« Breskum stúlkum allt niður í tólf ára aldur afhent neyðargetnaðarvarnapillan„Einn af yður mun svíkja mig.“ »

11.04.06

  10:28:21, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 632 orð  
Flokkur: Ritningarlestur dagsins

„Sannlega segi ég yður: Einn af yður mun svíkja mig.“

Guðspjall Jesú Krists þann 12. apríl er úr Matteusarguðspjalli 26. 14-25

Þá fór einn þeirra tólf, Júdas Ískaríot að nafni, til æðstu prestanna og sagði: „Hvað viljið þér gefa mér fyrir að framselja yður Jesú?“ En þeir greiddu honum þrjátíu silfurpeninga. Upp frá þessu leitaði hann færis að framselja hann. Á fyrsta degi ósýrðu brauðanna komu lærisveinarnir til Jesú og sögðu: „Hvar vilt þú, að vér búum þér páskamáltíðina?“ Hann mælti: „Farið til ákveðins manns í borginni, og segið við hann: ,Meistarinn segir: Minn tími er í nánd, hjá þér vil ég halda páska með lærisveinum mínum.“ Lærisveinarnir gjörðu sem Jesús bauð þeim og bjuggu til páskamáltíðar. Um kvöldið sat hann til borðs með þeim tólf. Og er þeir mötuðust, sagði hann: „Sannlega segi ég yður: Einn af yður mun svíkja mig.“ Þeir urðu mjög hryggir og sögðu við hann, einn af öðrum: „Ekki er það ég, herra?“ Hann svaraði þeim: „Sá sem dýfði hendi í fatið með mér, mun svíkja mig. Mannssonurinn fer að sönnu héðan, svo sem um hann er ritað, en vei þeim manni, sem því veldur, að Mannssonurinn verður framseldur. Betra væri þeim manni að hafa aldrei fæðst.“ En Júdas, sem sveik hann, sagði: „Rabbí, ekki er það ég?“ Jesús svaraði: „Þú sagðir það.“

Hugleiðing
Í rúmlega þrjú ár hafði Júdas Drottin fyrir sjónum, hann horfðist í augu við hann, snart klæði hans, hlýddi á rödd hans og gekk við hlið hans í brennheitri sólinni eftir fáförnum stígum jafnt og í ys markaðstorganna. Allt varð þetta til lítils því að hjarta hans var steinhjarta. Það var sem harður tinnusteinn og fégræðgin varð honum að falli. Hann gat ekki afklæðst líkama syndarinnar né deytt hann. Júdas trúði á mátt Jesú, hann var ekki í hópi þeirra sem snéru baki við honum þegar hann boðaði mátt holds síns og blóðs (Jh 6. 56), heldur trúði á hann líkt og djöflarnir: Án elsku (Jk 2. 19).
Harmleikur Júdasar fólst í því að neita að samþykkja Jesú eins og hann var í raun og veru. Er þetta ekki harmleikur fjölmargra nafnkristinna manna enn í dag? Nú leitast jafnvel guðfræðingar undansláttarguðfræðinnar að breyta honum til samræmis við eigin hugsmíðar. En það er ekki Guð sem þarf að breyta, heldur erum það við sjálf sem verðum að gefa honum tækifæri til að breyta okkur. Við verðum að rannsaka okkur sjálf og eigin gjörðir í ljósi sannleika Guðs og biðja hann um að ummynda okkur í krafti náðar sinnar og styrkja okkur í trú, von og kærleika svo að við bregðumst honum ekki eða afneitum honum þegar við stöndum frammi fyrir freistingunum. Fjölmargir nútímamenn bregðast hins vegar þannig við, að þeir róa að því öllum árum að láta freistingarnar líta út sem gæsku í afneitun sinni á Guði.

Hl. Tómas frá Kempis bað svo: „Guð, Faðir okkar. Við erum vanmegna og hyggjum lítt að því að inna dyggðug verk af höndum af eldmóð. Við biðjum þig að styrkja vanmátt okkar svo að við verðum hugrökk í þessari andlegu styrjöld. Veit okkur vernd gagnvart eigin vanrækslu og hugleysi og svikseminni í okkar eigin ótrúföstu hjörtum í nafni Jesú Krists.“

3 athugasemdir

Athugasemd from: Ragnar Geir Brynjólfsson

Ætli Júdas hafi verið svona forhertur í hjarta allan tímann? Getur ekki verið að í sál hans hafi ríkt barátta allt fram á hinstu stund þegar þessir þættir sem þú lýsir svo vel náðu loks yfirhöndinni á ögurstund í síðustu kvöldmáltíðinni? Hugarangist hans þegar hann sér hverjar afleiðingarnar verða benda til þess. Frásögnin af síðustu stundum lífs hans bendir til iðrunar en jafnframt hyldjúprar sjálfsásökunar sem endar með því að hann sviptir sig lífi. Fullkomlega forhertur maður hefði kannski frekar etið, drukkið og eytt silfrinu en ekki kastað því aftur til æðstuprestanna - eða hvað?

