« Guðrækni hins Alhelga Hjarta Jesú í kirkju nútímans (2)HIRÐISBRÉF PÍUSAR PÁFA XII: HAURIETIS AQUAS komið út í heild á Vefritum Karmels »

15.02.07

  08:10:55, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 987 orð  
Flokkur: Erlendar fréttir

Sendifulltrúi Evrópubandalagsins í Níkaragúa staðinn að ósannindum í dagblaðinu El Diario

Samkvæmt frétt á LifeSiteNews. com í gær var Marc Litvine, sendifulltrúi Evrópubandalagsins í Managúa í Nikaragúa látinn sitja fyrir svörum á Evrópuþinginu af hálfu fulltrúa lífsverndarsinnna. Hann var staðinn að því að beita stjórnvöld þrýstingi til að afnema lög til verndar ófæddum börnum hvað áhrærir fósturdeyðingar.

Tilefnið var viðtal við hann í dagblaðinu El Diario sem Catholic News Agency vitnaði í þar sem hann komst meðal annars svo að orði að Evrópubandalagið hefði „áhyggjur“ af því að fósturdeyðingar væru taldar til glæpa í landinu og að Evrópubandalagið liti lögin sem „skref aftur á bak.“

Þegar Litvine var inntur eftir þessari yfirlýsingu af hálfu annarra fulltrúa á Evrópuþinginu sem eru lífsverndarsinnar þverneitaði hann að dagblaðið hefði rétt eftir sér. Í tölvupósti til írsks MEP (meðlims á Evrópuþinginu), Gabriel Mitchell, komst hann svo að orði: „Ég sagði aldrei það sem eftir mér er haft í blaðinu (sic) og Evrópubandalagið hefur ekki mótað neina allsherjarstefnu til fósturdeyðinga.“

Síðasta fullyrðingin er að vísu rétt, en það er hrein sýndarmennska þegar því er haldið fram og beinlínis hlægilegt að ákveðnir aðilar innan EB hafi ekki beitt Suður- og Miðameríkuríkin þrýstingi í nafni bandalagsins. Þrátt fyrir að EB hafi ekki mótað sér neina opinbera stefnu hvað áhrærir fósturdeyðingar hafa áhrifaríkir og róttækir sósíalistar innan bandalagsins beitt þriðjaheimsþjóðir þrýstingi til að innleiða óheftar fósturdeyðingar. Gott dæmi um þetta er Argentína þar sem evrópskir skattgreiðendur eru beinlínis látnir borga „brúsann“ og efnahagsaðstoð verið skilyrt við fósturdeyðingar bæði í Chile og Columbíu.

Staðreyndin er sú að rétt áður en þing Nikaragúa tók ákvörðun sína tók Evrópubandalagið beinan þátt í því að koma í veg fyrir lífsverndarstefnu stjórnvalda. Forseti þingsins, Eduardo Gomez, fékk þannig hótunarbréf frá hópi sendiherra „styrktarlanda,“ það á meðal frá EB um að allur efnahagsstuðningur yrði dreginn til baka.

Meðal þeirra sem undirrituðu bréfið voru fulltrúar UNICEF, UNFPA, Svíþjóðar, Kanada, Finnlands, Þróunarhjálpar Sameinuðu þjóðanna og Francesca Mosca, fulltrúi framkvæmdanefndar Evrópubandalagsins.

Vafalaust hefur framkvæmdastjóri íslensku þróunaraðstoðarinnar í Nikaragúa, Sighvatur Björgvinsson, fyrrverandi alþingismaður, fengið innblástur sinn hér til að hóta stjórnvöldum í Nikaragúa því sama!

Þetta er ekki í fyrsta skiptið sem embættismenn alþjóðlegra stofnana hafa hótað Nikaragúa með þessum hætti. Árið 2000 tilkynnti Thomas Jimenez, fulltrúi Fólksfjöldanefndar Sameinuðu þjóðanna (UNFPA), að allri hjálp við Nikaragúa yrði hætt vegna þess að „ágallar“ væru á fjölskylduáætlunum stjórnvalda. UNFPA reiddist mjög ákvörðum fjölskyldumálaráðherra Nikaragúa, Max Padilla, og menntamálaráðherrans. Fernandi Robleto, að hafna „fólskfjöldatakmörkunum“ Sameinuðu þjóðanna með því að segja nei við fósturdeyðingum.

