« 95 ára afmæli birtinganna í FatímaNýtt vefsetur: www.fokolare.is »

17.03.12

  21:39:00, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 804 orð  
Flokkur: Kaþólska kirkjan á Íslandi

Séra Hubert Th. Oremus minning

Í gær var jarðsunginn frá Basilikunni í Landakoti séra Hubert Theódór Óremus prestur sem fæddur var í Hollandi 20. júlí 1917. Hann fékk köllun til að gerast trúboði í Kína aðeins fjögurra ára gamall, gekk í reglu Lasarista árið 1936 og vígðist til prests 1944.

Hann nam kínversk fræði en bylting kommúnista í Kína kom í veg fyrir að hann færi þangað og það gerði hann aldrei. Þess í stað kenndi hann latínu og íþróttir við skóla í Hollandi. Árið 1966 fór hann og kenndi fjögur ár við St. Georgs skólann í Istanbul. Þaðan fór hann til Alexandríu í Egyptalandi og kenndi. Árið 1978 sá hann auglýsingu frá kaþólska biskupinum í Reykjavík eftir presti og þar sem hann var orðinn þreyttur á kennslu ákvað hann að söðla um og gerast sálnahirðir á Íslandi.

Hingað kom hann sama ár og hóf íslenskunám sem gekk afar vel og tók hann við starfi sóknarprests í Hafnarfirði. Árið 1987 var hann skipaður aðstoðarprestur við dómkirkju Krists konungs í Landakoti. Þar starfaði hann æ síðan eða nánast til dánardags sem var 6. mars síðastliðinn.

Við jarðarförina í gær kom stjórnandi Lasaristareglunnar og flutti kveðjuorð og þakkir. Hann þakkaði m.a. fyrir hve vel séra Óremusi var tekið á Íslandi. Það sem skrifað er hér um æviágrip séra Óremusar er endursögn m.a. eftir minni af því sem hann sagði. Skólinn sem séra Óremus kenndi hjá í Tyrklandi var einnig fljótur til að minnast hans á vefsíðu sinni aðeins tveim dögum eftir andlát hans eins og sjá má hér: [Tengill]

Ég var svo lánssamur að kynnast séra Óremusi á þeim árum sem ég vann að útgáfu Sóknarblaðs Kristskirkju og síðar Kaþólska kirkjublaðsins. Hann hafði að geyma sérstæðan, glaðlegan og því eftirminnilegan persónuleika og þegar horft er yfir minningarnar kemur í ljós að þær eru aðeins góðar. Fyrst sá ég hann við messu í kapellu St. Jósefsspítala í Hafnarfirði. Strax þá fékk ég að kynnast kímnigáfu hans, en einn mest áberandi persónueiginleiki hans var sá að hann naut þess að skemmta fólki.

Vissulega getur verið að kímnin hafi stundum fallið í grýtta jörð hjá ókunnugum eins og útsæði sáðmannsins góða forðum en hitt er líklegra að flestir hafi kunnað að meta léttlyndi séra Óremusar og ég er viss um að allir sem fengu tækifæri til að kynnast honum gerðu það því hann hló með fólki en ekki að því og gerði sjálfan sig ósjaldan að skotspæni skopsins. Það er því við hæfi að koma með sýnishorn af kímni séra Óremusar þó þessi fáu orð jafnist að sjálfsögðu ekki á við látbragð hans sjálfs.

Eina sögu sagði hann af sjálfum sér sem var svona: Á Hafnarfjarðarárunum ók séra Óremus á gulri Wolkswagen bjöllu. Eitt sinn á leið heim ók hann yfir nýja hraðahindrun sem var búið að koma fyrir á óvæntum stað. Eins og algengt var með fólksvagna eins og bjöllurnar voru kallaðar þá var botninn á þessum orðinn nokkuð ryðgaður. Á hraðahindruninni tókst fólksvagninn aðeins á loft og þegar hann lenti gekk sætisfesting bílstjórasætisins niður úr gólfinu og séra Óremus sat skakkur í bílstjórasætinu. „En ég lét þetta ekki stöðva mig og ók rammskakkur heim“ sagði hann kampakátur frá. Eftir þetta merkti hugtakið „Hollendingurinn fljúgandi“ í mínum huga því ekki draugaskip heldur glaðbeittan prest á fljúgandi gulri Wolkswagen bjöllu.

Önnur saga af séra Óremusi gerðist í Landakoti. Þannig var á árunum uppúr 1990 að þar var símkerfi með 6 línum merktum A, B, C og D. Lína C var inn í biskupshúsið en hægt var að svara línum A, B og C í báðum húsununum, þ.e. Hávallagötu 14 og 16 - minnir mig. Þegar línu var svarað þá var viðkomandi takka ýtt niður og þá logaði ljósið á línunni. Í þetta skipti sat ég í við borðstofuborð biskupshússins að Hávallagötu 14 ásamt systur Immaculata frá Írlandi og líklega einhverjum fleirum. Þá heyrist að séra Óremus kemur hlaupandi inn í húsið og kallar hátt: "The sea is burning! - The sea is burning! (Sjórinn brennur - sjórinn brennur) Okkur hálfbrá og furðuðum okkur á því hvernig sjórinn gæti brunnið. En svo var ekki því hér var rómuð glettni séra Óremusar á ferðinni. Hann hafði svarað línu C inni í Hávallagötu 16, ýtt niður takkanum og því logaði ljósið á C-línunni, þ.e. C-ið (e: sí) hljómaði á enskunni eins og 'sea' eða sjórinn. Síðan hljóp hann yfir í biskupshúsið til að finna einhvern til að svara símtalinu með þessum sérstæða hætti.

Ávallt var séra Óremus reiðubúinn að veita aðstoð við prófarkalestur og var ótrúlegt hvað þessi roskni maður hafði náð góðum tökum á íslenskri málfræði. Vandvirkur var hann með afbrigðum og nákvæmur. Hann var ágætur ræðumaður og flutti vandaðar predikanir. Sumir minnast hans einnig sem góðs skriftaföðurs.

Ég hef þessi orð ekki fleiri en enda hér með bæninni á bænaspjaldinu sem dreift var í jarðarförinni í gær:

Drottinn, þú gerðir séra Húbert Óremus að trúum þjóni kirkju þinnar. Megi hann öðlast hlutdeild með Kristi í gleði eilífs lífs. Hann hvíli í friði.

2 athugasemdir

Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Þakka þér, Ragnar, fyrir þessi hressilegu minningarorð um mætan mann og nytsaman kirkju Guðs.

Stutt er síðan við tveir hittumst – í jarðarför hans í fyrradag, en hún var bæði falleg og virðuleg, og hana sóttu bæði Íslendingar, nýbúar og útlendingar hér, enda þjónaði hann líka oft í ensku messunni – þeirri messu sem er einmitt í dag kl. 18, með afar fallegum söng, eins og líka í þessari jarðarför séra Oremusar okkar. Blessuð sé minning hans. Megi ljós Guðs lýsa honum.

18.03.12 @ 13:10
Athugasemd from: Ragnar Geir Brynjólfsson

Sömuleiðis þakkir Jón fyrir innlitið og athugasemdina sem ég tek heilshugar undir. Söngurinn var einkar fallegur sem og undirleikurinn - flytjendum til mikils sóma.

18.03.12 @ 13:18