hann stundaði til 1940 og þáði prestvígslu 3. mars það ár. 1941 til 1947 nam hann latínu og grísku við háskólann í Nijmegen og kenndi síðan við menntaskólann í Schimmert 1947 til 1968. Að þessu loknu kenndi hann tvö ár við menntaskólann í Fatíma í Portúgal. Hann starfaði sem stúdentaprestur í Lissabon 1970 til 1977, en þá fluttist hann hingað til lands og var prestur við sjúkrahús St. Franciskussystra í Stykkishólmi til dauðadags. Útför hans fer fram frá Kristskirkju í Landakoti í dag.

1 athugasemd

Athugasemd from: Ragnar Geir Brynjólfsson

Takk fyrir þennan pistil Jón. Ég kynntist sr. Jóni aðeins. Hann var bæði elskulegur og vingjarnlegur maður og góður í viðkynningu. Alltaf glaður í bragði.

23.12.09 @ 09:10
Ábyrgðarmaður: Jón Valur Jensson guðfræðingur.

Önnur blogg sama höfundar: [jonvalurjensson.blog.is]
[jvj.blog.is]
[krist.blog.is] (þátttaka)
[lifsrettur.blog.is]

Leit

  XML Feeds

powered by b2evolution free blog software