Hvað áhrærir tilraunir sjálfskipaðra talsmanna EB til að hafa bein afskipti af innanríkismálum þriðjaheimsríkja er það brot á starfsháttum bandalagsins og því gott til þess að vita að lífsverndarsinnum hefur vaxið fiskur um hrygg innan bandalagsins með aðild ríkja eins og Írlands og Póllands.

Vafalaust munu lísverndarsinnar innan Evrópubandalagsins hafa nánar gætur á róttæklingum líkt og hinum fráa Jose Socrates í Portúgal sem hefur lýst því yfir að hann ætli sér ekki að hlíta úrslitum þjóðaratkvæðagreiðslunnar um s. l. helgi. Samkvæmt nýjustu fréttum hafa lífsverndarsinnar myndað mikla samstöðu í Portúgal. Á mánudaginn gaf Accao Familia út yfirlýsingu þar sem komist var meðal annars svo að orði: „Sú ákvörðun forsætisráðherrans og sósíalistaflokksins að leggja frumvarpið fyrir þingið þrátt fyrir að þjóðaratkvæðagreiðslan sé ekki bindandi, leiðir í ljós þá staðreynd, að meirihluti þingsins samanstendur af róttækum hugmyndafræðilegum róttæklingum sem leitast við með öllum tiltækum ráðum að þvinga á þjóðina lagaboðum sem ganga í berhögg við kristna siðgæðisvitund.“ Accao Familia sem eru öflugustu samtök lífsverndarsinna í Portúgal segja meðal annars: „Það er gleðiefni og vekur von hversu samstaðan og krafturinn er mikill meðal samtaka sem berjast fyrir „nei“ gegn fósturdeyðingum.“ Samtökin hvetja allt þetta fólk til að „halda baráttunni áfram, nú fremur en nokkru sinni fyrr, til að stöðva þá sem leitast við að þvinga nýju siðgæði upp á þjóðfélagið.“

Allar þær fréttir sem berast frá Portúgal ganga þvert á þá afstöðu sem kom fram í fréttapistli Ingimars Karls Helgasonar fréttamanns á laugardaginn var á Ruv 1. Kaþólska kirkjan stendur eins og órofa veggur með baráttu þeirri sem lífsverndarsinnar heyja nú gegn DAUÐAMENNINGU veraldarhyggjunnar (secularism) í Portúgal.

Í DAUÐAMENINGUNNI hafa tvær andstæðar fylkingar fallist í faðma, eða eigum við að segja að „skrattinn hafi hitt ömmu sínu?“ Hér á ég við vinstrisinnaða róttæklinga og svartasta stórkapítal heimsins, auðhyggju sem hikar ekki við að myrða ófædda smælingja til að auka enn frekar á auðmagn sitt. Fólk getur lesið um þetta „kynlega“ hugmyndafræðilega samrunaferli í ritinu: Glæpurinn gegn mannkyninu – Kynþáttahyggjan og markviss fækkun jarðarbúa eftir Paul Jalsevac.

[TENGILL]

5 athugasemdir

Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Kærar þakkir fyrir þennan kröftuga pistil, nafni. Við höfum áður rætt þetta mál hér á Kirkjunetinu, sjá greinina Nicaragua-þjóð svipt þróunaraðstoð frá Íslandi vegna femínískt-pólitískrar andstöðu ÞSSÍ gegn fósturvernd? Aðra grein, að sumu leyti samhljóða þessari, birti ég á Moggabloggsíðu minni: Má íslenzkur embættismaður misnota aðstöðu til að svipta Nicaragua þróunarhjálp vegna fósturverndar? – og stuttu síðar aðra grein og tengda þessu málefni: Ortega, siðbættur sem lífsverndarsinni, á forsetastól í Nicaragua?

Þakka þér og fyrir orð þín og fróðleik frá umræðunni í Portúgal, sem við höfum rætt hér í greinum (sjá athugasemdalistann í dálkinum hægra megin).

Þakka þér einnig fyrir að enda grein þína á því að gefa upp tengilinn á hina gagnmerku bók Jalsevacs (sem Jón Rafn þýddi sjálfur).

15.02.07 @ 13:57
Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Hér er einungis vikið lauslega að framgöngu þessara falspostula „fagnaðarerindis“ fósturdeyðinganna. Ég hef fengið reglulega fréttir af framferði þeirra hjá spænskum vinum mínum hjá Noticias Globales.