11.04.06 @ 21:11
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Fróðlegt er, þegar talað er um þetta skrýtna Júdasarguðspjall, að minnast þess, að skáld okkar og rithöfundar hafa glímt við þessa örlagasögu. Ég man í fljótu bragði ekki eftir neinu sérstöku ljóði, en Norðmaðurinn Arnulf Överland (jafnaðarmaður, en mikill málsvari vestræns samstarfs um varnir Norðurlanda gegn Sovétveldinu eftir síðari heimsstyrjöld) samdi hugvitssamlega smásögu um efnið og lét það allt vera á einberum misskilningi byggt, að hinn ‘velmeinandi’ Júdas varð til þess að svíkja Jesúm í hendur óvina hans; og Kristján Róbertsson skrifaði, minnir mig, líka smásögu um efnið, ekki með ólíkum boðskap. En fyrir utan sérstök verk um Júdas Ískaríot hefur þetta efni vitaskuld verið tekið fyrir í stærri verkum skálda og tónsnillinga um píslarsöguna, sem part af miklu drama þar. Sjálfur Hallgrímur Pétursson gerir Júdas og svik hans skelfileg að miklu lærdóms- og íhugunarefni í Passíusálmum sínum, eins og allir ættu að minnast.

11.04.06 @ 22:46
Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Vakan yfir hjartanu eða árvekni hjartans (nipsis) er ein af grundvallarreglum helgunarguðfræðinnar. Kirkjufeðurnir skilgreindu hana sem andhverfu ölvunarástands. Hún felur í sér óskerta athygli (prosochi) þegar við gefum okkar innri hugsunum og hugmyndum gaum. Það er þetta sem hinir heilögu feður nefndu hjartavökuna (phylaki kardias). Í Ljóðaljóðunum segir brúðurin: „Ég sef, en hjarta mitt vakir“ og því verður Brúðguminn ástfanginn af henni: „Lokaður garður er systir mín, brúður, lokuð lind, innsigluð uppsretta“ (Ll 4. 12).

Júdas hefur augljóslega ekki lagt rækt við hjartavökuna – fremur en svo fjölmargir nútímamenn – og því varð hjarta hans að sorphaugi Satans! Því segir hl. Páll:

„Vakna þú sem sefur,
og rís upp frá dauðum,
og þá mun Kristur lýsa þér (Ef 5. 14).

Því sagði Hesychíos frá Jerúsalem:

„Árveknin er andleg viðleitni sem leysir manninn fullkomlega undan ástríðuþrungnum hugsunum, orðum og athöfnum með langvinnri og trúfastri iðkun og Guðs hjálp. Eftir því sem árveknin glæðist, veitir hún ákveðna þekkingu á óræði Guðdómsins, að svo miklu leyti sem slíkt er unnt og varpar ljósi á guðdómlega og hulda leyndardóma. Hún er að verki í sérhverju boðorða Gamla og Nýja testamentisins og uppspretta sérhverrar blessunar hins komanda lífs. Í eðli sínu er hún hreinleiki hjartans sem vegna hátignar sinnar og göfgi, eða svo að þetta sé orðað með greinarbetri hætti, sem vegna einbeitingarskorts okkar og vanrækslu, er afar fágæt meðal munka á okkar tímum. Það eru þessir sem Kristur sagði vera sæla þegar hann sagði: „Sælir eru hjartahreinir, því að þeir munu Guð sjá“ (Mt 5. 8).“

Sjá Vefrit Karmels: Um hina óaflátanlegu bæn hjartans. Þó að Júdas hefði Drottin fyrir augunum í rúm þrjú ár gat hann ekki komið auga á hreinleika Guðdóms hans vegna þess að hann var ekki hjartahreinn. Sama má segja um alla þá fjölmörgu nútímamenn sem geta ekki komið auga á endurspeglun Guðdóms Drottins í ófæddum börnum. Þeir standa þannig í sporum Júdasar: „Hvað sem þér gerið einum þessara minna minnstu bræðra, gerið þér mér.“

12.04.06 @ 05:31