Það sem vekur furðu er að þeir eru ekki einungis falspostular fósturdeyðinga og líknarmorða, heldur einning falspostular EB, það er að segja taka sér umboð án þess að hafa umboð til að starfa með þessum hætti og reyna svo að blekkja aðra þingmenn á Evrópuþinginu með því að skrökva, en undirskriftirnar tala sínu máli.

Allt minnir þetta óhuggulega mikið á aðferðir leyniþjónustumanna í Sovétríkjunum sálugu, enda hlutu margir þessara „sossa“ menntun sína í Moskvu!

En við skulum bíða þeirrar stundar þegar evrópskir kjósendur draga þá til ábyrgðar þegar þeim verður „skollaleikur“ þeirra ljós. Þetta er ekki spurning um meira en áratug eða svo!

Þegar er byrjað að hrikta í stoðunum í Þýskalandi og Frakklandi.

15.02.07 @ 14:41
Athugasemd from: Ragnar Geir Brynjólfsson

Þessar upplýsingar um þrýstinginn á stjórnvöld í Níkaragua minna mig á sögu sem ég las í ævisögu Frank Duff stofnanda Maríulegíónarinnar. Það eru nokkuð mörg ár síðan ég las söguna og ég er ekki með bókina við hendina en hún var nokkurn veginn á þessa leið.

Þegar Frank Duff var ungur maður í Dublin í kringum aldamótin 1900 ráku Bretar þar trúskiptimiðstöð, sem nefnd var ‘prozelytism center’ í bókinni (þetta orð prozelytism hef ég ekki getað þýtt á íslensku.) Sú starfsemi sem fram fór í þessari miðstöð var á þá leið að gestum og gangandi var boðið upp á að skipta um trú, þ.e. afneita kaþólskri trú sinni og þiggja fyrir það vel úti látna máltíð. Þetta var á þeim tíma þegar góðar máltíðir voru ekki jafn algengar og nú er. Frank Duff hafði það fyrir stafni í frítíma sínum að standa vörð fyrir framan miðstöðina og reyna að telja svöngum löndum sínum hughvarf.

Íhlutun í málefni landa og boð um aðstoð með því skilyrði að viðtakandi aðstoðarinnar breyti hegðun sinni eða siðum sverja sig í ætt við trúskiptimiðstöðvar Bretanna frá 19. öld og kannski væri hægt að kalla þetta einhvers konar nútíma nýlendustefnu, þ.e. bjóða mönnum brauð en krefjast sem endurgjalds að þeir lagi sig að siðum gefandans. Frjálslyndi er það að minnsta kosti ekki, miklu fremur stjórnlyndi og forræðishyggja.

15.02.07 @ 19:36
Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Í einni lokaræðu sinni fyrir forsetakosningarnar sagði Daniel Ortega, núverandi forseti Nikaragúa og fyrrum Marxlenínisti og leiðtogi Sandinista, nú trúaður kaþólikki:

„Sextán ár eru nú liðin síðan stríðinu lauk. Ég bið Guð um tækifæri til að stjórna í friði og allir vinni saman að því að draga Nikaragúa upp úr fátækragildrunni.“

Vafalaust hafa þessi og önnur álíka ummæli farið fyrir brjóstið á „lobbýistum“ vinstri sósíalista í Brüssel. Slíkt er ekki gott til afspurnar á þeim bæ. Vafalaust á hinn nýi bandamaður Daniels Ortega (Guð) eftir að reynast honum og Nikaragúa betur en fyrrum „hollivinir“ í rauðri hereild DAUÐAMENNINGARINNAR.

Sannir jafnaðarmenn og mannvinir trúa gjarnan einnig á Guð í ást sinni á blásnauðri alþýðunni (N.B: Afstaða sem hvergi er að finna í kenningum Karls Marx fremur en Leníns sáluga).

15.02.07 @ 21:38
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Marx og Engels innmúruðu guðleysisafstöðu þýzka heimspekingsins Ludwigs Feuerbach í hugmyndakerfi sitt, sem að öðru leyti dró meira dám af hugmyndum Hegels. Lenín bætti svo gráu ofan á svart með frekara efnishyggjugrufli sínu og eftir valdaránið 1917 með útrýmingu stórs hluta kirkjunnar manna í Rússlandi, upptöku eigna hennar og allsherjarharðræði. Merkilegt, að menn eru enn að daðra við þvílíkar hugmyndir, s.s. Maóistar í Nepal – og hvað gæti gerzt í Venezúela?

15.02.07 @ 22:51